Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 586 — 429. mál.
Stjórnarfrumvarp.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar).
Frá atvinnuvegaráðherra.
1. gr.
Þrátt fyrir 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. a skal Fiskistofa ekki stöðva strandveiðar á fiskveiðiárinu 2024/2025.
Þrátt fyrir 3. málsl. 7. mgr. 6. gr. a skal gjald fyrir ólögmætan sjávarafla nema andvirði gjaldskylds afla skv. 3. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992, á strandveiðitímabilinu fiskveiðiárið 2024/2025.
Þrátt fyrir 24. gr. laga þessara og 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, skal Fiskistofa svipta skip leyfi til strandveiða sé brotið gegn skilyrðum um eignarhald lögaðila, eignarhald strandveiðibáta og lögskráningu. Þá skal Fiskistofa svipta skip leyfi til strandveiða fyrir ítrekuð brot gegn ákvæðum laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim um það magn sem heimilt er að draga af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð. Ákvörðun Fiskistofu um sviptingu leyfis til strandveiða gildir út strandveiðitímabilið. Ef veiðitímabili er lokið áður en ákvörðun Fiskistofu um sviptingu leyfis til strandveiða tekur gildi, skal leyfissvipting samkvæmt ákvörðuninni gilda við útgáfu næsta leyfis til strandveiða. Ákvörðunum Fiskistofu um sviptingu leyfis til strandveiða verður skotið til ráðherra, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
Á fiskveiðiárinu 2024/2025 er ráðherra heimilt að ráðstafa auknu aflamagni til strandveiða til viðbótar við núverandi aflamagn til strandveiða á fiskveiðiárinu 2024/2025. Viðbótaraflamagn skal dragast frá því aflamagni sem dregið verður frá heildaraflamarki skv. 3. mgr. 8. gr. og lækka árlega og skal að fullu fært til baka eigi síðar en á fiskveiðiárinu 2028/2029. Ef til kemur viðbótaraflamagn fiskveiðiárið 2024/2025 skal ráðherra lækka viðbótarráðstöfunina.
2. gr.
Greinargerð.
Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði við lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, ákvæði til bráðabirgða. Ákvæðið tekur til strandveiða frá gildistöku frumvarpsins.
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Tilefni þessa frumvarps er áhersla í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar frá 21. desember 2024, þar sem kemur m.a. fram að ríkisstjórnin muni tryggja 48 daga til strandveiða. Ráðstöfun aflamagns þorsks til strandveiða á síðustu fimm árum hefur verið 10.000–11.885 tonn. Núverandi ráðstöfun aflamagns þorsks til strandveiða skv. 5. gr. reglugerðar nr. 817/2024, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2024/2025 og almanaksárið 2025, er 10.000 tonn (óslægt). Með reglugerð nr. 385/2025 um breytingu á reglugerð nr. 460/2024, um strandveiðar, var mælt fyrir um ýtrari skilyrði við umsóknir um leyfi til strandveiða, eignarhald lögaðila og eignarhald fiskiskipa. Umsóknarfresti um leyfi til strandveiða lauk 22. apríl 2025 og alls bárust 888 umsóknir um strandveiðileyfi vegna tímabilsins 2025. Því er ljóst að strandveiðileyfi verða fleiri á strandveiðitímabilinu 2025 en þau 764 leyfi sem veitt voru árið 2024, en þar af nýttu alls 756 bátar leyfin. Ef gert er ráð fyrir svipuðum forsendum fyrir strandveiðum og á fyrra ári má því ætla að um 850 bátar muni landa á strandveiðum 2025. Þrátt fyrir að fram séu komnar allar umsóknir um leyfi til strandveiða liggur ekki fyrir hver verður endanlegur fjöldi báta sem virkja leyfi til strandveiða og ekki er ljóst hvernig sóknarmynstur verður á yfirstandandi strandveiðivertíð. Áætla má að samkvæmt heildarþörf, miðað við óbreytt hámark (774 kg) veiðimagns á dag, sambærilegt veiðimynstur og á fyrra ári og að heimilt verði að veiða í 48 daga, þurfi að auka það aflamagn sem til ráðstöfunar er á strandveiðitímabilinu 2025.
