Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 39 | Þingskjöl: 14 | Staða: Lokið
Markmið:
Helstu breytingar og nýjungar: Helsta nýmæli frumvarpsins er innleiðing námsstyrkjakerfis samhliða námslánakerfi. Lagt er til að lánþegar, sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma, geti fengið námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns þeirra ásamt verðbótum og kæmi endurgreiðslan til úthlutunar að loknu námi. Einnig er lagt til að námsstyrkur verði veittur vegna framfærslu barna lánþega. Annað nýmæli er að lánþegar geti við námslok valið hvort þeir endurgreiði námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi, og að lánþegar geti valið að endurgreiða námslán með tekjutengdum afborgunum séu námslok þeirra áður eða á því ári sem þeir ná 35 ára aldri. Gert er ráð fyrir að námslán skulu að fullu vera endurgreidd á því ári þegar lánþegi nær 65 ára aldri. Lagt er til að heimild til að veita námslán vegna skólagjalda verði lögfest. Enn fremur er lagt til að heimild til námslána vegna starfsnáms og viðbótarnáms við framhaldsskóla verði betur afmörkuð. Gert er ráð fyrir að ráðherra fái heimild til að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina, og að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána hjá lánþegum búsettum og starfandi á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun. Þá er gert ráð fyrir að ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum, teknum í tíð eldri laga, falli niður enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög og við gildistöku laganna falla brott lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992.
Kostnaður og tekjur: Áætluð fjárframlög ríkisins á næstu árum (í milljónum kr.):
Aðrar upplýsingar: Löggjöf á Norðurlöndum
Afgreiðsla: Samþykkt með allnokkrum breytingum. M.a. var sett 4% vaxtaþak á verðtryggð lán og 9% vaxtaþak á óverðtryggð lán. Niðurfelling ábyrgðar á námsláni var ekki bundið því skilyrði að lánþegi væri ekki á vanskilaskrá. Sjóðstjórn Menntasjóðsins verður heimilt, þegar lánþegi hefur náð 66 ára aldri og hefur ekki greitt námslán sín að fullu, að gera tímabundna samninga um greiðslu eftirstöðva lánsins við lánþega sé það honum erfitt sökum félagslegra erfiðleika hans, s.s. af heilsufarsástæðum, sökum fjárhagsörðugleika eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Ef um áframhaldandi erfiðleika er að ræða hjá lánþega getur sjóðstjórnin afskrifað höfuðstól lánþega að hluta eða öllu leyti. Í samræmi við tillögur starfshóps, sem ríkisstjórnin skipaði árið 2019 um endurskoðun á reglum vegna endurgreiðslna námslána, sem tekin voru í tíð eldri laga, var samþykkt að lækka tekjutengdar afborganir lána og að veita afslátt vegna inngreiðslu á námslán eða uppgreiðslu þeirra.
Efnisflokkar: Samfélagsmál: Félagsmál | Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Mennta- og menningarmál: Menntamál | Atvinnuvegir: Viðskipti