Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 6 — 6. mál.
Stjórnarfrumvarp.
Frumvarp til laga
um Fasteignir sjúkrahúsa ohf.
Frá fjármála- og efnahagsráðherra.
1. gr.
Félagið.
Sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins skal fara með hlut ríkisins í félaginu og framkvæmd laga þessara.
Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.
2. gr.
Hlutverk og verkefni.
Verkefni félagsins eru einkum eftirfarandi:
a. Greina þörf sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana sem veita þriðja stigs heilbrigðisþjónustu fyrir húsnæði til lengri tíma á grunni áætlana um rekstur og umbætur fasteigna á grundvelli heilbrigðisstefnu.
b. Endurmeta skipulag svæða og vinna í því sambandi tillögur um breytta nýtingu eldri bygginga og ráðstöfun bygginga sem ekki verða nýttar til starfsemi sjúkrahúsa.
c. Halda utan um nýframkvæmdir og endurhanna eldri byggingar í ljósi breyttrar nýtingar eða þarfa, bjóða framkvæmdir út, hafa eftirlit með verklegum framkvæmdum og gera skilamat.
d. Vinna áætlanir um sérhæfð tæki og búnað sem þarf í nýbyggingar og eldri byggingar sem verða endurgerðar undir starfsemina.
3. gr.
Eignaumsýsla.
Sé félaginu falið hlutverk í samræmi við 1. mgr. skulu meginmarkmið vera eftirfarandi:
a. Eignaumsýsla skal vera fagleg og uppfylla almennar kröfur sem gerðar eru til fasteigna- og framkvæmdamála á vegum ríkisins og aðrar sérhæfðar kröfur sem gerðar eru til fasteigna sem nýttar eru undir heilbrigðisþjónustu.
b. Gæta að hagkvæmni og sveigjanleika í rekstri og nýtingu eigna í þágu starfseminnar.
c. Leigugjald skal vera gagnsætt og taka mið af stofnkostnaði eða leiguverði sambærilegra eigna á markaði.
d. Tryggja að góð tengsl séu við yfirstjórn sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana þar sem veitt er þriðja stigs heilbrigðisþjónusta.
e. Eiga samstarf við aðrar stofnanir og félög sem fara með umsýslu eigna á vegum ríkisins til að efla örugga og hagkvæma umsýslu eigna.
4. gr.
Stjórn félagsins.
5. gr.
Ýmis ákvæði.
Félaginu er heimilt að stofna dótturfélög til að annast afmarkaða þætti af verkefnum félagsins í samræmi við samþykktir þess og lög þessi.
Ráðherra er heimilt að fela félaginu önnur verkefni sem falla vel að hlutverki þess.
6. gr.
Gildistaka.
Jafnframt falla úr gildi lög um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, nr. 64/2010.
Greinargerð.
Frumvarp þetta var lagt fram á 155. löggjafarþingi (276. mál) en ekki náðist að mæla fyrir því í kjölfar þess að boðað var til kosninga og er það nú endurflutt óbreytt.
Með lögum um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, nr. 64/2010, var komið á fót opinberu hlutafélagi til að standa að nauðsynlegum undirbúningi og framkvæmd á nýju húsnæði fyrir Landspítalann. Félagið fékk heitið Nýr Landspítali ohf. Hlutverk þess var nánar útfært í lögunum þar sem fram kemur að tilgangur þess sé að standa að nauðsynlegum undirbúningi útboðs byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Frá stofnun félagsins hafa verkefni þess tekið nokkrum breytingum. Í október 2020 var gengið frá breytingum á hlutverki Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna (FSRE) annars vegar og Nýs Landspítala ohf. hins vegar er varðar byggingu á nýju húsnæði fyrir Landspítalann og áform um nýtingu á eldra húsnæði spítalans. Ákveðið var að endurskoða skipulag verkefnisins í því skyni að styrkja heildarsýn, endurmeta megináætlanir, færa einum aðila ábyrgð á stjórnun allra verkþátta og byggja upp aukna getu til að stýra verkefninu, auk þess að styrkja og afmarka skipulag einstakra verkþátta. Eftir þessar breytingar skiptist hlutverk Nýs Landspítala ohf. í fjóra meginþætti sem mynda ferli frá skilgreiningu á hlutverki Landspítala til fullbúinnar starfsemi í nýjum innviðum. Þessir meginþættir eru skilgreindir í 2. gr. frumvarpsins. Einnig voru gerðar breytingar á yfirstjórn framkvæmda vegna Landspítalans. Breytingar á yfirstjórn fólu í sér að endurmeta forsendur og áætlanir um byggingu og endurnýjun alls húsnæðis Landspítalans í því skyni að styrkja heildarsýn og alla megináætlanagerð, færa einum aðila ábyrgð á stjórnun allra verkþátta og styrkja almenna verkefnastjórn. Þessar breytingar reyndust vel og því var ákveðið í mars 2023 að fela Nýjum Landspítala ohf. aukið hlutverk vegna byggingar og endurnýjunar fasteigna þar sem þriðja stigs heilbrigðisþjónusta er innt af hendi. Með þeirri ákvörðun var Nýjum Landspítala ohf. einnig falið að halda utan um framkvæmdir fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri enda var félagið komið með sérhæfða þekkingu á að stýra flóknum og umfangsmiklum framkvæmdum á fasteignum undir sjúkrahúsþjónustu.
