Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 852  —  345. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um úttekt á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.


     1.      Hefur ráðherra látið gera úttekt á framkvæmd laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, með hliðsjón af áætlun stjórnvalda vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka 2021–2023 og í samræmi við það sem lagt var til í áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar á þskj. 2037 á 154. löggjafarþingi, þar sem gert var ráð fyrir að slík úttekt færi fram samhliða endurskoðun á áhættumati ríkislögreglustjóra?
    Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru í stöðugri skoðun innan ráðuneytisins. Nú er hafinn undirbúningur fyrir fimmtu úttekt alþjóðlega fjármálaaðgerðahópsins FATF sem fer fram í maí og júní 2026 gagnvart Íslandi. Um er að ræða umfangsmikla úttekt á því hvernig til hefur tekist að samræma löggjöf og reglur hér á landi tilmælum FATF auk þess sem metið er hversu skilvirkt stjórnkerfið er í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og gereyðingarvopna. Vel má vera að niðurstöður þeirrar úttektar kalli á breytingar.
    Forsögu að setningu laga nr. 140/2018 má m.a. rekja til niðurstaðna fjórðu allsherjarúttektar FATF á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem lauk í febrúar 2018. Úttektin leiddi, eins og þekkt er orðið, í ljós ýmsa veikleika á íslenskri löggjöf sem úr hefur verið bætt á undanförnum árum, m.a. með setningu hinna nýju heildarlaga þar sem innleiddar voru fjórða og fimmta peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins ( 2015/849/EB og 2018/843/EB). Um er að ræða grundvallarlöggjöf á þessu sviði sem hefur bein tengsl og áhrif á aðra lagabálka sem jafnframt hafa undirgengist viðamiklar breytingar, til að mynda löggjöf er varðar framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna og löggjöf er varðar skráningu raunverulegra eigenda.
    Sá málaflokkur sem um ræðir og það regluverk sem honum tengist er í stöðugri skoðun og þróun. Getur sú þróun verið mjög hröð og kallað á hraðar lagabreytingar, m.a. vegna breytinga á stöðlum FATF, viðbragða við metinni áhættu og/eða breytinga á regluverki Evrópusambandsins í málaflokknum. Sem dæmi liggur nú fyrir að á vettvangi FATF er unnið að breytingum á tilmælum 1, sem m.a. lúta að einfaldaðri áreiðanleikakönnun, sem gera verður ráð fyrir að kalli á breytingar á lögum nr. 140/2018. Í því samhengi skal tekið fram að tilmæli FATF eru leiðandi í alþjóðlegum skilningi í málaflokknum og hafa tilskipanir Evrópusambandsins, sem íslensk löggjöf byggir að meginstefnu á, verið í samræmi við tilmælin. Þá liggur fyrir að nýtt regluverk Evrópusambandsins á sviði aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hefur verið samþykkt á vettvangi Evrópusambandsins og er unnið að upptöku þess í EES-samninginn. Mun það regluverk fyrirsjáanlega kalla á breytingar á lögum nr. 140/2018 í nánustu framtíð.
    Málaflokkurinn er í stöðugri skoðun og framundan viðamikil undirbúningur fyrir úttekt FATF. Mikil samskipti eru við helstu hagsmunaaðila vegna úttektar FATF þar sem ýmiss konar athugasemdir og sjónarmið koma fram. Talið er rétt að klára þá vinnu og úttekt og meta síðan hvort þörf sé á frekari úttekt.

     2.      Ef svo er, hvenær hófst vinna við úttektina, hverjir annast hana og hvenær er gert ráð fyrir að niðurstöður hennar liggi fyrir?
    Vísast til svars við 1. tölulið fyrirspurnarinnar.

     3.      Ef svo er ekki, hver er ástæða þess að úttektin hefur ekki farið fram?
    Vísast til svars við 1. tölulið fyrirspurnarinnar.