Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 532  —  343. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Inga Jóhannssyni um hlutdeildarlán.


     1.      Hversu mörg hlutdeildarlán hafa verið veitt frá upphafi og hver er uppsöfnuð heildarfjárhæð þeirra?
    Frá því hlutdeildarlán voru tekin í notkun í árslok 2020 hafa verið veitt 1.006 hlutdeildarlán að upphæð samtals 10,4 milljarðar kr. Með „veittum lánum“ er átt við þau lán sem eru að fullu frágengin og íbúðir teknar í notkun.

     2.      Hvernig skiptast veitt hlutdeildarlán eftir sveitarfélögum?
    Hlutdeildarlán hafa fram til þessa verið veitt til kaupa á íbúðum í alls 29 sveitarfélögum um allt land. Fjölda veittra lána og lánsfjárhæð eftir sveitarfélögum má sjá í eftirfarandi töflu:

Sveitarfélag Fjöldi lána Hlutfall Heildarlánsfjárhæð í kr.
Reykjavíkurborg 249 24,75% 2.546.058.423
Hafnarfjarðarkaupstaður 204 20,28% 2.651.337.900
Reykjanesbær 139 13,82% 1.128.483.214
Akureyrarbær 62 6,16% 458.976.469
Akraneskaupstaður 56 5,57% 447.384.600
Sveitarfélagið Árborg 54 5,37% 495.744.600
Garðabær 52 5,17% 709.262.000
Sveitarfélagið Vogar 34 3,38% 384.108.400
Mosfellsbær 27 2,68% 282.691.900
Sveitarfélagið Ölfus 26 2,58% 259.972.200
Kópavogsbær 25 2,49% 332.240.300
Suðurnesjabær 19 1,89% 175.190.800
Hveragerðisbær 12 1,19% 108.542.800
Dalvíkurbyggð 7 0,70% 60.205.725
Hvalfjarðarsveit 7 0,70% 71.018.500
Múlaþing 6 0,60% 61.530.000
Fjarðabyggð 5 0,50% 47.394.600
Rangárþing ytra 4 0,40% 23.311.900
Hörgársveit 4 0,40% 33.960.000
Borgarbyggð 3 0,30% 28.600.000
Húnabyggð 2 0,20% 16.630.000
Ísafjarðarbær 2 0,20% 14.801.400
Skaftárhreppur 1 0,10% 8.200.000
Grindavíkurbær 1 0,10% 7.600.000
Bolungarvíkurkaupstaður 1 0,10% 8.200.000
Rangárþing eystra 1 0,10% 8.217.000
Vesturbyggð 1 0,10% 7.900.000
Bláskógabyggð 1 0,10% 10.387.800
Sveitarfélagið Stykkishólmur 1 0,10% 5.740.000
Samtals 1.006 10.393.690.531

     3.      Hver hafa fjárhagsleg áhrif hlutdeildarlána verið á ríkissjóð vegna skuldbindingar annars vegar og sölu hins vegar?
    Útistandandi hlutdeildarlán eru að upphaflegri fjárhæð um 9,5 milljarðar kr. Miðað við þróun fasteignaverðs er virði þeirra nú 12,8 milljarðar kr. og óinnleystur mismunur því um 3,3 milljarðar kr.
    Framtíðarafkoma af hlutdeildarlánum er óviss í ljósi þess að endurgreiðsla þeirra tekur mið af íbúðaverði. Mat sem fram hefur farið á hugsanlegu markaðsvirði (gangvirðismati) gefur til kynna að núverandi verðmæti útistandandi lána sé á bilinu 7–8,3 milljarðar kr. Miðað við þá stöðu er heildarkostnaður/skuldbinding af veitingu hlutdeildarlána því á bilinu 0,9–2,2 milljarðar kr.
    Hlutdeildarlán eru veitt til 10 ára með heimild til framlengingar á lánstímanum í 5 ár í senn þó að hámarki til 25 ára samtals. Lánin skal endurgreiða við sölu fasteignar í samræmi við verðþróun hennar á lánstímanum. Lántakendur hafa hingað til greitt upp 112 lán þar sem uppgreiðsluvirði lánanna hefur verið um 34% hærra en höfuðstóll þeirra.
    Upplýsingar um fjölda og fjárhæðir uppgreiddra lána (eftir uppgreiðsluári) má sjá í eftirfarandi töflu:

Ár Fjöldi lána Útgefið lán í kr. Uppgreiðsluvirði í kr. Mismunur
2021 1 4.112.000 5.280.000 1.168.000 28,4%
2022 11 83.385.100 108.949.200 25.564.100 30,7%
2023 37 287.912.981 377.848.147 89.935.166 31,2%
2024 44 371.993.480 505.854.745 133.861.265 36,0%
2025 19 161.345.830 221.202.229 60.276.399 37,4%
Samtals 112 908.749.391 1.219.134.321 310.804.930 34,2%

     4.      Hversu mörg hlutdeildarlán er áætlað að veita á yfirstandandi ári og næstu fjögur ár, þ.e. á tímabilinu 2025–2029?
    Gera má ráð fyrir að um 300 hlutdeildarlán verði veitt á yfirstandandi ári. Miðað við áætlaðar lánaheimildir og meðalverð íbúða sem fengið hafa hlutdeildarlán síðustu mánuði má áætla að fjöldi íbúða sem fá hlutdeildarlán næstu fjögur árin geti orðið u.þ.b. 260 á hverju ári.

     5.      Telur ráðherra tilefni til að endurskoða forsendur hlutdeildarlána, svo sem hámarksverð og tekjuviðmið, til þess að gefa fleiri hópum samfélagsins færi á að eignast fasteign, m.a. í ljósi hækkandi fasteignaverðs?
    Töluverð umframeftirspurn hefur verið eftir hlutdeildarlánum og hefur það fjármagn sem til ráðstöfunar hefur verið hverju sinni því verið fullnýtt í úthlutunum síðustu misseri. Bæði hámarksverð hlutdeildarlánaíbúða og tekjumörk lántaka hlutdeildarlána eru endurskoðuð árlega. Fylgst er með verðþróun á byggingar- og fasteignamarkaði en ekki hefur verið tekin ákvörðun að svo stöddu um hvort hámarksverð og tekjumörk vegna hlutdeildarlána verði hækkuð við árlega endurskoðun í ár. Á sama tíma og hækkun fasteignaverðs getur leitt til þess að hækka þurfi hámarksverð hlutdeildarlánaíbúða er mikilvægt að slíkar hækkanir séu eins hóflegar og unnt er til að þær stuðli ekki að frekari hækkun fasteignaverðs í landinu. Hámarksverð er breytilegt eftir staðsetningu íbúða og tekur mið af markaðsaðstæðum hverju sinni. Misjafnt getur því verið hversu mikið þarf að hækka hámarksverð hlutdeildarlánaíbúða eftir því hvar þær eru staðsettar og miðast endurskoðunin við að hámarksverð hlutdeildarlána endurspegli raunverulegt verð á hagkvæmu húsnæði á viðkomandi svæði.