Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 90 — 90. mál.
Stjórnartillaga.
Tillaga til þingsályktunar
um fullgildingu á bókun um breytingu á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Chile.
Frá utanríkisráðherra.
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd bókun um breytingu á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Chile sem undirritaður var 24. júní 2024 í Genf í Sviss.
Greinargerð.
Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á bókun um breytingu á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Chile sem undirrituð var í Genf í Sviss 24. júní 2024. Meginmál bókunarinnar er birt sem fylgiskjal I með tillögu þessari á bæði íslensku og ensku. Uppfærður fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Chile er birtur sem fylgiskjal II og ensk útgáfa sem fylgiskjal III. Viðaukar við samninginn verða sendir utanríkismálanefnd og birtir á vef Alþingis.
Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Chile tók gildi árið 2004. Viðræður hófust um uppfærslu samningsins haustið 2019 og lauk þeim í janúar 2024. Breytingarnar miða að því að greiða enn frekar fyrir viðskiptum milli samningsaðila ásamt því að nútímavæða samninginn með tilliti til breyttra viðskiptahátta og aukinnar áherslu á sjálfbærni í viðskiptum. Samningurinn kveður á um frekari markaðsopnun fyrir viðskipti með vörur og þjónustu milli Íslands og Chile. Við gildistöku samningsins falla niður tollar í Chile af flestum iðnaðarvörum sem framleiddar eru hér á landi og höfðu ekki hlotið niðurfellingu á grundvelli upphaflega samningsins. Þá bætast við tollfríðindi fyrir ýmsar helstu útflutningsafurðir Íslands í landbúnaði. Uppfærður fríverslunarsamningur styrkir auk þess vernd hugverkaréttar ásamt því að liðka fyrir og takast á við nýjar áskoranir á sviði rafrænna viðskipta. Sérstakur kafli um upplýsingagjöf og aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki er í fyrsta sinn hluti af fríverslunarsamningi á vegum EFTA-ríkjanna.
Vöruútflutningur frá Íslandi til Chile nam tæpum 850 millj. kr. árið 2023 og var verðmæti innfluttra vara frá Chile tæplega 1,7 milljarðar kr. Útflutningur samanstendur að mestu af vélum og vélarhlutum sem tengjast sjósókn og fiskvinnslu á borð við vogir, teljara, færibönd, mælingatæki og siglingatæki. Innfluttar vörur frá Chile eru aðallega lýsi, vín, ávextir og grænmeti, flugvélaeldsneyti, plast og vélarhlutar. Útflutningur á þjónustu til Chile nam rúmum 550 millj. kr. árið 2023 og innflutt þjónusta var metin rúmlega 200 millj. kr.
EFTA-ríkin, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa gert 33 fríverslunarsamninga við alls 44 ríki.
2. Nánar um ný og breytt ákvæði í fríverslunarsamningnum.
Efni fríverslunarsamningsins skiptist í 15 kafla og 21 viðauka þar sem m.a. er kveðið á um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, vernd hugverkaréttar, opinber innkaup, samkeppni, ríkisstyrki og viðskipti og sjálfbæra þróun, auk hefðbundinna ákvæða um sameiginlega nefnd samningsaðila og lausn deilumála.
Í formálsorðum samningsins er gerð grein fyrir ýmsum forsendum og markmiðum samningsaðila við gerð samningsins. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
— Lýst er yfir vilja til að efla samstarf milli EFTA-ríkjanna og Chile og skapa stöðugt og áreiðanlegt umhverfi viðskipta og fjárfestinga, með það að markmiði að stuðla að þróun hagvaxtar og jöfnum tækifærum fyrir alla, skapa ný atvinnutækifæri, bæta lífskjör og vinnuskilyrði og vernd umhverfis ásamt því að standa vörð um samkeppnishæfni fyrirtækja.
— Áréttuð er skuldbinding ríkjanna um að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, m.a. eins og fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
— Áréttuð er skuldbinding ríkjanna um að stefna að sjálfbærri þróun sem og viðurkenning þeirra á mikilvægi samræmis í stefnumálum á sviðum viðskipta, umhverfis og vinnuréttar.
— Áréttuð eru réttindi og skyldur ríkjanna samkvæmt fjölþjóðasamningum um umhverfismál sem þau eru aðilar að og ítrekaður vilji samningsaðila til að beita ákvæðum samningsins í samræmi við markmið um vernd umhverfisins.
— Staðfest er skuldbinding ríkjanna um að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu í viðskiptum og fjárfestingum ríkja í milli og að halda á lofti meginreglunum um gagnsæi og góða opinbera stjórnunarhætti.
— Ítrekað er mikilvægi góðra stjórnunarhátta að því er varðar sjálfbæra þróun og staðfest ætlun ríkjanna um að hvetja fyrirtæki til að virða alþjóðlega viðurkenndar leiðbeiningar og meginreglur í því tilliti, þ.m.t. viðmiðunarreglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki um ábyrga viðskiptahætti, meginreglur OECD um stjórnunarhætti fyrirtækja og hnattrænt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum.
