Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 13 | Þingskjöl: 10 | Staða: Lokið
Markmið:
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að tímabil laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, verði framlengt þannig að lögin taki til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem og þeirra atvinnurekenda sem greiða laun til launamanna, sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021. Lagt er til að réttur þeirra sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins falli ekki niður fyrr en að tólf mánuðum liðnum í stað sex mánaða frá þeim degi er viðkomandi varð vinnufær á ný eftir að hafa orðið óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss. Einnig er lagt til að þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur verði heimilað að stunda nám á háskólastigi, sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn, og að jafnframt verði heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi, sem nemur að hámarki 12 einingum. Jafnframt er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, og fellur undir Nám er tækifæri. Gildistími slíks samnings getur að hámarki verið ein námsönn fyrir hvern atvinnuleitanda og á einungis við um nám, sem stundað er á vorönn árið 2021, haustönn árið 2021 eða vorönn árið 2022. Þá er lagt til að tímabil hinnar svokölluðu hlutabótaleiðar, þ.e. heimildar til greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem og heimildar til greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna verulegs samdráttar í rekstri, verði framlengt frá 1. september 2020 til og með 31. október 2020. Enn fremur er lagt til að hámarkstímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt úr þremur mánuðum í sex.
Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020.
Kostnaður og tekjur: Áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs vegna þeirra breytinga sem frumvarpið gerir ráð fyrir er rúmlega 5,4 milljarðar kr. Aukinn kostnaður vegna framlengingar á greiðslum vegna launa í sóttkví og framlengingar á hlutabótaleiðinni, eða rúmlega 2 milljarðar kr., rúmast innan þegar samþykktrar fjárveitingar í fjáraukalögum fyrir árið 2020. Kostnaður vegna tímabundinnar lengingar tekjutengdra atvinnuleysisbóta er áætlaður 3,2 milljarðar kr. og er breytingin hvorki fjármögnuð í fjárlögum ársins 2020 né í fjármálaáætlun fyrir árið 2021. Miðað við forsendur Vinnumálastofnunar munu 1,7 milljarðar kr. falla á árið 2020 og 1,5 milljarðar kr. falla á árið 2021.
Aðrar upplýsingar:
Afgreiðsla:
Efnisflokkar: Samfélagsmál: Atvinnumál | Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Heilsa og heilbrigði: Heilbrigðismál | Mennta- og menningarmál: Menntamál