Bygging nýs Landspítala við Hringbraut er stærsta einstaka framkvæmdaverkefnið á vegum ríkisins og falla þar undir tækjakaup, fjárfesting í hugbúnaði og innviðum tengdum stoðþjónustu. Endurskipulagning verkefnisins árið 2020 var talin nauðsynleg til að hægt væri að ná betri heildarsýn yfir verkefnið og tryggja forgangsröðun og góða nýtingu fjármuna.
Með frumvarpi þessu er nafni Nýs Landspítala ohf. breytt og hlutverk félagsins og verkefni sem það sinnir að miklu leyti nú þegar formfest og skilgreind nánar. Þá er einnig veitt heimild til að færa eignarhald og umsýslu fasteigna sem nýttar eru undir annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu til félagsins sem yrði þá miðlægur eignaumsýsluaðili með fasteignum sjúkrahúsa sem sinnir sambærilegu hlutverki og Fasteignir Háskóla Íslands ehf. Þrátt fyrir þær breytingar sem koma fram í þessu frumvarpi mun FSRE áfram fara með það hlutverk að vera hinn almenni eignaumsýsluaðili fasteigna sem tilheyra ríkissjóði, þ.e. sem ekki verða settar í sérhæfða eignaumsýslu hjá öðrum aðilum. Þá mun FSRE einnig bera ábyrgð á öðrum verklegum framkvæmdum sem fjármagnaðar eru úr ríkissjóði og ekki hafa verið faldar öðrum aðilum sérstaklega í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda.
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Upphaflegar áætlanir um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut lutu fyrst og fremst að byggingu fjögurra nýrra fasteigna á því svæði en vörðuðu að litlu leyti ráðstöfun og aðlögun eldra húsnæðis eða kaup á nýjum tækjabúnaði. Samhliða breytingum á skipulagi verkefnisins var ráðist í þarfagreiningu sem tók bæði til nýrra og eldri bygginga, lækningatækja og annarra innviða. Þá hefur einnig verið unnið að mati á ástandi eldri bygginga sem er forsenda þess að hægt sé að taka ákvarðanir um nýtingu þeirra eigna eða eftir atvikum aðra ráðstöfun.
Þróunin á hlutverki félagsins hefur öðrum þræði verið sú að því er nú falið umfangsmeira hlutverk við skipulag framkvæmda við undirbúning og framkvæmd bygginga fyrir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Tilgangurinn með breytingunum hefur verið að tryggja betur skilvirkni, hagkvæmni og gæði við framkvæmdir og umsýslu þeirra eigna sem nýttar eru undir þessa mikilvægu grunnþjónustu. Til að ná því markmiði var ákveðið að fela einum aðila, félaginu, ábyrgð á stjórnun allra verkþátta vegna uppbyggingar í tengslum við innviði fyrir sjúkrahúsþjónustu. Þar af leiðandi einskorðast hlutverk félagsins ekki við að standa einungis að nauðsynlegum undirbúningi útboðs, eins og segir í lögunum, heldur vinnur það einnig að samhæfingu, undirbúningi, áætlanagerð, útboðum, framkvæmdum og skilamati vegna verkefna og framkvæmda á vegum félagsins. Þá hefur félaginu jafnframt, með heimild í lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001, verið falin ábyrgð á verklegum framkvæmdum vegna byggingar húsnæðis fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, m.a. vegna þess að sú framkvæmd tengist öðrum framkvæmdum sem félagið heldur utan um á Hringbrautarreitnum.
