Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 169  —  90. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu á bókun um breytingu á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Chile.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar bókunar um breytingu á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Chile sem undirrituð var í Genf í Sviss 24. júní 2024.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að breytingarnar á fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Chile, sem upphaflega tók gildi árið 2004, miða að því að greiða enn frekar fyrir viðskiptum milli samningsaðila ásamt því að nútímavæða samninginn með tilliti til breyttra viðskiptahátta og aukinnar áherslu á sjálfbærni í viðskiptum. Samningurinn kveður á um frekari markaðsopnun fyrir viðskipti með vörur og þjónustu milli Íslands og Chile. Við gildistöku samningsins falla niður tollar í Chile af flestum iðnaðarvörum sem framleiddar eru hér á landi og höfðu ekki hlotið niðurfellingu á grundvelli upphaflega samningsins. Þá bætast við tollfríðindi fyrir ýmsar helstu útflutningsafurðir Íslands í landbúnaði. Uppfærður fríverslunarsamningur styrkir auk þess vernd hugverkaréttar ásamt því að liðka fyrir og takast á við nýjar áskoranir á sviði rafrænna viðskipta. Sérstakur kafli um upplýsingagjöf og aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki er í fyrsta sinn hluti af fríverslunarsamningi á vegum EFTA-ríkjanna.
    Þá kemur fram í greinargerð að vöruútflutningur frá Íslandi til Chile nam tæpum 850 millj. kr. árið 2023 og var verðmæti innfluttra vara frá Chile tæplega 1,7 milljarðar kr. Útflutningur á þjónustu til Chile nam rúmum 550 millj. kr. og innflutt þjónusta var metin rúmlega 200 millj. kr.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Sigurður Ingi Jóhannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. mars 2025.

Pawel Bartoszek,
form.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir,
frsm.
Dagbjört Hákonardóttir.
Diljá Mist Einarsdóttir. Ingibjörg Davíðsdóttir. Sigmar Guðmundsson.
Sigurður Helgi Pálmason. Víðir Reynisson.