Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 242 — 97. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (námsmat).
Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og tekið til skoðunar þær umsagnir og sjónarmið sem hafa komið fram. Minni hlutinn telur mikilvægt að vandað sé til verka við alla lagasetningu sem snýr að námsmati í grunnskólum og telur að gera verði nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu áður en það verður samþykkt á Alþingi.
Minni hlutinn gagnrýnir að ekki hafi verið tekið tillit til mikilvægra ábendinga umsagnaraðila sem komu fyrir nefndina. Þar kom skýrt fram að verulegar efasemdir væru uppi gagnvart skyldubundnu samræmdu námsmati sem væri í raun ekki samræmt þar sem það er ekki tekið á sama tíma. Skólar munu hafa fjögurra vikna frest til að leggja fram samræmt skyldumat og gefur það augaleið að niðurstöður þess geta borist milli nemenda og skóla sem skapar verulegan freistnivanda. Þannig munu kennarar vita nákvæmlega hvaða spurningar verða lagðar fyrir og því er hætta á að kennslu verði stýrt í átt að prófspurningum sem dregur úr trúverðugleika matsins og á samanburði milli skóla og sveitarfélaga. Skyldubundið samræmt námsmat verður lagt fyrir af starfsmönnum skóla og enginn ytri eftirlitsaðili til að fylgjast með. Það rýrir trúverðugleika námsmatsins.
Í frumvarpinu er ekkert rætt um samræmt lokamat sem leiðir til þess að jafnræði nemenda við lok grunnskóla er ekki tryggt. Þá kemur fram að aðeins valin hæfniviðmið aðalnámskrár grunnskóla verði notuð í samræmdu skyldumati sem skekkir námsmat, þrengir aðalnámskrá og leiðir til þess að mikilvæg hæfniviðmið aðalnámskrár verði ekki metin með samræmdum hætti. Með því að nota aðeins valin hæfniviðmið aðalnámskrár er einnig unnið gegn því meginmarkmiði aðalnámskrár að tryggja samræmi og samhæfingu skólastarfs.
Minni hlutinn vekur athygli á úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál (nr. 730/2018) þar sem kom fram að Menntamálastofnun hefði orðið að veita foreldrum aðgang að samræmdum könnunarprófum. Þar sem fyrirhugað samræmt skyldumat er byggt á sambærilegu fyrirkomulagi og samræmd könnunarpróf félli það einnig undir ákvæði upplýsingalaga. Minni hlutinn telur því að prófspurningabankinn muni fljótlega verða opinber sem gerir prófakerfið ónýtt til frekari fyrirlagningar prófa.
Minni hlutinn gagnrýnir að meiri hluti nefndarinnar hafi hunsað þessar augljósu staðreyndir þrátt fyrir að hafa verið upplýstur um þær. Það er vont að jafnaugljósir ágallar séu hunsaðir og getur það haft veruleg neikvæð áhrif á nám nemenda í grunnskólum til framtíðar.
Minni hlutinn telur að sá hluti matsferilsins sem snýr að öðru en skyldubundnu samræmdu námsmati sé viðunandi. Hann getur verið gagnlegt matstæki til að draga upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda jafnt og þétt á skólagöngunni og til að koma auga á börn sem kunna að þurfa stuðning vegna framvindu í námi og þroska. Innan matsferilsins rúmast fjölbreytt matstæki sem er ætlað að styðja við fjölbreyttar útfærslur á tilhögun náms og möguleika kennara til að bjóða upp á einstaklingsmiðað nám.
Breytingartillögur.
Samræmd könnunarpróf.
Minni hlutinn leggur til að samræmd könnunarpróf verði haldin í 4., 7. og 9. bekk á grundvelli núgildandi laga um grunnskóla, nr. 91/2008. Minni hlutinn telur að tilgangur samræmdra könnunarprófa skuli vera þessi:
1. Að vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur.
2. Að veita nemendum, forsjáraðilum og skólum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda.
3. Að veita upplýsingar um hvernig skólar standa í þeim námsgreinum sem prófað er úr miðað við aðra skóla landsins.
Minni hlutinn leggur til að samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk verði lögð fram samtímis haustið 2025 en samræmd könnunarpróf í 9. bekk vorið 2026 og öll prófin árlega eftir það.
Samræmd lokapróf.
Þá leggur minni hlutinn til að samræmd lokapróf í ensku, íslensku, náttúrufræði og stærðfræði verði haldin að vori í 10. bekk við lok grunnskólagöngu ungmenna. Tilgangur samræmdra lokaprófa skuli vera þessi:
1. Að veita nemendum, foreldrum, skólum og sveitarfélögum upplýsingar um hvernig nemendum hafi tekist að tileinka sér hæfniviðmið aðalnámskrár eftir tíu ára skyldunám.
2. Að tryggja jafnræði nemenda við lok grunnskóla. Til að jafnræðis sé gætt við lok tíu ára skyldunáms skuli nemendur geta sent réttmætar og áreiðanlegar niðurstöður samræmdra lokaprófa til þeirra framhaldsskóla þar sem þeir hyggjast sækja um skólavist.
3. Að gera nemendum og foreldrum kleift að nýta sér réttmætar og áreiðanlegar upplýsingar þegar kemur að vali um áframhaldandi nám.
Gæta þarf sérstaklega að því að sem allra flest viðmið gildandi aðalnámskrár séu prófuð í hvert sinn. Þá geti ráðherra ákveðið að leggja fyrir próf í fleiri námsgreinum.
Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
1. Við 3. gr.
a. A-liður falli brott.
b. Efnismálsgrein b-liðar orðist svo:
Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði skulu lögð fyrir alla nemendur í 4., 7. og 9. bekk grunnskóla. Jafnframt er heimilt samkvæmt ákvörðun ráðherra að leggja samræmd könnunarpróf fyrir nemendur í fleiri námsgreinum.
c. C-liður orðist svo: 3. mgr. orðast svo:
Skólastjóra er heimilt ef gildar ástæður mæla með því og samþykki foreldra liggur fyrir að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmd könnunar- og lokapróf í einstökum greinum. Skólastjóri skal skrá ástæður þess að veitt er undanþága frá samræmdu könnunar- og lokaprófi.
d. Í stað orðanna „skyldubundið samræmt námsmat“ í d-lið komi: skyldubundin samræmd könnunar- og lokapróf.
e. E- og f-liður falli brott.
f. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir 2. mgr. 39. gr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Samræmd lokapróf skulu lögð fyrir alla nemendur í 10. bekk grunnskóla í íslensku, stærðfræði, náttúrufræði og ensku. Jafnframt er heimilt samkvæmt ákvörðun ráðherra að leggja samræmd lokapróf fyrir nemendur í fleiri námsgreinum.
2. 4. og 5. gr. falli brott.
3. 6. gr. orðist svo:
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Þrátt fyrir 39. gr. er ekki skylt að leggja samræmd könnunar- og lokapróf fyrir nemendur í 4. og 7. bekk grunnskóla til og með 31. ágúst 2025 og á unglingastigi til og með 31. desember 2025.
Alþingi, 24. mars 2025.
Jón Pétur Zimsen, frsm. |
Guðrún Hafsteinsdóttir. | Snorri Másson. |