Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 299 — 267. mál.
Stjórnartillaga.
Tillaga til þingsályktunar
um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir árin 2025–2029.
Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Alþingi ályktar, með vísan til 33. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu sex svæða til þess að stuðla að verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi.
Eftirtalin svæði verði sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir árin 2025–2029:
1. Goðdalur í Bjarnarfirði.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
2. Hengladalir í Ölfusi.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
3. Húsey og Eyjasel á Úthéraði.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
4. Lauffellsmýrar í Skaftárhreppi.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
5. Lambeyrarkvísl og Oddauppsprettur í Borgarfirði.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
6. Reykjanes og Þorlákshver við Brúará.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Áfram verði unnið að friðlýsingu svæða sem eru á náttúruverndaráætlunum fyrir árin 2004–2008 og 2009–2013 og ekki hafa verið friðlýst.
Greinargerð.
Sú framkvæmdaáætlun sem hér er kynnt er fyrsta áætlunin sem unnin er frá gildistöku endurskoðaðra laga um náttúruvernd árið 2013 og nær til fimm ára tímabils, þ.e. 2025–2029. Framkvæmdaáætlun skal, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 33. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, vera skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi hefur ákveðið að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum.
Tilgangurinn með framkvæmdaáætluninni er að koma upp neti friðlýstra svæða sem tryggja verndun lífríkis og jarðminja sem þarfnast verndar. Í kafla 4 koma fram ítarlegri upplýsingar um hvert svæði fyrir sig sem lagt er til að verði sett á framkvæmdaáætlunina.
1.1. Vinna við tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
Í apríl 2018 lagði Náttúrufræðistofnun Íslands (nú Náttúrufræðistofnun) fram tillögur að alls 112 svæðum til að setja á framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár út frá verndun vistgerða, fuglategunda og jarðminja, sbr. 3. mgr. 13. gr. og 2.–4. mgr. 35. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Í desember 2020 lagði Náttúrufræðistofnun til viðbótarsvæði til verndar fossum og selum. Þær tillögur voru unnar að beiðni ráðuneytisins þar sem óskað var eftir viðbótartillögum að svæðum til að setja á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sem taka ættu mið af vernd víðerna, heitra og kaldra linda, hella, fossa og selalátra. Alls voru 12 fossasvæði valin, en fossar falla undir flokk jarðminja, og 19 svæði til verndar selum. Í heildina lagði stofnunin því til að 143 svæði yrðu sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til verndar vistgerðum, fuglum, selum og jarðminjum. Við val sitt á svæðum benti stofnunin á að horft hafi verið á landið í heild með það að markmiði að valið uppfyllti skilyrði um verndarþörf og ákjósanlega verndarstöðu vistgerða eða tegunda án tillits til þess hvort tiltekin svæði væru friðlýst eða ekki. Innan stærri svæða sem þegar njóta verndar eru því í sumum tilfellum tillögur að smærri afmörkuðum svæðum til að draga fram forgangsvistgerðir eða fuglategundir sem ekki eru einkennandi fyrir heildarsvæðið. Stofnunin benti jafnframt á að ekki væri ætlunin að þau stæðu sem sjálfstæð verndarsvæði þar sem þau væru innan svæða sem þegar væru friðlýst eða vernduð með sérlögum. Þess í stað hafi eingöngu verið bent á sérstöðu svæðanna innan stærri heildar sem taka þyrfti tillit til, t.d. í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði. Þá var einnig bent á að mörg tillögusvæðanna sköruðust jafnframt á við aðrar náttúruminjar sem eru á núgildandi náttúruminjaskrá frá árinu 1996.
Í tillögum Náttúrufræðistofnunarinnar að svæðum á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár eru eftirtalin svæði þegar friðlýst, innan þegar friðlýstra svæða eða svæða sem njóta annars konar verndar samkvæmt lögum:
1. Herðubreiðarlindir (Vatnajökulsþjóðgarður).
2. Gæsavötn (Vatnajökulsþjóðgarður).
3. Vonarskarð (Vatnajökulsþjóðgarður).
4. Snæfell (Vatnajökulsþjóðgarður).
5. Hvannalindir (Vatnajökulsþjóðgarður).
6. Breiðamerkursandur (Vatnajökulsþjóðgarður).
7. Vatnajökulsþjóðgarður.
8. Sölvatangi (Breiðafjörður).
9. Miðhúsaeyjar (Breiðafjörður).
10. Melrakkaey (Breiðafjörður).
11. Flatey (Breiðafjörður).
12. Berufjörður (Breiðafjörður).
13. Djúpifjörður (Breiðafjörður).
14. Álftafjörður á Snæfellsnesi (Breiðafjörður).
15. Breiðafjörður.
16. Blautós.
17. Öndverðarnes (Snæfellsjökulsþjóðgarður).
18. Hellnar (Snæfellsjökulsþjóðgarður).
19. Snæfellsjökulsþjóðgarður.
20. Grænahlíð (Hornstrandafriðland).
21. Ritur (Hornstrandafriðland).
22. Kjalárnúpur (Hornstrandafriðland).
23. Kögur (Hornstrandafriðland).
24. Hælavíkurbjarg (Hornstrandafriðland).
25. Hornbjarg (Hornstrandafriðland).
26. Smiðjuvíkurbjarg (Hornstrandafriðland).
27. Hornstrandafriðland.
28. Skrúður.
29. Grunnafjörður.
30. Andakíll.
31. Eldey.
32. Friðland að Fjallabaki.
33. Guðlaugstungur og Álfgeirstungur.
34. Vestmannsvatn.
35. Verndarsvæði Mývatns og Laxár.
36. Þjórsárver.
