Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Prentað upp.

Þingskjal 51  —  51. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana.


Flm.: Ingibjörg Isaksen, Halla Hrund Logadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Stefán Vagn Stefánsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Jens Garðar Helgason, Jón Pétur Zimsen, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Adolfsson, Rósa Guðbjartsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Bergþór Ólason, Ingibjörg Davíðsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigríður Á. Andersen, Snorri Másson, Þorgrímur Sigmundsson, Eiríkur Björn Björgvinsson, Grímur Grímsson, Guðbrandur Einarsson, Ingvar Þóroddsson, Jón Gnarr, María Rut Kristinsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Eydís Ásbjörnsdóttir, Guðmundur Ari Sigurjónsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að styðja rannsóknarverkefni sem starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna, hjá embætti landlæknis hefur sett af stað um orsakaferli sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Mikill skortur er á áreiðanlegum gögnum um þessi mál hér á landi til að byggja á í forvörnum og aðgerðaáætlunum. Afla skal nauðsynlegra gagna og uppsetning þeirra studd svo að rannsóknin skili árangri sem nýtist við að ná til einstaklinga í áhættuhópum og öðlast betri skilning á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra með viðeigandi tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og sem nýtast í forvarnastarfi. Tryggja skal að hægt verði að skoða framangreindar breytur reglulega og á aðgengilegan hátt til að meta þróun mælanlegra áhættuþátta og árangur aðgerða. Í kjölfarið verði ákveðið hvort koma eigi á fót sambærilegum starfshópi eða rannsóknarnefnd innan stjórnsýslunnar.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga sama efnis var fyrst lögð fram á 154. löggjafarþingi ( 17. mál), var endurflutt með talsverðum breytingum í ljósi þróunar á því verkefni sem tilgreint var í þeirri tillögu sem lögð var fram á 155. löggjafarþingi (262. mál) og er nú lögð fram að nýju óbreytt.
    Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram með það að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Frá því að tillagan var fyrst lögð fram á Alþingi hefur komið fram að á vegum Lífsbrúar hjá embætti landlæknis hefur starfshópur unnið að sama markmiði og fólst í þingsályktunartillögunni. Markmið Lífsbrúar er að rannsaka afturvirkt mögulegt orsakaferli; áföll, lýðfræðilegar breytur, komur/ innlagnir á heilbrigðisstofnanir og breytingar í lífi einstaklinga í aðdraganda sjálfsvígs og óhappaeitrana. Gagnaöflun af þessu tagi er víðfeðm þar sem leita þarf upplýsinga á ýmsum mismunandi stöðum. Tillögunni hefur því verið breytt á þann veg að ríkisstjórnin tryggi starfshópi Lífsbrúar þann stuðning sem þarf til þess að rannsóknin nái að skila niðurstöðum og tillögum sem nýtast við að koma á fyrirbyggjandi aðgerðum og bættu forvarnastarfi.
    Seinni hluta ársins 2023 var stofnaður vinnuhópur á vegum Lífsbrúar, en hann hefur það að markmiði að rannsaka áhættuþætti sjálfsvíga og andláta vegna óhappaeitrunar af völdum fíkniefna og/eða slævandi lyfja eða svefnlyfja á Íslandi árin 2000–2022. Hópurinn safnar gögnum sem spanna heilsufarssögu þess látna allt að tíu ár aftur í tímann, þar á meðal hafa lyfjaávísanir, komur til heilbrigðisstofnana og vistanir á þeim, sjúkdómsgreiningar, meðferðir og upplýsingar um ýmsa félagslega þætti verið fengnar úr heilsufarsskrám. Úr dánarmeinaskrá embættis landlæknis eru fengnar upplýsingar um dánarorsakir, kyn og aldur við andlát.
    Í vinnu sem þessari er umfangsmikil öflun gagna sem varpa ljósi á samspil áhættuþátta á árunum fyrir slík dauðsföll mikilvæg svo hægt sé að fá haldbærar niðurstöður ásamt því að tryggja að uppsetning þeirra gefi skýra og rétta heildarmynd, en í því samhengi er vert að benda á að gögn tengd heilbrigðisþjónustu eru fengin úr mismunandi gagnagrunnum. Því þarf að tryggja að greitt verði úr mögulegu ósamræmi milli þeirra gagnagrunna áður en fræðileg úrvinnsla hefst. Sú vinna er aðeins á færi sérmenntaðs starfskrafts sem samhæfir gögnin og hreinsar til þannig að gagnagrunnurinn verði villulaus áður en tölfræðiúrvinnsla hefst.
    Ásamt framangreindum gögnum er einnig mikilvægt að gagnaöflun sem snýr að lýðfræðilegum breytum eigi sér stað ásamt fræðilegri uppsetningu þeirra. Í vinnu starfshóps Lífsbrúar er áætlað að gagnauppsetning beggja þátta taki allt að tólf mánuði. Gert er ráð fyrir að launakostnaður sérhæfðs starfskrafts sé um ein milljón króna á mánuði.
    Rannsóknir lögreglu og héraðslækna eftir andlát eru gerðar til að ákvarða hvort það hafi borið að með saknæmum hætti. Ef það er ekki raunin er almennt ekki aðhafst meira. Rannsókninni lýkur og orsökin er skráð í dánarmeinaskrá. Það á m.a. við ef um sjálfsvíg er að ræða. Þess vegna koma þar ekki fram þeir þættir sem kynnu að hafa komið einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir heilsufarslegar upplýsingar, lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs eða óhappaeitrunar. Þá er m.a. átt við mótlæti og áföll eins og til dæmis brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, ástvinamissi, vera beittur ofbeldi, alvarlegu einelti, afleiðingar slysa, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif í aðdraganda sjálfsvíga og óhappaeitrana. Með rannsókn á borð við þá sem starfshópur Lífsbrúar starfar að nú þegar og fjallað er um í greinargerð þessari er hægt að ná til þeirra þátta.
    Með þeim leiðum má afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar lýðfræðilegar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja að því þurfi að breyta með virkum stuðningi við vinnu framangreinds starfshóps Lífsbrúar og áframhaldandi gagnaöflun og rannsóknum á grundvelli þeirra til framtíðar.
    Sjálfsvíg eru fátíður atburður og í ljósi íbúafjölda hér á landi verða óhjákvæmilega talsverðar sveiflur í tíðni (nýgengi) þeirra milli ára. Þess vegna er yfirleitt stuðst við fimm ára meðaltöl. Meðaltöl tímabila frá aldamótum til 2023 sýna 32–38 sjálfsvíg á ári. Sjálfsvíg eru 3,5 sinnum algengari hjá körlum en konum. Til að leiðrétta fyrir fólksfjölgun og til samanburðar við önnur lönd er tíðni reiknuð sem fjöldi sjálfsvíga/100.000 íbúa. Meðaltíðni árin 2000–2019 er 17,8/100.000 íbúa, en árin 2020–2023 hefur tíðnin lækkað í 14,6/100.000 íbúa. Tölur frá árinu 2024 gefa vísbendingar um að þær séu aftur að hækka. Þessar tölur eiga við alla 15 ára og eldri. Taka ber fram að þessar breytingar sem vísað er til hér að framan eru ekki tölfræðilega marktækar. Í fámennu samfélagi eins og okkar verður líklega nauðsynlegt að vinna með upplýsingar um slík dauðsföll yfir minnst þriggja til fimm ára tímabil til að líklegt sé að breyting á tíðni nái því að verða tölfræðilega marktæk.
    Andlátum vegna óhappaeitrana hefur fjölgað mikið frá aldamótum til og með 2021. Ef litið er til allra lyfjaflokka þá eru eitranir með svefn- og róandi lyfjum algengastar. Þá eru ekki meðtalin lyf eða efni eins og ópíóíða- og ofskynjunarlyf. Á árabilinu 2017–2021 létust að meðaltali 20 á ári vegna óhappaeitrana. Hefur tíðni í þessum flokki aukist frá árabilinu 2000–2006 til áranna 2017–2021 úr 2,3 í 7,6/100.000 íbúa, langmest hjá körlum. Nær 65% dauðsfallanna eru af völdum ópíóíða- og ofskynjunarlyfja og fer fjöldi þeirra vaxandi. Þetta eru efni sem koma til landsins eftir ýmsum smyglleiðum og eru keypt og seld í undirheimum, oft blönduð enn hættulegri efnum. Ljóst er að fjölgun þessara dauðsfalla er mikil, hjá körlum og konum.
    Sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru viðkvæmt samfélagslegt málefni og þeim fylgir alltaf afar þungbær sorg. Þau hafa mikil áhrif á aðstandendur og jafnvel heilu samfélögin. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir verulegum áhrifum af hverju sjálfsvígi, sem leitt geta til heilsubrests til styttri eða lengri tíma. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Samfélagið vill gera betur, styðja fyrr og betur einstaklinga í áhættuhópum, ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir, efla forvarnastarf og bjóða upp á sálræna aðstoð fyrir einstaklinga í áhættuhópum og aðstandendur þeirra. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn á slíkum dauðsföllum svo að komast megi að því hvað hafi gerst og finna alla annmarka sem eru á öryggisneti samfélagsins. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að kannanir eins og Líðan þjóðar á vegum embættis landlæknis og kannanir Rannsókna og greiningar á líðan ungmenna benda til vaxandi vanlíðanar í samfélaginu undanfarandi áratug.
    Aðdáunarverð vinna á sér stað dag hvern, bæði á stofnunum og hjá félagasamtökum. Sem dæmi má nefna upplýsingasíma heilsugæslunnar (símanúmer: 1700), hjálparsíma og netspjall Rauða krossins (símanúmer: 1717 – netfang: 1717.is) og vinnu Píeta-samtakanna með ráðgjöf og stuðning fyrir einstaklinga með sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra. Sama gerir Bergið Headspace fyrir yngri aldurshópa. Geðþjónusta Landspítala og BUGL veita bráðaþjónustu en göngudeildar- og innlagnarþjónusta er í boði á vegum geðþjónustu Landspítala, á sjúkrahúsinu á Akureyri, Vogi og göngudeild SÁÁ. Hjá Sorgarmiðstöð gefst fólki tækifæri til að sækja sér stuðning við úrvinnslu sorgar. VIRK Starfsendurhæfingarsjóður kemur að endurhæfingu vegna andlegra og líkamlegra veikinda.
    Talsverð vinna hefur verið unnin innan stjórnsýslunnar, aðallega á grunn- og framhaldsskólastigi og innan heilbrigðiskerfisins. Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum frá 2018 hefur verið endurskoðuð hjá starfshópi sem skipaður var af heilbrigðisráðherra. Drög að nýrri áætlun voru afhent heilbrigðisráðherra í janúar 2025. Áætlunin felur í sér öll stig forvarna með áherslu á að greina áhættuhópa.
    Af öllu þessu er ljóst að öflugt forvarnastarf er til staðar með samvinnu ríkisins og félagasamtaka. Markmiðið er ávallt að grípa einstaklinginn, koma í veg fyrir að sjálfsvígshugsanir hans leiði til sjálfsskaða og jafnvel dauða. Forvarnastarf af þessu tagi er flókið þar sem áhættuþættir eru margir og samspil þeirra hefst oftast nokkrum eða mörgum árum áður en andlátið verður samkvæmt erlendum rannsóknum; andlegir, líkamlegir, umhverfislegir og félagslegir. Oftar en ekki er það samspil fjölda mismunandi þátta sem leiðir til þess að einstaklingur gerir tilraun til sjálfsvígs. Þar skiptir saga hvers og eins máli. Þessa framangreinda þætti væri hægt að rekja í hverju tilfelli fyrir sig og mynda gögn út frá orsakaferli, finna sameiginlega þætti og útbúa gögn. Með þeim gögnum getum við eflt bæði forvarnastarf og vinnu við fyrirbyggjandi aðgerðir. Í stefnuræðu forsætisráðherra Svíþjóðar frá því í október 2022 boðar hann sambærilega aðgerð í Svíþjóð og flutningsmenn telja mjög brýnt að ríkið styðji við framangreinda vinnu eins og hægt er og geri slíka rannsóknarvinnu varanlegan lið innan stjórnsýslunnar ef verkefnið skilar góðum árangri.