Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 295  —  263. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (CRR III).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. b laganna:
     a.      C-liður 2. tölul. fellur brott.
     b.      1. málsl. orðskýringar 8. tölul. orðast svo: Fyrirtæki sem annað fyrirtæki hefur yfirráð yfir.
     c.      11. tölul. orðast svo: Eignarhaldsfélag á fjármálasviði: Fyrirtæki sem uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:
               a.      það er fjármálastofnun,
               b.      það er ekki blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi,
               c.      það hefur a.m.k. eitt dótturfélag sem er fjármálafyrirtæki,
               d.      meira en 50% einhvers eftirfarandi vísa tengjast, á stöðugum grunni, dótturfélögum sem eru fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir og með starfsemi sem fyrirtækið sinnir sjálft sem tengist ekki kaupum eða eignarhaldi á hlutdeild í dótturfélögum ef sú starfsemi er sama eðlis og sú sem fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir sinna:
                      1.      eigin fjár fyrirtækisins á grundvelli samstæðustöðu þess,
                      2.      eigna fyrirtækisins á grundvelli samstæðustöðu þess,
                      3.      tekna fyrirtækisins á grundvelli samstæðustöðu þess,
                      4.      starfsfólks fyrirtækisins á grundvelli samstæðustöðu þess,
                      5.      annarra vísa sem Fjármálaeftirlitið telur eiga við.
                Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að eining teljist ekki eignarhaldsfélag á fjármálasviði þrátt fyrir að einn af þeim vísum sem um getur í 1.–4. tölul. sé uppfylltur, þegar Fjármálaeftirlitið telur að viðkomandi vísir gefi ekki sanngjarna og rétta mynd af aðalstarfsemi og áhættu samstæðunnar. Áður en það tekur slíka ákvörðun skal Fjármálaeftirlitið hafa samráð við Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina og veita rökstuddar og ítarlegar eigindlegar og megindlegar ástæður. Fjármálaeftirlitið skal taka tilhlýðilegt tillit til álits Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar og ákveði það að víkja frá því skal það innan þriggja mánaða frá móttöku álits stofnunarinnar útskýra fyrir henni ástæðurnar fyrir því að vikið sé frá viðkomandi áliti.
     d.      17. tölul. orðast svo: Félag í viðbótarstarfsemi: Fyrirtæki sem hefur meginstarfsemi, hvort sem hún er í þágu fyrirtækja innan samstæðunnar eða viðskiptavina utan hennar, sem felst í einhverju af eftirfarandi:
              a.      beinu framhaldi af bankastarfsemi,
              b.      rekstrarleigu, eignarhaldi eða umsjón fasteigna, veitingu gagnavinnsluþjónustu eða annarri starfsemi að svo miklu leyti sem hún er til viðbótar við bankaþjónustu,
              c.      annarri starfsemi sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin telur svipaða þeirri sem um getur í a- og b-lið.
     e.      21. tölul. orðast svo: Fjármálastofnun: Fyrirtæki sem uppfyllir bæði eftirfarandi skilyrði:
              a.      það er ekki fjármálafyrirtæki, hreint eignarhaldsfélag á sviði framleiðslustarfsemi, sérstakur verðbréfunaraðili, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði samkvæmt lögum um vátryggingasamstæður eða blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði samkvæmt lögum um vátryggingasamstæður, nema þegar blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði hefur dótturfélag sem er fjármálafyrirtæki,
              b.      það uppfyllir eitt eða fleiri af eftirfarandi skilyrðum:
                      1.      meginstarfsemi fyrirtækisins felst í að afla eða eiga eignarhluti eða stunda eina eða fleiri af þeim tegundum starfsemi sem taldar eru upp í 2.–12. og 15.–17. tölul. 1. mgr. 20. gr. eða eina eða fleiri af þeim tegundum þjónustu eða starfsemi sem taldar eru upp í 16. eða 67. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021, í tengslum við fjármálagerninga skv. 17. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga,
                      2.      fyrirtækið er verðbréfafyrirtæki, blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, greiðsluþjónustuveitandi skv. a–d-lið 23. tölul. 3. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021, eignastýringarfélag eða félag í viðbótarstarfsemi.
     f.      Í stað orðanna „hefur veruleg áhrif á“ í 27. tölul. kemur: fer með hlutdeild í samkvæmt lögum um ársreikninga.
     g.      Á eftir 27. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Hreint eignarhaldsfélag á sviði framleiðslustarfsemi: Fyrirtæki sem uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:
               a.      meginstarfsemi þess felst í að afla eða eiga eignarhluti,
               b.      það er ekki aðili skv. a- eða d–j-lið 2. tölul., verðbréfafyrirtæki, eignastýringarfélag eða greiðsluþjónustuveitandi skv. a–d-lið 23. tölul. 3. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 114/2021,
               c.      það fer ekki með hlutdeild í aðila á fjármálamarkaði.
     h.      30. tölul. orðast svo: Íbúðarhúsnæði: Eitthvað af eftirfarandi:
               a.      fasteign sem er dvalarstaður í eðli sínu og uppfyllir öll gildandi lög og reglugerðir til að hægt sé að nýta eignina til búsetu,
               b.      fasteign sem er dvalarstaður í eðli sínu og er enn í byggingu, að því tilskildu að búist sé við því að eignin muni uppfylla öll gildandi lög og reglugerðir til að hægt sé að nýta eignina til búsetu,
               c.      land sem fylgir fasteign sem um getur í a- og b-lið.
     i.      Á eftir 33. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Lagaleg áhætta: Hætta á tapi, þ.m.t. kostnaður, sektir, viðurlög eða refsibætur, sem gæti fallið á fjármálafyrirtæki vegna atvika sem leiða til málareksturs, þ.m.t. eftirfarandi:
               a.      eftirlitsaðgerða og sáttagerða í einkamálum,
               b.      athafnaleysis þegar aðgerðir eru nauðsynlegar til að fara að lagalegri skyldu,
               c.      aðgerða til að komast hjá því að fara að lagalegri skyldu,
               d.      misferlisatburða sem eru til komnir vegna misferlis af ásetningi eða gáleysi, þ.m.t. óviðeigandi fjármálaþjónustu eða ófullnægjandi eða villandi upplýsinga um fjárhagslega áhættu afurða sem fjármálafyrirtækið selur,
               e.      brots gegn kröfum sem koma til vegna innlendra eða alþjóðlegra stjórnsýslu- eða lagaákvæða,
               f.      brots gegn kröfum sem koma til frá samningsbundnu fyrirkomulagi, eða innri reglum og hátternisreglum sem komið var á fót í samræmi við innlendar eða alþjóðlegar reglur og starfshætti,
               g.      brots gegn siðareglum.
        Endurgreiðslur til þriðju aðila eða starfsmanna og greiðslur vegna viðskiptavildar þegar viðskiptatækifæri koma til, þegar ekki hefur verið brotið í bága við reglur eða siðferðilega framkvæmd og þegar fjármálafyrirtækið hefur uppfyllt skuldbindingar sínar tímanlega, teljast ekki til lagalegrar áhættu. Lagaleg áhætta skal ekki heldur ná til ytri lögfræðikostnaðar þegar atburðurinn sem veldur þeim kostnaði er ekki rekstraráhættuatburður.
     j.      Á eftir 36. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Líkanaáhætta: Hætta á tapi af völdum ákvarðana sem teknar eru á grundvelli niðurstaðna eigin líkana vegna villna í hönnun, þróun, mati á áhættubreytum, innleiðingu, notkun eða eftirliti með slíkum líkönum, þ.m.t. eftirfarandi:
               a.      óviðeigandi hönnunar á völdu eigin líkani og eiginleikum þess,
               b.      ófullnægjandi sannprófunar á hentugleika valins eigin líkans fyrir fjármálagerning sem meta á eða afurð sem á að verðleggja eða hentugleika valins eigin líkans í hlutaðeigandi markaðsaðstæðum,
               c.      skekkna í framkvæmd á völdu eigin líkani,
               d.      rangs mats á markaðsvirði og áhættumati vegna villu þegar viðskipti voru færð inn í viðskiptakerfið,
               e.      notkunar á völdu eigin líkani eða niðurstaðna þess í tilgangi sem líkanið var ekki ætlað eða hannað fyrir, þ.m.t. hagræðingar á mæliþáttum líkanagerðar,
               f.      ótímabærs eða óskilvirks eftirlits eða sannreyningar á frammistöðu líkans eða forspárgildi þess við mat á því hvort valið eigið líkan sé enn nothæft.
     k.      44. tölul. orðast svo: Móðurfélag: Fyrirtæki sem hefur yfirráð yfir einu eða fleiri fyrirtækjum.
     l.      Í stað orðanna „fjármálastofnun eða félag í viðbótarstarfsemi“ í 49. tölul. kemur: eða fjármálastofnun.
     m.      Við 54. tölul. bætist: líkanaáhættu og upplýsinga- og fjarskiptatækniáhættu en þó að frátalinni stefnu- og orðsporsáhættu.
     n.      Á eftir 69. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Upplýsinga- og fjarskiptatækniáhætta: Hætta á tapi vegna hvers kyns aðstæðna, í tengslum við notkun á net- og upplýsingakerfum, sem raunhæft er að greina og sem geta, ef þær raungerast, stofnað öryggi net- og upplýsingakerfa, hvers kyns tækniháðs búnaðar eða ferla, starfrækslu og ferla eða veitingu þjónustu í hættu með því að hafa skaðleg áhrif á stafrænt eða efnislegt umhverfi.
     o.      Á eftir 79. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Viðskiptahúsnæði: Fasteign sem er ekki íbúðarhúsnæði.