37. Ingólfshöfði.
38. Skerjafjörður innan Reykjavíkur (Álftanes og Skerjafjörður).
39. Skerjafjörður innan Kópavogs (Álftanes og Skerjafjörður).
40. Skerjafjörður innan Garðabæjar (Álftanes og Skerjafjörður).
41. Kasthúsatjörn (Álftanes og Skerjafjörður).
42. Hlið (Álftanes og Skerjafjörður).
43. Bakkatjörn (Álftanes og Skerjafjörður).
44. Grótta/Snoppa (Álftanes og Skerjafjörður).
45. Geysir.
46. Kerlingafjöll.
47. Krýsuvíkurberg (Reykjanesfólkvangur).
48. Varmárósar.
49. Miklavatn.
50. Blautós og Innstavogsnes.
51. Salthöfði og Salthöfðamýrar.
52. Látrabjarg.
53. Drangar á Ströndum.
54. Blikastaðakró og Leiruvogur.
Í kjölfar þess að tillögur svæðanna bárust ráðuneytinu fól ráðherra Umhverfisstofnun (nú Náttúruverndarstofnun) að meta nauðsynlegar verndarráðstafanir og kostnað við þær vegna svæða sem Náttúrufræðistofnun lagði til að yrðu sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
Hinn 13. febrúar 2020 sendi Umhverfisverndarstofnun Náttúrufræðistofnun bréf með beiðni um frekari upplýsingar og gögn vegna tillagnanna fyrir greiningu Umhverfisstofnunar. Í kjölfarið fóru fram samstarfsfundir stofnananna tveggja á tímabilinu mars–maí 2020 um frekari greiningar á svæðunum. Með bréfi 6. mars 2020 óskaði Umhverfisstofnun eftir afstöðu ráðuneytisins til meðferðar tiltekinna svæða í tillögum Náttúrufræðistofnunar til framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár, m.a. svæða sem voru í friðlýsingaferli í átaki þáverandi ríkisstjórnar í friðlýsingum, svæða sem voru einnig á náttúruverndaráætlunum (nú framkvæmdaáætlun) og Alþingi hafði þegar tekið afstöðu til að ætti að friðlýsa, svæða sem féllu innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs samkvæmt stjórnarsáttmála þáverandi ríkisstjórnar og svæða sem sköruðust á við 2. og 3. áfanga nýtingarflokks rammaáætlunar. Afstaða ráðuneytisins barst Umhverfisstofnun 28. maí 2020. Hvað varðar svæði sem voru einnig á náttúruverndaráætlunum, og Alþingi hafði þegar tekið afstöðu til að ætti að friðlýsa á sínum tíma, var það metið svo að ekki væri þörf á að leggja fram tillögur til samþykktar Alþingis sem höfðu áður verið samþykktar á grundvelli þágildandi laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Þó væri eðlilegast að þetta ætti einungis við ef enginn vafi væri á því að tillaga Náttúrufræðistofnunar væri sú sama og var í náttúruverndaráætlunum samkvæmt þágildandi lögum. Ef munur væri t.d. á mörkum svæðisins og þeim náttúrufarsatriðum sem markmið væri að vernda, og þar af leiðandi þeim náttúruverndaraðgerðum sem stefnt væri að því að fara í, væri æskilegra að leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar. Afstaða ráðuneytisins vegna svæða sem voru í friðlýsingaferli í átaki í friðlýsingum þáverandi ríkisstjórnar var að í ljósi þess að átakið væri tímabundið verkefni þyrfti að skoða hverja tillögu og meta hvort hún ætti einnig heima á framkvæmdaáætlun. Afstaða ráðuneytisins vegna svæða sem féllu innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs samkvæmt stjórnarsáttmála þáverandi ríkisstjórnar var að þau svæði þyrftu ekki að tilheyra þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Varðandi svæði sem sköruðust að einhverju leyti við mörk fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs taldi ráðuneytið að skoða þyrfti hvert tilvik fyrir sig. Afstaða ráðuneytisins vegna svæða sem sköruðust á við 2. og 3. áfanga nýtingarflokks rammaáætlunar var að skoða þyrfti hvert svæði fyrir sig og í kjölfar slíkrar skoðunar meta hvort og hvernig tillögurnar ættu erindi í feril og kynningu framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár á sambærilegan hátt og ákvörðun um slíkt er tekin um aðrar tillögur. Þegar afstaða ráðuneytisins lá fyrir tók við úrvinnsla og endurmat svæðanna hjá Umhverfisstofnun í samráði við Náttúrufræðistofnun. Haustið 2020 fóru fram frekari samstarfsfundir stofnananna með það að leiðarljósi að kanna möguleika á uppskiptingu svæða sem vandkvæðum gæti bundið að friðlýsa og/eða friða með þeim afmörkunum sem lagðar voru til vegna ýmissa þátta, svo sem vegna útfærslu verndarráðstafana, stærðar og flókins eignarhalds.
Í janúar 2023 kynntu Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun niðurstöðu vinnu við endurmat á alls 50 svæðum fyrir ráðherra. Í framhaldi af því óskaði ráðherra eftir því að Umhverfisstofnun forgangsraðaði svæðunum í 15 svæði með tilliti til mikilvægis þeirra vegna líffræðilegrar fjölbreytni. Þegar sú forgangsröðun lá fyrir óskaði ráðherra eftir því við Umhverfisstofnun að stofnunin hæfi undirbúning kynningarferils á 15 tillögusvæðum. Á tímabilinu október 2023 til febrúar 2024 kynnti Umhverfisstofnun fyrirhugað ferli fyrir viðeigandi sveitarfélögum og landeigendum til að upplýsa um verkefnið, hvað það fæli í sér og um fyrirhugað lögbundið kynningarferli. Af þessum 15 svæðum voru fimm svæði sem ekki fóru í lögbundið kynningarferli, þ.e. Drangey, Grímsey, Löngufjörur, Skarðsfjörður og Langárós að Hjörsey. Ástæðurnar voru m.a. andstaða landeigenda á Löngufjörum og Langárósi að Hjörsey og að þjóðlendukröfur komu fram um fjögur þessara svæða á sama tíma og verið var að kynna framkvæmdaáætlunarferlið. Þá gerði eitt sveitarfélag athugasemdir áður en formleg kynning hófst og óskaði eftir því að tillaga um svæði í sveitarfélaginu yrði unnin frekar.
1.2. Lögbundin kynning tillögusvæða.
Að loknu kynningarferli á tillögusvæðum sem stóð frá október 2023 til febrúar 2024 var ákveðið að kynna formlega tíu svæði í samræmi við 36. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Var tillaga ráðherra að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár í kjölfarið lögð formlega fram til kynningar á vef Umhverfisstofnunar 21. febrúar 2024 með auglýsingu í Lögbirtingablaði.
Eftirfarandi svæði fóru í lögbundna kynningu:
1. Almenningur (við Geysi), Bláskógabyggð.
2. Goðdalur í Bjarnarfirði, Kaldrananeshreppi.
3. Hengladalir, Sveitarfélaginu Ölfusi.
4. Húsey og Eyjasel á Úthéraði, Múlaþingi.
5. Höfðaflatir við Vörðufell, Bláskógabyggð og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
6. Lauffellsmýrar, Skaftárhreppi.
7. Norður-Melrakkaslétta, Norðurþingi, að undanskildum jörðunum Harðbak 1 lnr. 154161, Harðbak 2 lnr. 154162, Sigurðarstöðum lnr. 154211, Brúnum lnr. 154145 og Núpskötlu lnr. 154194.
8. Lambeyrarkvísl og Oddauppsprettur, Borgarbyggð.
9. Reykjanes og Þorlákshver við Brúará, Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð.
10. Tjörnes, Tjörneshreppi.
Alls bárust 45 athugasemdir á kynningartíma. Landeigendur og/eða sveitarfélög svæðanna Almennings, Höfðaflata við Vörðufell, Norður-Melrakkasléttu og Tjörness mótmæltu því að svæðin yrðu sett á framkvæmdaáætlun. Í skilabréfi Umhverfisstofnunar til ráðherra, dags. 7. maí 2024, í kjölfar umræddrar lögbundinnar kynningar kemur fram að í ljósi athugasemda framangreindra aðila hafi svæðin verið tekin út úr lokatillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Fram kemur í bréfinu að Umhverfisstofnun hafi metið það svo að frekara samstarf og samtal þyrfti að eiga sér stað við landeigendur umræddra svæða áður en þau yrðu sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Að endingu lagði því stofnunin til í skilabréfi sínu að grundvöllur væri fyrir því að svæðin Goðdalur, Hengladalir, Húsey og Eyjasel, Lauffellsmýrar, Lambeyrarkvísl og Oddauppsprettur og Reykjanes og Þorlákshver við Brúará yrðu sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár 2025–2029.
