Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.

775 | Fjarskipti

150. þing | 7.5.2020 | Lagafrumvarp | Stjórnarmál

Umsagnir: 13 | Þingskjöl: 1 | Nefnd: US | Staða: Umsagnarfrestur liðinn (5.6.2020)

Samantekt

Markmið:

Að tryggja aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Að auka vernd og valmöguleika neytenda og stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði. Að stuðla að því, eftir því sem unnt er, að öllum landsmönnum og fyrirtækjum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu og háhraðanetum, þ.m.t. föstum netum, farnetum og þráðlausum netum.

Helstu breytingar og nýjungar:

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun gildandi regluverks á sviði fjarskipta með innleiðingu nýrra EES-gerða í landsrétt, þ.e. Fjarskiptatilskipunarinnar og BEREC-reglugerðinnar. Fjarskiptatilskipunin (Kóðinn), sem er ný grunngerð, leysir af hólmi fjórar eldri Evróputilskipanir sem gildandi íslensk fjarskiptalög byggja einkum á. BEREC-reglugerðin snýst um evrópskan hóp eftirlitsaðila á sviði fjarskipta og skrifstofu honum til stuðnings. Hópurinn er ráðgefandi og stefnumótandi samstarfsvettvangur sem ætlað er að stuðla að samræmdri innleiðingu og framkvæmd samevrópsks regluverks á fjarskiptamarkaði, s.s. með útgáfu leiðbeininga og með ráðgjöf. Nýmæli er að hvatt er til samstarfs markaðsaðila og til sameiginlegra fjárfestinga við uppbyggingu innviða. Þeim sem byggja upp innviði er heitið tilteknum ívilnunum. Fyrirtækjum sem eingöngu selja aðgang að innviðum í heildsölu og starfa ekki á smásölustigi má segja að sé ívilnað á þann hátt að á slík fyrirtæki er ekki unnt að leggja eins íþyngjandi kvaðir og á lóðrétt samþætt fjarskiptafyrirtæki. Efnisákvæði er varða álagningu kvaða eru meiri að umfangi en í gildandi fjarskiptalögum en mörg þeirra fela þó í sér einföldun og er ætlað að draga úr fjölda álagðra kvaða og flækjustigi við málsmeðferð. Ný kvöð bætist við sem felst í því að Póst- og fjarskiptastofnun getur, ef aðrar kvaðir hafa ekki reynst fullnægjandi, kveðið á um aðskilnað rekstrareininga lóðrétt starfandi fyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk. Þá skal fjarskiptafyrirtækjum með umtalsverðan markaðsstyrk gefast kostur á að leggja fram tilboð um skuldbindingar varðandi sameiginlegar fjárfestingar, aðskilnað starfsemi og almennar kvaðir og geta slík tilboð leitt til þess að kvöðum verði létt af fyrirtækjunum að einhverju leyti.
Kóðinn gerir ráð fyrir að heildsöluverð fyrir lúkningu símtala og SMS verði ákveðin fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið (EES) og því verður óþarft fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að framkvæma greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu og taka ákvörðun um verð. BEREC-reglugerðin kveður á um hámarkssmásöluverð á millilandasímtölum og SMS innan EES sem er viðbót við gildandi ákvæði um hámarksverð fyrir reiki á EES. Gert er ráð fyrir fyrirsjáanleika til 20 ára varðandi gildistíma tíðniréttinda eða að lágmarki til 15 ára. Þá er lagt til að opnað verði á framsal og leigu tíðniheimilda milli markaðsaðila. Aukin áhersla verður lögð á aðgengi neytenda að upplýsingum og samanburð á verði og gæðum fjarskiptaþjónustu svo og stöðlun viðskiptaskilmála. Lagt er til að hámarksbinditími samninga um fjarskiptaþjónustu við neytendur verði lengdur úr sex mánuðum í 12 mánuði og að réttarvernd neytenda verði m.a. aukin með lögfestingu sérákvæðis um pakkatilboð. Að auki er gert ráð fyrir að þjónustutegundum innan alþjónustu fækki frá því sem gildandi lög gera ráð fyrir og að neytendum skuli á viðráðanlegu verði tryggður aðgangur að gagnaflutningsþjónustu, sem tryggir nothæfa netþjónustu og símaþjónustu með tilgreindum gæðum. Þá er eitt af markmiðum frumvarpsins að stuðla að hagkvæmri uppbyggingu 5G-kerfa í Evrópu.

Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um fjarskipti, nr. 81/2003. Jafnframt verða breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Kostnaður og tekjur:

Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs fyrir árin 2021–2025 verði um 738 milljónir kr. Á móti er gert ráð fyrir tekjum að fjárhæð rúmlega 600 milljónum kr. vegna árgjalda af tíðnum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að ófjármagnaður viðbótarkostnaður vegna aukins umfangs hjá Póst- og fjarskiptastofnun verði tekinn til skoðunar við endurskoðun fjármálaáætlunar.

Aðrar upplýsingar: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti („Fjarskiptatilskipunin“ eða „Kóðinn“).


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) og stofnun til að styðja við BEREC-hópinn (BEREC-skrifstofu), um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/2120 og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 1211/2009.

Afgreiðsla: Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd að lokinni 1. umræðu.

Efnisflokkar: Erlend samskipti: Alþjóðasamningar og utanríkismál  |  Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins  |  Samgöngumál: Fjarskipti og póstmál  |  Lög og réttur: Löggæsla og eftirlit  |  Lög og réttur: Persónuleg réttindi  |  Atvinnuvegir: Tölvu- og upplýsingamál  |  Atvinnuvegir: Viðskipti

Þingskjöl

Þingskjal 1354 | 7.5.2020

Umsagnir

Sýn hf. (umsögn)