Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 849  —  410. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um atvinnurekstrarbann.


    Upplýsingar voru fengnar frá dómstólasýslunni til að svara 1.–3. tölul. fyrirspurnarinnar en til að svara 4. tölul. voru fengnar upplýsingar frá Skattinum sem starfrækir fyrirtækjaskrá en starfsemi fyrirtækjaskrár er á ábyrgðarsviði atvinnuvegaráðherra skv. 2. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

     1.      Hversu margar beiðnir um atvinnurekstrarbann hafa borist héraðsdómstólum frá gildistöku lagagreina um atvinnurekstrarbann í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991? Svar óskast sundurliðað annars vegar eftir fjölda beiðna og hins vegar eftir héraðsdómstólum.
    Alls hafa 52 kröfur um atvinnurekstrarbann borist héraðsdómstólunum.
          Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fengið 34 beiðnir.
          Héraðsdómur Reykjaness hefur fengið 14 beiðnir.
          Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur fengið 2 beiðnir.
          Héraðsdómur Suðurlands hefur fengið 2 beiðnir.

     2.      Hversu margir hafa verið úrskurðaðir í atvinnurekstrarbann af héraðsdómstólum? Svar óskast sundurliðað annars vegar eftir ári sem dómur fellur og hins vegar héraðsdómstólum.
    Alls hafa 22 einstaklingar verið úrskurðaðir í atvinnurekstrarbann.
    Úrskurður hefur verið kveðinn upp í 24 málum. Í 19 málum hefur verið fallist á kröfu um atvinnurekstrarbann en kröfu hafnað í 5 málum.
    Í 28 málum hefur krafa verið felld niður eða ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 184. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Árið 2023 voru 5 úrskurðaðir í atvinnurekstrarbann:
          4 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og
          1 í Héraðsdómi Reykjaness.
    Árið 2024 voru 9 úrskurðaðir í atvinnurekstrarbann:
          6 í Héraðsdómi Reykjavíkur,
          2 í Héraðsdómi Norðurlands eystra og
          1 í Héraðsdómi Reykjaness.
    Árið 2025, það sem af er árinu, hafa 8 verið úrskurðaðir í atvinnurekstrarbann í 5 málum:
          3 mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness og
          2 mál í Héraðsdómi Reykjavíkur.

     3.      Hversu margir úrskurðir um atvinnurekstrarbann hafa verið kærðir til Landsréttar og hver hefur niðurstaða Landsréttar verið í þeim?
    Fjórir úrskurðir um atvinnurekstrarbann hafa verið kærðir til Landsréttar. Þrír úrskurðir hafa verið staðfestir og einu máli er ólokið.

     4.      Hvernig er upplýsingum safnað saman um þá sem dæmdir eru í atvinnurekstrarbann? Hvernig er því framfylgt að þeir sem dæmdir eru í atvinnurekstrarbann séu ekki skráðir framkvæmdastjórar eða stjórnarmenn í félögum?
    Ríkisskattstjóri starfrækir fyrirtækjaskrá, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 17/2003, og er á ábyrgðarsviði atvinnuvegaráðherra. Í starfseminni felst meðal annars að viðhalda þeim upplýsingum sem varða skráningu félaga lögum samkvæmt, þannig að þær séu með sem réttustum hætti frá upphafi skráningar til slita og afskráningar þeirra. Ef kveðinn er upp úrskurður um atvinnurekstrarbann sendir viðkomandi dómstóll staðfest afrit úrskurðar til fyrirtækjaskrár og hefur komist á farvegur fyrir slíka miðlun. Í kjölfar þess að úrskurðir eru mótteknir hjá fyrirtækjaskrá og kærufrestur er liðinn eru gerðar viðeigandi ráðstafanir til að fylgja eftir þeim réttaráhrifum sem úrskurður um atvinnurekstrarbann er ætlað að hafa gagnvart þeim einstaklingum sem slíku skulu sæta og skráning í fyrirtækjaskrá tekur til, svo sem banni við setu í stjórn félaga.