Markmið: Að stuðla að skýrari og einfaldari skattframkvæmd hvað varðar innheimtu stimpilgjalda.
Helstu breytingar og nýjungar:
Lagðar eru til breytingar á gjaldstofni stimpilgjalds við álagningu í kjölfar íbúðarkaupa. Gert er ráð fyrir að kveðið verði skýrar á um það þegar gjaldstofn til stimpilgjalds af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna, þar sem skráð fasteignamatsverð endurspeglar ekki byggingarstig eignar eins og það verður við afhendingu, skuli miða gjaldstofninn við áætlað matsverð sem tekur mið af byggingarstigi viðkomandi eignar við afhendingu. Lagt er til að kveðið verði með skýrari hætti á um það að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi vegna kaupa á fyrstu íbúð er að kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði, hvort sem er með kaupum, arftöku, gjafagerningi eða eignaryfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti. Í þessu tilliti skiptir það jafnframt ekki máli hvort kaupandinn hafi hagnýtt sér íbúðarhúsnæðið, sem hann hefur áður verið þinglýstur eigandi að, í eigin þágu eða á nokkurn annan hátt. Enn fremur er lagt til að fellt verði brott ákvæði varðandi skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi vegna kaupa á fyrstu íbúð um að kaupandinn þurfi að verða þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi þeirrar eignar sem keypt er.
Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um stimpilgjald, nr. 138/2013.
Kostnaður og tekjur: Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á afkomu ríkissjóðs.
Aðrar upplýsingar: Úrskurður yfirskattanefndar frá 12. júní 2019, nr. 103/2019.
Afgreiðsla: Samþykkt með breytingum sem voru tæknilegs eðlis.
Efnisflokkar:
Samfélagsmál: Félagsmál
|
Hagstjórn: Skattar og tollar