Ljóst er að búið er að þróa mikla sérþekkingu innan Nýs Landspítala ohf. á byggingum og endurnýjun bygginga þar sem þriðja stigs heilbrigðisþjónusta er veitt, sem ekki er annars staðar hjá hinu opinbera nema að takmörkuðu leyti. Æskilegt er að halda þeirri sérþekkingu til haga eftir að yfirstandandi byggingu nýs Landspítala lýkur þannig að þekking nýtist við áframhaldandi greiningu á frekari framkvæmdum eða endurnýjun fasteigna fyrir heilbrigðiskerfið til framtíðar litið. Eðlilegt er að löggjöf um félagið endurspegli þetta hlutverk.
Á vegum ríkisins hefur verið unnið eftir þeirri hugmyndafræði, sem birtist m.a. í lögum um opinber fjármál, að umsýslu fasteigna eða annarra innviða fyrir sérhæfða starfsemi sé best borgið undir sérhæfðum einingum, sbr. Fasteignir Háskóla Íslands ehf. og að vissu leyti Betri samgöngur ohf. Slíkt fyrirkomulag tryggir betur viðeigandi aðkomu stórnotenda að eignaumsýslunni og stuðlar að því að sérþekking sé til staðar í tengslum við viðhald og umsýslu sérhæfðra eigna sem eru nátengdar starfseminni. Reynslan af framangreindu fyrirkomulagi hefur reynst vel. Ákvörðun um að koma á sambærilegu fyrirkomulagi vegna fasteigna þar sem veitt er þriðja stigs heilbrigðisþjónusta kallar á lagabreytingar þar sem hlutverk Nýs Landspítala ohf. samkvæmt lögum nr. 64/2010 snýr aðeins að afmörkuðum hluta þeirra verkefna sem félaginu hafa verið falin.
Nauðsynlegt er að breyta lagaumgjörðinni um félagið svo að hún samræmist því hlutverki sem því hefur verið falið. Að öðrum kosti er hætt við að dregið gæti úr skilvirkni, hagkvæmni og gæðum við stýringu framkvæmda á vegum þess. Því er ekki talið koma til greina að aðhafast ekki, auk þess sem núgildandi lagarammi er að mörgu leyti orðinn úreltur miðað við hvernig verkefnið um byggingu nýs Landspítala hefur þróast. Þá er jafnframt nauðsynlegt að setja skýrari ramma utan um önnur verkefni sem félaginu hefur verið eða verður mögulega falið til framtíðar litið.
3. Meginefni frumvarpsins.
Með frumvarpinu er mælt fyrir um hlutverk Nýs Landspítala ohf. sem fær jafnframt nýtt nafn, þ.e. Fasteignir sjúkrahúsa ohf., enda munu verkefni félagsins ekki einskorðast við Landspítalann einan þó að þau verkefni muni áfram vega þyngst í starfsemi félagsins, a.m.k. næstu ár. Félagið mun því byggja áfram á núverandi grunni þó að nafni þess verði breytt og það annist jafnframt undirbúning og framkvæmd bygginga þar sem þriðja stigs heilbrigðisþjónusta er veitt í samræmi við ákvarðanir stjórnvalda.
Í frumvarpinu er kveðið nánar á um tilgang og markmið félagsins sem snýr að undirbúningi og framkvæmdum vegna fasteigna sem nýttar verða undir heilbrigðisþjónustu. Þar er einnig að finna ákvæði um eignaumsýslu, stjórn, heimildir til samningagerðar og stofnunar dótturfélaga sem taka mið af öðrum sambærilegum lögum, til að mynda lögum um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, nr. 81/2020.
Gildandi lög um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík eru frá 2010 og hafa einu sinni sætt breytingum, með lögum nr. 53/2013. Á þeim árum sem liðið hafa frá gildistöku hafa verkefni Nýs Landspítala ohf. þróast og breyst og er markmið og hlutverk þess nánar skilgreint með frumvarpi þessu. Með frumvarpinu er leitast við að sú sérþekking sem er innan félagsins viðhaldist til framtíðar svo að frekari uppbygging í tengslum við mannvirki fyrir heilbrigðiskerfið eigi sér stað og verði eins skilvirk og kostur er. Markmiðið með þessu frumvarpi er því m.a. að bregðast við þeirri þróun sem orðið hefur á Hringbrautarverkefninu, aðlaga lögin um félagið að breyttu hlutverki og gera aðrar viðeigandi breytingar svo að frumvarpið stuðli betur að markmiðinu um skilvirkni, hagkvæmni og gæði við framkvæmdir vegna sérhæfðra sjúkrahúsbygginga og umsýslu eigna hins opinbera á þessu sviði.
Til að tryggja faglega, örugga og hagkvæma umsýslu eigna þar sem þriðja stigs heilbrigðisþjónusta er veitt hefur verið lögð áhersla á að aðgreina umsýslu fasteigna frá rekstraraðila eða notandanum sem slíkum. Er það gert til að tryggja fjárhagslegt gagnsæi við fasteignareksturinn og til að samræmt utanumhald gildi gagnvart viðhaldi og endurbótum og komi þar með í veg fyrir að viðhaldsskuld myndist með tilheyrandi kostnaði og óhagræði. Í frumvarpinu er því að finna heimild til að færa eignarhald og umsýslu á eignum sem nýttar eru undir þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Með því að virkja þá heimild og færa umsýslu fasteigna til sérhæfðs félags gefst stofnunum einnig aukið svigrúm til að sinna sínum kjarnaverkefnum, þó þannig að áfram sé tryggt að góð tengsl séu við stjórnsýslu viðkomandi stofnana sem nýta fasteignirnar.
Þá munu lög um skipan opinberra framkvæmda og sú málsmeðferð sem kveðið er á um í þeim lögum áfram gilda um byggingarframkvæmdir félagsins enda nær gildissvið þeirra laga til byggingar mannvirkja sem greidd eru úr ríkissjóði að nokkru eða öllu leyti.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kallar á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.
5. Samráð.
Helstu aðilar sem málið varðar eru fjármála- og efnahagsráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Nýr Landspítali ohf., FSRE, Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri. Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.
Áform um frumvarpið voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-256/2023) 8. desember 2023 til 5. janúar 2024. Ein umsögn barst frá Landspítalanum þar sem fjallað var um ýmis atriði sem lúta að mestu að ákvarðanavaldi félagsins og hvernig eignir ríkisins verði færðar til félagsins. Í frumvarpinu er að finna heimild til að færa fasteignir til félagsins og verði ákveðið að nýta þá heimild verður það gert á sambærilegan hátt og þegar fasteignir voru færðar til Fasteigna Háskóla Íslands ehf. Slík yfirfærsla verður unnin í nánu samráði við þá aðila sem þegar eru með umráð eignanna þar sem aðlögunartími verður tryggður.
Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 10. júlí 2024 (mál nr. S-145/2024) og var veittur frestur til að skila umsögnum til 16. ágúst 2024. Tvær umsagnir bárust við frumvarpsdrögin, annars vegar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og hins vegar frá Landspítalanum. Í báðum umsögnum komu fram vangaveltur varðandi einstakar efnisgreinar frumvarpsins og hvernig þær yrðu túlkaðar eða þeim beitt í framkvæmd. Brugðist var við athugasemdunum með því að skýra tilgang þeirra betur í almennri greinargerð og skýringum við einstök ákvæði. Athugasemdirnar töldust ekki þess eðlis að gera þyrfti miklar efnisbreytingar á frumvarpinu sem slíku.