Til að unnt sé að tryggja 48 veiðidaga kann að þurfa að gera breytingar á því magni sem heimilt er að veiða í hverri veiðiferð.
Í frumvarpinu er því lagt til að bætt verði ákvæði til bráðabirgða við lög um stjórn fiskveiða þar sem vikið er frá tilteknum málsgreinum í 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða á strandveiðitímabilinu 2025. Reynslan af strandveiðitímabilinu 2025 verður svo nýtt til að afmarka betur þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða svo að tryggja megi 48 veiðidaga til framtíðar á strandveiðum. Áformað er að frumvarp þess efnis verði lagt fram á næsta löggjafarþingi sem taki gildi á strandveiðitímabilinu 2026.
3. Meginefni frumvarpsins.
Um strandveiðar er fjallað í 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða. Þar er m.a. kveðið á um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til að fá leyfi til strandveiða, fjölda veiðidaga, hámark afla í veiðiferð og skilyrði um eignarhald.
Í þeim tilgangi að tryggja 48 veiðidaga til strandveiða á árinu 2025 er í frumvarpinu lagt til ákvæði til bráðabirgða þar sem ráðherra er veitt heimild til að flytja milli ára aflamagn sem kæmi til úthlutunar á komandi árum innan 5,3% kerfisins, sbr. 3. mgr. 8. gr. laganna. Frá fiskveiðiárinu 2019/2020 til og með fiskveiðiárinu 2023/2024 hefur samanlagður þorskafli umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar numið samtals 51.000 tonnum sem samsvarar 4,35% af ráðlögum heildarafla á því tímabili. Við mat ráðherra á því hversu mikið aflamagn verði þannig flutt milli ára til veiða á fiskveiðiárinu 2024/2025 ber þó að gæta þess að ráðstöfunin sé ekki umfram það magn sem nauðsynlegt er til að ná settum markmiðum um 48 veiðidaga og sé ekki verulega umfram ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, auk þess sem það gangi ekki gegn meginmarkmiðum fiskveiðistjórnunarkerfisins um sjálfbærar fiskveiðar. Þá þarf að taka tillit til áhrifa á vottanir, verð og markaði þegar ráðstöfun er ákveðin. Nánar er fjallað um einstaka þætti ákvæðisins í skýringum við 1. gr. frumvarpsins.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
Markmið fiskveiðistjórnunarkerfisins er fyrst og fremst að tryggja verndun og skynsamlega nýtingu fiskistofna. Með því eru settar skorður við því hverjir hafi aðgang að auðlindinni og geti nýtt hana. Því hefur verið slegið föstu í dómaframkvæmd að í þessu felist ríkir almannahagsmunir. Þá verður ráðið af dómaframkvæmd að löggjafinn hafi ríkt svigrúm til að setja almennar takmarkanir í þágu þessara almannahagsmuna, setja á skilyrði eftir þörfum eða taka þau af og að réttindin ráðast af lögum eins og þau eru á hverjum tíma. Við samningu frumvarps þessa hefur verið tekið mið af framangreindu og m.a. í ljósi þessa hefur verið leitast við að leggja einungis til breytingar á gildandi kerfi að svo miklu leyti sem það er talið nauðsynlegt. Frumvarpið er ekki talið brjóta gegn ákvæðum um jafnræði, eignarrétt og atvinnufrelsi skv. 65., 72. eða 75. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
5. Samráð.
Áform og drög að frumvarpinu voru ekki birt í samráðsgátt stjórnvalda en strandveiðitímabil 2025 hófst 5. maí 2025 og ljóst að bregðast þarf skjótt við ef tryggja ber 48 veiðidaga á strandveiðum miðað við þann fjölda strandveiðibáta sem lá fyrir eftir 22. apríl 2025. Ekki var því talið svigrúm til birtingar í samráðsgátt.