2. gr.

    Við 1. mgr. 1. gr. c laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     10.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2024/1623 frá 31. maí 2024 um breytingu á reglugerð (ESB) 575/2013 að því er varðar kröfur vegna útlánaáhættu, leiðréttingaráhættu vegna útlánaáhættu, rekstraráhættu, markaðsáhættu og afrakstursgólf, sem er birt í auglýsingu nr. 12/2025 í C-deild Stjórnartíðinda, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 291/2024 frá 6. desember 2024, sem er birt í auglýsingu nr. 12/2025 í C-deild Stjórnartíðinda.
     11.      Framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2024/2795 frá 24. júlí 2024 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar framkvæmdardagsetningu krafna um eiginfjárgrunn vegna markaðsáhættu, sem er birt í auglýsingu nr. 12/2025 í C-deild Stjórnartíðinda.

3. gr.

    Í stað orðsins „atvinnuhúsnæði“ í b-lið 2. tölul. 86. gr. i laganna kemur: viðskiptahúsnæði.

4. gr.

    Á eftir orðunum „eignarhaldsfélögum á fjármálasviði“ í 4. mgr. 107. gr. laganna kemur: blönduðum eignarhaldsfélögum í fjármálastarfsemi.

5. gr.

    Á eftir orðinu „samstæðu“ í 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna kemur: þ.m.t. undirsamstæðu.

6. gr.

