Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 535  —  319. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2025.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem kynntu frumvarpið og svöruðu spurningum nefndarmanna.
    Nefndinni bárust þrjár umsagnir sem eru aðgengilegar á síðu málsins á vef Alþingis.

Tilgangur og markmið frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2025 sem fjallar um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir ríkissjóðs. Óskað er eftir heimild til að gefa út ríkisskuldabréf fyrir allt að 510 ma.kr.
    Nú þegar liggur fyrir heimild í 6. gr. fjárlaga, sbr. lið 7.28, þar sem fjármála- og efnahagsráðherra er heimilt að ganga til samninga um uppgjör á ÍL-sjóði með skiptum á eignum úr eignasafni sjóðsins og tilteknum eignum ríkissjóðs, eftir atvikum er um að ræða skuldabréf, hlutabréf og aðrar sambærilegar eignir ásamt því að gera upp fyrirliggjandi ríkisábyrgð á skuldum ÍL-sjóðs.
    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við tillögu viðræðunefnda fjármála- og efnahagsráðuneytisins og 18 lífeyrissjóða, sem saman fara með yfirgnæfandi hluta skulda ÍL-sjóðs (áður Íbúðalánasjóðs).
    Frumvarpið felur í sér nauðsynlegar heimildir fyrir ríkissjóð til útgáfu ríkisskuldabréfa sem er forsenda þess að ÍL-sjóður geti gert upp við kröfuhafa sína á grundvelli tillögu sem byggist á viðræðum við lífeyrissjóðina. Tillagan var birt opinberlega hinn 10. mars sl. og felur í sér heimild til ÍL-sjóðs til að greiða skuldabréf upp að fullu með afhendingu tiltekinna eigna innan tímamarka sem miðast við 14. júní nk.
    Forsaga og forsendur málsins eru raktar í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Fram hefur komið að verkefnisstjórn ÍL-sjóðs, sem skipuð var af fjármála- og efnahagsráðherra, hefur fjallað um tillöguna með hliðsjón af þeim möguleikum sem taldir eru standa ríkissjóði til boða varðandi framtíð sjóðsins og lagt til við ráðherra að samið verði við eigendur krafna á þeim forsendum, skuldir gerðar upp og ríkisábyrgð vegna þeirra þar með og sjóðum að loknu uppgjöri slitið.
    Formlegar samningaviðræður milli ríkissjóðs og fulltrúa lífeyrissjóðanna hófust í lok febrúar 2024. Hinn 10. apríl sl. var haldinn fundur skuldabréfaeigenda ÍL-sjóðs þar sem lögð var fram tillaga að skilmálabreytingu bréfanna sem heimilar útgefanda að gera bréfin upp með afhendingu tiltekinna eigna. Mikill meiri hluti, eða meira en 81% eigenda, samþykkti tillöguna.
    Fyrir liggur að virði skuldanna í samkomulaginu við eigendur bréfanna, að viðbættum öðrum skuldum, er 673 ma.kr. og á móti vegur að gangvirði eigna ÍL-sjóðs nemur 504 ma.kr. Kostnaður ríkissjóðs við að gera upp ríkisábyrgðina er því metinn á um 169 ma.kr.
    Meiri hlutinn tekur undir umsögn Seðlabankans um frumvarpið þar sem fram kemur að ætla megi að skuldahlutföll ríkissjóðs sem alþjóðleg matsfyrirtæki horfa til muni lækka. Einnig kemur fram að með uppgjöri skulda ÍL-sjóðs er komið í veg fyrir taprekstur sjóðsins á næstu árum með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð. Afkomuáhrif frumvarpsins eru því jákvæð þegar horft er til A-hluta ríkissjóðs í heild, enda þótt halli á vaxtajöfnuði A1-hlutans muni aukast við aukna skuldabréfaútgáfu.
    Ávinningur ríkissjóðs af samkomulaginu er fjórþættur:
          Taprekstur ÍL-sjóðs verður stöðvaður.
          Kostnaður við uppgjör ábyrgðar liggur fyrir og fjármögnun til lengri tíma tryggð með hagkvæmum hætti.
          Samkomulagið bindur enda á óvissu og treystir orðspor ríkissjóðs.
          Það hefur líka jákvæð áhrif á skuldahlutföll og vaxtakostnað A-hluta ríkissjóðs á næstu árum.
    Áætlað er að vaxtagjöld A1-hluta ríkissjóðs aukist um 10–15 ma.kr. á ári vegna hærri skuldastöðu A1-hluta í kjölfar uppgjörsins. Á móti vegur að vaxtatekjur aukast um u.þ.b. 10 ma.kr. á ári vegna vaxtaberandi eigna sem renna til ríkissjóðs. Samanlagt eru áhrifin á heildarafkomu ríkissjóðs því neikvæð um 5 ma.kr. á ári vegna lakari vaxtajafnaðar.
    Áhrifin á heildarafkomu A-hluta ríkissjóðs í heild eru hins vegar jákvæð um u.þ.b. 10 ma.kr. á ári þar sem áætlað var að ÍL-sjóður hefði að óbreyttu verið með neikvæða afkomu út tímabil fjármálaáætlunar. Uppsafnaður bati í heildarafkomu ríkissjóðs í heild nemur því u.þ.b. 50 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar, þ.e. uppsafnað á árunum 2026–2030. Unnið er að nánari greiningu með hliðsjón af uppgjörsskilmálum og gert er ráð fyrir að breytingartillaga verði lögð fram við síðari umræðu um fjármálaáætlun fyrir árin 2026–2030 (264. mál).

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Ingvar Þóroddsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 21. maí 2025.

Ragnar Þór Ingólfsson,
form., frsm.
Arna Lára Jónsdóttir. Dagbjört Hákonardóttir.
Eiríkur Björn Björgvinsson. Ingvar Þóroddsson.