2.1. Kaflar samningsins.
Í II. kafla og viðaukum I–VII. b er að finna ákvæði um niðurfellingu tolla og önnur ákvæði tengd viðskiptum með vörur. Samkvæmt uppfærðum samningi mun Chile afnema alla tolla á iðnaðarvörur frá EFTA-ríkjunum sem ekki höfðu hlotið niðurfellingu á grundvelli fyrirliggjandi samnings. Þannig mun tollfrelsi einnig ná yfir vélar, efnavörur og skip. Þá er kveðið á um niðurfellingu tolla fyrir ýmsar helstu útflutningsafurðir Íslands í landbúnaði, svo sem jógúrt, skyr, osta og lambakjöt. Á móti skuldbindur Ísland sig til að afnema tolla á ýmsar tegundir grænmetis, þar á meðal agúrkur, eggaldin, paprikur og ferskan maís. Þá eru uppfærð ákvæði samningsins sem lúta að upprunareglum, viðskiptaliprun og heilbrigðiseftirliti, til samræmis við nýlega fríverslunarsamninga EFTA.
Í III. kafla og viðaukum VIII–XI eru ákvæði um þjónustuviðskipti, þ.m.t. skuldbindingar samningsaðila hvað varðar markaðsaðgang til handa þjónustuveitendum frá ríkjum gagnaðila, svo og rétt til stofnsetningar fyrirtækja í landi gagnaðila. Í þeim er að mestu byggt á skuldbindingum ríkjanna samkvæmt ákvæðum GATS-samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um þjónustuviðskipti. Þá eru einnig sérstök ákvæði um fjármálaþjónustu þar sem kveðið er á um gagnsæi, markaðsaðgang og jafnan aðgang að greiðslu- og uppgjörskerfum.
Um hugverkaréttindi er fjallað í IV. kafla og viðauka XII. Viðaukinn hefur verið uppfærður og byggist að mestu leyti á ákvæðum TRIPS-samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum. Ný ákvæði ná m.a. yfir einkaleyfi og vörumerki. Samningsaðilar skuldbinda sig einnig til að gera sitt besta til að fullgilda lykilsamninga á þessu sviði.
Í V. kafla og viðaukum XIII og XIV er fjallað um opinber innkaup og gagnkvæman rétt til þátttöku í útboðum yfir tilteknum viðmiðunarfjárhæðum af hálfu opinberra aðila í ríkjunum. Í uppfærðum samningi er bætt við ákvæðum sem auðvelda þátttöku lítilla og meðalstórra fyrirtækja í opinberum útboðum og byggjast á breyttum samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup sem Ísland er aðili að.
Í V. kafla A er fjallað um lítil og meðalstór fyrirtæki. Samningsaðilar skuldbinda sig til að tryggja litlum og meðalstórum fyrirtækjum aðgang að upplýsingum og stuðla að því að þau njóti ávinnings af samningnum. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkur kafli er settur inn í fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna.
Í nýjum kafla um rafræn viðskipti, V. kafla B, er að finna bann við tollum á rafrænar sendingar og skuldbindingar samningsaðila til að tryggja gagnaflæði yfir landamæri. Á sama tíma er lögð áhersla á öfluga vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs. Þá er fjallað um rafræna sannvottun og viðurkenningu á réttaráhrifum rafrænna skjala og undirskrifta.
Samningurinn inniheldur nú sérstakan kafla um viðskipti og sjálfbæra þróun, V. kafla C, í samræmi við áherslur EFTA-ríkjanna í þeim málum. Samningsaðilar árétta skuldbindingar sínar samkvæmt fjölþjóðlegum samningum og grundvallarreglum tengdum umhverfi og vinnumarkaði og ábyrgjast að viðhalda verndarstigi þeirra. Einnig er viðurkennt mikilvægi þess að taka tillit til kynjasjónarmiða við stefnumótun og hvetja til þátttöku kvenna í hagkerfinu. Þá eru ítrekaðar skuldbindingar samningsaðila á grundvelli Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál og verndun náttúruauðlinda, og ákvæði er varða verndun skóga og sjávarauðlinda. Loks eru í kaflanum ákvæði um lausn deilumála, þar á meðal ákvæði um möguleika á að setja á fót sérfræðinganefnd um ágreiningsmál er varða viðskipti og sjálfbæra þróun. Niðurstöður nefndarinnar eru hins vegar ekki bindandi fyrir samningsaðila.
Fylgiskjal I.
Bókun um breytingu á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Chile á íslensku og ensku.
www.althingi.is/altext/pdf/156/fylgiskjol/s0090-f_I.pdf
Fylgiskjal II.
Uppfærður fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Chile.
www.althingi.is/altext/pdf/156/fylgiskjol/s0090-f_II.pdf
Fylgiskjal III.
Consolidated version of the updated Free trade agreement between the EFTA States and the Republic of Chile.
www.althingi.is/altext/pdf/156/fylgiskjol/s0090-f_III.pdf