1.3. Umsögn ráðgjafarnefndar náttúruminjaskrár.
Ráðgjafarnefnd náttúruminjaskrár er skipuð skv. 15. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Hlutverk hennar er að vera ráðherra til ráðgjafar um gerð tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár. Í umsögn nefndarinnar kemur fram að hún styðji að umrædd sex svæði verði sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Ráðgjafarnefndin gerir ekki athugasemdir við tillögurnar og styður einróma að þessi svæði verði sett á framkvæmdaáætlun. Í lögbundnu ferli bárust athugasemdir frá hagaðilum sem ráðgjafarnefndin telur að hafi verið svarað og gerir ekki frekari athugasemdir við.
Varðandi svæðin Almenning, Höfðaflatir, Norður-Melrakkasléttu og Tjörnes, sem fóru í lögbundið kynningarferli en eru ekki hluti af þingsályktunartillögunni, styður nefndin niðurstöðu Umhverfisstofnunar um að svæðin verði ekki sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár að sinni en undirstrikar mikilvægi þess að svæðin verði sem fyrst sett á framkvæmdaáætlun og verði friðuð eða friðlýst. Nefndin bendir á að svæðin séu sérstaklega mikilvæg þegar kemur að verndun líffræðilegrar fjölbreytni og jarðminja. Ráðgjafarnefndin telur að andstaða landeiganda snúi fyrst og fremst að skorti á samráði og trausti til stjórnvalda í málefnum landeigenda frekar en vilja þeirra til að friða eftirfarandi svæði. Ráðgjafarnefndin hvetur stjórnvöld til að tryggja viðunandi fjármagn og ferla fyrir Náttúruverndarstofnun til að halda áfram því samtali sem nú þegar er hafið og tryggja að svæðin verði sett sem fyrst á framkvæmdaáætlun.
Ráðgjafarnefndin bendir einnig á að sumarið 2023 samþykkti ráðherra að 15 svæði yrðu undirbúin fyrir lögbundið kynningarferli framkvæmdaáætlunar. Þessi 15 svæði voru afrakstur frekari forgangsröðunar á tillögum Náttúrufræðistofnunar sem ráðherra hafði óskað eftir. Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun unnu að forgangsröðuninni. Af þeim voru fimm svæði ekki sett í lögbundið kynningarferli, þ.e. Drangey, Grímsey, Löngufjörur, Skarðsfjörður og Langárós að Hjörsey. Ástæða þess var m.a. sú að þjóðlendukröfur komu fram um fjögur þessara svæða á sama tíma. Hvað varðar fimmta svæðið gerði sveitarfélag athugasemdir áður en formleg kynning hófst og óskaði eftir því að tillagan yrði unnin frekar.
Þar sem framangreind fimm svæði voru metin sem forgangssvæði og samþykkt af ráðherra að þau yrðu undirbúin fyrir framkvæmdaáætlun telur ráðgjafarnefndin mikilvægt að tryggð sé áframhaldandi meðferð þeirra og úrvinnsla við fyrsta tækifæri. Svæðin ættu að vera í sérstökum forgangi fyrir næstu framkvæmdaáætlun og er tilefni til að hefja undirbúning hennar sem fyrst að mati nefndarinnar. Þá telur ráðgjafarnefndin afar mikilvægt að skýrt verði hvernig unnið verður áfram með þær tillögur Náttúrufræðistofnunar sem ekki fengu brautargengi á framkvæmdaáætlun að þessu sinni. Nefndin bendir á að mörg mikilvæg svæði standi eftir og nauðsynlegt sé að móta skýra áætlun um hvernig og hvenær áframhaldandi undirbúningsvinna við næstu framkvæmdaáætlun hefjist. Nú þegar liggur fyrir mat á verndargildi svæðanna m.a. út frá líffræðilegri fjölbreytni og er verndun þeirra mikilvæg aðgerð til að auka viðnámsþrótt gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra.
Ráðgjafarnefndin telur mikilvægt að fjalla um hlutverk og markmið með framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár eins og það er skilgreint í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, í samhengi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Nefndin bendir á að framkvæmdaáætlunin er lykilstjórntæki við að tryggja svæðisbundna verndun lykilsvæða í íslenskri náttúru og ná þannig markmiðum 2. og 3. gr. laganna um verndun líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni. Skv. 2. mgr. 35. gr. laganna ber að byggja upp net verndarsvæða til að ná fram þeim verndarmarkmiðum. Til þess er einkum horft til friðlýsingar landsvæða eða svæðisbundinnar friðunar tegunda, vistgerða og vistkerfa. Nefndin vísar í að hugmyndafræðin um net verndarsvæða fyrir líffræðilega fjölbreytni byggist á alþjóðlegum fyrirmyndum, svo sem Natura 2000 verndarsvæðaneti Evrópusambandsins og Emerald-neti Bernar-samningsins sem Ísland er aðili að. Engin íslensk svæði hafa enn verið fullinnleidd í Emerald-netið og telur nefndin mikilvægt að bæta úr því.
Ráðgjafarnefndin bendir á að mikilvægustu alþjóðlegu skuldbindingar Íslands er varða verndarsvæði séu nýsamþykkt markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (e. Convention on Biological Diversity) frá COP15-fundi í desember 2022. Þar var samþykkt ný stefna til ársins 2030 með það meginmarkmið að snúa við yfirstandandi hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Verndun lífríkis innan verndarsvæða er þar lykilaðgerð og er þar skilgreint sérstaklega að 30% lykilsvæða fyrir líffræðilega fjölbreytni þurfi að vera undir vernd fyrir árið 2030. Ljóst er að Ísland þarf að bæta töluvert við af verndarsvæðum til að ná því markmiði. Þar vega tillögur Náttúrufræðistofnunar afar þungt og því nauðsynlegt að mati nefndarinnar að áfram sé skoðað hvernig best sé að því staðið að stuðla að verndun á umræddum svæðum. Einnig er mat nefndarinnar að mikilvægt sé að greina nánar en gert hefur verið hversu hátt hlutfall af þegar friðlýstum svæðum uppfylli markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Þess ber að geta að 30% markmiðið gerir ekki kröfu um að einungis friðlýst svæði nýtist til að uppfylla markmiðið heldur má einnig horfa til annars konar verndarráðstafana.
Ráðgjafarnefndin telur brýnt að unnið sé hratt og vel að því að skoða aðrar verndarráðstafanir samhliða eftirfylgni með framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár, m.a. í ljósi þeirra áskorana sem komið hafa í ljós við undirbúning framkvæmdaáætlunar, sem hefur leitt til þess að einungis er lagt til að sex svæði verði hluti af þingsályktunartillögunni að svo stöddu.
Ráðgjafarnefndin bendir á að markmið Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni um verndun 30% lykilsvæða fyrir líffræðilega fjölbreytni eiga einnig við um hafsvæði. Með hliðsjón af markmiðum samningsins um vernd líffræðilegrar fjölbreytni þá eru fá hafsvæði í íslenskri lögsögu sem njóta verndar. Ráðgjafarnefndin telur mjög mikilvægt að við undirbúning næstu framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár sé hugað að því að fjölga tillögum að verndarsvæðum í hafi. Mikilvægt sé að huga að niðurstöðum starfshóps matvælaráðuneytisins um verndarsvæði í hafi sem skilað hefur lokaskýrslu sinni til matvælaráðherra og fjallar m.a. um hlutverk náttúruminjaskrár en einnig aðrar verndarráðstafanir, svo sem fiskveiðistjórnun.
