Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Prentað upp.
Þingskjal 608 — 267. mál.
Undirskrift.
Síðari umræða.
Nefndarálit
um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir árin 2025–2029.
Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Eldvötnum – samtökum um náttúruvernd í Skaftárhreppi, Landvarðafélagi Íslands, Landsvirkjun, Orkuveitunni, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun og Náttúrustofu Austurlands.
Nefndinni bárust níu umsagnir auk minnisblaðs frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
Með þingsályktunartillögunni er lagt til með vísan til 33. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu sex svæða til þess að stuðla að verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Svæðin eru Goðdalur í Bjarnarfirði, Hengladalir í Ölfusi, Húsey og Eyjasel á Úthéraði, Lauffellsmýrar í Skaftárhreppi, Lambeyrarkvísl og Oddauppsprettur í Borgarfirði og Reykjanes og Þorlákshver við Brúará. Þá verði áfram unnið að friðlýsingu svæða sem eru á náttúruverndaráætlunum fyrir árin 2004–2008 og 2009–2013 og hafa ekki verið friðlýst. Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni er tilgangur framkvæmdaáætlunarinnar að koma upp neti friðlýstra svæða sem tryggja verndun lífríkis og jarðminja sem þarfnast verndar.
Umfjöllun nefndarinnar.
Svæði á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
Lagt er til að unnið verði að friðlýsingu framangreindra sex svæða á næstu fimm árum í þeim tilgangi að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni og að halda áfram uppbyggingu nets verndarsvæða sem tryggi verndun tegunda, vistgerða og vistkerfa sem eru í hættu og þarfnast verndar. Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni er verndargildi vistgerða og tegunda á þessum svæðum mjög hátt og eru margar þeirra á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.
Fram komu athugasemdir við fjölda svæðanna og á það bent að setja ætti fleiri svæði á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár, en það að aðeins sex svæði væru á áætluninni sýndi ekki fram á nægilegan metnað hvað varðar náttúruvernd. Þá væru einnig vonbrigði að engin hafsvæði væru á lista framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár. Í því samhengi var bent á að Ísland hafi undirritað samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni þar sem eitt markmiðanna sé að friða 30% svæða sem teljast mikilvæg fyrir líffræðilega fjölbreytni fyrir árið 2030. Þar undir sé land, strendur og haf jarðar. Líkt og fram komi í greinargerð með tillögunni njóti 20% af flatarmáli Íslands verndar og því ljóst að umtalsvert meira þurfi til að koma en þessi sex svæði svo að markmiði samningsins verði náð. Rétt er að svæðunum fækkaði mjög frá því sem Náttúrufræðistofnun Íslands, nú Náttúrufræðistofnun, lagði til árið 2018 að færu á framkvæmdaáætlun. Vísar meiri hlutinn að þessu leyti til umfjöllunar í greinargerð þar sem ferli vinnu við tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár er rakið. Meiri hlutinn leggur áherslu á að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár er sífelluverkefni samkvæmt lögum en í 13. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, kemur fram að ráðherra gefur út náttúruminjaskrá og leggur fram á Alþingi, eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Þannig er ljóst að fleiri svæði munu rata inn á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár auk þess sem kveðið er á um í þingsályktunartillögunni að áfram skuli unnið að friðlýsingu svæða sem eru á náttúruverndaráætlunum fyrir árin 2004–2008 og 2009–2013 og hafa ekki verið friðlýst. Líkt og bent er á í umsögn Landvarðafélags Íslands er meiri hluti þeirra svæða enn ófriðlýstur og hvetur meiri hlutinn sérstaklega til þess að unnið verði fljótt og vel að því að klára friðlýsingar á þeim svæðum. Þá tekur meiri hlutinn jafnframt undir þá ábendingu ráðgjafarnefndar um náttúruminjaskrá sem fram kemur í greinargerð tillögunnar að mikilvægt sé að greina nánar en hefur verið gert hversu hátt hlutfall af þegar friðlýstum svæðum uppfylli markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni en 30% markmiðið geri ekki kröfu um að einungis friðlýst svæði nýtist til að uppfylla það heldur megi einnig horfa til annars konar verndarráðstafana.
Í umsögn Minjastofnunar kom fram að til að auka þekkingu á þeim svæðum sem lagt er til að færa á náttúruminjaskrá fyrir árin 2025–2029 og jafnvel ýta undir verndargildi þeirra væri ákjósanlegt að láta skrá fornleifar og eftir atvikum friðuð og friðlýst hús og mannvirki þeirra svæða sem ekki eru þegar skráð, þ.e. Oddeyraruppspretta, Lauffellsmýra og Húseyjar og Eyjasels, sbr. 15. og 16. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012. Meiri hlutinn tekur undir þá ábendingu Minjastofnunar með vísan til þess að með skýrum upplýsingum er hægt að auka þekkingu á svæðunum.
Breyting á afmörkun verndarsvæðis og mótvægisaðgerðir.
Í umsögn Landsvirkjunar er sérstaklega vikið að svæðinu Húsey og Eyjaseli á Úthéraði og bent á að svæðið er staðsett á áhrifasvæði stærstu vatnsaflsvirkjunar landsins, Fljótsdalsstöðvar. Leggur Landsvirkjun áherslu á að við undirbúning nýrra friðlýsinga sé mikilvægt að taka tillit til reksturs aflstöðva, þ.m.t. mótvægisaðgerða og annarra inngripa sem miði að viðhaldi lífríkis og náttúru. Er í umsögninni fjallað um þau verkefni sem fyrirtækið hefur sinnt á svæðinu vegna reksturs Fljótsdalsstöðvar, t.d. færslu óss Lagarfljóts og Jökulsár á Brú til norðurs til að koma í veg fyrir að áin brjóti sér leið í Fögruhlíðará, bakkavarnir, vatnshæðarmælingar o.fl. Leggur Landsvirkjun til að mörk svæðisins þar sem þau ná út í sjó verði færð inn fyrir ós Jökulsár á Brú og Lagarfljóts vegna þeirra aðgerða sem líklegt sé að ráðast þurfi í eða að tryggt verði að friðlýsingarskilmálar svæðisins innihaldi heimild fyrir færslu óssins. Fari svæðið áfram í friðlýsingarferli verði jafnframt að vera skýrt í friðlýsingarskilmálum að takmarkanir friðlýsingarsvæðisins komi ekki í veg fyrir mótvægisaðgerðir á svæðinu, svo sem bakkavarnir, mælingar, vöktun og uppgræðslu.
Meiri hlutinn vísar til umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins hvað þetta varðar. Þar segir varðandi breytingu á mörkum svæðisins til sjávar að það sé mat Náttúruverndarstofnunar að
með slíkum breytingum falli út stórt selaláturssvæði landsels. Stofnunin telji mikilvægt að halda mörkunum til sjávar óbreyttum og þar með að mögulegar framkvæmdir verði metnar með tilliti til skráningar svæðisins á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár við afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna verkefnisins. Þá sé það mat stofnunarinnar að skráning svæðisins á framkvæmdaáætlun komi ekki í veg fyrir áframhaldandi mótvægisaðgerðir Landsvirkjunar vegna áhrifa Fljótsdalsstöðvar á svæðið. Meiri hlutinn tekur undir þetta mat Náttúruverndarstofnunar.
Umsögn Orkuveitunnar lýtur að svæðinu Hengladölum í Ölfusi. Tekið er fram að ekkert sé því til fyrirstöðu að svæðið sé á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár svo framarlega sem tryggt sé að nýting á svæðinu verði heimil með áframhaldandi stefnuborunum undir svæðið, tekið sé mið af gildandi leyfum til nýtingar á jarðhita og sá möguleiki hafður opinn á því að endurskoða mörk svæðisins sýni jarðhitakortlagning í Hengladölum að þar sé vænlegur jarðhiti. Meiri hlutinn vísar í afstöðu Náttúruverndarstofnunar hvað þetta varðar sem fram kemur í minnisblaði ráðuneytisins. Þar segir að mikilvægt sé að nýting svæðisins hafi ekki neikvæð áhrif á verndargildi þess en að ef farið verði í vinnu við að undirbúa friðlýsingu eða friðun á svæðinu þá verði hún unnin í samvinnu við Orkuveituna og aðra hagsmunaaðila til að unnt sé að ná sem bestri samstöðu og samvinnu um hagsmuni svæðisins, bæði út frá vernd náttúrunnar og orkunýtingu.
Gerð framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár og endurskoðun laga um náttúruvernd.
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands er bent á að um er að ræða fyrstu tillöguna um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sem lögð er fram síðan lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, tóku gildi. Það sé löngu tímabært og því er fagnað að þetta skref sé loks tekið í þágu náttúruverndar á Íslandi. Sjö árum eftir að fyrstu tillögur Náttúrufræðistofnunar um svæði til að setja á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár komu fram liggi nú fyrir niðurstaða um fyrstu áætlunina sem sé niðurstaða langs ferlis greiningar og samráðs sem Umhverfisstofnun (nú Náttúruverndarstofnun) hélt utan um í samstarfi við umhverfisráðuneyti og í samráði við Náttúrufræðistofnun. Stofnunin bendir á að í ljósi markmiða áðurnefnds samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem miðast við árið 2030 sé óásættanlegt að bíða í fimm ár eftir næstu framkvæmdaáætlun. Meiri hlutinn tekur heils hugar undir það og leggur áherslu á að hafin verði vinna við næsta áfanga framkvæmdaáætlunar sem fyrst. Þá verði unnið markvisst að því að ná markmiði áðurnefnds samnings Sameinuðu þjóðanna um verndun 30% lykilsvæða fyrir líffræðilega fjölbreytni.
Með vísan til þess langa tíma sem tók að leggja fram fyrstu framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár tekur meiri hlutinn undir hvatningu Náttúrufræðistofnunar til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að fram fari mat á því hvaða tækifæri felist í endurskoðun á ákvæðum laga um náttúruvernd sem varða náttúruminjaskrána, með það að markmiði að betur gangi og hraðar að ná fram góðri verndun lykilsvæða í þágu líffræðilegrar fjölbreytni og annarra lykilþátta í náttúru landsins. Meiri hlutinn hvetur til þess að ferlar verði endurskoðaðir með það fyrir augum að efla samráð og fræðslu til að byggja upp traust á milli stjórnvalda og landeigenda, auka samstarf milli stofnana og samráð á fyrri stigum við sveitarfélög og almenning sem og að festa betur í löggjöf og verklag fjölbreyttari leiðir til að ná fram markmiðum um þá verndun sem að er stefnt.
Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
Sigurður Helgi Pálmason var fjarverandi við afgreiðslu en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
Alþingi, 30. maí 2025.
Guðbrandur Einarsson, form. |
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, frsm. |
Dagur B. Eggertsson. | |
Jónína Björk Óskarsdóttir. | Sigurður Helgi Pálmason. |