    11. tölul. 2. mgr. 117. gr. a laganna orðast svo: 2. mgr. 461. gr. a um kröfur um eiginfjárgrunn vegna markaðsáhættu.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 117. gr. b laganna:
     a.      Á eftir 9. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 4. mgr. 34. gr. um viðbótarvirðisbreytingar.
     b.      Á eftir 21. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 10. mgr. 94. gr. um undanþágu fyrir lítið umfang veltubókarviðskipta.
     c.      Á eftir 22. tölul. koma tveir nýir töluliðir, sem verða 25. og 26. tölul., svohljóðandi:
         25.    9. mgr. 104. gr. um skráningu í veltubókina.
        26.    4. mgr. 104. gr. c um meðferð áhættuvarna fyrir gjaldmiðlaáhættu á eiginfjárhlutföll.
     d.      Á eftir 24. tölul. koma tveir nýir töluliðir, sem verða 29. og 30. tölul., svohljóðandi:
        29.    8. mgr. 111. gr. um áhættuskuldbindingarvirði.
        30.    4. mgr. 122. gr. a um sértækar lánaáhættuskuldbindingar.
     e.      Í stað „4. mgr.“ í 25. tölul. kemur: 11. og 14. mgr.
     f.      30.–32. tölul., sem verða 36.–38. tölul., orðast svo:
        36.    11. og 12. mgr. 147. gr. um aðferðafræði við að skipa áhættuskuldbindingum í flokka.
        37.    9. mgr. 153. gr. um áhættuvegnar fjárhæðir áhættuskuldbindinga vegna áhættuskuldbindinga gagnvart ríkisstjórnum og seðlabönkum, héraðsstjórnum, staðaryfirvöldum og opinberum aðilum, áhættuskuldbindingar gagnvart stofnunum og áhættuskuldbindingar gagnvart fyrirtækjum.
        38.    6. mgr. 157. gr. um fjárhæðir áhættuveginna áhættuskuldbindinga hvað varðar þynningaráhættu keyptra viðskiptakrafna.
     g.      39. og 40. tölul. falla brott.
     h.      Á eftir 42. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 4. mgr. 229. gr. um matsreglur fyrir aðrar veðhæfar tryggingar en fjárhagslegar tryggingar.
     i.      Í stað 46.–49. tölul. koma sjö nýir töluliðir, sem verða 53.–59. tölul., svohljóðandi:
        53.    9. og 10. mgr. 314. gr. um viðskiptavísi.
        54.    3. mgr. 315. gr. um aðlaganir á viðskiptavísinum.
        55.    3. mgr. 316. gr. um útreikning á árlegu tapi vegna rekstraráhættu.
        56.    9. mgr. 317. gr. um gagnasafn um tap.
        57.    3. mgr. 320. gr. um það sem er undanskilið við tapsútreikninga.
        58.    2. mgr. 321. gr. um tap sem stafar af samruna og yfirtöku eininga eða starfsemi sem tekið er til greina.
        59.    2. mgr. 323. gr. um umgjörð um stýringu rekstraráhættu.
     j.      Á eftir 50. tölul. koma tveir nýir töluliðir, sem verða 61. og 62. tölul., svohljóðandi:
        61.    8. mgr. 325. gr. c um gildissvið, uppbyggingu og eigindlegar kröfur óhefðbundinnar staðalaðferðar.
        62.    7. mgr. 325. gr. j um meðferð sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
     k.      Á eftir „5.“ í 51. tölul. kemur: og 6.
     l.      Í stað „9. mgr.“ í 54. tölul. kemur: 10. mgr.
     m.      Á eftir 54. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 6. mgr. 325. gr. bc um útreikninga á áætluðu greiðslufalli að hluta til.
     n.      Á eftir „9.“ í 57. tölul. kemur: og 10.
     o.      67. tölul. fellur brott.
     p.      Við 68. tölul. bætist: og 6. mgr. 382. gr. um mat á áhættuskuldbindingum vegna leiðréttingaráhættu á útlánavirði sem stafar af fjármögnunarviðskiptum með verðbréf á gangvirði.
     q.      69. tölul. orðast svo: 4. og 5. mgr. 383. gr. a um eftirlitslíkan leiðréttinga á útlánavirði.
     r.      80. tölul. fellur brott.
     s.      Á eftir 81. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 3. mgr. 449. gr. a um birtingu upplýsinga um umhverfis-, félags- og stjórnunaráhættu (UFS-áhættu).
     t.      86. tölul. orðast svo: 5. mgr. 501. gr. d um umbreytingarákvæði um varfærnismeðferð á sýndareignum.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Því er ætlað að leiða í landsrétt reglugerð (ESB) 2024/1623, svonefnda CRR III-gerð, sem varðar banka og aðrar lánastofnanir. Veigamestu breytingar í gerðinni varða kröfur til lánastofnana um eigið fé til að bregðast við útlána-, markaðs- og rekstraráhættu. Meginmarkmið hennar er að efla viðnámsþrótt lánastofnana með því að gera eiginfjárkröfur áhættunæmari þannig að þær endurspegli betur áhættu sem lánastofnanir standa frammi fyrir og treysta þannig fjármálastöðugleika.
    Frumvarpinu er einnig ætlað að innleiða framselda reglugerð (ESB) 2024/2795 sem frestar tilteknum breytingum samkvæmt CRR III á kröfum um eigið fé til að bregðast við markaðsáhættu til janúar 2026. Áætlað er að lögfesting frumvarpsins verði til þess að heildareiginfjárkröfur til lánastofnana hér á landi minnki lítillega.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Um starfsemi banka og annarra lánastofnana gilda svonefndar varfærniskröfur sem eru reglur sem er ætlað að auka viðnámsþrótt þeirra og um leið stuðla að traustu og öruggu fjármálakerfi og fjármálastöðugleika. Lykilhluti þeirra reglna eru eiginfjárkröfur til lánastofnana sem eru kröfur um að þær fjármagni starfsemi sína að hluta til með eigin fé en ekki einvörðungu með innlánum eða öðrum lánum. Unnt er að ganga á eigið fé ef tap er á rekstri lánastofnunar. Eigið fé þeirra tryggir þannig að þær geti staðist viss áföll án þess að verða ógjaldfærar og treystir þar með fjármálastöðugleika. Eiginfjárkröfur geta þó einnig aukið kostnað lánastofnana sem getur haft áhrif á vöruframboð þeirra og kjör sem þær geta boðið viðskiptavinum, þar á meðal vaxtakjör. Ákvörðun um eiginfjárkröfur er því nokkurs konar jafnvægislist sem miðar að hagkvæmu samspili tveggja sjónarmiða, annars vegar um ríkulegt framboð fjármagns, einkum í formi útlána til viðskiptavina, og lausafjársköpun frá fjármálakerfinu og hins vegar um að fjármálakerfið búi yfir hæfilegum viðnámsþrótti.
    Leitast hefur verið við að láta eiginfjárkröfur til lánastofnana taka mið af þeirri áhættu sem þær standa frammi fyrir. Veigamesta áhætta lánastofnana er að jafnaði útlánaáhætta sem er hætta á tapi vegna þess að lántaki stendur ekki í skilum. Einnig er vert að nefna markaðsáhættu sem er hætta á tapi vegna óhagstæðra breytinga á markaðsverðum, svo sem á verði hlutabréfa og gengi gjaldmiðla, og rekstraráhættu sem er hætta á tapi vegna ófullnægjandi innri ferla og kerfa, mistaka starfsmanna eða vegna utanaðkomandi atvika, svo sem sökum bilunar í tölvukerfum. Fleiri áhættuþættir spila þó inn í kröfur um eigið fé lánastofnana.
    Stór hluti íslenskrar löggjafar um varfærniskröfur til lánastofnana á rætur að rekja til löggjafar Evrópusambandsins sem hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Hryggjarstykkið í þeirri löggjöf er reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 frá 26. júní 2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (e. Capital Requirements Regulation, hér eftir CRR) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB frá 26. júní 2013 um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærnieftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum, um breytingu á tilskipun 2002/87/EB og um niðurfellingu á tilskipunum 2006/48/EB og 2006/49/EB (e. Capital Requirements Directive, hér eftir CRD). Bæði reglugerðin og tilskipunin hafa verið leiddar í íslenskan landsrétt með lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Evrópusambandið samþykkti í maí 2024 tvær veigamiklar gerðir sem breyta CRR og CRD, annars vegar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2024/1623 frá 31. maí 2024 um breytingu á reglugerð (ESB) 575/2013 að því er varðar kröfur vegna útlánaáhættu, leiðréttingaráhættu vegna útlánaáhættu, rekstraráhættu, markaðsáhættu og afrakstursgólf (hér eftir CRR III) og hins vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2024/1619 frá 31. maí 2024 um breytingu á tilskipun 2013/36/ESB að því er varðar eftirlitsheimildir, viðurlög, útibú í þriðju löndum og áhættu í tengslum við umhverfi, félagsmál og stjórnarhætti (hér eftir CRD VI). Gerðunum er ætlað að ljúka við að innleiða í Evrópusambandinu alþjóðleg viðmið um varfærniskröfur sem gerðar eru til banka, svonefndan Basel III-staðal. Sá staðall er afrakstur gagngerrar endurskoðunar á varfærniskröfum til banka sem var ráðist í af hálfu Basel-nefndarinnar um bankaeftirlit í því skyni að bæta úr vanköntum sem alþjóðlega fjármálakreppan sem hófst á árunum 2007 og 2008 leiddi í ljós.
    Veigamestu breytingar með CRR III varða eiginfjárkröfur til lánastofnana. Helst má nefna eftirfarandi:
     1.      Útlánaáhættu: Mikilvægustu breytingar á eiginfjárkröfum vegna útlánaáhættu snúa að fasteignalánum, einkum eftirfarandi þáttum:
                  a.      Áhættuvogum fasteignaveðlána: Við útreikning á eiginfjárkröfum vegna lánveitinga lánastofnana fá lán misjafnar áhættuvogir sem eiga að endurspegla hversu áhættusöm þau eru. Því hærri sem áhættuvogin er þeim mun meira eigið fé þarf lánastofnun að hafa til að bregðast við áhættu af láninu. Áhættuvogir vegna fasteignaveðlána taka mið af veðhlutfalli, þ.e. hlutfalli lánsfjárhæðar af virði fasteignaveðs. Lán með hærra veðhlutfalli eru talin áhættusamari og áhættuvogir þeirra eru því hærri.
                     Nú er meginreglan sú að áhættuvog íbúðalána er 35% ef veðhlutfall er ekki hærra en 80%, en áhættuvog þess hluta lána sem er umfram það er almennt 75%. Samkvæmt CRR III verður áhættuvog íbúðalána að meginreglu til 20% ef veðhlutfall er ekki hærra en 55%, en áhættuvog þess hluta sem er umfram það almennt 75%.
                     Áhættuvog lána með veði í viðskiptahúsnæði er nú að meginreglu til 50% ef veðhlutfall er ekki hærra en 50%, en áhættuvog þess hluta sem er umfram það er almennt 100%. Samkvæmt CRR III verður áhættuvog lána með veði í viðskiptahúsnæði að meginreglu til 60% ef veðhlutfall er ekki hærra en 55%, en áhættuvog þess hluta sem er umfram það verður almennt 100%.
                     Breytingunum er ætlað að gera eiginkröfurnar áhættunæmari þannig að þær endurspegli betur áhættu af fasteignaveðlánum. Fyrri eiginfjárkröfur þóttu óþarflega strangar fyrir fasteignaveðlán með lágu veðhlutfalli.
                  a.      Mati á virði fasteignaveða: Nú geta lánastofnanir tekið mið af hækkunum á virði fasteignar eftir að lán er veitt við ákvörðun á veðhlutfalli. Samkvæmt CRR III verður aftur á móti almennt óheimilt að miða við hærra fasteignaverð en það var þegar lánið var veitt eða meðalverð fasteignar síðustu sex ár í tilfelli íbúðarhúsnæðis, eða átta ár ef um viðskiptahúsnæði er að ræða, hvort sem hærra reynist.
                     Breytingunum er ætlað að gera eiginfjárkröfur vegna fasteignaveðlána síður háðar sveiflum á fasteignamarkaði og koma í veg fyrir að veðhlutfall sé vanmetið þegar húsnæðismarkaður sýnir einkenni bólumyndunar. Það gæti leitt til þess að lánastofnanir hefðu of lítið eigið fé til að takast á við óvænt áfall á fasteignamarkaði.
                  a.      Áhættuvogum framkvæmdalána: Áhættuvog framkvæmdalána til byggingarverktaka er nú almennt 150% til samræmis við viðmið Fjármálaeftirlitsins um mat á viðbótarbótareiginfjárþörf. Áhættuvog lána vegna byggingar íbúðarhúsnæðis er þó 100% samkvæmt viðmiðunum að tilgreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal um að lántaki leggi fram eigið fé sem nemur a.m.k. 20% af byggingarkostnaði. Samkvæmt CRR III verður áhættuvog framkvæmdalána að meginreglu til 150% við ákvörðun lágmarkseiginfjárkrafna. Heimilt verður þó að miða við 100% áhættuvog ef verktaki leggur fram verulegt eigið fé. CRR III tilgreinir ekki hvað telst verulegt eigið fé heldur felur Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni að setja viðmiðunarreglur þar um eigi síðar en 10. júlí 2025. Stofnunin hefur birt samráðsskjal (með númerið EBA/CP/2024/12) þar sem lagt er til að miðað verði við að eiginfjárframlag framkvæmdaraðila nemi a.m.k. 35% af söluverðmæti. Ekki liggur enn fyrir hvert endanlegt viðmið verður.
     2.      Markaðsáhættu: Eiginfjárkröfur vegna markaðsáhættu eru ákveðnar eftir allflóknum reglum sem eiga að endurspegla áhættu lánastofnana af breytingum á markaðsverðum, m.a. með tilliti til misjafnrar áhættu eignaflokka og dreifingar áhættu milli eignaflokka. Með CRR III er leitast við að gera eiginfjárkröfurnar áhættunæmari. Jafnframt er leitast við að draga úr mun á mati á markaðsáhættu milli lánastofnana, m.a. með því að auka heimildir eftirlitsaðila til að hafa eftirlit með niðurstöðum áhættumatslíkana lánastofnana og takmarka notkun ófullnægjandi líkana.
     3.      Rekstraráhættu: Lánastofnunum ber nú almennt að hafa eigið fé til að bregðast við rekstraráhættu sem nemur 15% meðalárstekna, eða 12–18% meðalárstekna einstakra starfssviða. Samkvæmt CRR III verður þeim að meginreglu til skylt að hafa eigið fé sem nemur tilgreindu hlutfalli af svokölluðum viðskiptavísi sem ræðst m.a. af tekjum, gjöldum og eignum lánastofnana og sögulegu tapi vegna rekstraráhættu. Grunnhlutfallið verður 12%, en það breytist ef viðskiptavísirinn er umfram tilgreind mörk. Breytingunum er m.a. ætlað að gera eiginfjárkröfurnar áhættunæmari og draga úr mun á mati á rekstraráhættu milli lánastofnana.
     4.      Úttaksgólf: Eiginfjárkröfur til lánastofnana byggjast að meginreglu til á stöðluðum viðmiðum sem er ætlað að endurspegla þá áhættu sem þær standa frammi fyrir. Með samþykki lögbærra yfirvalda mega lánastofnanir þess í stað nota eigin líkön til að meta eiginfjárþörf. Í CRR III er kynnt til sögunnar úttaksgólf (e. output floor) sem felur í sér að eiginfjárkröfur sem byggjast á eigin líkönum lánastofnana mega ekki verða lægri en 72,5% af því sem þær hefðu orðið ef kröfurnar byggðust á stöðluðu viðmiðunum. Úttaksgólfinu er ætlað að treysta stöðu lánastofnana sem styðjast við eigin líkön og koma í veg fyrir að óeðlilega mikill munur verði á eiginfjárkröfum til lánastofnana eftir því hvort þær nota stöðluð viðmið eða eigin líkön.
    Í júlí 2024 samþykkti Evrópusambandið framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2024/2795 frá 24. júlí 2024 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar framkvæmdardagsetningu krafna um eiginfjárgrunn vegna markaðsáhættu (hér eftir frestunargerðin), sem seinkar gildistöku tilgreindra breytinga á eiginfjárkröfum vegna markaðsáhættu samkvæmt CRR III til 1. janúar 2026. Það skýrist af því að innleiðingu hliðstæðra breytinga utan Evrópusambandsins hafði seinkað.
    Gerðir sem Evrópusambandið samþykkir og varða innri markað Evrópska efnahagssvæðisins eru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem EFTA-ríkin Ísland, Liechtenstein og Noregur auk Evrópusambandsins eiga aðild að. Þær skulu svo innleiddar í landsrétt aðildarríkja samningsins til að regluverk á innri markaðnum sé samræmt. Sameiginlega EES-nefndin ákvað 6. desember 2024, með ákvörðunum nr. 291/2024 og 292/2024, að taka CRR III og frestunargerðina upp í samninginn. Íslandi ber því þjóðréttarleg skylda til að leiða gerðirnar í landsrétt og innleiðing þeirra er liður í því að tryggja áframhaldandi aðgang íslenskra fyrirtækja og neytenda að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.
    Gerðir sem eru teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og samsvara reglugerðum Evrópusambandsins skulu teknar sem slíkar upp í landsrétt, sbr. a-lið 7. gr. samningsins. Því ber að taka CRR III og frestunargerðina í heild sinni upp í landsrétt og er svigrúm við innleiðinguna mjög lítið. Í síðari undirgrein 3. mgr. 92. gr. CRR, með breytingum samkvæmt CRR III, er þó heimild fyrir aðildarríki til að víkja frá fyrrgreindu úttaksgólfi í tilviki lánastofnana sem tilheyra samstæðu ef samstæðan heyrir undir úttaksgólfið. Þá geta aðildarríki skv. 5. mgr. 465. gr. CRR, með breytingum samkvæmt CRR III, tímabundið heimilað lánastofnunum sem nota eigin líkön til að meta eiginfjárþörf að nota lægri áhættuvogir vegna fasteignalána til að draga úr áhrifum úttaksgólfsins á veitingu slíkra lána. Líkt og fyrr greinir notar engin lánastofnun á Íslandi eigin líkön við mat á eiginfjárþörf og fyrirhugað úttaksgólf hefur því ekki áhrif á eiginfjárkröfur til þeirra. Því er ekki talin þörf á því að nýta þetta svigrúm reglugerðarinnar til að draga úr áhrifum úttaksgólfsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    CRR, með aðlögunum sem voru gerðar við upptöku í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og breytingum samkvæmt níu reglugerðum, hefur lagagildi skv. 1. gr. c laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Með frumvarpinu er lagt til að lagagreininni verði breytt til að ljá breytingum á CRR með CRR III og frestunargerðinni lagagildi og innleiða gerðirnar þar með í landsrétt.
    Lagðar eru til tvenns konar aðrar breytingar sem leiða af innleiðingunni. Annars vegar er lagt til að nokkrum skilgreiningum hugtaka í 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki verði breytt eða nýjum skilgreiningum bætt við til að taka mið af breyttum eða nýjum skilgreiningum samkvæmt CRR III. Hins vegar er lagt til að ráðherra og Seðlabanka Íslands verði falið að setja stjórnvaldsfyrirmæli til að innleiða nýjar undirgerðir CRR, sem útfæra ýmis atriði sem hana varða, sem CRR III gerir ráð fyrir.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til tvær minni háttar lagfæringar á ákvæðum í lögum um fjármálafyrirtæki sem byggjast ekki á CRR III en taka mið af ábendingum frá Eftirlitsstofnun EFTA til ráðuneytisins.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Atvinnufrelsi nýtur verndar 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess og gætt sé jafnræðis, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þau inngrip í starfsemi lánastofnana sem frumvarpið felur í sér byggjast á lögum, styðjast við almannahagsmuni af fjármálastöðugleika og traustu fjármálakerfi og taka jafnt til aðila sem eru í sambærilegri stöðu. Því er talið að frumvarpið fullnægi kröfum stjórnarskrárinnar.
    Aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ber sem fyrr segir að taka reglugerðir sem eru teknar upp í samninginn upp í landsrétt skv. a-lið 7. gr. samningsins. Innleiðing CRR III og frestunargerðarinnar í landsrétt eftir að þær hafa verið teknar upp í samninginn samræmist því þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands.