Þá telur nefndin mikilvægt að bæta verklag við vinnuferli friðlýsinga á þann veg að leggja meiri áherslu á gildi sveitarfélaga sem stjórnsýslueiningu og farið sé vel yfir verndargildi og mögulega stjórnunar- og verndaráætlun viðkomandi svæðis með þeim sem best þekkja til í heimabyggð. Mikilvægt sé að vinna með þeim hagsmunaaðilagreiningu og gera í framhaldinu samráðs- og kynningaráætlun. Sveitarfélög séu það stjórnvald sem næst er íbúum sínum og þau beri ábyrgð á aðal- og deiliskipulagi.
Þá ræðir nefndin það mat Náttúruverndarstofnunar að skortur sé á trausti til stjórnvalda almennt hvað varðar friðlýsingarmál þar sem samráð og samtal við landeigendur og aðra hagsmunaaðila, sem fjölgar m.a. með aukinni ferðaþjónustu, gefi m.a. til kynna að ákveðins misskilnings gæti í því hvað felst í náttúruvernd, þar á meðal friðlýsingum. Ráðgjafarnefndin telur nauðsynlegt að stjórnvöld skoði hvað veldur og vinni markvisst að því að byggja upp traust gagnvart landeigendum og hagsmunaaðilum um allt land.
Að lokum kemur fram að ráðgjafarnefndin telur jákvætt að unnið sé að náttúruvernd með þeim tillögum sem lagðar eru fram að þessu sinni. Nefndin setur þó spurningarmerki við hversu fá svæði eru undir. Sum svæðin hafi í ferlinu minnkað og tillögur breyst. Ráðgjafarnefndin telur mikilvægt að ræða betur af hverju það virðist vera andstaða hjá landeigendum. Spurning vakni um hvort kerfið sé ekki aðgengilegt eða hvort samtalið við hagaðila sé of þungt og hverju sæti að landeigendur virðist oft mótfallnir þeim hugmyndum sem koma fram. Þetta valdi því að lykilsvæði varðandi náttúruvernd ná ekki í gegn. Því þurfi að skoða hvað þurfi að gera til að ná meiri sátt um í náttúruvernd.
1.4. Samráð um tillögu til þingsályktunar.
Drög að tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár 2025–2029 voru auglýst til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 5. febrúar 2025 (mál nr. S-8/2025). Frestur til að senda inn umsagnir var til 20. febrúar 2025 og bárust alls 17 umsagnir um drögin.
Heimastjórn Fljótsdalshéraðs gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar í sinni umsögn.
Í umsögn einstaklings er ítrekað mikilvægi þess að friðlýsing Húseyjar og Eyjasels komi ekki í veg fyrir allt það sem talið er nauðsynlegt að framkvæma við ós Jökulsár og Lagarfljóts. Bent er á að reynslan eftir vatnaflutninga vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi sýnt að nauðsynlegt sé að vatn Lagarfljóts eigi greiðan aðgang út í sjó til að koma í veg fyrir mikil flóð í landi og breytingar á landi Húseyjar. Mikilvægt sé að fylgjast með ósnum og bregðast við eftir því sem þurfa þykir, þar sem það sé allri ábúð og vernd á landi Húseyjar nauðsynlegt.
Landsvirkjun leggur áherslu á að við undirbúning nýrra friðlýsinga sé mikilvægt að taka tillit til reksturs aflstöðva, þ.m.t. mótvægisaðgerða og annarra inngripa sem miða að viðhaldi lífríkis og náttúru, og vísar til fyrirhugaðrar friðlýsingar Húseyjar og Eyjasels á Úthéraði. Landsvirkjun bendir á að svæðið sé í nágrenni við stærstu vatnsaflsvirkjun landsins, Fljótsdalsstöð, og gætir áhrifa virkjunarinnar á svæðinu. Landsvirkjun bendir jafnframt á að við undirbúning þingsályktunartillögunnar hafi verið bent á ýmis atriði varðandi friðlýsingartillögu Húseyjar og Eyjasels sem enn eiga við og hafi verið óskað eftir því í fyrri umsögn til Umhverfisstofnunar að mörk þess svæðis sem ætti að friðlýsa tækju tillit til þeirra aðgerða sem líklegt er að ráðast þurfi í vegna tilfærslu óss Lagarfljóts og Jökulsár á Brú þannig að mörk svæðisins yrðu færð inn fyrir ósinn. Landsvirkjun telur að slík tilfærsla yrði ekki líkleg til að hafa neikvæð áhrif á þær vistgerðir og fuglategundir sem eru forsendur tilnefningar á náttúruminjaskrá samkvæmt tillögunni. Umhverfisstofnun hafi hafnað tillögunni á grundvelli þess að selalátur sé á svæðinu sem fellur út ef mörkin verða færð. Landsvirkjun vekur aftur á móti athygli á því að selalátur séu ekki tilgreind sem hluti af verndargildi svæðisins í þeim tillögum sem lagðar hafi verið fram. Landsvirkjun ítrekar því þá beiðni að mörk svæðisins verði flutt inn fyrir ós Jökulsár á Brú og Lagarfljóts eða að í það minnsta verði tryggt að friðlýsingarskilmálar svæðisins innihaldi heimild fyrir færslu óssins, sambærilegt því sem áður hefur verið ráðist í.
Orkuveitan bendir á að fyrirtækið sé með nýtingarleyfi á jarðhita á Hellisheiði og að afmörkun tillögu að friðlýstu svæði sé innan afmörkunar nýtingarleyfisins. Nú þegar hafi níu holur verið stefnuboraðar undir Hengladali og að nýting holanna til vinnslu og niðurdælingar hafi hvorki haft áhrif á ásýnd svæðisins né verndargildi svo vitað sé. Mat Orkuveitunnar er að nýting með þeim hætti sem verið hefur geti samrýmst friðlýsingu svæðisins og að fyrirtækið eigi mikilla hagsmuna að gæta um áframhaldandi nýtingu. Orkuveitan tekur undir mikilvægi þess að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni, vistgerðir og sérstöðu svæðisins og með vísan í áðurnefnda afstöðu er það mat Orkuveitunnar að ekkert sé því til fyrirstöðu að Hengladalir verði settir á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár ef hægt er að tryggja að nýting á svæðinu verði áfram heimil með stefnuborunum undir svæðið miðað við gildandi nýtingarleyfi. Einnig telur Orkuveitan mikilvægt að möguleiki á endurskoðun marka svæðisins verði til staðar sýni jarðhitakortlagning að þar sé vænlegur jarðhiti.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð tekur fram að tíu árum frá gildistöku laganna valdi það vonbrigðum að sjá einungis gerða tillögu um að sex svæði verði sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár 2025–2029 og beri það vott um metnaðarleysi. Þá kemur fram í umsögninni að gera þurfi gangskör að því að ferli framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár geti gengið hraðar fyrir sig í þágu aukinnar náttúruverndar og svo alþjóðlegum skuldbindingum Íslands verði náð. Loks er lögð áhersla á að þær stofnanir sem hlutverki hafa að gegna við undirbúning og gerð náttúruminjaskrár hafi til þess burði og mannafla.
Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi styðja að þau svæði sem tiltekin eru verði sett á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár, en telja þó svæðin vera fá og setja ætti fleiri svæði á áætlunina. Eldvötn fagna því sérstaklega að Lauffellsmýrar í Skaftárhreppi séu sett á framkvæmdaáætlun en benda jafnframt á að í tillögum Náttúrufræðistofnunar að svæðum á áætlunina sé mörg önnur svæði innan sveitarfélagsins sem mikilvægt sé að friðlýsa og vonast samtökin til þess að það verði gert í náinni framtíð. Eldvötn hvetja sérstaklega til friðlýsingar miðhálendisins alls gagnvart ágengri nýtingu og uppbyggingu. Eldvötn benda á að í umsögn ráðgjafarnefndarinnar sé vikið að því að aukinn þungi skuli settur í samráð við sveitarstjórnir og telja samtökin óráðlegt að einblína um of á þær, en mælast þó eindregið til víðtækara samráðs við heimafólk á hverju svæði. Þá gera Eldvötn athugasemd við að boð um umsögn hafi eingöngu verið sent til sveitarfélaga þeirra svæða sem lagt er til að sett verði á framkvæmdaáætlun.
Landvernd telur það áhyggjuefni að aðeins sex svæði af 131 séu á áætluninni og að það sýni ekki fram á nægilegan metnað í málaflokknum. Í því samhengi minnir Landvernd á að Ísland hafi undirritað alþjóðlegan sáttmála um verndun líffræðilegrar fjölbreytni þar sem eitt markmiðanna sé að friða 30% lands, stranda og sjávar árið 2030 og því þurfi að bretta upp ermarnar. Landvernd styður vernd þeirra sex svæða sem lögð eru til og hvetur stjórnvöld til að auka metnað sinn og leggja fleiri svæði til eins fljótt og auðið er. Að lokum nefnir Landvernd að eðlilegt hefði verið að hafa náttúruverndarsamtök á lista yfir umsagnarbeiðnir.
Í umsögn landeigenda jarðanna Löngufjara (áður Norður-Mýra) og Langáróss að Hjörsey (áður Álftanes, Álftárós og Langárós) er farið yfir samskipti þeirra við Umhverfisstofnun á þeim tíma sem stofnunin var með málið til meðferðar. Bent er á að landeigendur hafi viljað fá upplýsingar frá yfirvöldum strax árið 2018 um að jarðir þeirra væru hluti af tillögum Náttúrufræðistofnunar að svæðum á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Þá kemur fram að um leið og þeim var ljóst að jarðir þeirra væru hluti af tillögunum hafi þeir á fjarfundi 18. janúar 2024 hafnað því að jarðirnar yrðu settar á framkvæmdaáætlun. Auk þess hafi þeir sent erindi til stofnunarinnar og ráðuneytisins 12. febrúar 2024 þar sem fram kom að landeigendur höfnuðu því að jarðir þeirra væru settar á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
Bent er á að umræddar jarðir voru þær ekki hluti af svæðum sem fóru í opinbera kynningu að tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og eru jarðir þeirra þar af leiðandi ekki hluti þeirra svæða sem lagt er til að sett verði á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
Í umsögn Tjörneshrepps er því mótmælt að jarðir í hreppnum verði settar á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Bent er á að engar jarðir í Tjörneshreppi eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár 2025–2029 samkvæmt þessari þingsályktunartillögu.
Eigendur jarðanna Skinnalóns, Oddsstaða (meiri hluti eigenda), Harðbaks I og II, Sigurðarstaða og Grjótness I og II (meiri hluti sameigenda búsins Grjótness) sem allar eru á Melrakkasléttu og eigandi jarðar á Melrakkasléttu reifuðu í umsögnum sínum m.a. óánægju með þá afstöðu Umhverfisstofnunar að frekara samtal þurfi við landeigendur um mögulegar náttúruverndaraðgerðir á jörðum þeirra í samhengi við náttúruminjaskrá almennt, og óánægju landeigenda með afstöðu ráðgjafarnefndar náttúruminjaskrár, sem tekur undir afstöðu Umhverfisstofnunar. Landeigendur gagnrýna einnig að þeir hafi ekki fengið umsagnarbeiðni þegar drög að þingsályktun voru sett í samráðsgátt og að ekki sé minnst á alla jarðareigendur á Norður-Melrakkasléttu sem mótmæltu því að jarðir þeirra væru settar á framkvæmdaáætlun. Þeir telja ekki þörf á frekara samtali varðandi sínar jarðir og þess hvort skoða eigi áform um náttúruvernd samkvæmt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og hafna því að jarðir þeirra verði settar á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
Benda má á að Norður-Melrakkaslétta er ekki eitt þeirra svæða sem Umhverfisstofnun taldi að setja ætti á framkvæmdaáætlun í skilabréfi sínu til ráðherra 7. maí 2024. Ástæðan er einmitt andstaða landeigenda. Norður-Melrakkaslétta er því samkvæmt drögum að þingsályktunartillögu sem kynnt voru í Samráðsgátt stjórnvalda í febrúar 2025 ekki á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár 2025–2029.
Í kafla 1.2 hefur verið bætt við umfjöllun um svæðið í kjölfar umsagna landeigenda jarða á Norður-Melrakkasléttu og vísast til umfjöllunarinnar í þeim kafla.
1.5. Svæði á framkvæmdaáætlun.
Í framkvæmdaáætlun 2025–2029 er lagt til að næstu fimm árin verði unnið að friðlýsingu Goðdals, Hengladala, Húseyjar og Eyjasels á Úthéraði, Lauffellsmýra, Lambeyrarkvíslar og Oddauppspretta og Reykjaness og Þorlákshvers í þeim tilgangi að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni og að halda áfram uppbyggingu nets verndarsvæða sem tryggi verndun tegunda, vistgerða og vistkerfa sem eru í hættu og þarfnast verndar. Verndargildi vistgerða og tegunda á svæðunum er mjög hátt og eru margar þeirra á lista Bernar-samningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Bernar-samningurinn er alþjóðlegur samningur um vernd villtra dýra, plantna og búsvæða í Evrópu og hefur Ísland verið aðili að honum frá árinu 1993. Varðandi svæðin Almenning, Höfðaflatir, Norður-Melrakkasléttu og Tjörnes, sem fóru í lögbundið kynningarferli var ákveðið, í ljósi athugasemda hagaðila, að umrædd fjögur svæði yrðu ekki hluti af tillögu þessari. Þá er lagt til að haldið verði áfram að vinna að friðlýsingu þeirra svæða sem Alþingi hefur áður samþykkt á náttúruverndaráætlun 2004–2008 og 2009–2013 en ekki hafa verið friðlýst.
1.6. Náttúruverndaráætlanir 2004–2008 og 2009–2013.
Á grundvelli laga um náttúruvernd nr. 44/1999 samþykkti Alþingi tvær náttúruverndaráætlanir, 2004–2008 og 2009–2013, um friðlýsingu til fimm ára. Fyrri áætlunin tók til 15 svæða og sú síðari til 11 svæða auk 24 tegunda háplantna, 45 tegunda mosa, 90 tegunda fléttna og þriggja tegunda hryggleysingja. Unnið hefur verið að friðlýsingu svæða á náttúruverndaráætlunum frá því þær tóku gildi og var það einnig meðal verkefna sérstaks teymis sem ráðherra skipaði vegna átaks stjórnvalda í friðlýsingum 2018–2021. Staðan á friðlýsingum svæða á framangreindum náttúruverndaráætlunum er sú að af 15 svæðum á náttúruverndaráætlun 2004–2008 á eftir að friðlýsa eða friða 11 svæði, en þau eru:
1. Álftanes, Akrar og Löngufjörur.
2. Hluti af Álftanesi og Skerjafirði.
3. Austara-Eylendið.
4. Rauðisandur.
5. Vestmannaeyjar.
6. Öxarfjörður.
7. Stækka Vatnajökulsþjóðgarð svo hann myndi samfellda heild um Jökulsárgljúfur.
8. Stækka Vatnajökulsþjóðgarð svo hann nái yfir allan Skeiðarársand til sjávar.
9. Reykjanes, Eldvörp og Hafnarberg.
10. Látraströnd og Náttfaravík.
11. Njarðvík og Loðmundarfjörður.
Af tíu svæðum á náttúruverndaráætlun 2009–2013 á eftir að friðlýsa eða friða sex svæði, en þau eru:
1. Eyjólfsstaðaskógur.
2. Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar.
3. Orravatnsrústir.
4. Snæfjallaströnd og Kaldalón.
5. Steinadalur í Suðursveit.
6. Undirhlíðar í Nesjum.
2. Friðlýst svæði.
Friðlýsingar á Íslandi á grundvelli laga um náttúruvernd og sérlaga eru 130 talsins. Heildarflatarmál friðlýstra svæða á láði og legi er 23.642,1 km2, þar af eru 20.674,8 km2 á landi eða 20% af flatarmáli Íslands. Þau svæði sem eru friðlýst eða vernduð á grundvelli sérlaga eru Breiðafjörður, Þingvallaþjóðgarður, verndarsvæði Mývatns og Laxár og Vatnajökulsþjóðgarður. Þá eru Þingvallaþjóðgarður, Vatnajökulsþjóðgarður og Surtsey skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Sex svæði á Íslandi eru skráð sem svokölluð Ramsar-svæði en það eru þau votlendissvæði í heiminum sem valin hafa verið sérstaklega til verndar vegna gildis þeirra fyrir lífríki. Ramsar-svæðin á Íslandi eru Andakíll, Grunnafjörður, Guðlaugstungur, Mývatn og Laxá, Snæfells- og Eyjabakkasvæðið og Þjórsárver.
2.1. Friðlýsingarflokkar.
Tvö svæði á Íslandi falla ekki í sérstakan friðlýsingarflokk þar sem þau eru vernduð með sérlögum. Þau eru Breiðafjörður og Mývatn og Laxá. Önnur friðlýst svæði skiptast í nokkra friðlýsingarflokka, en þeir eru:
Náttúruvé | 0 |
Óbyggð víðerni | 1 |
Þjóðgarðar | 3 |
Náttúruvætti | 49 |
Friðlönd | 46 |
Landslagsverndarsvæði | 4 |
Fólkvangar | 23 |
Friðlýsing svæða í verndarflokki rammaáætlunar | 6 |
2.2. Skörun svæða.
Innan nokkurra friðlýstra svæða á sér stað skörun þar sem friðlýst svæði er innan annars, stærra friðlýsts svæðis. Dæmi um það eru Skútustaðagígar innan verndarsvæðis við Mývatn og Laxá og Stórurð innan landslagsverndarsvæðis norðan Dyrfjalla. Flokkar friðlýstra svæða sem taldir eru upp í kafla 2.1 endurspegla flokkun svæða í friðlýsingum en stjórnun svæðanna er í sumum tilfellum ekki í samræmi við þá flokkun. Til að mynda er að finna skilgreind náttúruvé innan Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt því sem Surtsey, sem var friðlýst sem friðland 2006, er vernduð samkvæmt skilgreiningu náttúruvéa, en sá friðlýsingaflokkur kom fyrst fram í íslenskri löggjöf í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013.
2.3. Aðrar friðlýsingar og friðanir.
Auk friðlýstra landsvæða eru friðlýsingar og friðanir á landsvísu vegna dropsteina og tegunda. Dropsteinar eru friðlýstir sem náttúruvætti í öllum hellum landsins, sbr. auglýsingu um friðlýsingu dropsteina, nr. 129/1974. Kúluskítur er friðlýstur hvar sem hann vex villtur, sbr. auglýsingu um friðlýsingu kúluskíts, vaxtarforms grænþörungsins vatnaskúfs ( Aegagropila linnaei) nr. 523/2006 og tilteknar æðplöntur, mosar og fléttur eru friðaðar, sbr. auglýsingu um friðun æðplantna, mosa og fléttna, nr. 1385/2021.
3. Kostnaðarmat.
Metinn hefur verið kostnaður við framkvæmdaáætlun fyrir árin 2025–2029 fyrir þau svæði sem áætlunin tekur til. Við mat á nauðsynlegum verndarráðstöfunum fyrir svæðin er einkum horft til landvörslu, uppbyggingar innviða til stýringar á umferð gesta og vernd náttúru, fræðsluskilta og fræðslu. Kostnaður er mismunandi eftir svæðum og er tekið tillit til þess við matið eins og fram kemur í töflu hér á eftir. Í töflunni er kostnaðarmatið tvískipt, annars vegar kostnaður við uppbyggingu innviða og hins vegar rekstrarkostnaður á ári sem tekur mið af m.a. landvörslu, viðhaldi innviða, aðföngum og kostnaði vegna svæðissérfræðinga. Sá fyrirvari er gerður að við frekari útfærslu á uppbyggingu innviða þarf að vinna í nánu samráði við landeigendur og sveitarfélög.
Að auki er gert ráð fyrir einu starfsgildi í undirbúning friðlýsingar og friðunar og vinnu við stjórnunar- og verndaráætlanir á svæðum framkvæmdaáætlunar.
Svæði | Innviðir | M.kr./ ári | Landvarsla, viðhald innviða og eftirlit | M.kr./ ári |
Goðdalur | Fræðsluskilti | 1 | Eftirlitsferð landvarða/sérfræðinga | 0 |
Hengladalir | Fræðsluskilti og lágmarksinnviðir | 3 | Landvarsla ásamt viðhaldi innviða | 4 |
Húsey og Eyjasel | Engin þörf fyrir innviði | 0 | Eftirlitsferð landvarða/sérfræðinga | 0 |
Lambeyrarkvísl og Oddeyraruppsprettur | Fræðsluskilti og lágmarksinnviðir | 3 | Landvarsla ásamt viðhaldi innviða | 1 |
Lauffellsmýrar | Engin þörf fyrir innviði | 0 | Eftirlitsferð landvarða/sérfræðinga | 0 |
Reykjanes og Þorlákshver | Engin þörf fyrir innviði | 0 | Eftirlitsferð landvarða/sérfræðinga | 0 |
Samtals | 7 | 5 |
Eins og taflan sýnir er kostnaður við friðlýsingar og friðanir í framkvæmdaáætluninni tvískiptur. Stofnkostnaður er metinn á 7 millj. kr., en áætlaður árlegur heildarrekstrarkostnaður er 5 millj. kr. á núgildandi verðlagi.
4. Upplýsingar um svæði á framkvæmdaáætlun fyrir árin 2025–2029.
Hér er gerð grein fyrir friðlýsingartillögum svæðanna sex sem ráðgert er að setja á framkvæmdaráætlun náttúruminjaskrár fyrir árin 2025–2029. Gerð er grein fyrir markmiðum friðlýsinganna, forsendum fyrir verndun svæðanna, þ.m.t. vistgerðum og tegundum, mögulegum verndarráðstöfunum, mögulegum takmörkunum, mögulegri innviðagerð og afmörkun þeirra á kortum. Allar tillögurnar gera ráð fyrir friðlýsingu skv. 38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, eða friðun skv. 56. gr. sömu laga. Vert er að taka fram að breytingar geta átt sér stað á afmörkun svæðanna ef rök um slíkar breytingar koma fram í undirbúningi friðlýsingarinnar. Breyting á mörkum getur þó eingöngu átt sér stað ef hún hefur ekki áhrif á verndargildi þess svæðis sem stefnt er að því að friðlýsa.
4.1. Goðdalur í Bjarnarfirði.
Svæðið sem lagt er til að friðlýsa er 0,23 km² og er í sveitarfélaginu Kaldrananeshreppi. Svæðið er tilnefnt á framkvæmdaáætlun vegna móahveravistar, mýrahveravistar og jarðhitalækja. Verndargildi móahveravistar er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernar-samningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Verndargildi mýrahveravistar er metið mjög hátt. Verndargildi jarðhitalækja er metið hátt. Markmið friðlýsingar er að tryggja vernd þessara vistgerða og þar með viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.
Svæðið liggur í afskekktum dal inn af Bjarnarfirði og rennur Goðdalsá eftir dalnum. Mýrlent er og flatlendi með aflíðandi hlíðum. Jarðhitalækir seytla um grýttar hlíðar og um flata upp af Goðdalsá. Mýrahveravist einkennir jarðhitagróðurinn en þar sem er þurrara er móahveravist einkennandi vistgerð.
Þar sem jarðhitinn er vex æðplöntutegundin naðurtunga sem einungis þrífst við jarðhita hér á landi, auk þess hefur laugadepla, sem er válistategund í nokkurri hættu, fundist í heitum uppsprettum. Naðurtunga er válistategund í nokkurri hættu. Naðurtunga og laugadepla eru friðaðar samkvæmt auglýsingu nr. 1385/2021.
Vegna líffræðilegrar fjölbreytni og sérstöðu svæðisins er mögulegt að friðlýsa það sem náttúruvætti skv. 48. gr. laga um náttúruvernd eða friðland skv. 49. gr. sömu laga. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna skv. 56. gr. laganna.
Þar sem svæðið er mjög viðkvæmt en flokkast ekki sem ferðamannastaður gæti þurft að setja hóflega stýringu um svæðið, svo sem með fræðsluskilti til að fyrirbyggja traðk. Svæðið fellur undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd um sérstaka vernd vistkerfa og jarðminja en undir hana falla hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim og virkri ummyndun og útfellingum, þar á meðal hrúðri og hrúðurbreiðum.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
4.2. Hengladalir í Ölfusi.
Svæðið sem lagt er til að friðlýsa er 10,1 km² og er í sveitarfélaginu Ölfusi. Svæðið er tilnefnt á framkvæmdaáætlun vegna hveraleirsvistar, móahveravistar, mýrahveravistar og jarðhitalækja. Verndargildi hveraleirsvistar er metið hátt og er vistgerðin á lista Bernar-samningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Verndargildi móahverarvistar er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernar-samningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Verndargildi mýrahveravistar er metið mjög hátt. Verndargildi jarðhitalækja er metið hátt. Markmið friðlýsingar er að tryggja vernd þessara vistgerða og þar með viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.
Hengladalir eru hluti af einu stærsta háhitasvæði landsins. Um dalina rennur Hengladalsá og er nokkuð flatlendi í dalbotnunum. Gróður er gróskumikill og er mikið votlendi í Miðdal og Fremstadal. Jarðhiti er nýttur á svæðinu.
Jarðhitinn á svæðinu er fjölbreyttur og er mýrahveravist mest einkennandi fyrir svæðið en einnig móahveravist og hveraleirsvist. Þar er fjöldi jarðhitalækja og er fjölbreytni þeirra mikil með tilliti til efna- og eðlisþátta sem endurspeglast í lífríki þeirra. Lækirnir hafa mikið verið rannsakaðir og því er þekking á lífríki þeirra mikil. Yfirborðsvatn er töluvert, sem er sjaldgæft á háhitasvæðum.
Laugadepla og naðurtunga finnast innan svæðisins en þær eru í nokkurri hættu samkvæmt válista en þær eru jafnframt friðaðar samkvæmt fyrrnefndri auglýsingu nr. 1385/2021. Einnig er grámygla á svæðinu sem er sjaldgæf háplöntutegund sem þrífst í jarðhita, en er ekki á válista. Laugabrúða, er nokkuð sjaldgæf en ekki á válista og þrífst í jarðhita. Græðisúra og blákolla finnast þarna líka, þær eru fremur sjaldgæfar og eru ekki bundnar jarðhita, en fylgja oftsinnis jarðhitasvæðum einkum á Suðurlandi. Á svæðinu eru vinsælar gönguleiðir og útivist og umferð ferðamanna hefur aukist á svæðinu.
Vegna líffræðilegrar fjölbreytni og sérstöðu svæðisins er mögulegt að friðlýsa það sem náttúruvætti skv. 48. gr. laga um náttúruvernd eða friðland skv. 49. gr. sömu laga. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna skv. 56. gr. laganna.
Á svæðinu eru gönguleiðir sem hafa verið kortlagðar og stikaðar. Styrkja þarf innviði svæðisins vegna útivistar til að vernda viðkvæm svæði þess, stýra umferð gesta um það og auka fræðslu um sérstöðu þess. Svæðið liggur við Hellisheiðarvirkjun og hefur það verið mikið rannsakað. Orka náttúrunnar og Orkuveita Reykjavíkur hafa gefið út upplýsinga- og gönguleiðakort fyrir Hengilssvæðið. Gæta þarf sérstaklega að því að nýting jarðhita hafi ekki neikvæð áhrif á verndarstöðu og verndargildi vistgerðanna.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
4.3. Húsey og Eyjasel á Úthéraði.
Svæðið sem lagt er til að friðlýsa er 62 km² og er í sveitarfélaginu Múlaþingi. Svæðið er tilnefnt á framkvæmdaáætlun vegna vistgerðanna gulstararflóavistar, runnamýravistar á láglendi og starungsmýravistar, og fuglategundanna skúms og kjóa. Verndargildi gulstararflóavistar er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernar-samningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Verndargildi runnamýravistar á láglendi er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernar-samningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Verndargildi starungsmýravistar er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernar-samningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Bæði skúmur og kjói eru á válista Náttúrufræðistofnunar yfir fugla í hættu. Skúmur er flokkaður sem tegund í bráðri hættu og kjói er flokkaður sem tegund í hættu. Markmið friðlýsingar er að tryggja vernd þessara vistgerða og tegunda og þar með viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.
Húsey og Eyjasel er hluti af tillögusvæðinu Úthéraði sem er tilnefnt vegna vistgerða og fugla. Svæðið er flatlent og láglent og er meðal helstu varpsvæða skúms sem er í bráðri hættu samkvæmt válista og hefur svæðið hæsta þéttleika varps kjóa sem er í hættu samkvæmt válista. Á svæðinu er selalátur landsels og mikið og lífríkt votlendi. Undanskilið tillögunni eru heimalönd jarðanna. Svæðið er innan alþjóðlega mikilvægs fuglasvæðis, þ.e. Úthéraðs.
Votlendissvæði (>20.000 m2), vötn og tjarnir (>1.000 m2), sjávarfitjar og leirur á svæðinu falla undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd um sérstaka vernd.
Vegna líffræðilegrar fjölbreytni og sérstöðu svæðisins er mögulegt að friðlýsa það sem friðland skv. 49. gr. laganna. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna og fuglanna skv. 56. gr. laganna.
Ekki er talin þörf á að takmarka núverandi ferðaþjónustu á svæðinu þar sem hún er ekki talin ógna verndargildi svæðisins. Þó gæti þurft að setja reglur um notkun dróna á svæðinu yfir varptíma.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
4.4. Lauffellsmýrar í Skaftárhreppi.
Svæðið sem lagt er til að friðlýsa er 55,9 km² votlendissvæði og er í sveitarfélaginu Skaftárhreppi. Votlendissvæði falla undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd um sérstaka vernd. Svæðið er tilnefnt á framkvæmdaáætlun vegna vistgerðarinnar rimamýravistar. Verndargildi rimamýravistar er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernar-samningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Markmið friðlýsingar er að tryggja vernd vistgerðarinnar og þar með viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.
Svæðið er ósnortið mýrarsvæði sem liggur í tæplega 500 m yfir sjávarmáli og lækkar land til suðurs og austurs. Stærstu mýrarflákarnir eru sunnan Hellisár en einnig eru stórar mýrabreiður norðan árinnar að Skaftáreldhrauni. Lauffellsmýrar eru víðáttumestu rimamýrar á Íslandi og er vistgerðin sjaldgæf. Mikið er af hálendistjörnum á svæðinu.
Rimamýrar einkennast af áberandi mynstri langra rima og forblautra flóalægða og tjarna á milli sem liggja þvert á eða lítils háttar í sveig undan landhalla. Á rimum vex mólendis- og deiglendisgróður en flóagróður í lægðum. Rimamýrar eru fremur frjósamar og fuglalíf þeirra er talið allríkulegt.
Vegna líffræðilegrar fjölbreytni og sérstöðu svæðisins er mögulegt að friðlýsa það sem friðland skv. 49. gr. laga um náttúruvernd. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna skv. 56. gr. sömu laga. Vegna nálægðar við Vatnajökulsþjóðgarð væri einnig hægt að láta svæðið falla undir þjóðgarðinn.
Með vernd svæðisins þarf að tryggja að vatnsrennsli á vatnasviði þess haldist óraskað. Þar sem svæðið er nokkuð afskekkt er lítil sem engin umferð um það sem krefst ekki frekari innviða að svo stöddu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
4.5. Lambeyrarkvísl og Oddauppsprettur í Borgarfirði.
Um er að ræða tvö svæði í sveitarfélaginu Borgarbyggð sem lagt er til að friðlýsa. Lambeyrarkvísl er 0,07 km² og Oddauppspretta er 0,06 km². Svæðið er tilnefnt á framkvæmdaáætlun vegna vistgerðarinnar kaldar lindir. Verndargildi kaldra linda er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernar-samningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Kaldar lindir koma fram þar sem grunnvatn sem streymir út á yfirborðið um uppsprettur á landi, t.d. undan hraunjaðri, eða á vatnsbotni. Markmið friðlýsingar er að tryggja vernd vistgerðarinnar og þar með viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.
Lambeyrarkvísl er stærsta lindasvæðið á þessum slóðum og finnast þar bæði dvergbleikjur og grunnvatnsmarflær. Bleikja gengur upp í ána til hrygningar. Í ánni eru tvö bleikjuafbrigði. Annars vegar er staðbundin dvergbleikja sem m.a. má finna í upptakalind árinnar þangað sem ekki er fiskgengt, og hins vegar er sjóbleikja úr Hvítá sem nýtir Lambeyrarkvísl sem hrygningarsvæði. Svæðið einkennist af birkiskógi, hrauni og náttúrufegurð.
Innan Oddauppspretta eru margar uppsprettur sem renna í nærliggjandi ár og eru birkivaxnir hólmar við Hvítá og Kiðá með fjölbreytt fuglalíf. Um svæðið við Oddauppsprettur liggur gönguleið og rétt austan við er orlofsbyggð. Í Oddauppsprettum er að finna dvergbleikju og grunnvatnsmarflær. Áin sem rennur frá uppsprettunum er nokkuð stór og rennur í Hvítá. Grunnvatnsmarflærnar á þessu svæði eru einlendar tegundir.
Vegna líffræðilegrar fjölbreytni og sérstöðu svæðisins er mögulegt að friðlýsa það sem náttúruvætti skv. 48. gr. laga um náttúruvernd. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna skv. 56. gr. sömu laga.
Þar sem svæðið er mjög viðkvæmt gæti þurft að setja hóflega stýringu um svæðið, svo sem með fræðsluskilti og styrkingu göngustíga til að fyrirbyggja traðk.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
4.6. Reykjanes og Þorlákshver við Brúará.
Svæðið sem lagt er til að friðlýsa er 0,87 km² og er í sveitarfélögunum Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi. Svæðið er tilnefnt á framkvæmdaáætlun vegna vistgerðanna mýrahveravistar, jarðhitalækja og áa á yngri berggrunni. Verndargildi mýrahveravistar er metið mjög hátt. Verndargildi jarðhitalækja er metið hátt. Verndargildi áa á yngri berggrunni er metið miðlungs. Markmið friðlýsingar er að tryggja vernd vistgerðanna og þar með viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.
Mýrahveravist einkennir Reykjanes og Þorlákshver við Brúará og eru þau lítt snortin. Á svæðinu eru heitar uppsprettur og renna frá þeim jarðhitalækir. Þrjár tegundir æðplanta, sem eru alfarið eða að mestu bundnar við jarðhita, finnast á svæðinu, en það eru vatnsögn, flóajurt og vatnsnafli. Vatnsögn er tegund í bráðri hættu og flóajurt er tegund í nokkurri hættu samkvæmt válista. Vatnsnafli er sjaldgæf tegund sem finnst aðeins við jarðhita og er einkum á tveimur jarðhitasvæðum, við Deildartungu í Borgarfirði og í Árnessýslu.
Vegna líffræðilegrar fjölbreytni og sérstöðu svæðisins er mögulegt að friðlýsa það sem náttúruvætti skv. 48. gr. laga um náttúruvernd eða friðland skv. 49. gr. sömu laga. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna skv. 56. gr. laganna.
Þar sem svæðið er mjög viðkvæmt gæti þurft að setja frekari stýringu um svæðið, svo sem með stikun gönguleiða og uppsetningu fræðsluskilta til að fyrirbyggja rask. Svæðið fellur undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd um sérstaka vernd vistkerfa og jarðminja en undir hana falla hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim og virkri ummyndun og útfellingum, þar á meðal hrúðri og hrúðurbreiðum.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.