Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 838 — 429. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með frávísunartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar).
Frá minni hluta atvinnuveganefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og tekið til skoðunar umsagnir og sjónarmið sem fram komu. Minni hlutinn telur mikilvægt að vandað sé til verka við alla lagasetningu. Því verður að gera breytingar á frumvarpinu áður en það er samþykkt á Alþingi. Minni hlutinn harmar vinnubrögð nefndarinnar við vinnslu málsins. Tíminn var knappur og málið, sem varðar mikla hagsmuni, unnið með miklu hraði. Umsagnaraðilum var gefinn mjög skammur tími til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þessi vinnubrögð eru óheppileg og hafa rýrt möguleika nefndarinnar til að vinna þetta mál betur og stuðla að ígrundaðri og lýðræðislegri ákvörðunartöku.
Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja 48 veiðidaga til strandveiða árið 2025. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að atvinnuvegaráðherra verði veitt bráðabirgðaheimild til að flytja aflamagn milli ára sem kæmi til úthlutunar á komandi árum innan 5,3% kerfisins, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
Minni hlutinn leggst gegn samþykkt frumvarpsins í núverandi mynd. Ef það verður að lögum verður ráðherra veitt víðtæk heimild til að ráðstafa viðbótaraflamagni til strandveiða umfram þær skorður sem Hafrannsóknastofnun setur og ákveðið er með lögbundinni aflareglu stjórnvalda. Það væri frávik frá skýrum viðmiðum um verndun fiskstofna og skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda og gengi gegn markmiðum laga um stjórn fiskveiða.
Ákvæði frumvarpsins voru ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Málið var lagt fram seint á vorþingi og umsagnarfrestur aðeins vika. Þrátt fyrir að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefði legið fyrir frá því í desember árið 2024 var ekkert frumvarp lagt fram fyrr en í lok maí árið eftir. Það samræmist ekki reglum Stjórnarráðs Íslands um vandaða lagasetningu og er til marks um að efna eigi kosningaloforð eins stjórnarflokkanna á kostnað vandaðrar málsmeðferðar. Það veit ekki á gott að keyra þjóðhagslega mikilvægt mál sem varðar vernd nytjastofna sjávar gegnum þingið án fullnægjandi samráðs.
Með því að lögfesta ráðstöfun aflamagns sem gengur gegn ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og aflareglu stjórnvalda er hætta á því að grafið verði undan sjálfbærnivottun íslensks sjávarútvegs. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vöruðu við því í umsögn sinni að það kynni að hafa áhrif á markaðsaðgengi, verð og traust neytenda á íslenskum sjávarafurðum. Alþjóðlegar vottanir byggjast á traustri og gagnsærri fiskveiðistjórn en ekki pólitískum ákvörðunum sem fara í bága við ráðgjöf sérfræðinga.
Óskað var eftir því að fulltrúar félagsins Icelandic Sustainable Fisheries (ISF) kæmu fyrir nefndina. Félagið ISF aflar vottunar veiðarfæra og fiskstofna sem nýttir eru við Ísland og leitar vottunar gagnvart staðli Marine Stewardship Council (MSC) sem eru samtök sjálfstæðra og faggiltra vottunarstofa sem meta og taka út fiskveiðar við Ísland samkvæmt þeim kröfum sem settar eru fram í staðli samtakanna. Við þessari beiðni var ekki orðið.
Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
Þórarinn Ingi Pétursson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.
Alþingi, 7. júlí 2025.
Njáll Trausti Friðbertsson, frsm. |
Jón Gunnarsson. | Bergþór Ólason. |