Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 10 | Þingskjöl: 1 | Nefnd: EV | Staða: Umsagnarfrestur liðinn (15.11.2019)
Markmið: Að treysta fjárhagslegan styrk ríkissjóðs til að mæta afleiðingum af meiri háttar ófyrirséðum áföllum sem þjóðarbúið verður fyrir.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að komið verði á fót svokölluðum Þjóðarsjóði sem gert er ráð fyrir að yrði eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag, annaðhvort vegna afkomubrests eða vegna kostnaðar við viðbragðsráðstafanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til í kjölfar áfalls eða til að varna því. Þjóðarsjóðurinn yrði eign íslenska ríkisins og lagt er til að sérstök stjórn verði sett yfir hann og fari með yfirstjórn hans. Gert er ráð fyrir að auknar tekjur ríkissjóðs á komandi árum af arðgreiðslum og auðlindaafnotagjöldum frá orkuvinnslufyrirtækjum verði nýttar til að fjármagna framlög í sjóðinn og að hann fjárfesti þá fjármuni eingöngu í erlendum verðbréfum samkvæmt fjárfestingarstefnu sem stjórn sjóðsins setur með samþykki ráðherra. Að auki er gert ráð fyrir að allar tekjur og hagnaður af fjármunaeign sjóðsins renni til hans. Ef til ófyrirséðs áfalls kemur, og að uppfylltum tilteknum skilyrðum og mati nefndar á fjárhagsáhrifum áfallsins, er lagt til að ráðherra geti gert tillögu um að Alþingi samþykki þingsályktun um að stjórn Þjóðarsjóðs úthluti til ríkissjóðs framlagi sem nemi allt að helmingi eigna sjóðsins vegna eins atburðar en veiti síðan lagaheimild í næstu fjárlögum. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulagið á ráðstöfun úr Þjóðarsjóði feli í sér það skilyrði að fjárhagstjón ríkissjóðs nemi a.m.k. 5% af meðaltekjum síðustu þriggja rekstrarára.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.
Kostnaður og tekjur:
Aðrar upplýsingar: Þjóðarauðssjóðir í öðrum löndum
Afgreiðsla: Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd að lokinni 1. umræðu.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Efnahagsmál | Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins