Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 139  —  95. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um sóknargjöld.


     1.      Hvernig hefur framfylgd laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, verið háttað frá setningu laganna?
    Í 2. gr. laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, er kveðið á um hvernig sóknargjöld skulu reiknuð ár hvert. Þrátt fyrir þá reiknireglu hefur niðurskurður sóknargjalda verið viðvarandi í þónokkurn tíma. Alls hefur 16 sinnum komið inn bráðabirgðaákvæði í lög um sóknargjöld sem kveður á um lægri sóknargjöld en reiknireglan í 2. gr. laganna gerir ráð fyrir.

     2.      Hver hafa sóknargjöld verið frá setningu laganna þar til nú, sundurliðað eftir árum?
    Í eftirfarandi töflu er miðað við fjárhæð sóknargjalda á einstakling á ári:
Ár 1988 1989 1990 1991 1992 1993
Sóknargjöld 2.510 3.136 3.314 3.871 4.254 4.305
Ár 1994 1995 1996 1997 1998 1999
Sóknargjöld 4.311 4.382 4.518 4.803 5.109 5.751
Ár 2000 2001 2002 2003 2004 2005
Sóknargjöld 6.246 6.793 6.792 7.164 7.415 7.956
Ár 2006 2007 2008 2009 2010 2011
Sóknargjöld 8.640 9.492 10.464 9.996 9.204 8.376
Ár 2012 2013 2014 2015 2016 2017
Sóknargjöld 8.412 8.736 9.000 9.720 10.776 11.040
Ár 2018 2019 2020 2021 2022 2023
Sóknargjöld 11.172 11.100 11.700 12.960 13.284 14.304
Ár 2024 2025
Sóknargjöld 13.284 14.652

     3.      Hver hefðu sóknargjöld átt að vera ef þau hefðu verið reiknuð á grundvelli 2. gr. laganna frá gildistöku þeirra, sundurliðað eftir árum?
    Útreikningur sóknargjalda byggist á eftirfarandi forsendum: Fjölda einstaklinga samkvæmt skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög í lok undangengins árs auk þess sem fjárhæð gjaldsins tekur breytingum sem nemur hækkun á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára. Sóknargjöld falla undir málefnasvið 10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála, og málaflokk 10.20 Trúmál. Gerð er grein fyrir heildarfjárhæð sóknargjalda undir fyrrgreindum málaflokki sem tilheyrir gjaldahlið ríkissjóðs. Allar upplýsingar um forsendur gjaldsins og útreikning þess byggjast þó á upplýsingum á tekjuhlið ríkissjóðs og eru þær upplýsingar alfarið á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem reiknar út og ákvarðar árlega fjárhæð sóknargjalda, sem birtast í fjárlögum málaflokks 10.20 ár hvert. Að því sögðu vísar dómsmálaráðuneytið á fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna svara við þessum lið fyrirspurnarinnar.

     4.      Hyggst ráðherra endurskoða lög um sóknargjöld? Ef svo er, á hvaða forsendum mun slík endurskoðun fara fram?
    Hinn 17. september 2024 skipaði þáverandi dómsmálaráðherra starfshóp sem hefur það hlutverk að endurskoða fyrirkomulag sóknargjalda. Meðal þess sem starfshópnum var falið var að gera tillögur að breytingum á lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl. Sú vinna stendur enn yfir en von er á tillögum starfshópsins til dómsmálaráðuneytisins. Þegar þeirri vinnu er lokið verður metið hver næstu skref verða í þeim efnum.