Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 620 — 319. mál.
3. umræða.
Nefndarálit
um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2025.
Frá meiri hluta fjárlaganefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu þess. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands komu á fund nefndarinnar. Einnig kom Óttar Guðjónsson á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir umsögn sinni um frumvarpið.
Nefndin fjallaði sérstaklega um atriði sem fram komu í umsögn Óttars. Þar má nefna þætti um lögmæti tilboðsins, verðmat HFF-bréfa ÍL-sjóðs og jafnræði stórra og smárra eigenda HFF-bréfa.
Fundur kröfuhafa.
Nefndin kallaði eftir afriti af fundargerð af fundi kröfuhafa og þar kom fram að Óttar Guðjónsson hefði mótmælt tillögu sem lá fyrir fundinum og talið að ekki væri rétt staðið að málum og að fundurinn væri ekki ályktunarbær um tillögu ÍL-sjóðs. Fundarstjóri tók afstöðu til athugasemdanna og hafnaði þeim.
Fundurinn var haldinn 10. apríl sl. og þar var tillagan samþykkt með áskildum meiri hluta atkvæða í samræmi við ákvæði skilmála skuldabréfaútgáfunnar. Um 81% samþykktu tilboðið en nauðsynlegt var að a.m.k. 75% samþykktu það.
Lögmæti tilboðsins.
Í umsögn Óttars Guðjónssonar kemur skýrt fram að hann telur tilboðið ekki í samræmi við lagatúlkun og vísar í því sambandi til minnisblaðs lögmannsstofu frá árinu 2022 þar sem fram komi að ekki sé unnt að greiða skuldina hraðar eða með öðrum hætti en um var samið í skuldabréfunum sjálfum. Hann telur því að uppgreiðsla bréfanna og skipti á öðrum bréfum núna sé óheimil.
Að áliti fjármála- og efnahagsráðuneytisins og lögfræðilegra ráðgjafa þess uppfyllir tillagan þær form- og efniskröfur sem gerðar eru til tillagna fyrir fundi skuldabréfaeigenda og kveðið er á um í umsýslusamningi og viðaukum við hann, sem eru órjúfanlegur hluti af skjalagerð tengdri útgáfu HFF-skuldabréfa ÍL-sjóðs, hvort sem þeir hafa verið birtir með formlegum hætti í Kauphöllinni eða ekki.
Ráðuneytið bendir jafnframt á að lögfræðiálitið frá 2022 kveði einmitt á um að það þurfi fund skuldabréfaeigenda til þess að breyta skilmálunum.
Í skilmálum HFF-bréfanna eru talin upp þau atriði sem heimilt er að leggja fyrir fund kröfuhafa og ekki er fjallað sérstaklega um heimild til skilmálabreytingar eins og þeirrar sem lögð var fram á fundi kröfuhafa. Í svokölluðum „fiscal agency“-umsýslusamningi er hins vegar kveðið á um endanlega skilmála HFF-bréfanna. Umsýslusamningur er við Íslandsbanka hf. og tillagan fellur undir „reserved matter“ samkvæmt skilgreiningu á því hugtaki í viðauka G við umsýslusamninginn. Viðauki G sem vísað var til í skráningarlýsingu skuldabréfanna er bindandi hluti af skilmálum þeirra. Birting viðaukans sem fylgiskjals í Kauphöllinni er á hinn bóginn ekki gildisskilyrði skilmálanna.
Ákvæði 15. gr. meginskilmála vísar beint til þess að reglur um skilmálabreytingar sé að finna í umsýslusamningnum. Ákvæðið heimilar skilmálabreytingar af hvaða toga sem er og er almenna reglan að samþykkishlutfall sé 3/ 4 greiddra atkvæða.
Ráðuneytið bendir á að í viðræðum við þorra kröfuhafa hafi aldrei komið til tals að heimildir þeirra til fyrirhugaðra skilmálabreytinga væru ekki í samræmi við viðauka G við umsýslusamninginn.
Jafnræði stórra og smárra eigenda HFF-bréfa.
Að áliti ráðuneytisins felur uppgjörið í sér umtalsvert betra verð en í viðskiptum með bréfin á markaði í október 2022. Þeir sjóðir sem hafa farið með HFF-bréfin á markaðsverði muni því innleysa hagnað af uppgjörinu.
Í umsögn Óttars er talið að ekki sé gætt jafnræðis milli stórra og smárra eigenda bréfanna. Bent er á að ávöxtunin sé mismunandi. Ráðuneytið bendir hins vegar á að aðferðafræðin við verðmatið miðist við að bæta eigendum framtíðargreiðsluflæði bréfanna og endurgjaldið metið á grunni markaðsforsendna að því er varðar skuldabréf og telur að með því fái allir eigendur HFF-bréfa eignir með sambærilegan líftíma og verðmetnar með sömu aðferðafræði sem leiði til fulls jafnræðis milli eigenda. Virðismatið sé því nákvæmlega það sama en eðli eignanna ólíkt.
Óumdeilt er að þeir sem eiga lægri kröfur fá uppgjör sem eru ekki með sömu eignum og stærri eigenda og jafnframt liggur fyrir að minni eigendur fá hlutfallslega mikið greitt í reiðufé í uppgjörinu eins og bent er á í umsögn Óttars. Það hefur verið skýrt með því að nafnverðseiningar skuldabréfa (þriðja aðila) séu stærri en svo að hægt sé að ná jafnvægi eða réttu hlutfalli þegar um er að ræða fjárhæðir lægri en 1,2 ma.kr.
Ráðuneytið bendir á að einnig sé um að ræða fjölbreyttara eignasafn til hinna stærri kröfuhafa sem ekki henti endilega þeim sem eigi minni kröfur. Uppgjörið gagnvart þeim sem eigi lægri kröfur sé því fyrst og fremst einfaldara og með eignum sem hafa fullkomlega gagnsætt markaðsvirði. Þá bendir ráðuneytið á að reiðufé sé upphaflega umsaminn greiðslueyrir HFF-bréfanna og þar með sá sem kröfuhafar máttu vænta að fá afhentan við uppgjör. Framtíðarvextir hafi verið metnir inn í uppgjörsfjárhæð. Ráðuneytið telur því að umfang reiðufjárgreiðslna geti ekki talist óeðlilegt.
Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar.
Sú tillaga sem samþykkt var á fundi skuldabréfaeigenda var sameiginleg niðurstaða viðræðunefnda og talin vera í þágu hagsmuna beggja aðila þegar litið var til allra aðstæðna og forsendna, m.a. markaðsvirðis HFF-bréfanna, lítils seljanleika þeirra og óvissu um hvernig staðið yrði að uppgjöri þegar fjármunir ÍL-sjóðs gengju til þurrðar. Tillagan sem samþykkt var byggðist á niðurstöðu samningaviðræðna við 18 lífeyrissjóði. Tillagan er þar með bindandi um skilmálabreytingu og verður að efna í samræmi við niðurstöðu fundarins.
Meiri hlutinn telur bagalegt að ekki sé kostur á því að allir kröfuhafar fái algerlega sambærilegar eignir óháð umfangi þeirra en ráðuneytið hefur útskýrt þá stöðu með ítarlegum minnisblöðum.
Meiri hlutinn leggur því til að Alþingi veiti tillögunni brautargengi með samþykkt frumvarpsins sem heimilar ríkissjóði að gefa út ríkisskuldabréf til að endurfjármagna skuld ríkissjóðs við ÍL-sjóð og innleysa hluta eigna sjóðsins ásamt því að gera upp fyrirliggjandi ríkisábyrgð á skuldum sjóðsins.
Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
Alþingi, 2. júní 2025.
Ragnar Þór Ingólfsson, form., frsm. |
Dagur B. Eggertsson. | Arna Lára Jónsdóttir. | |
Eiríkur Björn Björgvinsson. | Heiða Ingimarsdóttir. |