Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 307  —  273. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að tryggja áframhaldandi skólastarf Laugaskóla sem verður 100 ára haustið 2025.


Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorgrímur Sigmundsson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að tryggja að skólastarf haldist áfram í Framhaldsskólanum á Laugum (Laugaskóla), sem verður 100 ára haustið 2025.

Greinargerð.

    Tillaga þessi til þingsályktunar var áður lögð fram á 154. löggjafarþingi (þskj. 1822, 1147. mál) en náði ekki fram að ganga.
    Héraðsskólinn á Laugum hóf störf á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu haustið 1925, þar sem Laugamönnum hefur tekist að halda úti samfelldu skólastarfi í bráðum 100 ár, en alls tíu héraðsskólar voru stofnaðir í héruðum landsins á sinni tíð. Með sameiningu Héraðsskólans á Laugum og Húsmæðraskóla Þingeyinga árið 1988 tók Framhaldsskólinn á Laugum til starfa og rekur þar þrjár heimavistir, Fjall (Draugastein), Álfastein og Tröllastein, og eru nemendur um 100 ár hvert.
    Tvær heimavista skólans eru reknar í húsnæði ríkisins en sú stærsta er rekin í húsnæði Tröllasteins ehf. Sú heimavist er eina húsnæði skólans sem ekki er í eigu ríkisins og hefur skólinn leigt húsið. Leigusamningur um húsið rennur sitt skeið 31. ágúst 2025 og hefur ekki verið endurnýjaður.
    Tröllasteinn er bygging á þremur hæðum með 35 tveggja manna herbergjum með baði. Auk þess er þar matsalur, sem notaður er undir félagsaðstöðu fyrir nemendur, og eldhús. Stærð hússins er 1.228 m2. Eftir að Tröllasteinn var byggður voru þær heimavistir skólans sem voru í eigu ríkisins, Fjall (Draugasteinn) og Álfasteinn, lagfærðar og þar gerð herbergi með baði. Á Fjalli eru 15 herbergi með rými fyrir 31 nemanda og í Álfasteini eru sjö herbergi með rými fyrir 14 nemendur.
    Ljóst er að án Tröllasteins verður ekki rekinn framhaldsskóli á Laugum þar sem ekki er þá rými fyrir fleiri en um 40 nemendur auk þess sem þrengjast myndi um félagsaðstöðu nemenda. Þá hefur skólameistari sagt að það auðveldi gæslu á heimavist að þurfa ekki að reka fleiri en þrjár heimavistir og að geta haft marga nemendur á sömu vistinni (Tröllasteini), sérstaklega nýnema meðan þeir eru að átta sig á reglum, umgengni, hegðun, skólabrag og öðru sem fylgir því að vera í heimavistarskólanum Framhaldsskólanum á Laugum.
    Einnig er ljóst að núverandi eigendur Tröllasteins vilja losa það fjármagn sem hefur verið bundið í byggingunni og án nokkurrar arðsemi/arðgreiðslna frá aldamótum.
    Skólahald við Framhaldsskólann á Laugum er í uppnámi fyrir veturinn 2025–2026 og því mikilvægt að ríkið eignist heimavistina Tröllastein og leigi skólanum hana eins og annað skólahúsnæði á staðnum.
    Framhaldsskólinn á Laugum er mjög vinsæll skóli og hefur undanfarin ár þurft að hafna nemendum um skólavist. Skólinn hefur að auki sérstöðu meðal framhaldsskóla vegna þess náms- og kennsluumhverfis sem rekið er á Laugum og vegna þess fjölbreytta starfs sem skólinn býður upp á.
    Skólastjórnendur og aðrir Laugamenn segja mjög mikilvægt fyrir Laugaskóla að hafa eignarhald bygginganna sem hann notar á einni og sömu hendi svo að unnt sé að tryggja húsnæði fyrir nemendur og þar með skólahald til framtíðar.
    Fullkomin óvissa er um áframhaldandi skólastarf á Laugum skólaárið 2025–2026 sem hefst næsta haust. Flutningsmenn telja að Framhaldsskólanum á Laugum yrði mikill sómi sýndur með því að ríkið eignaðist heimavistina Tröllastein á 100 ára afmælisárinu og þar með yrði stuðlað að áframhaldandi skólastarfi á Laugum.