5. Samráð.
    Frumvarpið varðar lánastofnanir, viðskiptavini og eigendur þeirra, Seðlabanka Íslands og almenning.
    Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru unnin í samráði við Seðlabanka Íslands og Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Drög að áformaskjali voru send öðrum ráðuneytum til umsagnar í maí 2024. Engar athugasemdir bárust.
    Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Íslands.is 13. september 2024 (mál nr. S-177/2024) og veittur var umsagnarfrestur til 27. sama mánaðar. Tvær umsagnir bárust, frá Borgarperlum ehf. og Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Umsögn Borgarperlna ehf. var ekki talin kalla á breytingar á áformunum. Í umsögn Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu var vakin athygli á áhrifum sem innleiðing CRR III gæti haft á eiginfjárkröfur vegna húsnæðis- og framkvæmdalána. Ábendingarnar lutu að ákvæðum í reglugerðinni sem gefa aðildarríkjum ekki svigrúm við innleiðingu. Þær þóttu því ekki kalla á breytingar á áformum um innleiðingu reglugerðarinnar. Aftur á móti er tekið mið af þeim í áhrifamati í 6. kafla.
    Drög að frumvarpi voru unnin í samráði við Seðlabanka Íslands. Drögin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 24. febrúar 2025 (mál nr. S-48/2025) og var veittur umsagnarfrestur til 10. mars. Tvær umsagnir bárust, frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Samtökum iðnaðarins. Í báðum umsögnum var vakin athygli á áhrifum sem innleiðing CRR III gæti haft á eiginfjárkröfur vegna húsnæðis- og framkvæmdalána. Því var haldið fram að breyttar reglur gætu leitt til hærri vaxta á fasteignalánum til yngra og efnaminna fólks sem legði minna eigið fé fram við kaup á húsnæði. Þá gæti fjármögnun nýbygginga orðið dýrari ef verktakar þyrftu að leggja fram meira eigið fé en nú til að áhættuvog lána yrði lægri. Ábendingarnar lutu að ákvæðum í reglugerðinni sem veita aðildarríkjum ekki svigrúm við innleiðingu. Þær þóttu því ekki gefa tilefni til breytinga á frumvarpsdrögunum. Jafnvel þótt stjórnvöld hefðu svigrúm til að hnika til þessum ákvæðum væri varhugavert að láta eiginfjárkröfur til lánastofnana stýrast af markmiðum stjórnvalda um stuðning við einstaka hópa eða málaflokka fremur en af þeirri áhættu sem fylgir misjöfnum tegundum lánveitinga, enda væri þá hætt við að eiginfjárkröfurnar endurspegluðu ekki raunverulega áhættu lánastofnana. Ýmis önnur úrræði stjórnvalda styðja með beinni hætti við efnaminna fólk og uppbyggingu húsnæðis, svo sem skatta- og bótakerfi sem taka mið af tekjum fólks og almenna íbúðakerfið sem styður uppbyggingu húsnæðis fyrir efnaminna fólk. Því til viðbótar skal því haldið til haga, líkt og fram kemur í áhrifamati í 6. kafla, að breyttar áhættuvogir fasteignaveðlána leiða til þess að áhættuvog fyrir lán í heild verður lægri en nú ef veðhlutfall er undir 75,7%. Veðhlutfall meiri hluta nýrra íbúðalána hér á landi er undir 75,7%, eða um þrír fjórðu íbúðalána vegna fyrstu kaupa og um 90% vegna annarra íbúðalána. Óvíst er að hvaða marki breyttar reglur um mat á virði fasteignaveða vega á móti, en í öllu falli er ekki einsýnt að breytingarnar séu til þess fallnar að leiða til hærri vaxta á meiri hluta lána til yngra og efnaminna fólks. Þvert á móti kunna þær að vera til þess fallnar að leiða til lægri vaxta á meiri hluta íbúðalána, þar á meðal á lánum til fyrstu kaupenda.
    Í frumvarpsdrögum sem birt voru í samráðsgáttinni var gert ráð fyrir því að lögin tækju gildi 1. júlí 2025 sem er sá frestur sem EFTA-ríkin hafa til að veita CRR III gildi. Tillaga barst frá Seðlabanka Íslands um að lögin tækju þess í stað gildi við samþykkt. Með því móti væri röskun á gagnaskilum til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar lágmörkuð, en það gæti m.a. haft þýðingu fyrir samanburðarhæfni gagna um íslenskar lánastofnanir við aðrar lánastofnanir í Evrópu, birtar tímaraðir og forðað því að Ísland félli út úr áhættumælaborði stofnunarinnar. Fjármálaeftirlit í Noregi og Liechtenstein hefðu af hliðstæðum sökum lagt áherslu á að innleiða reglugerðina sem næst gildistöku í Evrópusambandinu í byrjun árs 2025. Lánastofnanir hér á landi væru almennt vel búnar undir innleiðingu CRR III, enda hefði áður verið stefnt að innleiðingu reglugerðarinnar á sama tíma og hún tók gildi í Evrópusambandinu. Með tilliti til ábendinga Seðlabankans er lagt til að lögin taki þegar gildi eftir birtingu þeirra í Stjórnartíðindum.

6. Mat á áhrifum.
6.1 Hagræn áhrif.
    Mikilvægustu breytingar með CRR III eru breytingar á eiginfjárkröfum til banka og annarra lánastofnana. Líkt og fyrr greinir stuðla eiginfjárkröfur til lánastofnana að því að þær geti staðist áföll án þess að verða ógjaldfærar og treysta þar með fjármálastöðugleika. Þær geta þó einnig haft áhrif á kostnað lánastofnana sem aftur getur haft áhrif á vexti og önnur viðskiptakjör sem þær bjóða upp á.
    Þær breytingar sem koma líklega til með að hafa mest áhrif hér á landi varða eiginfjárkröfur vegna fasteignalána, einkum íbúðalána. Sem fyrr segir lækkar almenn áhættuvog þess hluta íbúðalána sem er með allt að 55% veðhlutfalli úr 35% í 20% en áhættuvog þess hluta þar sem veðhlutfallið er yfir 55% en ekki hærra en 80% hækkar úr 35% í 75%. Almenn áhættuvog þess hluta þar sem veðhlutfall er umfram 80% verður áfram 75%. Breytingarnar fela í sér að áhættuvog fyrir lán í heild verður lægra fyrir lán með veðhlutfall sem er undir 75,7% en hærra fyrir lán með hærra veðhlutfall.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Breyttu áhættuvogirnar geta leitt til þess að vextir lána með hófleg veðhlutföll verði lægri en ella en vextir lána með há veðhlutföll hærri. Veðhlutfall meiri hluta nýrra íbúðalána hér á landi er undir 75,7%, eða um þrír fjórðu íbúðalána vegna fyrstu kaupa og um 90% annarra íbúðalána. Breyttu áhættuvogirnar kunna því að leiða til lægri vaxta á meiri hluta íbúðalána en óbreyttar áhættuvogir.
    Breyttar reglur um mat á virði fasteignaveða fela í sér að breytingar á fasteignaverði skila sér ekki strax að fullu í breyttu veðhlutfalli. Veðhlutfall verður þannig hærra en ella þegar fasteignaverð fer hækkandi. Það er oftar en ekki raunin, líkt og sést á eftirfarandi línuriti sem sýnir sex ára meðaltal fasteignamats í samanburði við nýjasta gildi vísitölu íbúðaverðs hverju sinni.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hærra veðhlutfalli fylgir hærri áhættuvog sem fylgja meiri eiginfjárkröfur. Þær geta aftur leitt til hærri vaxta, líkt og fyrr greinir. Hversu mikil þau áhrif verða ræðst m.a. af þróun fasteignaverðs. Breyttu reglurnar gætu skapað hvata til tíðari endurfjármögnunar lána til að „uppfæra“ virði fasteignaveða til þess að fá lægri áhættuvog og betri vaxtakjör. Áhrif breytinganna koma þó ekki strax fram að fullu þar sem áfram verður heimilt að meta veð í fasteignum vegna lána sem voru veitt fyrir 2025 á markaðsvirði til ársloka 2027 að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Breyttar reglur um áhættuvogir framkvæmdalána kunna að verða til þess að lántakar þurfi að leggja fram meira eigið fé til framkvæmda en nú til þess að áhættuvog lánanna verði lægri. Nú þarf eiginfjárframlag að nema a.m.k. 20% af byggingarkostnaði til að áhættuvog lána verði lægri, en í fyrrgreindu samráðsskjali Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar er lagt til að miðað verði við 35% af söluverðmæti. Það er nokkuð umfram það sem tíðkast hefur á byggingarmarkaði hér á landi og gæti því haft áhrif á fjármögnun nýbygginga. Sem fyrr segir liggur þó ekki enn fyrir hvert endanlegt viðmið verður.
    Breyttar reglur um markaðsáhættu eru líklegar til þess að auka eiginfjárkröfur til íslenskra lánastofnana. Breyttar reglur um rekstraráhættu eru aftur á móti líklegar til þess að draga úr eiginfjárkröfum til þeirra.
    Engin íslensk lánastofnun notar eigin líkön til að meta eiginfjárþörf og því hefur fyrirhugað úttaksgólf ekki áhrif á eiginfjárkröfur til þeirra. Úttaksgólfið stuðlar þó að jafnari samkeppnisstöðu þeirra gagnvart lánastofnunum sem nota eigin líkön, sem eru gjarnan stórir alþjóðlegir bankar.
    Talið er að lögfesting frumvarpsins verði til þess að heildareiginfjárkröfur til íslenskra lánastofnana lækki lítillega, einkum vegna lækkaðra áhættuvoga íbúðalána með hófleg veðhlutföll. Áætlað er að eiginfjárhlutfall kerfislega mikilvægu bankanna kunni að hækka um 0,5–1,1 prósentustig verði frumvarpið lögfest. Til að setja það í samhengi var eiginfjárhlutfall kerfislega mikilvægu bankanna 22,6–24,3% við lok síðasta árs.

6.2 Áhrif á stjórnsýslu og ríkissjóð.
    Fjármálaeftirlitið, sem er hluti Seðlabanka Íslands, hefur eftirlit með því að farið sé eftir lögum um fjármálafyrirtæki. Ekki er talið að lögfesting frumvarpsins hafi veruleg áhrif á umfang eftirlitsins eða kalli á breytingu á eftirlitsgjaldi samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald, nr. 99/1999. Ekki er fyrirséð að lögfestingin hafi önnur áhrif á ríkissjóð.


Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. b laganna eru skilgreind ýmis hugtök sem notuð eru í lögunum. Stór hluti skilgreininganna byggist á skilgreiningum sem fram koma í 4. gr. CRR. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lagagreininni verði breytt til að taka mið af nýjum eða breyttum skilgreiningum í 4. gr. CRR samkvæmt CRR III.
    Um a-lið. Lagt er til að vísun til félags í viðbótarstarfsemi sem er hluti af samstæðustöðu fjármálafyrirtækis í skilgreiningu á aðila á fjármálamarkaði verði felld brott til samræmis við brottfall c-liðar 27. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR.
    Um b-lið. Lagt er til að skilgreiningu á dótturfélagi verði breytt til samræmis við breytta skilgreiningu á hugtakinu í 16. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR. Yfirráð, sem vísað er til í skilgreiningunni, eru tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í lögum um ársreikninga, eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og fyrirtækis, sbr. 82. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laganna.
    Um c-lið. Lagt er til að skilgreiningu á eignarhaldsfélagi á fjármálasviði verði breytt til samræmis við breytta skilgreiningu á hugtakinu í 20. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR.
    Um d-lið. Lagt er til að skilgreiningu á félagi í viðbótarstarfsemi verði breytt til samræmis við breytta skilgreiningu á hugtakinu í 18. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR. Í c-lið skilgreiningarinnar er vísað til annarrar starfsemi sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin telur svipaða þeirri sem um getur í a- og b-lið skilgreiningarinnar. Í 5. mgr. 4. gr. CRR, með breytingum samkvæmt CRR III, er stofnuninni falið að gefa út viðmiðunarreglur eigi síðar en 10. janúar 2026 sem tilgreina viðmið fyrir tilgreiningu starfsemi sem um getur í fyrrnefndum 18. tölul.
    Um e-lið. Lagt er til að skilgreiningu á fjármálastofnun verði breytt til samræmis við breytta skilgreiningu á hugtakinu í 26. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR.
    Í a-lið e-liðar er vísað m.a. til sérstaks verðbréfunaraðila. Það hugtak er ekki skilgreint í lögum um fjármálafyrirtæki nú. Í frumvarpi til laga um verðbréfun, sem er í þinglegri meðferð, er lagt til að skilgreiningu á hugtakinu verði bætt við lög um fjármálafyrirtæki (þskj. 122, 122. mál).
    Í 1. tölul. b-liðar e-liðar er vísað til 16. og 17. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Þeir töluliðir eru ekki í málsgreininni núna. Í frumvarpi til laga um markaði fyrir sýndareignir, sem fyrirhugað er að leggja fram á þessu þingi, verður lagt til að þeim verði bætt við málsgreinina.
    Í ii-lið b-liðar 26. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR, eins og ákvæðinu var breytt með CRR III, er vísað til eignarhaldsfélaga á verðbréfasviði. Þau eru skilgreind í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2033 frá 27. nóvember 2019 um varfærniskröfur fyrir verðbréfafyrirtæki og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 1093/2010, (ESB) nr. 575/2013, (ESB) nr. 600/2014 og (ESB) nr. 806/2014. Sú reglugerð hefur ekki enn verið tekin upp í landsrétt. Vísunin til eignarhaldsfélaga á verðbréfasviði er því ekki tekin upp í ákvæðið að þessu sinni. Til stendur þó að innleiða reglugerð (ESB) 2019/2033. Áformað er að bæta vísun til eignarhaldsfélaga á verðbréfasviði við skilgreininguna á fjármálastofnun.
    Um f-lið. Lagt er til að skilgreiningu á hlutdeildarfélagi verði breytt til samræmis við breytta skilgreiningu 35. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR á hlutdeild. Þar er vísað til hlutdeildar í skilningi 2. liðar 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/34/ESB frá 26. júní 2013 um árleg reikningsskil, samstæðureikningsskil og tilheyrandi skýrslur tiltekinna tegunda fyrirtækja, um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB og niðurfellingu tilskipana ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE. Sá liður endurspeglast í skilgreiningu 21. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, á hlutdeild. Þar er hugtakið skilgreint sem réttur til eigin fjár annarra félaga, hvort sem skírteini hefur verið gefið út fyrir honum eða ekki, sem ætlað er að efla starfsemi félagsins sem réttinn á með því að mynda varanleg tengsl við þau. Eignarhald á hluta af eigin fé annars félags telst hlutdeild ef það er a.m.k. 20%.
    Um g-lið. Lagt er til að bætt verði við skilgreiningu á hreinu eignarhaldsfélagi á sviði fjármálastarfsemi til samræmis við nýja skilgreiningu á hugtakinu í 26. tölul. a 1. mgr. 4. gr. CRR. Hugtakið er notað í skilgreiningu frumvarpsins á fjármálastofnun, sbr. e-lið þessarar greinar frumvarpsins.
    Um h-lið. Lagt er til að skilgreiningu á íbúðarhúsnæði verði breytt til samræmis við breytta skilgreiningu á hugtakinu í 75. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR. C-liður töluliðarins í CRR er þó ekki tekinn upp í frumvarpið þar sem hann vísar aðeins til búseturéttar í íbúð í húsnæðissamvinnufélagi í Svíþjóð.
    Um i-lið. Lagt er til að bætt verði við skilgreiningu á lagalegri áhættu til samræmis við nýja skilgreiningu á hugtakinu í 52. tölul. a 1. mgr. 4. gr. og nýja 4. undirgr. sömu málsgreinar í CRR. Hugtakið er notað í skilgreiningu 54. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki á rekstraráhættu.
    Um j-lið. Lagt er til að bætt verði við skilgreiningu á líkanaáhættu til samræmis við nýja skilgreiningu á hugtakinu í 52. tölul. b 1. mgr. 4. gr. CRR. Í CRR er að vísu notað líkansáhætta en lagt er til að notað verði líkanaáhætta til að gæta samræmis við hugtakanotkun sem hefur tíðkast í eftirlitsframkvæmd. Fyrirhugað er að hugtakið verði notað í skilgreiningu 54. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki á rekstraráhættu, sbr. m-lið þessarar greinar frumvarpsins.
    Um k-lið. Lagt er til að skilgreiningu á móðurfélagi verði breytt til samræmis við breytta skilgreiningu á hugtakinu í 15. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR. Yfirráð, sem vísað er til í skilgreiningunni, eru tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í lögum um ársreikninga, eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og fyrirtækis, sbr. 82. gr. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki.
    Um l-lið. Lagt er til að vísun til félags í viðbótarstarfsemi í skilgreiningu á móðurstofnun í aðildarríki verði felld brott til samræmis við breytta skilgreiningu á hugtakinu í 28. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR.
    Um m-lið. Lagt er til að skilgreiningu á rekstraráhættu verði breytt til samræmis við breytta skilgreiningu á hugtakinu í 52. tölul. 1. mgr. 4. gr. CRR. Hugtökin lagaleg áhætta, líkanaáhætta og upplýsinga- og fjarskiptatækniáhætta, sem koma fram í skilgreiningunni, eru skilgreind í i-, j- og n-lið þessarar greinar frumvarpsins.
    Um n-lið. Lagt er til að bætt verði við skilgreiningu á upplýsinga- og fjarskiptatækniáhættu til samræmis við nýja skilgreiningu á hugtakinu í 52. tölul. c 1. mgr. 4. gr. CRR. Fyrirhugað er að hugtakið verði notað í skilgreiningu 54. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laga um fjármálafyrirtæki á rekstraráhættu, sbr. m-lið þessarar greinar frumvarpsins.
    Um o-lið. Lagt er til að bætt verði við skilgreiningu á viðskiptahúsnæði til samræmis við nýja skilgreiningu á hugtakinu í 75. tölul. a 1. mgr. 4. gr. CRR. Hugtakið er notað í b-lið 2. tölul. 86. gr. i laga um fjármálafyrirtæki. Þar er nú reyndar vísað til atvinnuhúsnæðis en í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að því verði breytt í viðskiptahúsnæði til að gæta samræmis við hugtakanotkun CRR.