6. Mat á áhrifum.
Með frumvarpinu er verið að uppfæra gildandi lagaramma um Nýjan Landspítala ohf. þar sem nafni félagsins verður breytt og hlutverk þess og verkefni formfest og skilgreind nánar. Áhrif þessara breytingar verða óveruleg í ljósi þess að félagið sinnir þessum verkefnum að miklu leyti nú þegar. Í frumvarpinu er einnig að finna heimild til að færa eignarhald og umsýslu fasteigna sem nýttar eru undir annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu til félagsins sem yrði þá miðlægur eignaumsýsluaðili með fasteignum sjúkrahúsa og sinnti sambærilegu hlutverki og Fasteignir Háskóla Íslands ehf. Verði sú heimild nýtt mun það hafa áhrif á framsetningu fjárheimilda á málefnasviði sjúkrahúsþjónustu enda verður þá innra leigugjald tekið upp samhliða slíkri yfirfærslu. Ljóst er að undirbúa þarf yfirfærslu viðkomandi eigna í miðlæga umsýslu hjá félaginu í nánu samráði við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri til að tryggja að það hafi ekki áhrif á kjarnastarfsemi umræddra stofnana.
Hagsmunir einstaklinga felast fyrst og fremst í því að rekstraraðili getur einbeitt sér betur að sinni kjarnastarfsemi sem er heilbrigðisþjónusta. Frumvarpið felur því í sér samfélagslega hagsmuni og verður stjórnsýsla ríkisins hnitmiðaðri þar sem sú sérþekking sem orðið hefur til innan Nýs Landspítala ohf. heldur þá áfram að þróast og styrkjast þegar kemur að frekari byggingarframkvæmdum og uppbyggingu í tengslum við aðra innviði heilbrigðiskerfisins. Mikilvægt er að umsýsla eigna hins opinbera sé skilvirk og hagkvæm og er ávinningur af samþykkt frumvarpsins því álitinn meiri en íþyngjandi áhrif þess.
Ekki var talið nauðsynlegt að gera ítarlegt jafnréttismat við vinnslu frumvarpsins. Þá var ekki talið nauðsynlegt að gera sérstakt mat á áhrifum á persónuvernd þar sem ekki er um að ræða frumvarp sem felur í sér vinnslu persónuupplýsinga.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Samkvæmt 2. mgr. fer fjármála- og efnahagsráðherra með eignarhlut ríkisins í félaginu enda fer sá ráðherra almennt með fyrirsvar félaga, eigna og annarra réttinda í eigu ríkissjóðs, sbr. 43. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.
Í 3 mgr. kemur fram að almenn ákvæði hlutafélagalaga um opinber hlutafélög gildi um félagið nema sérstaklega sé kveðið á um annað.
Um 2. gr.
Samkvæmt a-lið 2. mgr. skal félagið greina þörf Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og annarrar heilbrigðisstofnana sem sinna þriðja stigs heilbrigðisþjónustu fyrir húsnæði til lengri tíma á grunni áætlana um rekstur og umbætur fasteigna á grundvelli heilbrigðisstefnu og halda utan um þær framkvæmdir og endurnýjun sem þeim tengist. Hér er einkum verið að vísa til þarfar til lengri tíma í samræmi við þróun samfélagsins. Eðlilegt er að meiri háttar framkvæmdir eða umbreyting á eldra húsnæði sé á grundvelli vel ígrundaðrar heilbrigðisstefnu fyrir málaflokkinn í heild, sem heilbrigðisráðherra setur og ber ábyrgð á.
Samkvæmt b-lið skal félagið, að eigin frumkvæði, hafi eignarhald fasteigna verið fært til þess, eða að beiðni ráðherra sem fer með ábyrgð á eignum ríkisins, endurmeta skipulag svæða og vinna í því sambandi tillögur um breytta nýtingu eldri bygginga og ráðstöfun bygginga sem ekki verða nýttar til starfsemi sjúkrahúsa.
Samkvæmt c-lið skal félagið endurhanna eldri byggingar í ljósi breyttrar nýtingar eða þarfa, bjóða framkvæmdir út, hafa eftirlit með verklegum framkvæmdum og gera skilamat. Samkvæmt þessu fellur það undir hlutverk félagsins að halda utan um verulegar breytingar á eldri byggingum eða öðrum innviðum sem þegar eru til staðar og talin er þörf á að ráðast í breytingar á til að viðkomandi byggingar eða innviðir geti áfram þjónað hlutverki sínu.
