Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 434 — 351. mál.
Stjórnarfrumvarp.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018 (aflaverðmæti í reiknistofni).
Frá atvinnuvegaráðherra.
1. gr.
a. Við 2. málsl. 1. mgr. bætist: þó ekki frystiskip, þ.e. fiskiskip sem frysta um borð og landa 50% aflans eða meira sem frystum afla.
b. Í stað 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Aflaverðmæti skal umreikna úr slægðum eða unnum afla til óslægðs afla. Aflaverðmæti skal byggjast á greinargerð um tekjur og kostnað skv. 5. mgr. Lækka skal skráð aflaverðmæti landaðs frysts afla um 20% þegar 50% eða meira af lönduðum afla tegundarinnar eru frystar afurðir.
Þrátt fyrir 5. málsl. 1. mgr. skal niðurstaða fyrir öll fiskiskip sem veiddu síld, kolmunna, makríl, þorsk og ýsu taka breytingum miðað við mismuninn á aflaverðmæti skv. 2. málsl. 2. mgr. og aflaverðmæti sem hér segir:
1. Aflaverðmæti eftirfarandi tegunda skal miðast við meðalverð fyrir hvern mánuð á hvert kílógramm samkvæmt opinberum gögnum um fiskverð frá fiskistofu Noregs. Verðmæti þess aflamagns sem veiðist í hverjum mánuði skal miðast við meðalverð aflaverðmætis þess mánaðar. Við umreikning úr norskum krónum í íslenskar krónur skal miða við miðgengi norsku krónunnar árið 2024 og skal það viðmið taka breytingum árlega miðað við miðgengi SDR á hverju almanaksári sem reiknistofn miðast við. Fiskistofa skal safna upplýsingum um eftirfarandi tegundir og birta opinberlega:
a. Norsk-íslenska síld á því tímabili sem íslensk skip stunda veiðar ár hvert og reiknistofn miðast við. Þó skal miða verð síldar annarrar en norsk-íslenskrar síldar við 90% af aflaverðmæti norsk-íslenskrar síldar.
b. Kolmunna á því tímabili sem íslensk skip stunda veiðar ár hvert og reiknistofn miðast við.
c. Makríl á því tímabili sem íslensk skip stunda veiðar ár hvert og reiknistofn miðast við.
2. Aflaverðmæti fyrir þorsk og ýsu skal miðast við meðalverð á hvert kílógramm hvers mánaðar á fiskmarkaði yfir 12 mánaða tímabil sama ár og reiknistofn miðast við, að teknu tilliti til vegins meðaltals verðs slægðs og óslægðs afla. Fiskistofa skal safna þeim upplýsingum og birta opinberlega.
3. Liggi ekki fyrir upplýsingar um meðalverð tegundar skv. 1. og 2. tölul. í tilteknum mánuði skal aflaverðmæti þess mánaðar byggjast á greinargerð skv. 5. mgr.
c. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Til breytilegs kostnaðar við fiskveiðar telst launakostnaður áhafna, eldsneyti eða annar orkugjafi fiskiskipa, veiðarfærakostnaður, viðhald fiskiskipa, frystikostnaður og umbúðir, löndunarkostnaður, hafnargjöld og eftirlits- og leyfisgjöld í fiskveiðum önnur en veiðigjald, flutningskostnaður, tryggingar, sölukostnaður og stjórnunarkostnaður. Til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar. Séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skal ríkisskattstjóri dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár. Áætluð vaxtagjöld skulu nema sömu fjárhæð og þær fyrningar sem lagðar eru til grundvallar útreikningi á veiðigjaldi á ári hverju.
d. Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 5. mgr.
e. Í stað tilvísunarinnar „2. og 3. mgr.“ og „3. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 2.–5. mgr.; og: 5. mgr.
2. gr.
a. Í stað orðanna „frítekjumark nema 40% af fyrstu 6 millj. kr. álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila“ í 1. málsl. kemur: frítekjumark nema 40% af fyrstu 9 millj. kr. álagningar hvers árs fyrir alla nytjastofna nema þorsk og ýsu. Frítekjumark fyrir þorsk og ýsu skal nema 40% af fyrstu 50 millj. kr. álagningar veiðigjalds hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila.
b. 2. málsl. orðast svo: Þessar fjárhæðir taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá janúarmánuði 2025 fram að ákvörðunardegi skv. 4. gr.
3. gr.
Greinargerð.
Frumvarp þetta er samið í atvinnuvegaráðuneytinu. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skráðu aflaverðmæti fyrir tiltekna nytjastofna við útreikning reiknistofns veiðigjalds samkvæmt lögum um veiðigjald, nr. 145/2018. Markmið frumvarpsins er að tryggja að reiknað aflaverðmæti tiltekinna nytjastofna endurspegli betur raunverulegt aflaverðmæti og þar með réttlát auðlindagjöld fyrir aðgang að sjávarauðlindinni sem sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar. Einnig er frumvarpinu ætlað að mæta betur tilgangi innheimtu veiðigjalda sem er skv. 1. gr. laganna að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Tilefni þessa frumvarps er áhersla í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins frá 21. desember 2024. Þar kemur m.a. fram að ríkisstjórnin muni móta auðlindastefnu um sjálfbæra nýtingu og réttlát auðlindagjöld.
Endurskoðun á lögum um veiðigjald hefur verið til umfjöllunar um nokkurt skeið. Meðal annars var í fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029, nr. 20/154, sem samþykkt var sem þingsályktun á Alþingi 22. júní 2024, mælt fyrir endurskoðun laga um veiðigjald þar sem gera þyrfti breytingar á veiðigjaldi til að tryggja auknar tekjur ríkissjóðs á tímabili fjármálaáætlunarinnar. Drög að frumvarpi þess efnis var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 11. september 2024 (mál nr. S-175/2024) þar sem lagt var til að veiðigjald á uppsjávartegundir, þ.e. síld, loðnu, kolmunna og makríl, yrði hækkað úr 33% af reiknistofni í 45% reiknistofns og 10% álag á aflaverðmæti framangreindra uppsjávartegunda yrði fellt brott sem og að heimild laganna til að telja veiðigjald til rekstrarkostnaðar skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, yrði felld brott. Í tekjuforsendum fjármálaáætlunar fyrir árin 2025–2029 var gert ráð fyrir að viðbótartekjur af veiðigjaldi yrðu 2 milljarðar kr. á árinu 2025, 3 milljarðar kr. á árinu 2026 og 4 milljarðar kr. frá og með árinu 2027.
Nokkur óvissa er um innheimtu veiðigjalda hvers árs og geta frávik verið veruleg. Á árinu 2023 var veiðigjald t.d. áætlað 9,5 milljarðar kr. en innheimt veiðigjald nam 10 milljörðum kr. og nam frávik áætlaðs og innheimts veiðigjalds um 5,5%. Ræðst sú óvissa m.a. af því að veiðigjald byggist á aflaverðmæti nytjastofna og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla hverrar tegundar fyrir sig, sem liggur ekki fyrir nema í ár í senn. Ef slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir hefur verið stuðst við óbreytt veiðigjald að teknu tilliti til verðlagsbreytinga og óbreyttrar ráðgjafar.
Í frumvarpinu er lögð til önnur aðferðafræði en sú sem kynnt var í fyrri drögum að frumvarpi og vísað var m.a. til í fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029. Í stað þess að gera breytingar á útreikningi veiðigjaldsins verður hlutfallið óbreytt, 33%, og áfram heimilt að draga veiðigjald frá tekjuskattsstofni. Í frumvarpi þessu eru aftur á móti lagðar til breytingar á viðmiðum við útreikning reiknistofns veiðigjaldsins.
2.1. Tilgangur innheimtu veiðigjalds.
Veiðigjald er lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar, sbr. 1. gr. laganna. Í frumvarpi því sem varð að lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, var vísað til tillagna auðlindarnefndar sem skipuð var um aldamótin. Í álitsgerð nefndarinnar frá september 2000 kemur m.a. fram að nefndin sé „þeirrar skoðunar að rétt sé að stefna að greiðslu fyrir afnotarétt af öllum auðlindum sem eru í eigu ríkis eða þjóðar af tvennum ástæðum: annars vegar til að greiða kostnað ríkisins af stjórn og eftirliti við viðkomandi auðlind, hins vegar til að tryggja þjóðinni í heild sýnilega hlutdeild í þeim umframarði sem nýting hennar skapar. Nefndin er þeirrar skoðunar að greiðsla fyrir afnot af auðlindinni geti stuðlað að því að sátt geti tekist um stjórn fiskveiða, enda verði sú gjaldtaka ákveðin með hliðsjón af afkomuskilyrðum og uppbyggingu sjávarútvegsins og þeirri óvissu sem hann á við að búa, m.a. vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á aflabrögðum og vegna alþjóðlegrar samkeppni, þar á meðal þau skilyrði sem sjávarútvegur annarra þjóða býr við.“
Enn fremur segir í skýringum við 1. gr. laga um veiðigjald að bein og sýnileg hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar sé í samræmi við skrif og áherslur auðlindanefndar og til áréttingar um að aðrir atvinnuvegir og borgarar landsins njóti margvíslegs óbeins gróða af öflugum sjávarútvegi á Íslandi.
2.1.1. Kostnaður við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu.
Matvælaráðuneyti, nú atvinnuvegaráðuneyti, lagði mat á kostnað ríkisins á grunn- og þjónusturannsóknum á fiskistofnum eða lífríki hafsins, stjórnsýslu fiskveiða sem og löggæslueftirlits með fiskveiðum árið 2023 og nam kostnaðurinn um 8 milljörðum kr. á ári. Sú fjárhæð var nálægt 4,1% af aflaverðmæti íslenskra fiskiskipa miðað við árið 2022. Við matið var nálgunin sú að nota viðeigandi hlutfall af framlagi úr ríkissjóði til hvers málaflokks fyrir sig, en í matinu er einnig talinn hluti framlaga úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2023 til Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslu Íslands, Verðlagsstofu skiptaverðs, siglingadeildar Samgöngustofu og ýmissa framlaga í sjávarútvegi, svo sem vegna fiskveiðistjórnar og alþjóðamála. Séu önnur framlög úr ríkissjóði sem tengjast rannsóknum, stjórn, eftirliti og umsjón með fiskveiðum og vinnslu einnig talin var heildarkostnaður vegna þjónustu ríkisins við sjávarútveg um 11 milljarðar kr. árið 2023. Að teknu tilliti til innheimtu veiðigjalda árið 2023 stóðu tekjur af veiðigjaldi ekki undir þessum kostnaði ríkisins. Þá hefur um árabil verið ákall um auknar hafrannsóknir og vöktun nytjastofna og verður ekki brugðist við slíku ákalli nema með auknum tekjum til að standa undir frekari kostnaði við hafrannsóknir og vöktun.
2.1.2. Bein og sýnileg hlutdeild í afkomu við veiðar.
Veiðigjaldi er einnig ætlað að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar og felur í sér greiðslu fyrir aðgang að auðlindinni. Með vísan til framangreinds þyrfti veiðigjald að hækka enn frekar ef ná ætti tilgangi veiðigjalda skv. 1. gr. laganna, um að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
2.2. Nauðsyn lagasetningar.
Um veiðigjald er mælt fyrir í ákvæðum laga um veiðigjald, nr. 145/2018. Verður framkvæmd við útreikning veiðigjalda því ekki breytt nema til komi breytingar á lögunum. Þær meginbreytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru tvíþættar og miða að þeim tilgangi laganna að greidd séu réttlát auðlindagjöld fyrir aðgang að sjávarauðlindinni sem sýnileg hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á skráðu aflaverðmæti uppsjávartegunda, þ.e. norsk-íslenskrar síldar, annarrar síldar, kolmunna og makríls. Viðskipti með afla þeirra tegunda eru nánast eingöngu í beinni sölu, þ.e. milli skyldra aðila. Vísbendingar eru um að verðmyndun í slíkum viðskiptum á Íslandi gefi ekki rétta mynd af raunverulegu markaðsverði. Við undirbúning þessa frumvarps var unnin norsk greining um verðmyndun á Íslandi samanborið við Noreg þar sem öll viðskipti með afla umræddra tegunda fara fram á opnum markaði. Greiningin leiddi í ljós að verð á markaði í Noregi er í mörgum tilvikum töluvert hærra en verð í beinni sölu á Íslandi. Þannig eru afgerandi vísbendingar um að verðmyndun á Íslandi endurspegli ekki raunverulegt aflaverðmæti þessara nytjastofna. Í frumvarpinu er því lagt til að miðað verði við markaðsverð í Noregi til að nálgast betur raunverulegt aflaverðmæti þeirra tegunda sem nánar er fjallað um í kafla 3.6.
Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á skráðu aflaverðmæti þorsks og ýsu. Með sama hætti og lýst er hvað varðar áðurnefndar tegundir uppsjávarfisks fer stór hluti viðskipta með afla þorsks og ýsu fram í beinni sölu. Töluverður munur hefur verið á verði í slíkri sölu og því verði sem fæst á opnum markaði fyrir sama afla. Nægileg viðskipti eru með ýsu og þorsk á fiskmörkuðum sem ætla má að gefi rétta mynd af aflaverðmæti umræddra tegunda. Er því lagt til í frumvarpinu að aflaverðmæti miðist við verð á fiskmarkaði í stað þess að miða að hluta við verð í beinni sölu sem nánar er fjallað um í kafla 3.7.
Breytingum samkvæmt frumvarpinu er þannig ætlað að tryggja að aflaverðmæti nytjastofna í reiknistofni veiðigjalda fyrir síld, kolmunna, makríl, þorsk og ýsu endurspegli betur þau verðmæti sem myndast við nýtingu á viðkomandi nytjastofni. Gildandi löggjöf dugir því ekki til svo að mæta megi kostnaði og hlutdeild í afkomu í samræmi við tilgang innheimtu veiðigjalds skv. 1. gr. laganna.
3. Meginefni frumvarpsins.
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 5. gr. laga um veiðigjald, en í ákvæðinu er fjallað um reiknistofn við útreikning veiðigjalds. Lagðar eru til breytingar á aflaverðmæti einstakra nytjastofna sem miðað er við þegar reiknistofn veiðigjalds er ákveðinn.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á viðmiðum aflaverðmætis fyrir tilteknar tegundir þannig að viðmið í reiknistofni veiðigjalds endurspegli betur raunverulegt aflaverðmæti. Í gildandi ákvæðum laga um veiðigjald er raunverulegt aflaverðmæti ekki tiltekið sérstaklega og þegar litið er til verðmyndunar á opnum markaði endurspeglar það aflaverðmæti sem miðað er við ekki raunverulegt aflaverðmæti í tilteknum nytjastofnum.
Í frumvarpinu eru því lagðar til breytingar á viðmiðum aflaverðmætis hvað varðar norsk-íslenska síld, aðra síld, kolmunna, makríl, þorsk og ýsu. Lagt er til að Fiskistofa safni upplýsingum um aflaverðmæti í þessum nytjastofnum og birti þær opinberlega og afhendi ríkisskattstjóra sem á grundvelli þeirra og upplýsinga í greinargerð um tekjur og kostnað af veiðum fiskiskipa geri tillögu til ráðherra um fjárhæð veiðigjalds.
Áfram er byggt á aðferðafræði gildandi laga um veiðigjald og reiknistofn veiðigjalds reiknaður í þremur skrefum:
1. Fyrst skal reikna fyrir hvert fiskiskip, að frystiskipum undanskildum. Frá aflaverðmæti hvers nytjastofns sem skipið veiðir skal draga hlutdeild nytjastofnsins í breytilegum og föstum kostnaði skipsins við veiðiúthald. Hlutdeild í breytilegum og föstum kostnaði við veiðiúthald skal vera jöfn hlutdeild aflaverðmætis stofnsins af heildaraflaverðmæti skipsins á almanaksári.
2. Næst skal leggja saman þá niðurstöðu fyrir öll fiskiskip sem veiddu nytjastofninn.
3. Að lokum skal deila í samtölu þessa með öllu aflamagni nytjastofnsins hjá öllum fiskiskipunum á sama almanaksári.
Þá eru ekki áformaðar breytingar á 3. mgr. 5. gr. laganna þar sem kveðið á um skilaskyldu eigenda, útgerðaraðila og rekstraraðila íslenskra fiskiskipa á sérstakri greinargerð um tekjur og kostnað af veiðum fiskiskipa og úthaldi þeirra.
Verði frumvarpið að lögum mun undirbúningur og útreikningur ríkisskattstjóra áfram vera á þann veg að reiknað er út aflaverðmæti og kostnaður fyrir hvert fiskiskip. Frá aflaverðmæti hvers nytjastofns, samkvæmt greinargerð um tekjur og kostnað (RSK 4.29), er dregin frá hlutdeild í breytilegum og föstum kostnaði. Þessu næst skal leggja saman niðurstöðu fyrir öll fiskiskip sem veiddu nytjastofninn. Á grundvelli upplýsinga frá Fiskistofu um aflaverðmæti síldar, kolmunna, makríls, þorsks og ýsu, eins og kveðið er á um í frumvarpi þessu, skal ríkisskattstjóri umreikna niðurstöður úr skrefi tvö fyrir þær tegundir. Ríkisskattstjóri tekur því næst mismuninn á aflaverðmæti samkvæmt greinargerð um tekjur og kostnað og aflaverðmæti samkvæmt frumvarpi þessu og umreiknar og fær nýja niðurstöðu fyrir tegundirnar fimm. Kostnaðardreifing milli tegunda miðast því áfram við niðurstöður úr greinargerð um tekjur og kostnað (RSK 4.29). Að lokum er deilt í samtöluna með heildaraflamagni hvers nytjastofns hjá öllum fiskiskipum á sama almanaksári. Ríkisskattstjóri gerir því næst tillögu til ráðherra um fjárhæð veiðigjalds hvers nytjastofns fyrir komandi veiðigjaldsár. Frumvarpið hefur þar af leiðandi ekki áhrif á aðrar tegundir nytjastofna en þær sem fjallað er um í frumvarpi þessu.
Gjaldstofn til álagningar veiðigjalds skv. 3. gr. laganna er áfram allur afli íslenskra fiskiskipa úr nytjastofnum sjávar samkvæmt upplýsingum úr aflaskráningarkerfi Fiskistofu að frátöldum afla sem reiknast ekki til aflamarks skips skv. 9. mgr. 11. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
3.1. Ákvæði a-liðar 1. gr. frumvarpsins.
Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að frystiskip verði ekki hluti af reiknistofni veiðigjalds skv. 5. gr. laganna. Samhliða því er áformað að fella brott lækkun á skráðu aflaverðmæti frysts afla skv. 2. mgr. 5. gr. laganna. Sá afsláttur er 10% og endurspeglar ekki raunverulegt aflaverðmæti þar sem um er að ræða fullunna vöru við löndun. Því er lagt til að við útreikning reiknistofns veiðigjalds sé ekki tekið tillit til aflaverðmæta frystiskipa, þó er í b-lið 1. gr. frumvarpsins kveðið á um að aflaverðmæti skuli lækkað um 20% þegar 50% eða meira af lönduðum afla hverrar tegundar er frystur. Þá er einnig lagt til að í 1. mgr. 5. gr. laganna verði skilgreint hvaða skip teljist vera frystiskip, en það eru þau skip sem frysta afla um borð og landa 50% eða meira af frystum afla. Þrátt fyrir að frystiskip séu ekki hluti af útreikningi reiknistofns munu þau þó greiða áfram veiðigjald skv. 2. gr. laga um veiðigjald, en gjaldskyldir eru eigendur íslenskra fiskiskipa.
3.2. Ákvæði b-liðar 1. gr. frumvarpsins.
Í b-lið 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til nýjar 2. og 3. mgr. 5. gr. laganna og þar með verði annars vegar lækkun á skráðu aflaverðmæti landaðs frysts afla um 10% felld brott og hins vegar hækkun á skráðu aflaverðmæti síldar, loðnu, kolmunna og makríls um 10%. Lagt er til að Fiskistofa safni upplýsingum um aflaverðmæti tiltekinna tegunda og birti opinberlega, t.d. á vef stofnunarinnar. Fyrir tilteknar uppsjávarfisktegundir er lagt til að aflaverðmæti miðist við meðalverð á hvert kg samkvæmt opinberum gögnum um fiskverð frá fiskistofu Noregs (Fiskeridirektoratet) á ákveðnum tímabilum, að teknu tilliti til vegins aflamagns hvers mánaðar. Lagt er til að aflaverðmæti verði umreiknað úr norskum krónum í íslenskar krónur miðað við miðgengi norsku krónunnar árið 2024 og taki breytingum miðað við miðgengi SDR (e. Special Drawing Rights) á almanaksári sem reiknistofn er til viðmiðunar. Ástæða þess að miðað er við gengi SDR er til að draga úr áhrifum af mögulegum sveiflum á gengi norsku krónunnar. Gengi SDR er skráð og birt á vef Seðlabanka Íslands og er reiknað út frá gengi tiltekinnar körfu þeirra gjaldmiðla sem helst eru notaðir í milliríkjaviðskiptum. Þannig miðist t.d. aflaverðmæti norsk-íslenskrar síldar við meðalverð á því tímabili þegar íslensk skip stunda veiðar ár hvert. Þegar um er að ræða verð annarrar síldar en norsk-íslenskrar síldar skal miða verð við 90% af aflaverðmæti norsk-íslenskrar síldar þar sem verð á íslenskri síld undanfarin ár hefur að jafnaði verið lægra en norsk-íslenskrar síldar. Þá er lagt til að aflaverðmæti kolmunna miðist við meðalverð á hvert kílógramm á því tímabili sem íslensk skip stunda veiðar sama ár og reiknistofn er til viðmiðunar. Aflaverðmæti makríls miðist við meðalverð á tímabilinu þegar íslensk skip stunda veiðar ár hvert, sem að jafnaði hefur verið frá 1. júlí til og með 31. ágúst. Þá er lagt til að aflaverðmæti þorsks og ýsu miðist við meðalverð hvers mánaðar á fiskmarkaði yfir 12 mánaða tímabil sama ár og reiknistofn er til viðmiðunar, að teknu tilliti til vegins meðaltals verðs slægðs og óslægðs afla.
Þannig yrði við útreikning reiknistofns veiðigjalds fyrir t.d. norsk-íslenska síld á veiðigjaldsárinu 2026, sbr. 4. gr. laga um veiðigjald, litið til aflaverðmætis á því tímabili þegar íslensk skip stunda veiðar ár hvert, sem var á tímabilinu 1. september til og með 31. október 2024, sem er þá árið sem reiknistofninn er til viðmiðunar samkvæmt lögum um veiðigjald.
Aflaverðmæti annarra nytjastofna fyrir hvert fiskiskip mun áfram byggjast á upplýsingum um aflaverðmæti sem koma fram í greinargerð um tekjur og kostnað af veiðum fiskiskipa skv. 3. mgr. 5. gr. laganna (RSK 4.29).
Þá er lagt til að aflaverðmæti í reiknistofni landaðs frysts afla lækki um 20% þegar 50% eða meira af lönduðum afla viðkomandi tegundar er frystur. Með breytingunni ætti reiknistofninn að endurspegla betur raunverulegt aflaverðmæti en samkvæmt gildandi lögum. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að aflaverðmæti frystitogara sé lækkað um 10% en við frekari skoðun er aflaverðmæti frystiskipa að jafnaði hærra en sem nemur framangreindri lækkun, enda er um fullunna vöru að ræða. Þar af leiðandi er lagt til að frystiskip séu ekki í reiknigrunni veiðigjalds til þess að taka út þau áhrif af vinnsluhluta frystiskipa. Óvissa er um áhrif þessarar breytingar en líklegt er að hún muni leiða til lækkunar á reiknistofninum að öðru óbreyttu. Áfram mun þó verða greitt veiðigjald af frystum afla sem ber veiðigjald þótt aflaverðmæti frystra afurða verði ekki hluti af reiknistofni veiðigjaldsins.
Með frumvarpinu eru því ekki lagðar til verulegar breytingar á aðferðafræði við útreikning reiknistofns veiðigjalds heldur breytta nálgun á viðmiði aflaverðmætis í reiknistofni veiðigjalda fyrir tilteknar tegundir. Nánar er fjallað um aflaverðmæti einstakra tegunda í kafla 3.6 og áhrif breytinga á aðferðafræðinni í 6. kafla.
3.3. Ákvæði c–e-liðar 1. gr. frumvarpsins.
Í c-lið er lagt til að 3.–6. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna sem fjalla um breytilegan og fastan kostnað, verði komið fyrir í nýrri 4. mgr. 5. gr. og breytist þá röð málsgreina þar á eftir. Er breytingin lögð til svo að skrefin í útreikningi reiknistofns veiðigjalds haldist í réttri röð innan greinarinnar. Í d- og e-lið eru lagðar til breytingar á tilvísunum til málsgreina innan 5. gr. þar sem röð þeirra tekur breytingum.
3.4. Ákvæði 2. gr. frumvarpsins.
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem hafa þau áhrif að veiðigjald hækkar og mun sú hækkun hafa einna mest áhrif á botnfiskútgerðir sem ekki reka vinnslu. Til þess að milda áhrif breytinganna á litlar og meðalstórar útgerðir eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á frítekjumarki skv. 6. gr. laganna. Í gildandi lögum er við álagningu veiðigjalds kveðið á um að frítekjumark skuli nema 40% af fyrstu 6 millj. kr. álagningar hvers árs hjá gjaldskyldum aðila. Í frumvarpinu er lagt til að frítekjumark verði þrepaskipt eftir tegundum og verði áfram 40% af fyrstu 9 millj. kr. álagningar fyrir allar tegundir nytjastofna sjávar aðrar en þorsk og ýsu. Lagt er til að frítekjumark fyrir þorsk og ýsu nemi 40% af fyrstu 50 millj. kr. álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila. Þá er lagt til að fjárhæðin taki breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá janúarmánuði 2025 fram að ákvörðunardegi. Um er að ræða sömu vísitölu og miðað er við í gildandi lögum um veiðigjald, nema vísitala neysluverðs til verðtryggingar er með tveggja mánaða töf og algengara er að notast sé við hana.
3.5. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins.
Samkvæmt 4. gr. laganna er veiðigjaldsár almanaksárið frá 1. janúar til og með 31. desember. Samkvæmt auglýsingu um veiðigjald 2025, nr. 1340/2024, hefur gjald á landaðan afla frá og með 1. janúar 2025 til og með 31. desember 2025 verið ákveðið. Í frumvarpinu er því lagt til að gildistaka frumvarpsins verði 1. nóvember 2025 þannig að svigrúm verði fyrir Fiskistofu og ríkisskattstjóra að undirbúa tillögu að fjárhæð veiðigjalds samkvæmt lögunum fyrir 1. desember 2025, en gagnaöflun ríkisskattstjóra er nú þegar hafin vegna álagningar veiðigjalda 2026. Breyting á aflaverðmæti við útreikning á reiknistofni veiðigjalds kemur því til framkvæmda á veiðigjaldsárinu 2026.
3.6. Greining á aflaverðmæti uppsjávartegunda og áhrif.
Við gerð þessa frumvarps var greint norskt verð á nokkrum uppsjávarfisktegundum, þ.e. norsk-íslenskri síld, annarri síld, kolmunna og makríl. Upplýsingar um fiskverð eru aðgengilegar hjá fiskistofu Noregs. Við greininguna var leitast við að skoða verð í Noregi þannig að sem nákvæmasti samanburður væri til staðar. Þegar verð á síld var t.d. skoðað var stuðst við verð á norsk-íslenskri síld veiddri í september og október ár hvert. Við skoðun á verði á makríl var stuðst við verð í júlí og ágúst ár hvert, en þessi veiðitímabil voru valin til samanburðar vegna þess að þau eru sömu veiðitímabil og þegar íslensk skip veiða tegundirnar. Munur getur verið á gæðum aflans og þar með endanlegu afurðaverði eftir því hvenær tegundirnar tvær eru veiddar. Til að mynda sækja norsk skip sérstaklega makríl á haustin en þá er aflinn verðmætari, en makríllinn gengur inn í lögsögu Íslands yfir sumarmánuðina og í Síldarsmuguna í júlí og ágúst. Á þeim tíma hefur Noregur haft aðgang að breskri lögsögu ásamt þeirri norsku og leggur þess vegna áherslu á veiðar á haustin.
Gæði kolmunnaafla eru óháð því hvenær veiðin fer fram og var því stuðst við gögn fyrir almanaksár til samanburðar. Við verðlagsgreiningu á Íslandi voru notuð gögn frá Hagstofu Íslands um aflamagn og aflaverðmæti og stuðst við verð á almanaksári. Í töflu 1 má sjá aflaverðmæti á hvert kg á Íslandi eftir tegund. Niðurstaðan er sú að aflaverðmæti þeirra tegunda sem hér eru til skoðunar er alla jafna hærra í Noregi en á Íslandi. Mestur verðmunur er á makríl á milli landanna en minnstur á kolmunna.
Tafla 1. Aflaverðmæti í íslenskum krónum á hvert kg uppsjávartegunda á Íslandi og Noregi og verðmunur.
|
Tegund | Ísland |
Noregur |
Verðmunur |
2023 |
Síld* | 84 |
125 |
48% |
Kolmunni | 38 |
43 |
15% |
|
Makríll | 93 |
208 |
124% |
|
2022 |
Síld | 67 |
94 |
41% |
Kolmunni | 35 |
38 |
7% |
|
Makríll | 72 |
171 |
136% |
|
2021 |
Síld | 71 |
94 |
32% |
Kolmunni | 27 |
38 |
39% |
|
Makríll | 56 |
136 |
144% |
|
*Verð í Noregi er lækkað miðað við vegið aflamagn og 10% lækkun. |
Tveimur meginsíldarstofnum er landað á Íslandi, íslenskri sumargotssíld og norsk-íslenskri síld. Stofnarnir tveir eru veiddir á svipuðum tíma, þó er meira veitt af sumargotssíld lengra fram eftir vetri. Í frumvarpinu er lagt til að miða aflaverðmæti í reiknistofni við verð á norsk-íslenskri síld í Noregi. Gögn undanfarinna ára sýna að verðmunur er á norsk-íslenskri síld og annarri síld samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Því er lagt til að við slíkar aðstæður verði aflaverðmæti til viðmiðunar 90% af aflaverðmæti norsk-íslenskrar síldar.
