Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Prentað upp.

Þingskjal 320  —  284. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um stuðning við jarðakaup ungs fólks á landsbyggðinni.


Flm.: Þórarinn Ingi Pétursson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þorgrímur Sigmundsson, Halla Hrund Logadóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, María Rut Kristinsdóttir, Ingvar Þóroddsson.


    Alþingi ályktar að fela atvinnuvegaráðherra, í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra, að móta og innleiða nýtt fyrirkomulag stuðnings við jarðakaup ungs fólks á landsbyggðinni með það að markmiði að styrkja nýliðun í matvæla- og fóðurframleiðslu, landvernd og skógrækt. Fyrirkomulagið feli í sér að ríkissjóður geti, í gegnum viðeigandi stofnun, gengið inn í samþykkt kauptilboð aðila undir 45 ára aldri í jarðir eða hluta jarða, leigt tilboðsgjafa jörðina í allt að fimm ár og síðan veitt honum kauprétt að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Ráðherra leggi fram fyrstu útfærslu fyrirkomulagsins eigi síðar en 1. október 2026.

Greinargerð.

    Á tímum loftslagsbreytinga, óvissu í alþjóðlegum matvælamálum og hnignunar vistkerfa er brýnt að móta nýjar og framsýnar leiðir til að tryggja sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Tillaga þessi miðar að því að styrkja nýliðun á landsbyggðinni með því að veita ungu fólki aðgang að landi til matvælaframleiðslu, fóðurframleiðslu, skógræktar og vistvænnar nýtingar, ásamt raunhæfum möguleika á eignarhaldi til framtíðar.
    Um leið er um að ræða hagnýtt og markvisst framlag til loftslagsaðgerða og skuldbindinga Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu og öðrum alþjóðlegum sáttmálum um náttúruvernd og kolefnisbindingu, þar sem jarðvegsvernd og endurheimt lands gegna lykilhlutverki.
    Meginhugmynd verkefnisins felst í að kaupréttur að landi verði grunnur aukinnar verðmætasköpunar og náttúruverndar. Hugmyndin byggist á því að ríkissjóður, í gegnum Byggðastofnun eða aðra viðeigandi stofnun, geti gengið inn í samþykkt kauptilboð ungs einstaklings (undir 45 ára aldri) í jörð eða hluta jarðar. Landið er keypt á markaðsforsendum og leigt viðkomandi til allt að fimm ára með kauprétti að þeim tíma liðnum, að uppfylltum skýrum skilyrðum.
    Slíkt fyrirkomulag leiðréttir augljósan markaðsbrest og fjármagnshindranir sem ungt fólk stendur frammi fyrir þegar það reynir að hefja sjálfbæra landnýtingu eða matvælaframleiðslu. Jafnframt er gert ráð fyrir sveigjanleika í eignarhaldi, t.d. með kauprétti að hluta jarðar, þar sem það á við, sérstaklega í tilvikum sem tengjast skógrækt, sem skilar arði á lengri tíma en hefðbundinn landbúnaður.
    Tillagan fellur vel að stefnumörkun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, þar sem áhersla er lögð á náttúrulegar lausnir við kolefnisbindingu og endurheimt vistkerfa. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. Náttúruleg kolefnisbinding í gegnum skógrækt, landgræðslu og vistvæna nýtingu lands gegnir þar lykilhlutverki.
    Í þessum tilgangi verður verkefninu „Nýjar rætur“ hrundið af stað en verkefnið veitir ungu fólki tækifæri til að verða virkir þátttakendur í þessum mikilvægu markmiðum og stuðlar þannig að samfélagslegri sátt um loftslagsaðgerðir. Um leið má líta á tillöguna sem hagnýtt og félagslega réttlátt verkfæri í loftslagsmálum þar sem lausnir verða hluti af byggðaþróun, atvinnusköpun og sjálfbærri nýting auðlinda.
    Tillagan er nátengd tveimur öðrum þingsályktunartillögum Framsóknar á vorþingi 2025. Annars vegar er um að ræða tillögu til þingsályktunar sem miðar að þjóðarátaki í landgræðslu og skógrækt. Hins vegar er um að ræða þingsályktun sem miðar að auknum takmörkunum á jarðakaupum erlendra aðila hérlendis. Með því að samræma og samtengja þessi þrjú verkefni verður til öflugur rammi þar sem ungt fólk fær aðgang að landi sem það nýtir undir kolefnisbindingu, endurheimt vistkerfa og sjálfbæra framleiðslu og hefur í kjölfarið tækifæri til að festa rætur og byggja framtíð í heimabyggð. Um leið er stuðlað að auknu eignarhaldi á innlendum jörðum og auðlindum.
    Verkefnið styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, einkum markmið 2 (matvælaöryggi), markmið 13 (aðgerðir í loftslagsmálum) og markmið 15 (lífríki á landi), auk þess að styrkja innleiðingu aðgerðaáætlunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum frá 2024.
    Ljóst er að jarðir á Íslandi geyma fjölbreyttar auðlindir, svo sem jarðhita, vatnsréttindi, veiðiréttindi og jarðefni. Á undanförnum árum hafa slík verðmæti í vaxandi mæli fallið í hendur erlendra fjárfesta. Slíkt kallar á varkára nálgun og skýra stefnu um að tryggja innlenda stjórnun og nýtingu þessara auðlinda.
    Verkefnið „Nýjar rætur“ stuðlar að því að íslenskt ungt fólk eignist jörðina sem það nýtir, frekar en að land falli í hendur fjársterkra aðila án tengsla við svæðin sjálf, eða að jarðir leggist í eyði. Með því er enn fremur tryggt að arður og ábyrgð af auðlindanýtingu haldist innan lands.
    Verkefnið mun í fyrstu ná til takmarkaðs fjölda jarða og vera háð skýrum skilyrðum um sjálfbæra nýtingu, samfélagslegt gildi, rekstrarhæfni og áreiðanleikakönnun. Tilgangurinn er að skapa fyrirmynd sem hægt er að byggja á. Því er ólíklegt að verkefnið hafi marktæk áhrif á þróun verðs á jarðnæði. Hagsmunir ríkisins eru jafnframt tryggðir með því að jarðir eru keyptar á markaðsforsendum og líklegar til verðmætaaukningar.
    Tillagan felur þannig í sér bæði stefnumótandi aðgerð til stuðnings matvælaöryggi, byggðastefnu og innlendri eign auðlinda og raunhæft framlag til markmiða Íslands í loftslagsmálum. Hún sýnir að loftslagsaðgerðir og samfélagsleg ábyrgð fara saman og að framtíð byggðarlaga, vistkerfa og náttúrunnar sjálfrar er samofin því hvernig við nýtum landið og á hvern við treystum til að rækta það.