Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 628  —  89. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála (flýtimeðferð og breyting á vatnshloti).

(Eftir 2. umræðu, 3. júní.)


I. KAFLI

Breyting á raforkulögum, nr. 65/2003.

1. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

                      Virkjunarleyfi til bráðabirgða.

    Umhverfis- og orkustofnun er heimilt í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram starfsemi vegna virkjunarframkvæmda skv. 4. gr., að veita umsækjanda bráðabirgðaheimild að hans beiðni. Heyri framkvæmdin undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana er skilyrði að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum vegna starfseminnar eða niðurstaða um matsskyldu hennar.
    Hafi virkjunarleyfi fyrir framkvæmd sem fellur undir lög þessi og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana verið fellt úr gildi sökum annmarka á umhverfismati samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana getur Umhverfis- og orkustofnun að beiðni umsækjanda veitt bráðabirgðaheimild fyrir framkvæmdinni í samræmi við skilyrði 1. mgr. ef ríkar ástæður mæla með því. Skal heimildin háð skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Skilyrði fyrir því að unnt sé að óska eftir bráðabirgðaheimild samkvæmt grein þessari er að fullnægjandi umsókn um virkjunarleyfi liggi fyrir hjá Umhverfis- og orkustofnun. Í umsókn um bráðabirgðaheimild skal tilgreina skýrt tilgang, ástæður og fyrirhugaðar aðgerðir á gildistíma heimildar.
    Bráðabirgðaheimild skal háð skilyrðum sem Umhverfis- og orkustofnun setur í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi starfsemi, sbr. 5. gr.
    Umsókn um bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi vegna virkjunarframkvæmdar skal afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að fullnægjandi umsókn berst. Umsókn um bráðabirgðaheimild skal auglýst á vefsvæði leyfisveitanda með fresti til veitingar skriflegra athugasemda að lágmarki í tvær vikur frá auglýsingu Umhverfis- og orkustofnunar. Að öðru leyti gilda ákvæði 5., 6. og 34. gr. um útgáfu bráðabirgðaleyfis eftir því sem á við.
    Bráðabirgðaheimild má veita til allt að eins árs og er heimilt að framlengja hana um allt að eitt ár að uppfylltum skilyrðum greinar þessarar.


2. gr.

    Á eftir tilvísuninni „4. gr.“ í 1. mgr. 33. gr. laganna kemur: og 4. gr. a.


3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 34. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „í Lögbirtingablaðinu“ í 1. málsl. kemur: á vefsvæði sínu.
     b.      3. málsl. fellur brott.

4. gr.

    Á eftir tilvísuninni „1. mgr. 4. gr.“ í 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: 4. gr. a.

II. KAFLI

Breyting á lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „svo sem vegna“ í a-lið 1. mgr. kemur: framkvæmda.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sé framkvæmd háð leyfi Umhverfis- og orkustofnunar skal framkvæmdaraðili í umsókn um slíkt leyfi óska jafnframt eftir heimild stofnunarinnar til breytingar á vatnshloti. Ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar vegna beiðni um breytingu á vatnshloti skal þá vera hluti af ákvörðun stofnunarinnar um veitingu leyfisins. Um kæruheimildir vegna ákvörðunar um útgáfu leyfisins gilda ákvæði þeirra laga sem taka til viðkomandi leyfisákvarðana.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.