Samkvæmt d-lið skal félagið vinna áætlanir um tæki og búnað sem þarf í nýbyggingar og eldri byggingar sem verða endurgerðar undir starfsemina. Það getur einnig náð til flutnings á sérhæfðum tækjum og búnaði úr eldri byggingum. Félaginu verður því ekki eingöngu ætlað að halda utan um verkframkvæmdir vegna nýbygginga heldur einnig vinna að áætlunum um stór og sérhæfð tæki og búnað sem þarf að koma fyrir í slíkum byggingum til að þær geti þjónað hlutverk sínu. Undir liðinn falla einnig áætlanir um tæki og búnað þegar ráðist er í verulegar breytingar á eldri byggingum, til að mynda gagngera endurnýjun á tiltekinni eign. Hins vegar er gert ráð fyrir að það verði áfram hlutverk viðkomandi heilbrigðisstofnunar að annast hefðbundna endurnýjun á afmörkuðum búnaði í eldra húsnæði, einkum ef það er ekki í tengslum við meiri háttar endurbætur á eigninni sem slíkri.
Verkefni félagsins verða yfirgripsmikil enda er því ætlað að halda heildstætt utan um undirbúning og framkvæmd bygginga sem nýta á undir þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Ljóst er að vinna þarf að þessum verkefnum í nánu samstarfi við þær heilbrigðisstofnanir sem falla hér undir.
Um 3. gr.
Um langt skeið hefur verið unnið að því að færa allar fasteignir í eigu ríkisins undir miðlæga umsýslu til að tryggja faglega og samræmda umsýslu eigna í samræmi við stefnu í eignamálum ríkisins sem m.a. má leiða af lögum um opinber fjármál. Þar af leiðandi heyrir það til undantekninga að fasteignir í eigu ríkisins séu í beinni umsýslu notenda. FSRE er sú stofnun sem fer með almenna umsýslu fasteigna í eigu ríkisins og sérhæfir sig í viðhaldi og umsýslu fasteigna gegn leigugreiðslum stofnana. Öðrum sérhæfðum eignaumsýsluaðilum hefur einnig verið komið á fót, þá einkum Fasteignum Háskóla Íslands ehf. sem fer með umsjón fasteigna sem nýttar eru undir háskólann og Storð ehf. sem fer með umsjón fasteigna sem hafa menningar- og varðveislugildi. Með þeirri heimild sem er að finna í þessari grein er gert ráð fyrir að fasteignir, þar sem þriðja stigs heilbrigðisþjónusta er veitt, séu undanskildar almennri yfirfærslu til FSRE. Í fyrsta lagi telst umfang eigna á þessu sviði nægjanlega mikið og sérhæft til að réttlæta sérstaka eignaumsýslueiningu. Í öðru lagi tryggir fyrirkomulagið betur viðeigandi aðkomu stórnotenda að eignaumsýslunni og stuðlar að því að sérþekking sé til staðar í tengslum við umsýslu og viðhald eignanna sem er nátengt starfseminni.
Samkvæmt lögum um opinber fjármál ber að eignfæra virði fasteigna og bókfæra í efnahagsreikningi ríkisins. Með því að taka upp innri leigu í starfsemi ríkisins sem endurspeglar verðmæti eignar er verið að auka fjárhagslegt gagnsæi við húsnæðisrekstur hins opinbera. Almennt er miðað við að leigugjaldið endurspegli stofnkostnað, kostnað við umsýslu, opinber gjöld, kostnað vegna viðhalds og endurbóta, afskriftir og fjármagnskostnað. Við yfirfærslu er miðað við að eignirnar verði færðar inn í félagið gegn láni og að eigið fé frá ríkissjóði endurspegli virði eignanna með sambærilegum hætti og gert var varðandi Fasteignir Háskóla Íslands ehf. Innra leigufyrirkomulagið hefur hingað til ekki verið viðhaft vegna umsýslu fasteigna Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri þar sem þær stofnanir hafa eignir ríkissjóðs til umráða og bera jafnframt ábyrgð á viðhaldi þeirra. Til að hægt sé að koma slíku fyrirkomulagi á mun þurfa að undirbúa það sérstaklega í samstarfi við báða spítalana og heilbrigðisráðuneytið þannig að nægar fjárveitingar séu til staðar til að standa undir slíkri leigu svo að viðhald og endurbætur verði sjálfbærari en verið hefur á undanförnum árum.
