Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 65 — 65. mál.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995 (leyfi frá opinberu starfi).
Flm.: Hildur Sverrisdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Jens Garðar Helgason, Vilhjálmur Árnason.
1. gr.
2. gr.
Greinargerð.
Réttur til fimm ára leyfis.
Réttur alþingismanna til leyfis frá störfum samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 4. gr. gildir eingöngu um opinbera starfsmenn en ekki þá sem starfa á almennum vinnumarkaði. Ekki verður séð að fyrir hendi séu nein haldbær rök fyrir því að veita opinberum starfsmönnum þessi réttindi fram yfir aðra launamenn. Þá eru kjörtímabil að jafnaði fjögur ár og laun þingmanna yfir meðallagi á íslenskum vinnumarkaði. Opinberir starfsmenn sem taka sæti á Alþingi eru því ekki að taka sérstaka fjárhagslega áhættu með því að sitja á þingi. Þess utan njóta þingmenn sem koma af almennum vinnumarkaði ekki framangreindra réttinda án þess að það sé til vandkvæða fyrir þá að taka sæti á Alþingi. Því er lagt til að hinn lögbundni réttur opinberra starfsmanna til leyfis frá störfum vegna setu á Alþingi verði felldur brott.
Forgangsréttur til sambærilegrar stöðu.
Seinni málsliður 1. mgr. 4. gr. kveður á um forgangsrétt alþingismanns sem starfað hefur hjá hinu opinbera til sambærilegrar stöðu í allt að fimm ár eftir að leyfi hans skv. 1. málsl. sömu greinar lýkur. Í ákvæðinu felst því undantekning frá meginreglu opinbers starfsmannaréttar um að ráða beri hæfasta einstakling til starfa hjá hinu opinbera, sem jafnan er kölluð verðleikareglan. Veitingarvaldshafi má því ekki hygla vinum, vandamönnum eða pólitískum liðsfélögum, heldur ber að ráða hæfasta umsækjandann hverju sinni út frá faglegum forsendum. Í lögum getur hins vegar verið mælt fyrir um undantekningar frá framangreindri meginreglu sem byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, svo sem um ráðningu pólitískra aðstoðarmanna. Eðlilegt er að slíkir starfsmenn séu ráðnir á pólitískum grunni í ljósi eðlis starfsins, enda fara þeir ekki með vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur manna. Þá mæla lög fyrir um forgang til starfa í vissum tilvikum þegar um jafn hæfa umsækjendur er að ræða. Má þar sem dæmi nefna að ef um jafn hæfa umsækjendur af gagnstæðu kyni er að ræða á umsækjandi af því kyni sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein forgang til starfsins, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Það sama á við um fatlaða umsækjendur, sem hafa forgang til starfs gagnvart ófötluðum umsækjendum, sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.
Sá forgangsréttur sem mælt er fyrir um í lögum nr. 88/1995 er hins vegar ekki byggður á málefnalegum sjónarmiðum sem réttlæta að vikið sé frá verðleikareglunni líkt og þegar um ráðningar pólitískra starfsmanna er að ræða. Þá njóta alþingismenn jafnframt forgangs umfram hæfari umsækjendur, ólíkt því sem á við um forgang samkvæmt lögum nr. 150/2020 og nr. 38/2018, þar sem forgangur nær eingöngu til tilvika þar sem umsækjendur eru jafn hæfir. Af forgangsrétti alþingismanna leiðir að hinu opinbera getur verið óheimilt að ráða hæfasta starfsmanninn ef einn umsækjenda er alþingismaður, eða fyrrverandi alþingismaður, sem ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 88/1995 tekur til. Leiðir það eðli máls samkvæmt af sér að fagleg þekking innan hins opinbera verður minni en ella.
Að mati flutningsmanna frumvarps þessa eru engin knýjandi rök fyrir þeim sérréttindum sem opinberir starfsmenn njóta umfram starfsmenn á almennum vinnumarkaði og undantekningu frá verðleikareglunni. Ekkert bendir til þess að afnám framangreindra sérréttinda muni hafa neikvæðar afleiðingar í för með sér. Ekki er loku fyrir það skotið að hlutfall opinberra starfsmanna á Alþingi muni lækka, sem tæplega getur talist ókostur heldur má þvert á móti færa rök fyrir því að tilefni sé til að auka vægi þeirra sem hafa reynslu af hinum almenna vinnumarkaði á Alþingi.
Ákvæði lagafrumvarps þessa er ekki ætlað að virka afturvirkt og skerðir því ekki réttindi þeirra sem tekið hafa sæti á Alþingi áður en lögin taka gildi.