Töflur 2 og 3 sýna að lítill munur er á afurðaverði á milli landanna þrátt fyrir að um sé að ræða samanburð á almanaksári en ekki aðeins hluta af árinu eins og gert er ráð fyrir í töflu 1 hvað varðar aflaverðmæti makríls og síldar. Því getur hærra afurðaverðmæti ekki að öllu leyti skýrt hærra aflaverðmæti.
Tafla 2. Samanburður á afurðaverði í íslenskum kr. á makríl í Noregi og á Íslandi 2020–2024.
Makríll | 2020 | 2021 | 2022 | 2023 | 2024 | |
Noregur | Afurðaverðmæti | 71.744.475 | 87.095.544 | 88.266.024 | 87.007.232 | 106.544.724 |
Magn | 299.349 | 388.833 | 340.683 | 306.420 | 313.207 | |
Verð á kg | 240 | 224 | 259 | 284 | 340 | |
Ísland | Afurðaverðmæti | 24.808.326 | 19.366.722 | 15.880.180 | 15.502.124 | 16.624.922 |
Magn | 109.836 | 88.660 | 62.252 | 61.860 | 54.994 | |
Verð á kg | 226 | 218 | 255 | 251 | 302 |
Tafla 3. Samanburður á afurðaverði í íslenskum kr. á síld í Noregi og á Íslandi 2020–2024.
Síld | 2020 | 2021 | 2022 | 2023 | 2024 | |
Noregur | Afurðaverðmæti | 54.799.800 | 62.409.604 | 54.813.990 | 52.732.448 | 54.454.194 |
Magn | 318.009 | 350.237 | 292.607 | 239.373 | 227.898 | |
Verð á kg | 172 | 178 | 187 | 220 | 239 | |
Ísland | Afurðaverðmæti | 17.659.352 | 19.497.566 | 25.293.960 | 31.900.333 | 28.064.830 |
Magn | 103.522 | 106.472 | 105.623 | 122.821 | 96.534 | |
Verð á kg | 171 | 183 | 239 | 260 | 291 |
Við gerð þessa frumvarps var fengið utanaðkomandi álit frá dr. Sigbjørn Landazuri Tveteraas, prófessor í hagfræði við Stavanger Háskólann. Í álitinu var farið yfir verð á markaði í Noregi. Ártölin í töflu 1 eru notuð í reiknistofn til útreiknings á veiðigjaldi áranna 2023, 2024 og 2025. Í töflu 3 er sýnt annars vegar hvernig veiðigjald á hvert kg myndi breytast með því að styðjast við norsk verð og hins vegar breytingar á heildarveiðigjaldi. Útreikningarnir voru tvíþættir. Annars vegar voru greind áhrif þess að reiknistofninn yrði án áhrifa hækkunar á uppsjávartegundum og lækkunar sjófrystra afurða, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Hins vegar voru greind áhrif þess að nota verð í Noregi fyrir uppsjávartegundirnar. Þau verð voru fengin frá fiskistofu Noregs. Með þessum tveimur skrefum verður til nýr reiknistofn þar sem aflaverðmætin verða uppreiknuð miðað við norsk verð, sem mynda viðmið aflaverðmætis í síld, kolmunna og makríl við útreikning reiknistofns veiðigjalds.
Áður en frumvarpið var birt í samráðsgátt var leitað aftur til dr. Sigbjørns Landazuri Tveteraas og óskað eftir frekari greiningu á efnahagslegri stöðu uppsjávarvinnslna í Noregi. Einnig var kannað hvort norska ríkið hefði aðkomu að rekstri vinnslna í Noregi í formi ríkisstyrkja og þá hvernig. Greiningunni var skilað eftir að samráðsfrestur um drög frumvarpsins var liðinn. Í niðurstöðunni kemur fram að rekstrarhagnaður vinnslna sem framleiða uppsjávarafurðir til manneldis sé almennt lægri en hjá öðrum fyrirtækjum í norsku hagkerfi. Hins vegar skili vinnsla á mjöli og lýsi ásættanlegum hagnaði sem að hluta til megi rekja til hærra vöruverðs undanfarin ár. Einnig er í greiningunni bent á að mikil samkeppni um hráefni og gagnsæi í verðmyndun dragi úr afkomu vinnslunnar. Þannig sé lágt hlutfall hagnaðar einkum afleiðing framangreindra þátta. Greiningin staðfestir jafnframt að vinnslur í Noregi njóta ekki beinna ríkisstyrkja umfram aðrar atvinnugreinar. Hins vegar kemur fram að fyrirkomulagið í Noregi samsvari íslensku tryggingagjaldi (n. arbeidsgiveravgift). Þar er hlutfall gjaldsins á hinn bóginn breytilegt eftir landshlutum, með það að markmiði að styðja atvinnulíf og vinnumarkað í fámennari byggðum. Í greiningunni kemur enn fremur fram að um 75% af lönduðum afla berist til vinnslu á svæðum þar sem gjaldið er á bilinu 10,6–14,1%, sem telst til efstu gjaldflokkanna. Um 25% aflans er landað á svæðum þar sem gjaldið er lægra, eða 5,1%–6,4%. Flestar uppsjávarvinnslur eru staðsettar á svæðum með hátt tryggingagjald. Dæmi eru um svæði í Noregi þar sem ekkert tryggingagjald er greitt, t.d. í Finnmörk (0%).
Tafla 4 sýnir veiðigjald á kg hverrar tegundar miðað við núverandi viðmið við útreikning reiknistofns í samanburði við breytt viðmið aflaverðmætis með hliðsjón af norsku verði. Sjá má í töflunni að veiðigjald hækkar verulega fyrir utan veiðigjald á kolmunna árið 2024, en þá var verðmunur 7% á milli landanna tveggja eins og tafla 1 sýnir. Þannig leiddi 10% álag á aflaverðmæti uppsjávarfisktegunda til meiri hækkunar en að styðjast við norsk verð. Í töflu 4 má sjá hvernig samtals greitt veiðigjald væri í samanburði við núverandi löggjöf.
Tafla 4. Samanburður á veiðigjaldi uppsjávartegunda á hverja kr./kg.
Tímabil | Tegund | Núverandi veiðigjald | Frumvarp |
2025 |
Síld | 10,1 |
22,5 |
Kolmunni | 4,2 |
4,7 |
|
Makríll | 10,4 |
45,6 |
|
2024 |
Síld | 4,1 |
11,9 |
Kolmunni | 3,2 |
2,9 |
|
Makríll | 1,8 |
32,4 |
|
2023 |
Síld | 3,3 |
8,9 |
Kolmunni | 2,5 |
5,0 |
|
Makríll | 3,5 |
27,1 |
Tafla 5. Samanburður á áætluðu veiðigjaldi uppsjávartegunda í kr.
Tegund | Tímabil | Núverandi veiðigjald |
Frumvarp |
Mismunur |
Síld | 2025 |
1.008.768.079
|
2.118.583.187
|
1.109.815.108
|
2024 |
553.990.026
|
1.517.649.207
|
963.659.181
|
|
2023 |
621.854.150
|
1.587.472.356
|
965.618.207
|
|
Kolmunni | 2025 |
1.268.488.501
|
1.443.854.272
|
175.365.771
|
2024 |
1.026.093.431
|
929.504.678
|
-96.588.753
|
|
2023 |
730.608.010
|
1.478.114.721
|
747.506.711
|
|
Makríll | 2025 |
993.337.884
|
4.344.629.988
|
3.351.292.104
|
2024 |
160.633.237
|
2.899.646.652
|
2.739.013.415
|
|
2023 |
491.804.277
|
3.836.770.717
|
3.344.966.441
|
3.7. Greining á aflaverðmæti ýsu og þorsks og áhrif.
Við gerð þessa frumvarps voru greind verð og hlutfall magns á þorski og ýsu í beinni sölu og sölu sem fer fram á fiskmarkaði. Við þessa greiningu voru notuð gögn sem aðgengileg eru á vef Verðlagsstofu skiptaverðs. Í töflu 6 er sýnt hlutfall sölu eftir sölutegund og hvort um sé að ræða óslægðan eða slægðan afla af ýsu og þorski.
Tafla 6. Hlutfall magns í beinni sölu og sölu á fiskmarkaði eftir því hvort um óslægðan eða slægðan afla er að ræða af ýsu og þorski á árunum 2019–2024.
Tegund | Tímabil |
Hlutfall í beinni sölu |
Hlutfall á fiskmarkaði |
||
Óslægt |
Slægt |
Óslægt |
Slægt |
||
Ýsa | 2019 |
28,7% |
57,4% |
71,3% |
42,6% |
2020 |
34,5% |
67,0% |
65,5% |
33,0% |
|
2021 |
36,1% |
65,8% |
63,9% |
34,2% |
|
2022 |
41,2% |
62,4% |
58,8% |
37,6% |
|
2023 |
45,6% |
66,9% |
54,4% |
33,1% |
|
2024 |
46,9% |
67,3% |
53,1% |
32,7% |
|
Þorskur | 2019 |
55,9% |
95,8% |
44,1% |
4,2% |
2020 |
52,4% |
94,6% |
47,6% |
5,4% |
|
2021 |
57,7% |
94,8% |
42,3% |
5,2% |
|
2022 |
61,6% |
95,1% |
38,4% |
4,9% |
|
2023 |
61,7% |
95,5% |
38,3% |
4,5% |
|
2024 |
59,3% |
95,6% |
40,7% |
4,4% |
Eins sjá má í hér að framan voru allt að 71,3% óslægðrar ýsu og allt að 47,6% óslægðs þorsks seld á fiskmarkaði á síðustu sex árum. Jafnframt er hlutfall magns af slægðum afla fyrir þessar tvær tegundir sem seldar eru á fiskmarkaði allt að 42,6% af ýsu en einungis allt að 15,4% af þorski. Nokkur munur er á hlutfalli þess afla sem seldur er á fiskmörkuðum eftir tegundum og hvort um óslægðan eða slægðan afla er að ræða. Þegar meðalverð á ýsu og þorski í beinni sölu og sölu á fiskmörkuðum er borið saman kemur einnig í ljós að töluverður munur er á verði eftir tegund og hvort um óslægðan eða slægðan afla er að ræða eins og sjá má í töflu 7.
Tafla 7. Meðalverð fyrir ýsu og þorsk í beinni sölu og sölu á fiskmarkaði eftir því hvort um óslægðan eða slægðan afla er að ræða á árunum 2019–2024 og mismunur.
Tegund | Tímabil |
Bein sala (kr./kg) |
Fiskmarkaðir (kr./kg) |
Mismunur verðs í beinni sölu og á fiskmarkaði (kr./kg) og hlutfall mismunar af verði í beinni sölu |
|||||
Óslægt |
Slægt |
Óslægt |
Slægt |
Óslægt |
Slægt |
||||
Ýsa | 2019 |
215,48 |
193,90 |
275,88 |
250,84 |
60,41 |
28,0% |
56,94 |
29,4% |
2020 |
233,53 |
212,12 |
292,67 |
261,75 |
59,13 |
25,3% |
49,63 |
23,4% |
|
2021 |
264,34 |
239,82 |
343,53 |
310,48 |
79,18 |
30,0% |
70,66 |
29,5% |
|
2022 |
345,97 |
315,37 |
413,58 |
376,95 |
67,62 |
19,5% |
61,58 |
19,5% |
|
2023 |
282,25 |
250,98 |
335,26 |
280,35 |
53,01 |
18,8% |
29,38 |
11,7% |
|
2024 |
232,13 |
204,23 |
294,53 |
237,05 |
62,39 |
26,9% |
32,82 |
16,1% |
|
Þorskur | 2019 |
246,16 |
259,13 |
328,78 |
327,88 |
82,63 |
33,6% |
68,75 |
26,5% |
2020 |
272,42 |
275,31 |
339,06 |
340,82 |
66,64 |
24,5% |
65,51 |
23,8% |
|
2021 |
285,60 |
277,65 |
367,59 |
351,63 |
81,99 |
28,7% |
73,98 |
26,6% |
|
2022 |
341,78 |
344,33 |
439,06 |
436,58 |
97,28 |
28,5% |
92,24 |
26,8% |
|
2023 |
370,85 |
381,28 |
463,93 |
423,74 |
93,08 |
25,1% |
42,47 |
11,1% |
|
2024 |
386,15 |
371,88 |
472,03 |
452,77 |
85,87 |
22,2% |
80,89 |
21,8% |
Tafla 8. Meðalverð fyrir ýsu og þorsk í beinni sölu og sölu á fiskmarkaði á árunum 2019–2024 og mismunur að teknu tilliti til þess hvort um óslægðan eða slægðan afla er að ræða og hlutfalls magns.
Tegund |
Ár |
Bein sala (kr./kg) |
Fiskmarkaðir (kr./kg) |
Mismunur verðs í beinni sölu og á fiskmarkaði (kr./kg) |
Mismunur verðs í beinni sölu |
Meðaltal mismunar verðs í beinni sölu |
Ýsa | 2019 |
199,68
|
264,65
|
64,96
|
32,5%
|
26,4%
|
2020 |
217,60
|
279,40
|
61,80
|
28,4%
|
||
2021 |
244,92
|
326,09
|
81,18
|
33,1%
|
||
2022 |
322,21
|
391,82
|
69,61
|
21,6%
|
||
2023 |
259,44
|
306,28
|
46,83
|
18,1%
|
||
2024 |
212,20
|
264,76
|
52,55
|
24,8%
|
||
Þorskur | 2019 |
256,61
|
328,61
|
72,00
|
28,1%
|
25,8%
|
2020 |
274,76
|
339,43
|
64,67
|
23,5%
|
||
2021 |
279,34
|
364,13
|
84,78
|
30,4%
|
||
2022 |
343,73
|
438,54
|
94,81
|
27,6%
|
||
2023 |
378,87
|
455,87
|
77,00
|
20,3%
|
||
2024 |
375,18
|
468,51
|
93,32
|
24,9%
|
Meðaltal hlutfalls mismunar í beinni sölu og á fiskmarkaði er nær 26,4% af verði fyrir ýsu í beinni sölu og 25,3% af verði fyrir þorsk. Þrátt fyrir að mögulega sé einhver munur á gæðum afla og stærð fisks í beinni sölu og afla á fiskmarkaði er hlutfall þeirrar sölu sem á sér stað á fiskmarkaði það hátt að ólíklegt verður að telja að mismunurinn skýrist eingöngu af gæðum og stærð. Engu að síður var verð á fiskmarkaði að jafnaði nær fjórðungi hærra en verð í beinni sölu á tímabilinu 2019–2024.
Þegar mismunur reiknistofns veiðigjalds er greindur fyrir ýsu og þorsk út frá núverandi forsendum og þeim forsendum að miða við viðmiðunarverð sölu á fiskmarkaði þá kemur í ljós að viðbótaraflaverðmæti vegna áranna 2019–2023, sem kæmi til hækkunar stofns aflaverðmætis fyrir hvora tegund fyrir sig, væri eins og sýnt er í töflu 9.
Tafla 9. Áætlað viðbótaraflaverðmæti til hækkunar reiknistofns fyrir þorsk og ýsu út frá forsendum verðs á fiskmarkaði vegna áranna 2019–2023.
Tegund |
Ár |
Áætlað viðbótar-aflaverðmæti (kr.) |
Ýsa | 2019 |
861.685.170
|
2020 |
1.133.855.965
|
|
2021 |
1.682.731.598
|
|
2022 |
1.384.187.216
|
|
2023 |
1.014.260.395
|
|
Þorskur | 2019 |
11.566.953.862
|
2020 |
9.333.193.574
|
|
2021 |
13.874.005.066
|
|
2022 |
15.157.780.292
|
|
2023 |
11.421.529.117
|
Þegar framangreindar forsendur eru notaðar til þess að meta samanlögð áhrif álagðs veiðigjalds miðað við tímabilið 2022–2025 þá kemur í ljós að samanlögð hækkun veiðigjalds vegna tímabilsins er 55,4% eins og sjá má í töflu 10. Hækkun viðmiða aflaverðmætis leiðir til hækkunar reiknistofns sem notaður er við ákvörðun veiðigjalds og því mun veiðigjald fyrir ýsu og þorsk hækka ef frumvarpið verður að lögum eins og sjá má í töflu 10.
Tafla 10. Veiðigjald fyrir ýsu og þorsk (kr./kg) að teknu tilliti til hækkunar aflaverðmætis vegna 2022–2025.
Tegund | Tímabil | Veiðigjald (kr./kg) | Breyting vegna hækkunar aflaverðmætis (kr./kg) | Nýtt reiknað veiðigjald (kr./kg) |
Ýsa |
2022 | 17,11 | 5,17 | 22,28 |
2023 | 19,82 | 8,92 | 28,74 | |
2024 | 22,28 | 13,06 | 35,34 | |
2025 | 20,21 | 4,69 | 24,90 | |
Þorskur |
2022 | 17,74 | 10,52 | 28,26 |
2023 | 19,17 | 17,25 | 36,42 | |
2024 | 26,66 | 21,58 | 48,24 | |
2025 | 28,68 | 16,91 | 45,59 |
Þegar framangreindar forsendur eru notaðar til þess að meta samanlögð áhrif álagðs veiðigjalds vegna tímabilsins 2022–2024 kemur í ljós að samanlögð hækkun veiðigjalds án tillits til frítekjumarks á tímabilinu er 70,5% eins og sjá má í töflu 11.
Tafla 11. Álagt veiðigjald fyrir ýsu og þorsk og áætlað veiðigjald miðað við breyttar forsendur vegna 2022–2024.
Tímabil |
Álagt veiðigjald (kr.) |
Áætluð breyting álagningar vegna hækkunar aflaverðmætis (kr.) |
Veiðigjald miðað við breyttar forsendur (kr.) |
2022 |
5.068.346.737
|
2.736.275.717
|
7.804.622.454
|
2023 |
5.345.675.612
|
4.227.821.799
|
9.573.497.411
|
2024 |
7.466.455.103
|
5.643.642.662
|
13.110.097.765
|
Samtals 2022–2024
|
17.880.477.452
|
12.607.740.178
|
30.488.217.630
|
Þegar áhrif af álagningu veiðigjalds eftir veiðikerfum eru skoðuð án tillits til frítekjumarks eins og sjá má í töflu 12 kemur í ljós að hlutfallsleg hækkun veiðigjalds í strandveiðikerfi er 64,0% en 55,2% og 56,0% í aflamarks- og krókaaflamarkskerfinu. Þar sem ýsa er ekki veidd á strandveiðum væri hækkunin eingöngu vegna þorsks.
Tafla 12. Álagt veiðigjald fyrir ýsu og þorsk og veiðigjald miðað við breyttar forsendur vegna 2020–2024 og áhrif eftir flokkum veiðikerfa.
Ár |
Álagt veiðigjald (kr.) |
Veiðigjald miðað við breyttar forsendur (kr.) |
||||
Aflamark |
Krókaaflamark |
Strandveiði |
Aflamark |
Krókaaflamark |
Strandveiði |
|
2020 |
2.839.746.720
|
657.371.640
|
91.544.485
|
2.842.515.094
|
658.393.741
|
94.421.417
|
2021 |
4.132.902.421
|
931.357.767
|
147.224.649
|
5.860.419.214
|
1.338.340.208
|
228.469.843
|
2022 |
3.975.306.364
|
961.236.583
|
131.803.790
|
6.108.082.602
|
1.485.868.711
|
210.671.142
|
2023 |
4.204.096.356
|
988.066.390
|
153.512.866
|
7.515.434.062
|
1.766.536.631
|
291.526.717
|
2024 |
5.933.165.363
|
1.328.595.494
|
204.693.206
|
10.397.581.332
|
2.342.237.203
|
370.277.348
|
Samtals
2020-2024
|
21.085.217.224
|
4.866.627.874
|
728.778.996
|
32.724.032.304
|
7.591.376.494
|
1.195.366.467
|
3.8. Frítekjumark.
Hlutfallsleg hækkun veiðigjalds yrði mismunandi eftir veiðikerfum eins og sjá má í umfjölluninni hér að framan. Þetta þýðir að skoða þarf sérstaklega hvaða áhrif mögulegar breytingar gætu haft á einstakar útgerðir og flokka með tilliti til nýtingar frítekjumarks.
Tafla 13. Frítekjumark á árinu 2024 flokkað eftir hlutfalli nýtingar.
Flokkun nýtingar | Fjöldi | Krónur | Hlutfall ráðstöfunar |
100% |
98
|
332.262.336
|
59,8%
|
90–99% |
4
|
13.245.175
|
2,4%
|
80–89% |
2
|
5.455.591
|
1,0%
|
70–79% |
2
|
5.232.868
|
0,9%
|
60–69% |
6
|
13.089.239
|
2,4%
|
50–59% |
6
|
11.788.595
|
2,1%
|
40–49% |
1
|
1.402.653
|
0,3%
|
30–39% |
7
|
8.672.138
|
1,6%
|
20–29% |
18
|
15.162.882
|
2,7%
|
10–19% |
63
|
29.078.209
|
5,2%
|
0–9% |
712
|
120.033.608
|
21,6%
|
Samtals
|
919
|
555.423.294
|
100,0%
|
Þegar álagning veiðigjalds vegna 2024 er skoðuð nýta einungis um 100 sjávarútvegsfélög af þeim rúmlega 900 greiðendum veiðigjalds frítekjumark að hámarki 3.390.432 kr. til fulls, eins og sjá má í töflu 13. Í óbreyttu kerfi geta því um 800 aðilar nýtt sér óráðstafað frítekjumark til móts við mögulega hækkun veiðigjalds.
Með breytingu á frítekjumarki fækkar þeim aðilum sem myndu nýta frítekjumark að fullu þar sem frítekjumark til ráðstöfunar hækkar. Með slíkri ráðstöfun er unnt að koma til móts við smærri og meðalstóra aðila, eins og sjá má í töflu 14, og milda þannig áhrif breytinga samkvæmt frumvarpinu.
Tafla 14. Áætlað frítekjumark miðað við forsendur frumvarpsins árið 2024 flokkað eftir hlutfalli nýtingar.
Flokkun nýtingar |
Fjöldi |
Ráðstöfun |
Hlutfall ráðstöfunar |
100% |
27
|
605.877.107
|
29,5%
|
90%–99% |
13
|
272.033.714
|
13,3%
|
80%–89% |
17
|
333.760.796
|
16,3%
|
70%–79% |
5
|
85.887.984
|
4,2%
|
60%–69% |
2
|
29.392.581
|
1,4%
|
50%–59% |
14
|
173.695.708
|
8,5%
|
40%–49% |
7
|
71.206.986
|
3,5%
|
30%–39% |
6
|
48.515.975
|
2,4%
|
20%–29% |
11
|
62.332.278
|
3,0%
|
10%–19% |
20
|
68.369.524
|
3,3%
|
0%–9% |
797
|
300.639.550
|
14,7%
|
Samtals
|
919
|
2.051.712.204
|
100,0%
|
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
Við samningu frumvarpsins hefur þess verið gætt að efni þess samrýmist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, þ.m.t. skattlagningarákvæði 40. og 77. gr., jafnræðisreglu 65. gr. og friðhelgi eignarréttar í 72. gr., sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins.
Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar má engan skatt leggja á né breyta né taka af nema með lögum. Er þetta ítrekað í 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur að skattamálum skuli skipað með lögum og að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Þá verður enginn skattur lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að eignarrétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar og úthlutun veiðiheimilda myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildunum, sbr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Veiðiheimildir eru þannig aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar frá 6. apríl 2000 í máli nr. 12/2000. Hæstiréttur hefur slegið því föstu að löggjafinn geti innkallað veiðiheimildir, endurúthlutað þeim og mælt fyrir um rétt og skilyrði til fiskveiða og „innheimt fyrir hann fégjald vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru“, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar frá 26. mars 2013 í máli nr. 652/2012.
Ágreiningslaust er að veiðigjald er skattur í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. niðurstöður Hæstaréttar frá 28. janúar 2016 í máli nr. 461/2015 og frá 23. mars 2017 í máli nr. 213/2016. Með lögum skal því mælt fyrir um skattskyldu, skattstofn og reikniaðferð eða skatthlutfall. Þá verða öll fyrirmæli um veiðigjald, þ.m.t. breytingar á veiðigjaldi, að eiga sér skýra og ótvíræða lagastoð, stefna að almannahagsmunum og gæta verður meðalhófs við ákvörðun skattsins þannig að skattlagningin fari ekki úr hófi fram. Enn fremur verður skattlagningarvald ekki framselt til stjórnvalda og afturvirkir skattar verða ekki lagðir á. Þá leiðir af jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar að heimilt er að gera greinarmun á milli skattskyldra aðila svo fremi sem skattlagningin sé reist á almennum efnislegum mælikvarða sem byggist á málefnalegum sjónarmiðum og beitt með sambærilegum hætti gagnvart þeim sem eru í sambærilegri stöðu.
Greinarmunur á milli skattskyldra aðila er fylgifiskur skattalaga eins og sjá má í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, hvað varðar mismunandi skattþrep einstaklinga eftir tekjum, mismunandi skattlagningu lögaðila eftir formi þeirra og mismunun sumra lögaðila eftir starfsemi, sbr. 6% sérstakur fjársýsluskattur sem lagður er á vátryggingafélög og fjármálafyrirtæki, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Hvað varðar það hvort umrædd skattlagning stenst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar má vísa til dóms Hæstaréttar frá 10. apríl 2014 í máli nr. 726/2013, en þar kemur eftirfarandi fram:
Með skírskotun til jafnræðisreglu 65. gr. og að teknu tilliti til óskráðrar meðalhófsreglu íslenskrar stjórnskipunar má þó ekki ganga svo langt í skattheimtu gagnvart einstökum mönnum að þeim sé mismunað á ótilhlýðilegan hátt í samanburði við aðra. Nái skatturinn til fámenns hóps skattborgara kann það að veita vísbendingu um að of nærri þeim hafi verið gengið, en fjöldinn einn sker þó ekki úr, heldur hvort skattlagningu sé gagngert beint að einstökum mönnum án þess að það sé gert á málefnalegan hátt. Á sama hátt og tekjuskattar skerða tekjur manna, til dæmis laun þeirra fyrir vinnu, er það eðli eignarskatta að eignir þeirra sem þá skatta greiða rýrna ef greiðendurnir njóta ekki tekna til að standa undir sköttunum. Það eitt stendur þó ekki í vegi fyrir því í lagalegu tilliti að gripið sé til slíkrar skattlagningar.
Að uppfylltum framangreindum skilyrðum hafa dómstólar játað löggjafanum ríkt svigrúm í skattlagningarmálum. Þá hefur Hæstiréttur slegið því föstu að löggjafinn hafi jafnvel meira svigrúm til að skattleggja arð af nýtingu auðlinda. Þannig segir í dómi Hæstaréttar frá 23. mars 2017 í máli nr. 213/2016: „Sökum þess að um er að ræða endurgjald fyrir afnot þessarar takmörkuðu náttúruauðlindar úr hendi þeirra, sem fengið hafa aðgang að þeim gæðum fyrir atbeina ríkisvaldsins, veitir það löggjafanum rýmri heimild en ella til að skattleggja arð af slíkri nýtingu.“
Að baki tillögum frumvarpsins búa m.a. þau sjónarmið að þeim sem hafa aðgang að hinni takmörkuðu auðlind sem er í sameign þjóðarinnar og hafa hagnað af þeim veiðum beri að greiða fyrir afnot af auðlindinni. Má í þessum efnum vísa til forsendna Hæstaréttar í málum nr. 12/2000 og 652/2012, þar sem kemur m.a. fram að heimilt sé að líta til breyttra sjónarmiða um ráðstöfun auðlindarinnar og að löggjafinn hafi rúmt svigrúm til að skattleggja arð vegna afnota af nýtingu auðlindarinnar þar sem viðkomandi aðilar hafa fengið aðgang að auðlindinni fyrir tilstilli ríkisins og um er að ræða endurgjald fyrir afnot af takmarkaðri auðlind. Þeir nytjastofnar sem ákvæði frumvarpsins taka til eru þeir sem einna mest eru nýttir af sameign þjóðarinnar og því eru með frumvarpinu lögð til breytt viðmið hvað varðar aflaverðmæti í reiknistofni fyrir veiðigjald af þessum nytjastofnum.
Að mati fræðimanna hefur hinn almenni efnislegi mælikvarði verið talinn setja fjárhæð skatta einhverjar takmarkanir. Auk þess hefur verið talið að svonefnd sannvirðisregla sé veigamikill þáttur við athugun á því hvort tiltekin skattlagning byggist á efnislegum mælikvarða þannig að sannvirði skattandlagsins sé lagt til grundvallar skattlagningar.
Hvað varðar ákvörðun skattandlagsins í lögum telur Hæstiréttur í dómi sínum frá 23. september 2004 í máli nr. 112/2004 að við ákvörðun gjaldstofns til álagningar fasteignaskatts sé löggjafinn ekki bundinn af því að gjaldstofn svari til markaðsverðs fasteigna, enda sé við þá ákvörðun gætt lögmætra sjónarmiða, þar á meðal um jafnræði og meðalhóf. Rétturinn tiltók að verð fasteignar færi að nokkru eftir legu hennar en kostnaður sveitarfélags af eign utan höfuðborgarsvæðisins þyrfti ekki að vera minni en kostnaður af eignum á höfuðborgarsvæðinu. Hæstiréttur taldi að almenn og málefnaleg sjónarmið lægju að baki skattlagningunni og að löggjöfin bryti ekki í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Af niðurstöðu Hæstaréttar má ráða að víkja megi frá sannvirði skattandlagsins ef málefnaleg sjónarmið liggja til grundvallar.
Hér skal enn fremur bent á fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 726/2013 en þar snerist ágreiningur um álagningu auðlegðarskatts, sér í lagi skattstofn/skattandlag viðbótarauðlegðarskatts. Skattstofn viðbótarauðlegðarskatts hvað varðar hlutabréf var miðaður við verðmæti hlutabréfs við hlutdeild manns í skattalegu bókfærðu eigin fé hlutafélagsins eins og það er talið fram í skattframtali þess í stað nafnverðs. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir m.a.:
Ef virtar eru í heild þær reglur laga nr. 90/2003 sem fela í sér frávik frá reikningsskilum félaga verður ekki séð að þær leiði almennt til þess að skattmat hlutabréfa til auðlegðarskatts verði miklum mun hærra en nemur sannvirði þeirra. Þó er ekki útilokað að sú geti orðið raunin í einstökum tilvikum.
Einnig hefur verið talið að í almennum efnahagslegum mælikvarða skattahugtaksins felist að skattar séu miðaðir við ákveðnar tekjur eða eignir. Þrátt fyrir þetta hefur löggjafinn lagt á fjölda skatta sem ekki eru byggðir á efnahagslegum mælikvarða, t.d. nefskatta eins og útvarpsgjald samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999.
Í dómum Hæstaréttar hefur hinn almenni efnahagslegi mælikvarði verið til umfjöllunar og þá enn fremur sannvirðisreglan. Þetta á ekki síst við í dómum Hæstaréttar um skattmat hlunninda, sbr. niðurstöðu Hæstaréttar frá 10. febrúar 2000 í máli nr. 356/1999, en þar segir m.a.:
Hafa skattyfirvöldum lengi verið veittar heimildir í lögum til að setja nánari reglur um mat hlunninda og fleira. Við þessar aðstæður hefur það þótt skipta höfuðmáli hvort reglur þær sem stjórnvaldið setur með heimild í slíkum ákvæðum séu málefnalegar og reistar á almennum efnislegum mælikvarða. Matsreglur þær sem um ræðir í máli þessu og ríkisskattstjóri setti með heimild í 116. gr. laganna um tekju- og eignarskatt eru einfaldar, hlutlægar og gegnsæjar. Í þeim tilvikum sem hér um ræðir reiknast tekjumatið sem hlutfall af verðmæti bifreiðarinnar að teknu tilliti til aldurs, en án tillits til aksturs launþega í eigin þágu, enda er hann ekki hið eiginlega inntak slíkra hlunninda, heldur hin ótakmörkuðu endurgjaldslausu umráð hans.
Eins og fram hefur komið má ráða af niðurstöðu Hæstaréttar í dómum nr. 356/1999 og nr. 112/2004 að víkja megi frá sannvirði skattandlagsins ef málefnaleg sjónarmið liggja til grundvallar. Með vísan til framangreinds er það metið svo að reiknistofn veiðigjaldsins samkvæmt frumvarpinu sé reistur á málefnalegum grunni og útreikningur veiðigjaldsins einfaldur, hlutlægur og gegnsær.
Þar sem reiknistofn veiðigjalds vegna uppsjávarfisks er í norskum krónum er miðað við að umreikningur aflaverðmætis skv. 1. tölul. b-liðar 1. gr. frumvarpsins, úr norskum krónum í íslenskar krónur, verði miðaður við miðgengi norsku krónunnar árið 2024 og síðan taki árlega breytingu samkvæmt miðgengi SDR á almanaksári sem reiknistofn miðast við. Hér er eðli málsins samkvæmt sett fram einföld, hlutlæg, gagnsæ og málefnaleg umreikningsregla þar sem viðmið taka breytingum árlega.
Með vísan til framangreinds er það metið svo að lagabreytingin sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.
5. Samráð.
Undirbúningur frumvarpsins mótaðist að miklu leyti af áherslum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar og markmiðum fjármálaáætlunar. Við gerð frumvarpsins var m.a. haft samráð og fundað með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), fjármála- og efnahagsráðuneyti og Ríkisskattstjóra (Skattinum).
Hinn 25. mars 2025 voru drög að frumvarpi þessu birt í samráðsgátt stjórnvalda, mál nr. S-62/2025. Samtals bárust 112 umsagnir um drög frumvarpsins frá einstaklingum, fyrirtækjum, hagsmunaaðilum, sveitarfélögum, félagasamtökum og stofnunum. Umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi barst ráðuneytinu með tölvupósti 15. apríl 2025 að umsagnarfresti liðnum. Skiptar skoðanir voru um efni frumvarpsins en meiri hluti umsagna var þó jákvæður gagnvart þeim tillögum sem kynntar voru í drögunum.
Margir umsagnaraðilar fögnuðu frumvarpinu og töldu að efni þess væri skref í rétta átt til að tryggja sanngjarnt gjald fyrir nýtingu á sjávarauðlindinni. Þá töldu umsagnaraðilar einnig að leiðrétting og hækkun veiðigjalda væri sanngjörn og nauðsynleg til að tryggja réttláta skiptingu á arði af auðlind þjóðarinnar. Einnig var í umsögnum vísað til samfélagslegrar ábyrgðar sjávarútvegs og mikilvægi þess að veiðigjald standi undir rannsóknum og vöktun á hafinu sem og til uppbyggingar fyrir samfélagið í heild sinni.
Hér að neðan eru reifuð helstu sjónarmið, ábendingar og athugasemdir sem komu fram í umsögnum um drög frumvarpsins ásamt helstu viðbrögðum ráðuneytisins við þeim.
5.1. Frekari greiningar á áhrifum frumvarpsins.
Í umsögnum um drög frumvarpsins voru gerðar athugasemdir við áhrifamat frumvarpsins skv. 6. kafla. Eftirfarandi eru helstu athugasemdir um áhrifamatið og viðbrögð ráðuneytisins.
5.1.1. Aflaverðmæti.
Í umsögnum um frumvarpið er ítrekað vísað til þess að með frumvarpinu sé verið að leggja til breytingar á fiskverði á þeim tegundum sem breytingarnar ná til hvort sem um sé að ræða aflaverðmæti við verðlagningu milli aðila eða í samningum milli aðila. Í umsögn Sjómannasambands Íslands er m.a. vísað til þess að stéttarfélög sjómanna hafi um langt skeið bent á að fiskverð sem miðað er við til sjómanna á Íslandi sé lægra en í samanburðarlöndum. Þá er kallað eftir því í umsögnum að ef stjórnvöld vilji að allur fiskur sem veiddur er verði boðinn upp á markaði þá ætti slíkt að koma skýrt fram enda hefði það í för með sér frekari lagabreytingar og breytingar á kjarasamningum sjómanna.
Frumvarp þetta nær aðeins til breytinga á viðmiðum í reiknistofnum þegar kemur að aflaverðmæti fimm tegunda nytjastofna í útreikningi til veiðigjalds. Í frumvarpinu er hvergi mælt fyrir um hvert fiskverð tiltekinna nytjastofna skuli vera í viðskiptum á milli aðila eða samkvæmt samningum, hvort sem er í verðlagningu á milli aðila eða samningum sem byggja á aflaverðmæti tiltekinna nytjastofna. Með frumvarpinu er eingöngu verið að lögfesta það viðmið sem litið er til varðandi aflaverðmæti þorsks, ýsu, síldar, kolmunna og makríl þegar framkvæmdur er útreikningur á reiknistofni veiðigjaldsins. Með því eru stjórnvöld ekki að ákveða hvert fiskverð fyrir framangreindar tegundir skuli vera í viðskiptum milli aðila eða í samningum heldur aðeins sem viðmið í reiknistofni veiðigjaldsins. Þá er ekki í frumvarpinu gerð sú krafa að allur afli sé boðinn upp á markaði. Þær breytingar sem lagðar eru til hafa því ekki bein áhrif á myndun fiskverðs og þar með ekki áhrif á vinnslur sem eru í samþættri starfsemi, þ.e. stunda bæði veiðar og vinnslur, né vinnslur sem starfa sjálfstætt.
5.1.2. Skattahækkanir.
Í umsögnum eru gerðar athugasemdir við hækkun veiðigjalds og að hún feli í sér hækkun á þeim sköttum sem fyrirtæki í sjávarútvegi greiða. Einnig er bent á að aðrar breytingar á sköttum og gjöldum kunni að hafa verulega neikvæð áhrif á sjávarútveg, svo sem hækkun kolefnisgjalds og tollar. Í umsögnum var nefnt að virkur tekjuskattur yrði allt að 80% með þeim breytingum. Ráðuneytið tók þær athugasemdir til sérstakrar skoðunar. Í töflu 15 má sjá hlutfall tekjuskatts og veiðigjalda sem hlutfall af hagnaði (EBT) að frádregnu veiðigjaldi í sjávarútvegi, þ.e. hagnaður fyrir veiðigjald. Í töflunni er litið til tímabilsins 2019–2023 samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands og upplýsingarnar bornar saman við hækkanir á veiðigjaldi ef þær breytingar sem kveðið er á um frumvarpinu hefðu verið komnar inn á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að hækkanirnar séu um 7,5 milljarður kr. árlega á tímabilinu miðað við þær breytingar sem eru boðaðar í frumvarpi þessu, að teknu tilliti til breytinga á frítekjumarki, með hliðsjón af athugasemdum frá sveitarfélögum og minni útgerðum. Stuðst er við bæði reiknaðan tekjuskatt miðað við 20% af hagnaði, en einnig er litið til greidds tekjuskatts samkvæmt gögnum frá Deloitte sem kynnt voru á sjávarútvegsdeginum árin 2023 og 2024.
Tafla 15. Reiknaður tekjuskattur og veiðigjald sem hlutfall af hagnaði fyrir veiðigjald.
Tímabil |
Núverandi |
Frumvarp |
|
Reiknaður tekjuskattur og veiðigjöld sem hlutfall af EBT* |
Greiddur tekjuskattur og veiðigjöld sem hlutfall af EBT* |
Reiknaður tekjuskattur og veiðigjöld sem hlutfall af EBT* |
|
2019 |
31% |
29% |
43% |
2020 |
32% |
37% |
50% |
2021 |
28% |
22% |
36% |
2022 |
27% |
23% |
33% |
2023 |
30% |
29% |
37% |
Meðaltal |
29% |
28% |
40% |
*án veiðigjalds |
Reiknaður tekjuskattur og veiðigjald sem hlutfall af hagnaði fyrir veiðigjald samkvæmt töflu 15 er að meðaltali 29% á tímabilinu en hefði verið um 40% miðað við breytingar samkvæmt frumvarpinu. Í töflunni er einnig litið til þess hver sé greiddur tekjuskattur og veiðigjald sem hlutfall af hagnaði fyrir veiðigjald, en þar er meðaltalið um 28%. Munur getur verið á greiddum tekjuskatti og reiknuðum, t.d. vegna tekjuskattsskuldbindinga. Í töflunni er ekki tekinn inn fjármagnstekjuskattur af arðgreiðslum þar sem það er hluti af skattgreiðslum einstakra hluthafa en ekki atvinnugreinarinnar í heild, en frumvarp þetta tekur aðeins til gjaldskyldra aðila sem greiða veiðigjald. Tafla 15 sýnir að við núverandi fyrirkomulag er hlutur atvinnugreinarinnar af hagnaðinum um 70% en miðað við breytingarnar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi hefði hlutur atvinnugreinarinnar í hagnaði verið 60% á tímabilinu 2019–2023.
5.1.3. Áhrif frumvarpsins á sveitarfélög.
Í umsögnum einstakra sveitarfélaga var m.a. bent á að ekki hefði verið framkvæmt mat á áhrifum þeirra breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu fyrir sveitarfélög og útsvarstekjur þeirra. Einnig voru gerðar athugasemdir við að ekki hefði verið framkvæmt mat skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, þar sem segir að ef fyrirsjáanlegt er að tillaga að lagafrumvarpi muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög skuli fara fram sérstakt mat á áhrifum þeirra á fjárhag sveitarfélaga. Þá var í umsögn Samtaka sjávarútvegsveitarfélaga bent á að tvöföldun veiðigjalda geti dregið úr rekstrarhæfi útgerða, sérstaklega þeirra sem starfa í brothættum byggðum með veikan efnahagsgrunn, og slíkt geti leitt til fækkunar starfa, minni umsvifa í tengdum greinum og byggðaröskunar. Geti það leitt til minnkandi útsvarstekna, aukins atvinnuleysis og þrýsting á félagslega þjónustu í þeim sveitarfélögum sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á sjávarútvegi. Í umsögn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi er m.a. bent á að þrjú fjölmennustu sveitarfélögin á Snæfellsnesi séu verulega háð sjávarútvegi þar sem allt að 50% af útsvarsgrunni er vegna útsvarstekna frá fiskveiðum og fiskvinnslu.
Í frumvarpinu er kveðið á um breytingar er varða viðmið um aflaverðmæti við útreikning reiknistofns veiðigjalda fyrir fimm tegundir nytjastofna. Í frumvarpinu eru því ekki lagðar til breytingar sem hafa bein fjárhagsleg áhrif á tekjustofna eða útgjöld sveitarfélaga. Þrátt fyrir það geta í ákveðnum tilfellum breytingar stjórnvalda á sköttum og gjöldum haft áhrif á fjárhag sveitarfélaga, m.a. þegar meta þarf auknar tekjur vegna ráðstöfunar stjórnvalda þegar það á við. Eins og rakið er í 6. kafla hefur frumvarpið fyrst og fremst áhrif á gjaldskylda aðila sem greiða veiðigjald af þeim fimm nytjastofnum sem frumvarpið fjallar um. Komi til þess að einstakir greiðendur veiðigjalda taki ákvörðun um breytingar í rekstri sínum sem kunni að leiða til fækkunar starfa, sem þar af leiðandi skilar sér í lægra útsvari til sveitarfélaga, þá verður að telja að slík ákvörðun sé ávallt byggð á viðskiptalegum grunni, en ekki vegna breytinga á viðmiði við útreikning reiknistofns að baki veiðigjaldi. Ráðuneytið hefur skilning á áhyggjum sveitarfélaga er varða ákvarðanatöku í sjávarútvegi og þau miklu áhrif sem viðskiptalegar ákvarðanir fyrirtækja í sjávarútvegi kunni að hafa á þau sveitarfélög og landshluta sem eru verulega háð sjávarútvegi. Einnig tekur ráðuneytið undir hinar fjölmörgu ábendingar sveitarfélaganna um mikilvægi sjávarútvegs í hinum dreifðu byggðum og mikilvægi þess að rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sé skýrt svo að fyrirtæki í sjávarútvegi geti sinnt sinni mikilvægu samfélagslegu ábyrgð og felst m.a. í heimild til að nýta hina sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar sem munu fela í sér verulega neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja sem greiða veiðigjald og hafi þau áhrif að útsvarstekjur sveitarfélaga lækki sem hafi svo neikvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaga eða útgjöld þeirra. Með frumvarpinu er aðeins verið að leiðrétta og skýra tiltekna þætti við útreikning reiknistofns veiðigjalda og þar með áhrif á fyrirtæki í sjávarútvegi til framtíðar. Það er því niðurstaða ráðuneytisins að frumvarpið feli ekki í sér fjárhagsleg áhrif á tekjur eða útgjöld sveitarfélaga. Í samræmi við 129. gr. sveitarstjórnarlaga var niðurstaða þess mats kynnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir framlagningu frumvarpsins í ríkisstjórn.
5.1.4. Áhrif á fjárfestingargetu og samkeppni.
Í umsögnum var lýst áhyggjum af því að verði frumvarpið að lögum þá muni það draga verulega úr fjárfestingargetu fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega í fiskvinnslu. Einnig var bent á að aðgengi að aukaafurðum kynni að minnka, yrði frumvarpið að lögum, þar sem aukinn hvati yrði til að flytja afla óunnin úr landi. Athugasemdir voru gerðar við að ekki hefðu verið metin áhrif frumvarpsins á nýsköpunar- og sprotafyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi. Bent var á að frumvarpið myndi hafa þau áhrif að draga úr tækniþróun og nýsköpun og þar með samkeppnishæfni sjávarútvegs. Þá var bent á að hagnaðarhlutfall margra fyrirtækja í sjávarútvegi muni dragast saman, verði frumvarpið að lögum, og það komi til með að hafa neikvæð áhrif á fleiri tengdar atvinnugreinar eins og birgja, þjónustuaðila og aðila í iðnaði.
Að mati ráðuneytisins mun frumvarpið, verði það að lögum, ekki hafa áhrif á það hvernig fyrirtæki haga skipulagi í rekstri sínum, enda felur frumvarpið ekki í sér hvert fiskverð einstakra nytjastofna skuli vera í viðskiptum á milli aðila. Ekki verður séð að frumvarpið komi til með að hafa veruleg áhrif á rekstur fyrirtækja í sjávarútvegi, hvort sem er við veiðar eða vinnslu eða aðgengi að aukaafurðum, þar sem frumvarpið hefur ekki áhrif á hvert fiskverð eða aflaverðmæti nytjastofna er í viðskiptum milli aðila. Frumvarpið tekur aðeins til þess viðmiðs aflaverðmætis sem miðað er við í reiknistofni veiðigjalds fyrir fimm tegundir nytjastofna. Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á frítekjumarki til að milda þau fjárhagslegu áhrif sem samþykkt frumvarpsins kann að hafa á fyrirtæki í sjávarútvegi. Þær breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um einar og sér munu því að mati ráðuneytisins ekki hafa þau áhrif að draga úr fjárfestingargetu fyrirtækja í sjávarútvegi til framtíðar.
5.1.5. Litlar og meðalstórar útgerðir og frítekjumark.
Í umsögnum var bent á að taka þurfi meira tillit til lítilla og meðalstórra útgerða í frumvarpinu. Bæði var kallað eftir nánari greiningu á áhrifum frumvarpsins á einstakar útgerðir og að hvaða leyti verði viðhaldið fjölbreyttum og sjálfstæðum rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi. Í nokkrum umsögnum var bent á að tillaga um breytingar á ákvæði um frítekjumark eða afslætti væru óverulegar fjárhæðir sem litlu breyttu til að milda áhrif breytinganna á litlar og meðalstórar útgerðir. Lagt var til í umsögnum að frítekjumarkið yrði hækkað verulega og betur þrepaskipt. Þá var bent á að útgerðir í krókaaflamarki yrðu fyrir einna mestum áhrifum þar sem frítekjumarkið hrökkvi skammt og hafi lítil sem engin áhrif.
Ráðuneytið tekur undir sjónarmið um mikilvægi þess að fjölbreyttur sjávarútvegur sé stundaður um allt land og að milduð verði fjárhagsáhrif frumvarpsins fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Að mati ráðuneytisins er vandkvæðum bundið að skilgreina nákvæmlega stærðarmörk lítilla- og meðalstórra útgerða enda getur það breyst frá einum tíma til annars. Með vísan til ábendinga og athugasemda í umsögnum um drög frumvarpsins eru lagðar til breytingar á efni frumvarpsins er varðar frítekjumark. Í frumvarpinu er lagt til að frítekjumark verði þrepaskipt eftir tegundum, annars vegar 40% af fyrstu 9 millj. kr. álagningar á öllum tegundum nytjastofna sjávar, öðrum en þorski og ýsu. Hins vegar er lagt til að frítekjumark fyrir þorsk og ýsu nemi 40% af fyrstu 50 millj. kr. álagningar veiðigjalds hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila. Þá er lagt til að fjárhæðin taki breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá janúarmánuði 2025 fram að ákvörðunardegi. Nánar er fjallað um frítekjumark og framangreinda breytingu í kafla 3.8.
5.6. Aukin samþjöppun í sjávarútvegi.
Bent var á að þær breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um muni leiða til frekari samþjöppunar í sjávarútvegi og þar með leiða til fækkunar starfa. Í umsögn Samtaka smærri útgerða var m.a. bent á að litlar- og meðalstórar útgerðir væru að berjast í bökkum í heilsársrekstri og myndi frumvarpið, yrði það að lögum, leiða til þess að útgerðum myndi fækka og samþjöppun aukast.
Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar er leiða til frekari samþjöppunar í sjávarútvegi. Brugðist er við áhrifum frumvarpsins á litlar- og meðalstórar útgerðir með hækkun frítekjumarks. Þá eru samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, settar skorður við frekari samþjöppun fyrirtækja í veiðum með ákvæðum um hámarksaflahlutdeild sem heimilt er að fara með. Samþjöppun í sjávarútvegi hefur átt sér stað yfir langt tímabil og geta verið margar skýringar á þeirri samþjöppun, til að mynda kynslóðaskipti og verð á aflaheimildum. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru ekki til þess fallnar að vera eina breytan sem fyrirtæki í rekstri horfa til þegar tekin er ákvörðun um sölu aflaheimilda. Þá er frekari samþjöppun háð takmörkunum samkvæmt ákvæðum gildandi laga um stjórn fiskveiða um hámarksaflahlutdeild. Í frumvarpinu er ekki kveðið á um breytingar sem hafa veruleg áhrif á rekstrarskilyrði fiskvinnslna og því verður ákvörðun um frekari samþjöppun fiskvinnslna ekki rakin til breytinga á frumvarpi þessu.
5.7. Skammur umsagnarfrestur um drög frumvarpsins.
Í nokkrum umsögnum um drög frumvarpsins voru gerðar athugasemdir við þann skamma frest sem veittur var til að veita umsögn um efni frumvarpsins, en samráð um drögin stóð yfir frá 25. mars til og með 3. apríl 2025. Samtals bárust 112 umsagnir og margar hverjar studdar tölulegum upplýsingum. Ástæður fyrir hinum stutta fresti eru m.a. til að tryggja að Alþingi hafi nægt svigrúm til umfjöllunar um frumvarpið og þær breytingar sem þar eru lagðar til.
5.8. Helstu breytingar á efni frumvarpsins eftir samráð.
Í samræmi við umfjöllun um helstu athugasemdir og ábendingar í umsögnum sem bárust um efni frumvarpsins voru eftirtaldar breytingar gerðar á frumvarpinu að loknu samráði:
— Gerðar voru breytingar á orðalagi í 1. og 2. gr. frumvarpsins til að skýra betur þá aðferðafræði sem mælt er fyrir um í frumvarpinu sem og breytingar á frítekjumarki.
— Þá er nánar fjallað um samræmi frumvarpsins við ákvæði stjórnarskrár í 4. kafla.
— Í 6. kafla frumvarpsins er nánar fjallað um dreifingu greiðenda veiðigjalda fyrir þá fimm nytjastofna sem ákvæði frumvarpsins taka til. Þá er einnig fjallað nánar um mat ráðuneytisins á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga í samræmi við 129. gr. sveitarstjórnarlaga og breytingar gerðar á kafla 6.2 um áhrif á tekjur ríkissjóðs.
— Með vísan til ábendinga í umsögum um áhrif á fjárfestingargetu og samkeppnishæfni fyrirtækja í sjávarútvegi er nánar fjallað um þau áhrif í kafla 6.3.
— Með breytingu á ákvæði frumvarpsins um frítekjumark hefur mat á áhrifum frumvarpsins er varðar frítekjumark verið uppfært og nánari umfjöllun um frítekjumarkið sett fram í kafla 3.8.
— Þá hafa verið gerðar tilteknar breytingar þar sem nánar er fjallað um einstök atriði í mati á áhrifum frumvarpsins sem bent var á í umsögnum. Má þar nefna samanburð við Noreg og áhrif á skattlagningu fyrirtækja í sjávarútvegi.
— Einnig voru gerðar orðalagsbreytingar í þeim tilgangi að skýra betur efni frumvarpsins og áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til.
6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á efnahag.
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á veiðigjaldi sem miða að því að tryggja aukið endurgjald fyrir nýtingu auðlindarinnar, án þess þó að það hafi verulega neikvæð áhrif á efnahagsstoð sjálfbærrar þróunar, enda er gjaldtökunni m.a. ætlað að standa undir auknum rannsóknum á hafinu og eftirliti með nýtingu sjávarauðlindarinnar og varðar því einnig umhverfisstoð sjálfbærrar þróunar, sbr. 1. gr. laga um veiðigjald. Að teknu tilliti til innheimtu veiðigjalds árið 2023 stóðu tekjur af veiðigjaldi ekki undir kostnaði ríkisins, sbr. 1. gr. laganna. Þá er ótalin sú beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar sem tryggja skal þjóðinni skv. 1. gr. laganna.
6.2. Áhrif á ríkissjóð.
Mikil óvissa er um innheimt veiðigjald hvers árs og geta frávik verið veruleg. Sú óvissa stafar m.a. af því að veiðigjald byggist á aflaverðmæti nytjastofna, kostnaði og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla hverrar tegundar fyrir sig, sem liggur ekki fyrir nema fyrir hvert ár í senn. Þá liggur ekki fyrir afkoma greinarinnar 2024 sem einnig hefur áhrif á áætlanagerðina.
Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingar sem muni hafa áhrif á ríkissjóð til tekjuaukningar verði frumvarpið að lögum. Áætlað er að tekjur af veiðigjaldi uppsjávarfisktegunda hækki um 3–4 milljarða kr. árlega og veiðigjald vegna þorsks og ýsu hækki um 5–6 milljarða kr. árlega miðað við óbreytt aflamagn. Með breytingum samkvæmt frumvarpinu má áætla að álagt veiðigjald verði um 19,5 milljarðar kr. árið 2026, en án þeirra breytinga sem boðaðar eru samkvæmt frumvarpi þessu væri áætlað álagt veiðigjald um 11,2 milljarðar kr. á grundvelli gildandi laga. Er þá gert ráð fyrir meðaltali veiðigjalda síðustu þriggja ára fyrir hverja tegund og að áætlað aflamagn haldist stöðugt. Að teknu tilliti til breytinga á frítekjumarki má gera ráð fyrir innheimt veiðigjald verði um 17,3 milljarðar kr. árið 2026.
Ástæðan fyrir því að miðað er við veiðigjald síðustu þriggja ára við áætlanagerðina er sú að þróun veiðigjalda fyrir hverja tegund hefur ekki verið línuleg heldur eru miklar sveiflur til hækkunar og lækkunar á milli ára í veiðigjöldum fyrir hverja tegund. Sveiflur á milli ára geta átt sér margar skýringar, svo sem breytingar á aflaverðmæti, kostnaði, gengi, aflamagni og skattalegum afskriftum. Í töflu 16 er áætlun um þróun veiðigjalds til ársins 2030. Mikil óvissa er um reiknistofn veiðigjalds þar sem hann byggist á afkomu og er því gert ráð fyrir að veiðigjald hækki um 2% árlega. Aftur á móti er áætluð breyting frítekjumarks 3% og skal það samkvæmt frumvarpinu taka breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Má áætla að frítekjumarkið verði um 2,5 milljarðar kr. 2030. Að teknu tilliti til frítekjumarks verði innheimt veiðigjald tæplega 18–19 milljarðar kr. á tímabilinu 2027–2030.
Tafla 16. Áætlun um álagt og innheimt veiðigjald árin 2026–2030 í millj. kr.
Áætlun fyrir | 2026 |
2027*** |
2028 |
2029 |
2030 |
Álagt veiðigjald* |
19.500
|
20.216
|
20.621
|
21.033
|
21.454
|
Frítekjumark** |
2.177
|
2.241
|
2.309
|
2.378
|
2.449
|
Innheimt veiðigjald |
17.323
|
17.975
|
18.312
|
18.655
|
19.005
|
*Árleg hækkun um 2% frá árinu 2026. **Breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar 3%. *** Árin 2027–2030 er gert ráð fyrir aflamagni og veiðigjaldi á loðnu. |
Veiðigjald er frádráttarbært frá tekjuskatti lögaðila og því mun hækkun þess ekki skila sér að fullu sem auknar tekjur ríkissjóðs. Sé gengið út frá þeirri forsendu að hækkunin verði að fullu nýtt sem rekstrarkostnaður leiðir það til þess að 20% af hækkun veiðigjaldsins komi fram sem lækkun á tekjuskatti lögaðila. Af því leiðir að 80% af hækkun veiðigjaldsins myndi skila sér sem auknar tekjur ríkissjóðs. Tekjuskattslækkunin kemur fram ári síðar eftir hækkun veiðigjaldsins.
6.3. Áhrif á samkeppni og fjárfestingargetu.
Íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hefur gert það mögulegt að byggja upp öflug samkeppnishæf fyrirtæki í sjávarútvegi. Verði frumvarpið að lögum munu breytingar á ákvæðum laga um veiðigjald hafa áhrif á gjaldskylda aðila sem greiða veiðigjald af þeim nytjastofnum sem frumvarpið tekur til, þ.e. af norsk-íslenskri síld, annarri síld, kolmunna, makríl, þorski og ýsu.
Veiðigjald er ekki innheimt í öllum samkeppnislöndum okkar en það er þó innheimt í Færeyjum og á Grænlandi. Það er því merki um styrkleika íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins í alþjóðlegu samhengi að atvinnugreinin standist samkeppni eins vel og raun ber vitni.
Þrátt fyrir að stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins teljist stór í samanburði við mörg fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum hér á landi eru þau lítil miðað við stærstu fyrirtæki í sjávarútvegi sé litið út fyrir landsteinana. Ekki liggja fyrir traustar og nýlegar upplýsingar um stærð stærstu fyrirtækja í sjávarútvegi í heiminum, ekki síst vegna þess að mörg þeirra eru hluti af stærri fyrirtækjasamstæðum og sjávarútvegur einungis hluti starfseminnar. Ljóst er þó að ekkert íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki kemst nálægt því að vera á lista yfir stærstu fyrirtæki heims í sjávarútvegi.
Nær allar sjávarafurðir sem veiddar eru á Íslandi eru fluttar úr landi og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki því á samkeppnismarkaði erlendis. Innlend álagning getur haft áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Bent hefur verið á að aukin gjaldtaka kunni að skerða getu fyrirtækja til fjárfestinga í nýjum búnaði, skipum, vöruþróun, nýsköpun og öðru sem eykur framleiðni og skilvirkni og kunni því að hafa áhrif á verðmætasköpun til framtíðar.
Rétt er að hafa í huga að það umhverfi sem fyrirtækjum er skapað til rekstrar með lögum og reglum hefur áhrif á samkeppnishæfni á fleiri sviðum en þeim sem snerta gjaldtöku. Markmið fiskveiðistjórnarkerfa eru mismunandi milli landa en á Íslandi hefur verið lögð áhersla á efnahagslega sjálfbærni greinarinnar með því að sníða stjórnkerfi sem veitir fyrirtækjum frelsi og sveigjanleika til að auka hagræði í rekstri, en slíku er ekki til að dreifa víða annars staðar. Íslenskur sjávarútvegur hefur því búið við talsvert samkeppnisforskot miðað við aðrar þjóðir og má t.d. nefna eina af stærstu samkeppnisþjóðum Íslands í sjávarútvegi, Noreg. Þar eru starfsskilyrði önnur en hér á landi þar sem útgerðir sæta tilteknum takmörkunum á þeim svæðum sem þær gera út frá og sæta bæði stærðar- og veiðarfæratakmörkunum. Framsal aflahluta er takmarkað og leiga aflaheimilda er ekki leyfð. Ef horft er til landa þar sem markmið og umgjörð sjávarútvegs er með svipuðu sniði og hérlendis og greinin álíka efnahagslega mikilvæg er áhugavert að bera saman sérstaka gjaldtöku af sjávarútvegi. Þannig er lagt veiðigjald á síld, makríl og kolmunna í Færeyjum auk gjalds á botnfisk sem veiddur er í Barentshafi. Tafla 17 sýnir álagt veiðigjald fyrir makríl, síld og kolmunna á tímabilinu ágúst 2024 til júlí 2025 og botnfisk í Barentshafinu fyrir árið 2024.
Tafla 17. Veiðigjald í íslenskum krónum í Færeyjum.
Tegundir | Makríll | Síld | Kolmunni | Botnfiskur í Barentshafi (þorskur og ýsa) |
Veiðigjald í kr./ kg | 28,3 | 23,1 | 7,8 | 31,9 |
Grænland leggur einnig veiðigjald á helstu nytjastofna sína. Veiðigjald á síld, loðnu, makríl, kolmunna og gulllax er útlistað í töflu 18, samkvæmt lögum um auðlindaskatt á Grænlandi.
Tafla 18. Veiðigjald í íslenskum krónum á Grænlandi.
Veiðigjald í kr./kg | Síld |
Loðna |
Makríll |
Kolmunni |
Gulllax |
Skráning á Grænlandi | 5 |
3 |
8 |
3 |
3 |
Skráning utan Grænlands | 16 |
14 |
20 |
14 |
14 |
Við gerð þessa frumvarps voru einnig metin áhrif á rekstrarhagnaðarhlutfall sjávarútvegs (bæði veiðar og vinnslu) ef veiðigjald hefði verið 7,5 milljörðum kr. hærra á tímabilinu 2014–2023, en í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að veiðigjald hækki um 7–8 milljarða kr. á ári miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið eftir samráð. Í töflu 19 má sjá áhrif þess, en rekstrarhagnaðarhlutfall sjávarútvegs var að meðaltali 24% á tímabilinu 2014–2023 samkvæmt rekstraryfirliti sjávarútvegsins frá Hagstofu Íslands. Ef veiðigjald hefði verið 7,5 milljörðum kr. hærra hefði rekstrarhagnaðarhlutfallið verið að meðaltali 21% á sama tíu ára tímabili.
Tafla 19. Afkoma sjávarútvegs miðað við breytingar á frumvarpinu í millj. kr.
Rekstraryfirlit sjávarútvegs | 2014 |
2015 |
2016 |
2017 |
2018 |
2019 |
2020 |
2021 |
2022 |
2023 |
Tekjur |
241
|
259
|
221
|
189
|
220
|
243
|
247
|
254
|
323
|
304
|
Rekstrarhagnaður |
46
|
58
|
43
|
27
|
42
|
60
|
63
|
72
|
103
|
92
|
Rekstrarhagnaðar-hlutfall |
19%
|
22%
|
20%
|
14%
|
19%
|
25%
|
26%
|
28%
|
32%
|
30%
|
Meðaltal | 24% |
|||||||||
Rekstrarhagnaðar-hlufall (+7,5 milljarðar.) |
16%
|
19%
|
16%
|
10%
|
16%
|
22%
|
23%
|
25%
|
30%
|
28%
|
Meðaltal (+7,5 milljarðar) | 21% |
Í töflu 20 sést að rekstrarhagnaðarhlutfall viðskiptahagkerfisins samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands á sama tímabili var að meðaltali 9% sem er um það bil helmingi lægra hlutfall en rekstrarhagnaðarhlutfall sjávarútvegs, þrátt fyrir þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpi þessu á sama tímabili.
Tafla 20. Afkoma viðskiptahagkerfis.
Viðskiptahagkerfið* | 2014 |
2015 |
2016 |
2017 |
2018 |
2019 |
2020 |
2021 |
2022 |
2023 |
Rekstrarhagnaðarhlutfall | 8% |
10% |
10% |
9% |
7% |
7% |
6% |
11% |
12% |
10% |
Meðaltal | 9% |
|||||||||
*að undanskilinni fjármála- og vátryggingastarfsemi. |
Ef sérstaklega eru skoðaðar þær tvær einingar sem tilheyra sjávarútvegi, þ.e. fiskvinnsla og fiskveiðar, má sjá í töflu 21 að samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands skila báðar einingar hærra rekstrarhagnaðarhlutfalli en viðskiptahagkerfið samkvæmt töflu 20.
Tafla 21. Rekstrarhagnaðarhlutfall fiskvinnslu og fiskveiða.
Rekstrarhagnaðarhlutfall (%) | 2020 | 2021 | 2022 | 2023 |
Fiskvinnsla | 13,1% | 15,1% | 18,9% | 15,9% |
Fiskvinnsla (meðaltal) | 15,7% | |||
Fiskveiðar | 19,4% | 18,7% | 20,3% | 19,6% |
Fiskveiðar (meðaltal) | 19,5% |
Til að setja þá hækkun sem boðuð er með breytingum samkvæmt frumvarpinu í samhengi þá samsvarar 7,5 milljarða kr. hækkun á veiðigjaldi um 2–3% lækkun á afurðaverði á tímabilinu 2014–2023.
Sjávarútvegur býr við töluverðar sveiflur eins og sjá má á mynd 1 og hefur verðvísitala sjávarútvegs fyrir sama tímabil hækkað um nær 82% fyrir botnfisk og nær 35% fyrir uppsjávarfisk. Þegar litið er til FOB-útflutningsverðs í kr./kg fyrir botn- og uppsjávarfisk má einnig sjá að þrátt fyrir sveiflur í verði er hækkun á afurðaverði á tímabilinu 2014–2023 eins og sjá má á mynd 2 og 3.
Mynd 1. Verðvísitölur sjávarafurða fyrir botn- og uppsjávarfisk.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Heimild: Hagstofa Íslands.
Mynd 2. FOB-útflutningsverð fyrir uppsjávarfisk 2014–2023.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Heimild: Hagstofa Íslands.
Mynd 3. FOB-útflutningsverð fyrir botnfisk 2014–2023.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Heimild: Hagstofa Íslands.
Í ljósi framangreinds verður ekki séð að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu til þess fallnar að veikja samkeppnisstöðu sjávarútvegs nema að óverulegu leyti og hvorki á erlendum mörkuðum né innan lands.
Við vinnslu frumvarpsins var unnin greining á áhrifum hækkunar veiðigjalds. Greiningin er byggð á ársreikningum flestra innlendra sjávarútvegsfélaga með úthlutaðar aflaheimildir fyrir árið 2023. Niðurstöður greiningarinnar voru að hækkun veiðigjalds hefur mismunandi áhrif á framlegð og hagnað þegar litið er til þriggja flokka sjávarútvegsfyrirtækja, þ.e. blandaðra uppsjávar- og botnfiskfélaga, botnfiskútgerða með vinnslu og botnfiskútgerða án vinnslu. Hlutfallslega yrðu áhrif hækkunar veiðigjalds mest á framlegð og hagnað botnfiskútgerða sem eru um 60 talsins þar sem sá flokkur hefur ekki vinnslustarfsemi. Í greiningunni kemur fram að ef veiðigjald tvöfaldast myndi heildarframlegð félaganna lækka um 10,2%, eða úr 93,8 milljörðum kr. í 84,2 milljarða kr., og samanlagður hagnaður félaganna myndi lækka um 11,3%, eða úr 67,5 milljörðum kr. í 59,9 milljarða kr.
Með framangreindum breytingum á frumvarpinu er áætlað að veiðigjald í heild muni hækka. Þannig er áætlað að veiðigjald á uppsjávartegundir kunni að hækka um 3–4 milljarða kr. á ári. Áætla má að álagt veiðigjald á þorsk og ýsu kunni að hækka um 5–6 milljarða kr. á ári, en um það ríkir mikil óvissa vegna verðþróunar, þróunar á helstu kostnaðarliðum og þar með afkomu. Við þá óvissu bætist einnig óvissa um aflamagn hvers árs. Hækkun veiðigjalds verður þó hófleg til þess að mæta nauðsynlegri tekjuaukningu ríkisins vegna kostnaðar og hlutdeildar í afkomu skv. 1. gr. laga um veiðigjald. Þrátt fyrir að hækkunin kunni að hafa áhrif á framlegð og hagnað, sérstaklega botnfiskútgerða, er ekki um svo mikla hækkun að ræða að hún hafi verulega neikvæð áhrif á fjárfestingargetu og þar með samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja.
Við greiningu á sviðsmyndum þar sem veiðigjald hækkar í þrepum um 10% á bilinu 0–100% kemur í ljós að EBITDA (tekjur fyrirtækis fyrir vexti, skatta og afskriftir) félaganna lækkar hlutfallslega mest hjá botnfiskútgerðum, eða um 10,2% við 50% hækkun veiðigjalds og um 20,3% við 100% hækkun veiðigjalds, eins og sjá má í töflu 22.
Tafla 22. Áhrif hækkunar veiðigjalds á EBITDA.
Milljarðar kr. | Blönduð félög |
Botnfiskútgerð og -vinnsla |
Botnfiskútgerð |
Samtals |
EBITDA 2023 | 70,2 |
17,4 |
6,3 |
93,8 |
10% hækkun | 69,6 |
17,1 |
6,1 |
92,9 |
20% hækkun | 69,0 |
16,9 |
6,1 |
92,0 |
30% hækkun | 68,4 |
16,6 |
5,9 |
91,0 |
40% hækkun | 67,9 |
16,4 |
5,8 |
90,0 |
50% hækkun | 67,3 |
16,1 |
5,6 |
89,0 |
60% hækkun | 66,7 |
15,8 |
5,5 |
88,1 |
70% hækkun | 66,2 |
15,6 |
5,4 |
87,1 |
80% hækkun | 65,6 |
15,3 |
5,3 |
86,2 |
90% hækkun | 65,0 |
15,1 |
5,1 |
85,2 |
100% hækkun | 64,4 |
14,8 |
5,0 |
84,2 |
Við greininguna var litið til sviðsmynda þar sem veiðigjald hækkar um 10% í þrepum á bilinu 0–100%. Þar kemur m.a. í ljós að hagnaður félaganna lækkar hlutfallslega mest hjá botnfiskútgerðum eða um 15,7% við 50% hækkun veiðigjalds og um 31,5% við 100% hækkun veiðigjalds eins og sjá má í töflu 23.
Tafla 23. Áhrif hækkunar veiðigjalds á hagnað félaga leiðrétt fyrir hlutdeild í öðrum sjávarútvegsfélögum.
Milljarðar kr. |
Blönduð félög |
Botnfiskútgerð og -vinnsla |
Botnfiskútgerð |
Samtals |
Hagnaður 2023 |
41,1 |
9,0 |
2,8 |
52,9 |
10% hækkun |
40,6 |
8,8 |
2,7 |
52,2 |
20% hækkun |
40,2 |
8,7 |
2,7 |
51,5 |
30% hækkun |
39,7 |
8,4 |
2,5 |
50,6 |
40% hækkun |
39,2 |
8,2 |
2,4 |
49,9 |
50% hækkun |
38,8 |
8,0 |
2,3 |
49,1 |
60% hækkun |
38,3 |
7,8 |
2,2 |
48,3 |
70% hækkun |
37,9 |
7,6 |
2,1 |
47,6 |
80% hækkun |
37,4 |
7,4 |
2,0 |
46,8 |
90% hækkun |
37,0 |
7,2 |
1,9 |
46,0 |
100% hækkun |
36,5 |
7,0 |
1,8 |
45,3 |
Breytingarnar fela hvorki í sér áhrif á rekstrarfyrirkomulag fyrirtækja í sjávarútvegi né munu þær hafa áhrif á einstakar rekstrareiningar þeirra, hvort sem er í veiðum eða vinnslu. Verður því að telja að frumvarpið, verði það að lögum, hafi óveruleg áhrif á samkeppnishæfni og fjárfestingargetu fyrirtækja í sjávarútvegi.
Þegar áhrif frumvarpsins eru borin saman við innheimt veiðigjald vegna ársins 2023 af þeim 92 félögum sem greiddu hæsta veiðigjald það ár þá yrði niðurstaðan eins og sjá má í töflu 24.
Tafla 24. Áhrif breytinga frumvarpsins borin saman við innheimt veiðigjald af 92 félögum sem greiddu hæsta veiðigjald á árinu 2023 í kr.
Flokkun breytingar |
Fjöldi |
Innheimt veiðigjald 2023 |
Áætlað breytt veiðigjald innheimt vegna 2023 |
90–100% hækkun |
9
|
4.813.721.014
|
9.521.424.585
|
80–89% hækkun |
2
|
831.686.796
|
1.551.000.379
|
70–79% hækkun |
5
|
17.430.185
|
30.536.238
|
60–69% hækkun |
6
|
21.450.020
|
35.772.175
|
50–59% hækkun |
5
|
1.134.741.859
|
1.766.668.238
|
40–49% hækkun |
9
|
775.095.057
|
1.141.048.702
|
30–39% hækkun |
10
|
218.928.217
|
297.078.913
|
20–29% hækkun |
13
|
487.969.382
|
615.262.560
|
10%–19% hækkun |
12
|
341.238.565
|
389.823.953
|
0%–9% hækkun |
16
|
577.679.102
|
601.460.996
|
Lækkun veiðigjalds |
5
|
192.315.025
|
180.981.351
|
Samtals
|
92
|
9.412.255.223
|
16.131.058.090
|
Með vísan til framangreinds hefði innheimt veiðigjald af 27 greiðendum af 92 hækkað umfram 50% ef forsendur breytts veiðigjalds hefðu komið til framkvæmda á árinu 2023 og þá hefði innheimt veiðigjald hjá fimm greiðendum af 92 lækkað.
6.4. Áhrif á byggðarlög.
Með vísan til umfjöllunar í kafla 6.3 um áhrif frumvarpsins á samkeppnishæfni og rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja verður að telja að frumvarpið, verði það að lögum, muni hafa óveruleg áhrif á þau byggðarlög þar sem sjávarútvegsfyrirtæki eru staðsett. Í umsögnum sveitarfélaga í samráði um drög frumvarpsins var m.a. bent á að ekki hefði farið fram mat á áhrifum þeirra breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu fyrir sveitarfélög og útsvarstekjur þeirra. Í frumvarpinu er kveðið á um breytingar er varða viðmið um aflaverðmæti við útreikning reiknistofns veiðigjalds fyrir fimm tegundir nytjastofna. Í frumvarpinu eru því ekki lagðar til breytingar sem hafa bein fjárhagsleg áhrif á tekjustofna eða útgjöld sveitarfélaga.
Þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu hafa fyrst og fremst áhrif á gjaldskylda aðila sem greiða veiðigjald af þeim fimm nytjastofnum sem frumvarpið snýst um. Að loknu samráði voru gerðar breytingar á frumvarpinu, sem taka sérstaklega til frítekjumarks í þeim tilgangi að milda áhrif breytinganna á lítil- og meðalstór fyrirtæki þar sem hækkun veiðigjalds kann að hafa áhrif á fjárfestingargetu.
Breytingar samkvæmt frumvarpi þessu munu ekki fela í sér verulega neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja sem greiða veiðigjald og munu þar af leiðandi ekki hafa neikvæð áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga. Í töflu 25 má sjá breytingu á veiðigjaldi á fyrirtæki sem skráð eru í tilgreindum sveitarfélögum.
Sveitarfélag | Breyting |
Fjarðabyggð | 100% |
Sveitarfélagið Hornafjörður | 100% |
Vestmannaeyjabær | 90% – 99% |
Akureyrarbær | 90% – 99% |
Garðabær | 80% – 89% |
Borgarbyggð | 80% – 89% |
Árneshreppur | 80% – 89% |
Hveragerðisbær | 80% – 89% |
Dalabyggð | 80% – 89% |
Rangárþing eystra | 80% – 89% |
Reykjavíkurborg | 70% – 79% |
Fjallabyggð | 70% – 79% |
Súðavíkurhreppur | 70% – 79% |
Vopnafjarðarhreppur | 70% – 79% |
Sveitarfélagið Árborg | 70% – 79% |
Húnabyggð | 70% – 79% |
Sveitarfélagið Vogar | 70% – 79% |
Árborg | 60% – 69% |
Grindavíkurbær | 50% – 59% |
Skagafjörður | 50% – 59% |
Suðurnesjabær | 50% – 59% |
Ísafjarðarbær | 50% – 59% |
Norðurþing | 50% – 59% |
Reykjanesbær | 50% – 59% |
Múlaþing | 50% – 59% |
Strandabyggð | 50% – 59% |
Sveitarfélagið Skagaströnd | 50% – 59% |
Húnaþing vestra | 50% – 59% |
Bolungarvíkurkaupstaður | 40% – 49% |
Vesturbyggð (án Tálknafjarðarhrepps) | 40% – 49% |
Grýtubakkahreppur | 40% – 49% |
Tálknafjarðarhreppur | 40% – 49% |
Akraneskaupstaður | 40% – 49% |
Kaldrananeshreppur | 40% – 49% |
Dalvíkurbyggð | 40% – 49% |
Sveitarfélagið Ölfus | 40% – 49% |
Snæfellsbær | 30% – 39% |
Grundarfjarðarbær | 30% – 39% |
Stykkishólmur | 30% – 39% |
Hafnarfjarðarkaupstaður | 30% – 39% |
Kópavogsbær | 30% – 39% |
Langanesbyggð | 20% – 29% |
Seltjarnarnesbær | 10% – 19% |
Mosfellsbær | 0% – 9% |
Reykhólahreppur | 0% – 9% |
Samtals
|
70% – 79% |
Framangreindar tölur eru birtar með þeim fyrirvara að þær byggjast á upplýsingum um hvar greiðendur veiðigjalds eru með heimilisfesti og endurspeglar tafla 25 því ekki nákvæmlega hvar starfsemi viðkomandi greiðenda veiðigjalds fer fram eða hvar starfsfólk fyrirtækja sem greiða veiðigjald er með skráð lögheimili og greiðir útsvar.
Með frumvarpinu er eingöngu verið að leiðrétta og skýra tiltekna þætti í rekstrarumhverfi fyrirtækja í sjávarútvegi til framtíðar. Niðurstaðan er því sú að frumvarpið feli ekki í sér fjárhagsleg áhrif á tekjur eða útgjöld sveitarfélaga. Í samræmi við 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, var niðurstaða þess mats kynnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir framlagningu frumvarpsins í ríkisstjórn.
6.5. Áhrif á stjórnsýslu.
Samþykkt frumvarpsins mun ekki hafa veruleg áhrif á stjórnsýslu ríkisins. Ekki eru lagðar til verulegar breytingar á aðferðafræði við útreikning reiknistofns veiðigjalds og mun frumvarpið, verði það að lögum, hafa óveruleg áhrif á starfsemi Fiskistofu og ríkisskattstjóra. Ekki eru lagðar til breytingar sem hafa áhrif á gagnasöfnun ríkisskattstjóra. Eina breytingin sem um ræðir er við framkvæmd útreiknings reiknistofnsins þar sem ríkisskattstjóri skal miða við upplýsingar um aflaverðmæti þorsks, ýsu, síldar, kolmunna og makríls samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu, liggi slíkar upplýsingar fyrir. Lagðar eru til óverulegar breytingar á hlutverki Fiskistofu, sem felast í því að safna upplýsingum um meðalverð aflaverðmætis tiltekinna tegunda, birta þær og skila þeim til ríkisskattstjóra sem mun áfram hafa það hlutverk að gera tillögu til ráðherra um fjárhæð veiðigjalds. Frumvarpið mun ekki hafa áhrif á stjórnsýslu sveitarfélaga.
6.6. Jafnréttisáhrif.
Frumvarpið hefur áhrif á gjaldskylda aðila sem greiða veiðigjald. Ekki liggja fyrir kyngreind gögn um þá aðila sem greiða veiðigjald. Til þess að fá heildarmynd af áhrifum frumvarpsins væri hugsanlegt að fara í frekari rannsóknir til þess að afla þessara gagna en ekki verður ráðist í þá vinnu að svo stöddu þar sem ekki er talið að frumvarpið hafi mælanleg áhrif á jafnrétti kynjanna.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Í a-lið er lagt til að aflaverðmæti frystiskipa verði ekki hluti af reiknistofni veiðigjalds og samhliða því verði felld brott 10% lækkun á skráðu aflaverðmæti frysts afla sem kveðið er á um í 2. mgr. 5. gr. gildandi laga um veiðigjald, sbr. b-lið. Í gildandi lögum er því gert ráð fyrir að aflaverðmæti frystitogara sé lækkað um 10%, en við frekari skoðun er aflaverðmæti frystiskipa að jafnaði hærra en sem nemur framangreindri lækkun, enda er um fullunna vöru að ræða. Þar af leiðandi er lagt til að frystiskip séu ekki í reiknigrunni veiðigjalds til þess að taka út þau áhrif af vinnsluhluta frystiskipa. Óvissa er um áhrif þessarar breytingar en líklegt er að hún muni leiða til lækkunar á reiknistofninum að öðru óbreyttu. Áfram mun þó verða greitt veiðigjald af frystum afla sem ber veiðigjald þótt aflaverðmæti frystra afurða verði ekki hluti af reiknistofni veiðigjaldsins. Einnig er lagt til að skilgreina hugtakið frystiskip sem fiskiskip sem frysti aflann um borð og landi 50% eða meira af frystum afla. Áfram verður safnað upplýsingum um afkomu frystiskipa í greinargerð um tekjur og kostnað af veiðum fiskiskipa, en upplýsingar um aflaverðmæti nytjastofna frystiskipa verða aðeins að hluta nýttar við útreikning reiknistofns. Í þeim tilvikum þegar 50% eða meira af lönduðum afla af viðkomandi tegund eru frystar afurðir er lagt til í b-lið að skráð aflaverðmæti verði lækkað um 20% til þess að endurspegla betur raunverulegt aflaverðmæti í viðkomandi tegund þar sem um fullunna vöru við löndun er að ræða. Útreikningur á lækkun aflaverðmætis frystra tegunda í þessum tilvikum verður í höndum ríkisskattstjóra líkt og hefur verið vegna 10% lækkunar á skráðu aflaverðmæti frysts afla samkvæmt gildandi lögum. Ætla má að sú breyting muni hafa áhrif á einstakar tegundir, svo sem grálúðu og gulllax. Markmið frumvarpsins er að leiðrétta verðmyndun. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að aflaverðmæti frystitogara sé lækkað um 10% en við frekari skoðun er aflaverðmæti frystiskipa mun meira, enda er um fullunna vöru að ræða. Þannig er í frumvarpinu lagt til að frystiskipin verði ekki hluti af reiknigrunni veiðigjalds til þess að taka út þau áhrif af vinnsluhluta frystiskipa alfarið. Óvissa er um áhrif þessarar breytingar, en líklegt er að breytingin muni leiða til lækkunar á reiknistofninum að öðru óbreyttu.
Í b-lið eru lagðar til tvær nýjar málsgreinar, sem verða 2. og 3. mgr. 5. gr. Koma þær í stað 1. og 2. málsl. 2. mgr. en núverandi 3.–6. málsl. verða að nýrri 4. mgr. Lagt er til annars vegar að fella brott ákvæði um lækkun á skráðu aflaverðmæti landaðs frysts afla um 10%. Hins vegar er lagt til að fella brott ákvæði um hækkun á skráðu aflaverðmæti síldar, loðnu, kolmunna og makríls um 10%. Þess í stað er með breytingunni lagt til að Fiskistofa safni upplýsingum um meðalverð aflaverðmæta tiltekinna tegunda og birti opinberlega, t.d. á vef stofnunarinnar. Fiskistofa er því sá aðili sem sér um útreikninga á aflaverðmæti í samræmi við ákvæðið áður en upplýsingar um aflaverðmæti eru birtar opinberlega. Lagt er til að aflaverðmæti tiltekinna uppsjávarfisktegunda taki mið af meðalverði samkvæmt opinberum gögnum frá fiskistofu Noregs á ákveðnum tímabilum sem taka mið af veiðitíma íslenskra fiskiskipa við veiðar á tegundunum. Þá er lagt til að tekið sé tillit til vegins meðaltals verðs og magns afla í hverjum mánuði á tímabilinu. Lagt er til að aflaverðmæti verði umreiknað úr norskum krónum í íslenskar krónur miðað við miðgengi norsku krónunnar árið 2024 sem taki breytingum árlega miðað við miðgengi SDR á almanaksári sem reiknistofn miðast við en það er tveimur árum áður en til álagningar kemur, sem dæmi er reiknistofn fyrir álagt veiðigjald 2026 byggður á greinargerð um tekjur og kostnað vegna ársins 2024. SDR gengi er skráð og birt hjá Seðlabanka Íslands og er reiknað út frá gengi tiltekinnar körfu þeirra gjaldmiðla sem helst eru notaðir í milliríkjaviðskiptum. Þannig verði aflaverðmæti norsk-íslenskrar síldar miðað við meðalverð á því tímabili sem íslensk skip stunda veiðar ár hvert, t.d. á tímabilinu 1. september til og með 31. október sama ár og reiknistofn er til viðmiðunar. Þegar um er að ræða verð annarrar síldar en norsk-íslenskrar síldar skal miða verð við 90% af aflaverðmæti norsk-íslenskrar síldar. Þar sem magn afla getur verið breytilegt á milli mánaða er í ákvæðinu lagt til að tillit sé tekið til vegins aflamagns í hverjum mánuði á veiðitímabilinu.
Lagt er til að aflaverðmæti kolmunna miðist við meðalverð á hvert kílógramm á því tímabili sem íslensk skip stunda veiðar ár hvert og reiknistofn miðast við. Aflaverðmæti makríls miðist við meðalverð á hvert kílógramm á tímabili sem íslensk skip stunda veiðar ár hvert, sem að jafnaði hefur verið frá 1. júlí til og með 31. ágúst. Þá er lagt til að aflaverðmæti þorsks og ýsu taki mið af meðalverði fyrir hvert kílógramm hvers mánaðar á fiskmarkaði yfir 12 mánaða tímabil sama ár og reiknistofn miðast við, að teknu tilliti til vegins meðaltals verðs slægðs og óslægðs afla. Ástæða þess er að mismunur er í hlutfalli slægðs og óslægðs afla sem seldur er á fiskmarkaði og þeim afla sem bein viðskipti eru með. Aflaverðmæti annarra nytjastofna fyrir hvert fiskiskip mun áfram byggjast á upplýsingum um aflaverðmæti sem koma fram í greinargerð um tekjur og kostnað af veiðum fiskiskipa samkvæmt gildandi 3. mgr. 5. gr. laganna, nánar tiltekið á eyðublaði RSK 4.29. Í ákvæðinu er einnig mælt fyrir um að ef ekki liggi fyrir upplýsingar um meðalverð tiltekinna tegundar skv. 1. og 2. tölul. 3. mgr. í tilteknum mánuði þá skuli aflaverðmæti í þeirri tegund þann mánuð byggja á aflaverðmæti samkvæmt greinargerð skv. 5. mgr. 5. gr. laganna.
Í c-lið er lagt til að 3.–6. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna, sem fjalla um breytilegan og fastan kostnað, verði komið fyrir í nýrri 4. mgr. 5. gr. og breytist þá röð málsgreina þar á eftir. Er breytingin m.a. lögð til svo að skrefin í útreikningi reiknistofns veiðigjalds haldist í réttri röð innan greinarinnar. Í d- og e-lið eru lagðar til breytingar á tilvísunum til málsgreina innan 5. gr. laganna þar sem röð málsgreina tekur breytingum. Um nánari skýringar ákvæðisins er að öðru leyti vísað til 3. kafla frumvarpsins.
Um 2. gr.
Um 3. gr.