Með eignaumsýslu er í ákvæðinu átt við að Fasteignir sjúkrahúsa ohf. standi undir greiðslu á öllum fastakostnaði viðkomandi eigna ásamt því að annast umfangsmeira viðhald og endurbætur á eignunum gegn greiðslu leigugjalds eins og hefðbundið er á almennum markaði. Undir eignaumsýslu fellur hins vegar ekki almennur rekstur eignarinnar, eins og þrif, húsvarsla og viðhald á læsingum, vatnskrönum, raftenglum og öðru smálegu. Markmið frumvarpsins er þó ekki að útfæra í þaula hvernig verkaskiptingin gæti orðið milli FSH ohf., sem annast eignarhaldið, og viðkomandi heilbrigðisstofnunar sem notanda eignarinnar enda er gert ráð fyrir því að það verði breytilegt eftir aðstæðum og staðbundnum þörfum. FSRE sem fer með almenna eignaumsýslu á öðrum fasteignum sem tilheyra ríkissjóði hefur útbúið sérstakt leiðbeiningarskjal þar sem fjallað er um skyldur leigusala og leigutaka. Miðað er við að FSH ohf. muni útbúa sambærilegar leiðbeiningar sem taki mið af sérþörfum starfseminnar sem hér er undir.
Verði eignaumsýslu komið fyrir hjá félaginu er jafnframt mikilvægt að tryggja að góð tengsl verði við yfirstjórn þeirra heilbrigðisstofnana sem falla hér undir til að þær geti áfram sinnt sínu kjarnahlutverki á sviði heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að eignum sem nýttar eru undir þessa mikilvægu þjónustu sé vel við haldið en einnig að viðhaldsframkvæmdir og endurbætur raski ekki starfseminni meira en þörf krefur hverju sinni og að leitað sé leiða til að lágmarka ónæði fyrir starfsfólk, sjúklinga og aðstandendur. Til að svo megi verða þarf gott upplýsingaflæði milli aðila, til að mynda með reglulegum samráðsfundum.
Um 4. gr.
Í þessari grein kemur fram að stjórn félagsins verði skipuð þremur til fimm einstaklingum og val þeirra verði útfært í samþykktum félagsins til að tryggja ákveðinn sveigjanleika við skipan í stjórn eftir því hvernig verkefni félagsins þróast. Þá mun fjöldi varamanna einnig verða ákveðinn í samþykktum en gera má ráð fyrir að þeir verði a.m.k. tveir. Mikilvægt er að stjórnin verði ávallt skipuð hæfum einstaklingum með fjölbreytta og haldgóða reynslu eða þekkingu sem hæfir félaginu og þjóni sem best hagsmunum þess. Þá þarf að gæta að jöfnu kynjahlutfalli við skipun í stjórn félagsins, sbr. skilyrði sem koma fram í 63. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Það er markmið stjórnvalda að festa verði að vera í stjórn félagsins og að stefnt skuli að því að sérfræðiþekking aukist jafnt og þétt innan stjórnarinnar til að tryggja að vel takist til með framkvæmd verkefna þess. Til greina kemur að heilbrigðisráðherra verði gefinn kostur á að koma með tillögur að stjórnarmönnum í félagið sem yrði þá útfært nánar í samþykktum þess. Skipun stjórnarmanna mun þó ávallt vera á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra í samræmi við 4. mgr. 44. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015.
Um 5. gr.
Í 2. mgr. kemur fram að félaginu sé heimilt að stofna dótturfélög til að annast afmarkaða þætti af verkefnum félagsins sé það talið hagkvæmt eða skilvirkara út frá því hlutverki félagsins. Miðað er við að slík dótturfélög verði þá hluti af samstæðu félagsins og óheimilt sé að ráðstafa hlutum eða eignum slíkra félaga annað en til móðurfélagsins eða eigenda þess.
Í 3. mgr. er lagt til að ráðherra verði heimilt að fela félaginu að fara með önnur verkefni sem falla vel að hlutverki þess þannig að þróun geti orðið á þeim verkefnum sem félaginu er ætlað að sinna og skynsamlegt sé að færa til þess.
Um 6. gr.