6. Mat á áhrifum.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á tekjur ríkissjóðs. Áhrif á stjórnsýslu eru óveruleg en verkefni ráðherra felast í að setja reglugerð um strandveiðar í samræmi við efni frumvarpsins en kostnaður við það er óverulegur og rúmast innan gildandi útgjaldaramma. Samhliða samningu frumvarpsins hefur einnig verið ráðist í átak í eftirliti Fiskistofu með framkvæmd strandveiða og hefur 40 millj. kr. verið ráðstafað til stofnunarinnar til að sinna auknu eftirliti á árinu 2025. Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður Fiskistofu aukist umfram það við lögfestingu frumvarpsins en sú framkvæmd sem lögð er til fellur vel að verkefnum stofnunarinnar. Fiskistofa mun annast eftirlit með veiðunum og fellur það undir aðra starfsemi stofnunarinnar, sbr. 2. gr. laga um Fiskistofu, nr. 36/1992, og 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
Ekki er talið að sú breyting sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu hafi í för með sér áhrif á fjárhag sveitarfélaga og leiði til aukinna útgjalda fyrir sveitarfélög skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
Frumvarpið hefur þau áhrif á smábátaeigendur, einstaklinga og lögaðila sem gera út báta og stunda strandveiðar að þeir hafa meira svigrúm til að nýta þá 48 daga sem strandveiðitímabilið markast við. Má því áætla að frumvarpið stuðli að því að útgerð til strandveiða verði stunduð á ábyrgari hátt og tryggi þar með frekar öryggi þeirra er stunda veiðarnar, auk þess að aflamagn dreifist betur yfir tímabilið og milli landshluta. Ekki liggja fyrir nákvæm kyngreind gögn um þá aðila sem stunda strandveiðar.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Í 2. mgr. er lagt til að gjald fyrir ólögmætan sjávarafla nemi andvirði gjaldskylds afla en í 1. málsl. 7. mgr. 6. gr. a segir að beita skuli ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992, fari afli fiskiskips umfram hámark sem ákveðið er í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim. Gjald skal lagt á afla í samræmi við hlutfallslega skiptingu afla eftir tegundum. Skal gjaldið nema því meðalverði sem fengist hefur fyrir samsvarandi afla á fiskmörkuðum á þeim stað og því tímabili þegar hann barst að landi. Í viðleitni til að sporna við því að miklu magni afla sé landað sem umframafla og draga úr hvötum til slíks er lagt til að gjald fyrir umframafla skuli nema andvirði gjaldskylds afla skv. 3. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992. Með þeirri breytingu má ætla að verulega dragi úr umframafla og meiri afli verði til ráðstöfunar yfir lengra tímabil en verið hefur en með þessu er leitast við að tryggja 48 daga á strandveiðum.
Í 3. mgr. er lagt til að tilgreint verði hvaða brot varði sviptingu á leyfi til strandveiða. Í ákvæðinu er lagt til að þrátt fyrir 24. gr. laga um stjórn fiskveiða og 15. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, þá skuli Fiskistofa svipta skip leyfi til strandveiða ef brotið er gegn ákvæðum laga og reglugerða um skilyrði um eignarhald lögaðila, eignarhald strandveiðibáta og lögskráningu.
Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. reglugerðar um strandveiðar, nr. 460/2024, er einungis heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi. Um borð í hverri strandveiðiferð skal vera einn einstaklingur sem er lögskráður á skipið og á að lágmarki beint eða óbeint í gegnum lögaðila, meira en 50% eignarhlut í skipinu. Eignarhald skips ræðst af skráningu í skipaskrá Samgöngustofu og eignarhald lögaðila miðast við skráningu raunverulegs eiganda hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Þá segir enn fremur í 5. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að í umsókn lögaðila um leyfi til strandveiða skulu koma fram upplýsingar um eignarhald á lögaðilanum. Eigandi lögaðila sem er lögskráður á fiskiskip á strandveiðitímabilinu skv. 3. málsl. 4. mgr. 3. gr. skal eiga meira en 50% í lögaðilanum. Brjóti leyfishafi gegn framangreindum ákvæðum reglugerðarinnar skal Fiskistofa svipta viðkomandi skip leyfi til strandveiða. Í þessum tilvikum er þá ekki beitt áminningu, heldur er sviptingu leyfis vegna framangreindra brota beitt. Þá verði Fiskistofu einnig skylt að svipta skip leyfi til strandveiða fyrir ítrekuð brot gegn ákvæðum laga og reglugerða um það aflamagn sem heimilt er að draga í hverri veiðiferð. Með ítrekuðum brotum samkvæmt frumvarpi þessu er sem dæmi átt við að aðili sem hefur leyfi til strandveiða hefur landað oftar en þrisvar sinnum umframafla sem nemur 5% yfir leyfilegum afla í hverri veiðiferð. Í ákvæðinu er einnig mælt fyrir um að ef veiðitímabili er lokið áður en ákvörðun Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis tekur gildi, þá skal leyfissvipting gilda við útgáfu næsta veiðileyfis. Felur það í sér að ef aðili verður uppvís að broti en ákvörðun um sviptingu er tekin eftir að strandveiðitímabili lýkur 31. ágúst 2025 þá gildir sviptingin á næsta tímabili á eftir, þ.e. á strandveiðitímabilinu 2026. Er þetta m.a. lagt til þar sem framangreind brot eru alvarleg og hafa veruleg áhrif á framkvæmd strandveiða. Lagt er til að kærufrestur vegna ákvörðunar Fiskistofu verði sambærilegur og í gildandi lögum, þannig að ákvörðun um sviptingu leyfis verði unnt að skjóta til ráðherra innan mánaðar frá því aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Þá frestar kæra ekki réttaráhrifum ákvörðunar Fiskistofu.
Í lokamálsgrein ákvæðisins er lagt til að ráðherra verði heimilt að ráðstafa til viðbótar við núverandi aflamagn á fiskveiðiárinu 2024/2025 auknu aflamagni innan 5,3% kerfisins, sbr. 3. mgr. 8. gr. laganna, til strandveiða. Það felur í sér að ráðherra verði heimilt að tryggja nægjanlegt magn á strandveiðitímabilinu 2025 til þess að markmiðum um 48 veiðidaga verði náð á strandveiðitímabilinu 2025. Þá er í ákvæðinu mælt fyrir um að það aflamagn sem aukningunni nemur verði fært til baka árlega og verði að fullu fært til baka á fiskveiðiárinu 2028/2029. Sem dæmi má nefna að ef aukið aflamagn nemur 3.000 tonnum samkvæmt reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2024/2025 og almanaksárið 2025, nr. 817/2024, þá skal ráðherra lækka aflamagn sem ráðstafað er til strandveiða innan 5,3% kerfisins á næstu fiskveiðiárum á eftir. Þá er einnig lagt til að ef komi til viðbótaraflamagns strax á fiskveiðiárinu 2024/2025 verði ráðherra heimilt að byrja að bregðast við aukningunni strax á yfirstandandi fiskveiðiári. Ef t.d. kemur til aukið aflamagn innan 5,3% kerfisins vegna niðurstöðu skiptimarkaðar eða úthlutun aflamarks fyrr í einstökum tegundum, eins og síld, þá er ráðherra heimilt að nýta þá viðbót á móti aukningu aflamagnsins í strandveiðum strax á yfirstandandi fiskveiðiári. Nánar er fjallað um aflamagn til ráðstöfunar til strandveiða í köflum 2 og 3.
Um 2. gr.