Markmið: Að sýna áætlanir um tekjur og gjöld ríkissjóðs fyrir hvert það ár sem í hönd fer og leita heimilda til hvers konar fjárráðstafana, svo sem lántöku og ríkisábyrgða og heimilda til að kaupa og selja fasteignir.
Helstu breytingar og nýjungar:
Frumvarpið felur í sér ráðstafanir sem eiga að hægja á vexti ríkisútgjalda um 17 milljarða kr. og þar af er gert ráð fyrir að launakostnaður ríkisins lækki um fimm milljarða kr., þó ekki innan framlínustarfsemi, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntamála. Jafnframt verður stefnt að því að draga úr ferðakostnaði ríkisstarfsmanna. Auk almenns aðhalds innan ráðuneyta á að hagræða um fjóra milljarða kr. með hagkvæmari opinberum innkaupum. Gert er ráð fyrir að innleitt verði nýtt kerfi gjaldtöku af ökutækjum þar sem greiðslur eru í auknum mæli tengdar notkun. Tekinn verður á ný upp gistináttaskattur sem mun einnig leggjast á skemmtiferðaskip. Krónutölugjöld verða ekki látin fylgja verðlagi heldur hækkuð um 3,5% sem er ígildi þriggja milljarða kr. skattalækkunar. Gert er ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála aukist um rúmlega 14 milljarða kr. að raungildi milli ára. Auk byggingar Landspítalans eru lagðir fjármunir í rekstur nýrra hjúkrunarrýma og framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga verða aukin og þá verður fjármögnun nýgerðra samninga við sérgreinalækna tryggð. Gert er ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega fimm þúsund kr. á mánuði og að skattleysismörk hækki um rúmlega 16 þúsund kr.
Breytingar á lögum og tengd mál: Gera þarf breytingar á ýmsum lögum vegna tekjuhliðar og gjaldahliðar frumvarpsins.
Kostnaður og tekjur: Áætlað er að heildartekjur fyrir árið 2024 verði 1.349 milljarðar kr. og heildarútgjöld eru áætluð 1.395 milljarðar kr.
Aðrar upplýsingar:
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Fjársýsla ríkisins
Ríkisreikningur. Upplýsingavefur sem birtir fróðleik um rekstur og mannauð ríkisins.
Opinber fjármál. Ársreikningar ríkisaðila frá árinu 2018 til dagsins í dag.
Hagstofan
Efnahagur. Hér er hægt að sækja sögulegar, tölulegar upplýsingar um: fjármál hins opinbera, þjóðhagsreikninga, þjóðhagsspá, utanríkisverslun, vinnumagn og framleiðni auk verðlags.
Seðlabanki Íslands
Hagtölur. Seðlabankinn annast skipulega öflun, skráningu og úrvinnslu tölfræðilegra gagna.
Afgreiðsla: Frumvarpið varð að lögum með þeim breytingum að heildartekjur fyrir árið 2024 eru áætlaðar 1.356,5 milljarðar kr. en gjöld um 1.407,7 milljarðar kr.
Fjölmiðlaumfjöllun:
Fréttavefir um fjárlagafrumvarpið
Efnisflokkar:
Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins