Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.

717 | Útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga (alþjóðleg vernd, brottvísunartilskipunin, dvalar- og atvinnuleyfi)

150. þing | 11.4.2020 | Lagafrumvarp | Stjórnarmál

Umsagnir: 23 | Þingskjöl: 1 | Nefnd: AM | Staða: Umsagnarfrestur liðinn (29.5.2020)

Samantekt

Markmið: Að stuðla að gagnsærri og stöðugri framkvæmd laganna. Að auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma til hagsbóta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi og bæta þar með meðferð opinbers fjár.

Helstu breytingar og nýjungar:

Á meðal þeirra álitaefna sem frumvarpinu er ætlað að taka á eru atriði er snerta forgangsmeðferð bersýnilega tilhæfulausra umsókna, málsmeðferðartími umsókna barna um alþjóðlega vernd, hvenær taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, hlutverk Barnaverndarstofu við veitingu alþjóðlegrar verndar í málefnum fylgdarlausra barna sem sækja um slíka vernd hér á landi, orðalag útilokunarástæðna við ákvörðun um ríkisfangsleysi, réttindi og skyldur flóttafólks sem kemur til landsins í boði íslenskra stjórnvalda, fjölskyldusameiningu flóttafólks og afturköllun verndar sem veitt er á grundvelli slíkrar sameiningar og hvenær veita beri þjónustu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á skv. 33. gr. laganna og hvenær sé eðlilegt að hún falli niður. Lagt er til að stoð Dyflinnarreglugerðarinnar sé styrkt og málsmeðferð umsókna einfölduð þegar umsækjandi hefur þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki svo auka megi skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma. Jafnframt eru breytingar lagðar til á nánar tilgreindum ákvæðum laganna varðandi útgáfu dvalarleyfa. Er m.a. lagt til að doktorsnemar megi vera staddir hér á landi þegar þeir sækja um dvalarleyfi í fyrsta skipti, að heimilt verði að endurnýja dvalarleyfi vegna vistráðningar og að heimilt verði að veita útlendingi sem misst hefur starf sitt sem krefst sérfræðiþekkingar dvalarleyfi til þriggja mánaða til þess að hann geti leitað sér annars starfs á grundvelli sérþekkingar sinnar. Loks eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa vegna sérstakra ástæðna. Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að veita útlendingi tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi í undantekningartilvikum, hafi honum áður m.a. verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið. Í frumvarpinu er lagt til að útlendingar sem fengið hafa slík dvalarleyfi verði undanþegnir frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi.

Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um útlendinga, nr. 80/2016.

Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.

Kostnaður og tekjur: Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér útgjaldabreytingar fyrir ríkissjóð sem nokkru nemur en gefi færi á aukinni skilvirkni í málsmeðferð útlendingamála.

Aðrar upplýsingar:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 frá 26. júní 2013 um að koma á viðmiðunum og fyrirkomulagi við að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkjanna (Dyflinnarreglugerðin).

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 115/2008 frá 16. desember 2008 um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Útlendingastofnun: Málsmeðferð og verklagsreglur. Ríkisendurskoðun, nóvember 2018.

Afgreiðsla: Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd að lokinni 1. umræðu.

Efnisflokkar: Samfélagsmál: Atvinnumál  |  Lög og réttur: Löggæsla og eftirlit

Þingskjöl

Þingskjal 1228 | 11.4.2020

Umsagnir