Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 15 | Þingskjöl: 6 | Staða: Lokið
Markmið: Að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt, enda þótt það kunni að vera nauðsynlegt að minnka starfshlutfall þeirra að einhverju leyti vegna þess óvissuástands á vinnumarkaði sem stafar af útbreiðslu COVID-19 heimsfaraldursins. Að draga úr þeim áhrifum sem samkomulag um minnkað starfshlutfall vegna tímabundins samdráttar í rekstri vinnuveitenda kann að hafa á réttindi launamanna innan velferðarkerfisins sem byggist á atvinnuþátttöku fólks.
Helstu breytingar og nýjungar: Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður heimilt á tímabilinu 15. mars til 1. júlí 2020 að greiða atvinnuleysisbætur til launafólks, sem hefur orðið fyrir skerðingu á starfshlutfalli á bilinu 20% til 50%. Samanlögð heildarfjárhæð atvinnuleysisbóta og launa frá atvinnurekanda getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en 80% af meðalfjárhæð heildarlauna starfsmanns á undangengnum þremur mánuðum og að hámarki kr. 650.000 mánaðarlega. Lagðar eru til breytingar á tilkynningu sjálfstætt starfandi einstaklinga um stöðvun rekstrar þannig að nægilegt verði að tilkynning um rekstrarstöðvun vegna verulegs samdráttar berist Skattinum. Lagt er til að þegar starfshlutfall launamanns hefur verið minnkað vegna samdráttar í rekstri vinnuveitanda á síðustu tólf mánuðum áður en héraðsdómara berst krafa um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda verði við framkvæmd a- og b-liðar 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, með síðari breytingum, tekið mið af tekjum launamannsins er hann hafði áður en kom til lækkunar á starfshlutfalli.
Breytingar á lögum og tengd mál:
Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.
Lög um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003.
Kostnaður og tekjur: Talið er að heildarútgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs geti numið um 755 milljónum kr. á tímabilinu vegna ráðstafananna sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þar að auki er gert ráð fyrir að kostnaður vegna umsýslu Vinnumálastofnunar, svo sem vegna þróunar hugbúnaðar, geti numið um 3 milljónum kr.
Aðrar upplýsingar: Vinnumálastofnun.
Afgreiðsla: Samþykkt með allnokkrum breytingum. Í stað 80% þaksins verður miðað við að samanlagðar greiðslur til launamanns, sem nýtir úrræðið, geti numið 90% af meðaltali heildarlauna hans síðustu þrjá mánuði áður en starfshlutfall var minnkað. Þá var hámarksgreiðsla á mánuði hækkuð úr 650.000 kr. í 700.000 kr. Greiðslur til launamanns allt að fjárhæð 400.000 kr. á mánuði munu ekki skerðast, né heldur munu greiðslur sæta skerðingu niður fyrir þá fjárhæð. Lágmarksstarfshlutfall launamanns til þess að geta nýtt sér úrræðið var lækkað úr 50% í 25%. Skýrar var kveðið á um að úrræðið taki til námsmanna og annarra sem ekki njóta tryggingar. Gildistími ákvæða frumvarpsins var styttur þannig að þau gildi til 1. júní 2020 í stað 1. júlí 2020 í ljósi þeirrar miklu óvissu sem uppi er í samfélaginu og þess hversu ört aðstæður breytast.
Efnisflokkar: Samfélagsmál: Atvinnumál | Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins