Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 601  —  263. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (CRR III).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtökum iðnaðarins og Seðlabanka Íslands.
    Nefndinni bárust þrjár umsagnir auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, til að leiða í landsrétt reglugerð (ESB) 2024/1623, þ.e. svonefnda CRR III-gerð er varðar banka og aðrar lánastofnanir. Meginmarkmið gerðarinnar er að efla viðnámsþrótt lánastofnana með því að gera eiginfjárkröfur áhættunæmari.
    
Umfjöllun nefndarinnar.
Áhrif frumvarpsins.
    Í umsögnum sem nefndinni bárust var vakin athygli á áhrifum sem innleiðing CRR III gæti haft á eiginfjárkröfur vegna húsnæðis- og framkvæmdalána. Var nefnt að frumvarpið gæti haft í för með sér hærri vexti á fasteignalánum og þá einkum til yngra og efnaminna fólks sem leggi minna eigið fé fram við kaup á húsnæði. Jafnframt gæti fjármögnun nýbygginga orðið dýrari ef verktakar þurfa að leggja fram meira eigið fé en nú til að lækka áhættuvog lána.
    Meiri hlutinn vísar til minnisblaðs fjármála- og efnahagsráðuneytis þar sem kemur fram að aðildarríki hafi ekki svigrúm við innleiðingu á þeim ákvæðum í reglugerðinni sem umræddar ábendingar varða. Að því gættu og í ljósi þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands tekur meiri hlutinn undir með ráðuneytinu að ábendingar gefi ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu.
    Meiri hlutinn vekur einnig athygli á því sem fram kemur í minnisblaði ráðuneytis um að breyttar áhættuvogir fasteignaveðlána samkvæmt frumvarpinu leiði til þess að áhættuvog fyrir lán í heild verður lægri en nú ef veðhlutfall er undir 75,7%. Ráðuneytið bendir á að veðhlutfall meiri hluta nýrra íbúðalána hér á landi sé undir 75,7% eða um ¾ íbúðalána vegna fyrstu kaupa og um 90% annarra íbúðalána. Óvíst sé þó að hvaða marki breyttar reglur um mat á virði fasteignaveða vega á móti, en í öllu falli sé ekki einsýnt að breytingar samkvæmt frumvarpinu séu til þess fallnar að leiða til hærri vaxta á meiri hluta lána til yngra og efnaminna fólks.
    Að teknu tilliti til framangreinds beinir meiri hlutinn því til ráðherra að fylgjast með áhrifum af samþykkt frumvarpsins. Sérstaklega er brýnt að meta áhrif á fyrstu kaupendur og uppbyggingu húsnæðis og eftir atvikum kanna hvort þau gefi tilefni til að skoða önnur úrræði af hálfu stjórnvalda til að koma til móts við þennan hóp og bregðast við aðstæðum á húsnæðismarkaði.
    
Leiðrétting á umfjöllun í greinargerð um áhættuvog framkvæmdalána.
    Í greinargerð með frumvarpinu segir um áhættuvog framkvæmdalána að eitt af skilyrðum þess í dag sé að lántaki leggi fram eigið fé sem nemi a.m.k. 20% af byggingarkostnaði. Í samráðsskjali Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) sé aftur á móti lagt til að miðað verði við að eiginfjárframlag framkvæmdaraðila nemi a.m.k. 35% af söluverðmæti.
    Meiri hlutinn vísar til minnisblaðs ráðuneytisins þar sem fram kemur að hið rétta sé að í eftirlitsframkvæmd hér á landi sé nú þegar miðað við hlutfall af söluverðmæti en ekki byggingarkostnaði. Það þýðir að munurinn á því sem lagt er til í samráðsskjali EBA og núverandi framkvæmd hér á landi er minni en ætla mætti af lestri greinargerðarinnar. Að lokum bendir meiri hlutinn á að í minnisblaðinu segir að nú þegar hafi verið gerðar talsverðar athugasemdir við tillögu EBA um 35% hlutfall sem kunni að leiða til þess að endanlegt hlutfall verði lægra.
    
Byggðastofnun.
    Í umsögn Byggðastofnunar var farið fram á að stofnunin yrði undanskilin kröfum CRR III-reglugerðarinnar um flokkun útlána og áhrifum þeirrar flokkunar á áhættuvog. Benti Byggðastofnun á í umsögn sinni að þegar reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR), sem CRR III breytir, var tekin upp í EES-samninginn hafi stofnunin verið undanþegin gildissviði gerðarinnar, með tilliti til smæðar og sérstaks hlutverks hennar. Á þeim grundvelli hafi Byggðastofnun verið undanþegin kröfu um að viðhalda eiginfjáraukum.
    Í minnisblaði ráðuneytisins segir að Byggðastofnun falli nú undir lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, að undanskildum tilgreindum þáttum skv. 3. mgr. 116. gr. laganna. Ákvæði CRR með síðari breytingum, sem hafa lagagildi skv. 1. gr. c laganna, gilda um stofnunina. Þá er tekið fram að veigamesti þáttur þeirra séu eiginfjárkröfur til lánastofnana. Leitast hafi verið við að láta þær kröfur taka mið af þeirri áhættu sem lánastofnanir standa frammi fyrir með því að ljá lánum misjafnar áhættuvogir sem eigi að endurspegla hversu áhættusöm þau eru. Reglur um slíka flokkun útlána eru nú þegar hluti af CRR. Jafnframt segir í minnisblaðinu að Byggðastofnun beri því nú þegar að flokka útlán með tilheyrandi áhrifum á áhættuvog og eiginfjárkröfur, þótt reglunum verði breytt með CRR III. Meiri hlutinn tekur undir mat ráðuneytisins að það væri vandkvæðum bundið að undanþiggja stofnunina breytingum á þeim reglum samkvæmt CRR III enda gilti þá um stofnunina úrelt regluverk sem aðrir markaðsaðilar og eftirlitsaðilar færu ekki lengur eftir.
    
Íslensk þýðing ESB-gerða.
    Meiri hlutinn vill að lokum undirstrika mikilvægi þess að gerðir frá Evrópusambandinu, sem teknar eru upp í EES-samninginn, séu þýddar á íslensku. Jafnframt að þær séu auðveldlega aðgengilegar á íslensku. Meiri hlutinn bendir því á að þær gerðir sem frumvarp þetta fjallar um eru birtar á íslensku annars vegar sem fylgiskjöl með auglýsingu nr. 12/2025 í C-deild Stjórnartíðinda og í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 28 frá 30. apríl 2025.
    
Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn leggur til leiðréttingar á orðalagi sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
    

    BREYTINGU:

    
    Við 2. gr.
     a.      Í stað orðanna „leiðréttingaráhættu vegna útlánaáhættu“ í 10. tölul. komi: leiðréttingaráhættu vegna útlánavirðis.
     b.      Í stað orðsins „afrakstursgólf“ í 10. tölul. komi: úttaksgólf.
     c.      Í stað orðanna „krafna um eiginfjárgrunn“ í 11. tölul. komi: eiginfjárkrafna.
    
    Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. maí 2025.

Arna Lára Jónsdóttir,
form.
Pawel Bartoszek, frsm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Sigmundur Ernir Rúnarsson. Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir.