Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 525  —  404. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis og lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað (framtíðarnefnd).

Flm.: Þórunn Sveinbjarnardóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
1. gr.

    Í stað orðanna „til 31. desember 2025“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum kemur: út kjörtímabilið sem hófst 2024.

II. KAFLI
Breyting á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Greiða skal formanni framtíðarnefndar, sbr. ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, 10% álag á þingfararkaup á starfstíma nefndarinnar til loka yfirstandandi kjörtímabils.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2025.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að starfstími framtíðarnefndar verði framlengdur út kjörtímabilið og formanni hennar verði greitt álag á þingfararkaup frá og með 1. júlí nk.
    Framtíðarnefnd Alþingis var komið á fót með lögum nr. 80/2021 og var nefndinni til að byrja með ætlað að starfa út kjörtímabilið sem hófst 2021. Áður hafði verið starfandi framtíðarnefnd á vegum forsætisráðherra en að frumkvæði forseta Alþingis lagði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til breytingu um að færa nefndina til Alþingis til reynslu. Í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur fram að „[þannig] fengist nokkur reynsla af því að starfrækja framtíðarnefnd á Alþingi og á grunni þeirrar reynslu mætti sníða framtíðarákvæði um nefndina í þingsköpum“. Framtíðarnefnd starfaði á kjörtímabilinu 2021–2024, sótti heimsþing framtíðarnefnda og átti fundi með framtíðarnefndum annarra þinga. Nefndin lagði á þeim tíma annars vegar áherslu á gervigreind og hélt nokkrar málstofur um gervigreind og lýðræði sem sendar voru út á vef þingsins. Hins vegar lagði nefndin áherslu á græn umskipti og áskoranir til ársins 2024, gerði um það sviðsmyndir og naut þar aðstoðar Framtíðarseturs Íslands. Þá hélt nefndin stóra vinnustofu og drifkraftaverkstæði um græn umskipti en náði ekki að ljúka þeirri vinnu eða skýrslugerð fyrir lok kjörtímabilsins sem varð styttra vegna stjórnarslita haustið 2024. Með lögum nr. 128/2024 var starfstími framtíðarnefndar framlengdur út árið 2025 til að veita svigrúm til að leggja mat á framhald á starfi nefndarinnar.

2. Framlenging á starfstíma framtíðarnefndar.
    Framtíðarnefnd er mjög ólík öðrum þingnefndum sem að meginstefnu til fjalla um mál sem til þeirra er vísað og hafa afmarkað málefnasvið. Framtíðarnefndin hefur opnara hlutverk og ekki er vísað til hennar málum heldur er það nefndarinnar sjálfrar að hafa frumkvæði að þeim málum sem hún tekur til umfjöllunar og vinnslu. Nokkurn tíma getur tekið að kynna sér framtíðarfræði, sviðsmyndagerð og ákveða áherslur nefndarinnar. Knappur tími er til áramóta og enginn þeirra nefndarmanna sem sitja nú í nefndinni sátu í henni á síðasta kjörtímabili. Erfitt er því að miða við reynslu af starfi nefndarinnar á þeim tíma, sérstaklega í ljósi þess að sú nefnd náði ekki að ljúka sínum verkefnum þar sem kjörtímabilið varð styttra en gert var ráð fyrir. Er því lagt til að framlengja starfstíma nefndarinnar að nýju út yfirstandandi kjörtímabil og veita með því betra svigrúm til að leggja mat á reynsluna og framhald á starfi nefndarinnar.

3. Álagsgreiðsla á laun formanns framtíðarnefndar.
    Formenn fastanefnda fá samkvæmt þingfararkaupslögum greitt 15% álag á störf sín. Nefndirnar funda að jafnaði tvisvar sinnum í viku en oftar þegar eru nefndadagar. Formaður fastanefndar skipuleggur störf nefndarinnar, gerir starfsáætlanir, drög að dagskrám, forgangsraðar málum til vinnslu og stýrir fundum og umræðum í nefnd. Starfi formanns fylgir því rík ábyrgð og aukið álag sem greitt er fyrir.
    Formaður framtíðarnefndar hefur sambærilegar skyldur á herðum og formenn fastanefnda þó að nefndin fundi sjaldnar. Þá reynir á formann framtíðarnefndar með öðrum hætti þar sem nefndin fær ekki vísað málum til sín úr þingsal heldur þarf að ákveða sjálf hvað hún tekur til umfjöllunar og skoðunar. Formaður hefur því ríka ábyrgð hvað þetta varðar og þessu fylgir annars konar álag til að tryggja að nefndarstörf gangi vel og nefndin skili af sér afurð í formi úttekta, skýrslna, sviðsmynda, málstofa eða annars sem hentar viðkomandi verkefni hverju sinni. Lagt er því til að formaður framtíðarnefndar fái 10% álag á laun sín til að mæta þessu.

4. Kostnaðarmat.
    Vegna sérstöðu framtíðarnefndar hefur nokkur kostnaður fylgt starfi hennar. Má þar nefna ferðakostnað vegna þátttöku á heimsþingi framtíðarnefnda og sérfræðiaðstoðar vegna sviðsmyndagerðar, vinnustofa og málstofa. Árlegur kostnaður hefur verið um 4 millj. kr. og það fjármagn fylgdi ekki við færslu nefndarinnar frá forsætisráðuneyti en hefur hingað til verið tekið af fjárheimildum Alþingis. Vegna aðhaldskrafna síðustu ára fer svigrúm til þess minnkandi. Mikilvægt er að gert verði ráð fyrir þessum kostnaði við gerð fjárlagafrumvarpa næstu ára.
    Kostnaður vegna 10% álagsgreiðslu til formanns er nú 152.584 kr. á mánuði. Þingfararkaup breytist 1. júlí ár hvert í samræmi við 15. gr. þingfararkaupslaga sem kveður á um breytingu í samræmi við útreikning Hagstofu Íslands á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Líklegt er að hækkun verði, miðað við þá kjarasamninga sem félög opinberra starfsmanna hafa gert á síðasta ári. Gera má því ráð fyrir að álagsgreiðsla geti orðið um eða yfir 2 millj. kr. á ári en þá um 1 millj. kr. á yfirstandandi ári. Álagsgreiðsla fyrir yfirstandandi ár rúmast innan fjárheimilda þingsins en ekki á næstu árum að óbreyttu. Tryggja þarf því fjármögnun þessara greiðslna í fjárlagafrumvörpum út kjörtímabilið.