Ferill 91. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 168 — 91. mál.
Síðari umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Indlands.
Frá utanríkismálanefnd.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá utanríkisráðuneyti.
Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Indlands sem undirritaður var 10. mars 2024 í Nýju-Delí á Indlandi.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að samningurinn, sem formlega nefnist samningur um viðskipti og efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Indlands, kveður á um gagnkvæma niðurfellingu, lækkun og bindingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar og óunnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á hvers kyns sjávarafurðir og iðnaðarvörur, sem fluttar eru út frá Íslandi til Indlands, falla niður eða lækka umtalsvert, ýmist frá gildistöku samningsins eða í reglulegum skrefum yfir aðlögunartíma. Það sama á við um tilteknar landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi og eru fluttar út.
Þá kemur fram í greinargerð að útflutningur á vörum frá Íslandi til Indlands hefur verið lítill en merkja má aukningu undanfarin ár sem samanstendur að megninu til af kísiljárni og lýsi. Innflutningur frá Indlandi hefur á hinn bóginn verið meiri. Með gagnkvæmri niðurfellingu og lækkun tolla skapar samningurinn forsendur fyrir auknum viðskiptum milli ríkjanna.
Nefndin fagnar gerð samningsins sem markar tímamót sem fyrsti fríverslunarsamningur sem Indland gerir við Vesturlönd. Í ljósi þess að Indland er fjölmennasta ríki og fimmta stærsta hagkerfi heims má ætla að samningurinn tryggi íslenskum fyrirtækjum mikilvæg tækifæri til að efla viðskiptatengsl við þennan stóra markað sem búast má við að vaxi og eflist að vægi á komandi árum.
Nefndin flytur tæknilega breytingartillögu til að tryggja að samræmi sé á milli tillögugreinar og fyrirsagnar tillögunnar annars vegar og formlegs heitis ofannefnds samnings hins vegar.
Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
1. Tillögugreinin orðist svo:
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um viðskipti og efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Indlands sem undirritaður var 10. mars 2024 í Nýju-Delí á Indlandi.
2. Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samnings um viðskipti og efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Indlands.
Sigurður Ingi Jóhannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
Alþingi, 12. mars 2025.
Pawel Bartoszek, form. |
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, frsm. |
Dagbjört Hákonardóttir. | |
Diljá Mist Einarsdóttir. | Ingibjörg Davíðsdóttir. | Sigmar Guðmundsson. | |
Sigurður Helgi Pálmason. | Víðir Reynisson. |