Um 2. gr.

    CRR, með aðlögunum sem voru gerðar við upptöku í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og breytingum samkvæmt níu reglugerðum, hefur lagagildi skv. 1. gr. c laga um fjármálafyrirtæki. Íslandi ber skv. a-lið 7. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að taka breytingar á CRR með CRR III og frestunargerðinni upp í landsrétt. Lagt er til að það verði gert með því að bæta vísun til CRR III og frestunargerðarinnar við 1. gr. c laganna. Af því leiðir að CRR mun gilda sem lög með þeim breytingum sem gerðar eru með CRR III og frestunargerðinni nái frumvarp þetta fram að ganga.
    Lagt er til að CRR III verði veitt gildi eins og gerðin var aðlöguð með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 291/2024. Aðlaganirnar miða að því að tryggja tveggja stoða kerfi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið með því að kveða á um upplýsingagjöf til stofnana EFTA og með því að skipta vísun til laga Evrópusambandsins út fyrir vísun til ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Aðlögunarfrestur sem varðar mat á tapi í eigin líkönum lánastofnana er lagaður að gildistökudegi ákvörðunarinnar. Þá er EFTA-ríkjunum veittur frestur til 1. júlí 2025 til að láta CRR III taka gildi. Engin aðlögun var gerð á frestunargerðinni í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 292/2024.

Um 3. gr.

    Lagt er til að vísað verði til viðskiptahúsnæðis í stað atvinnuhúsnæðis í b-lið 2. tölul. 86. gr. i laganna til að gæta samræmis við hugtakanotkun í 75. tölul. a 1. mgr. 4. gr. CRR, þar sem viðskiptahúsnæði er skilgreint, sbr. o-lið 1. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í 4. mgr. 107. gr. laganna segir að Fjármálaeftirlitið geti krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá eignarhaldsfélögum á fjármálasviði, blönduðum eignarhaldsfélögum og dótturfélögum slíkra félaga, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með fjármálafyrirtækjum sem eru dótturfélög þessara eignarhaldsfélaga. Ákvæðið byggist m.a. á 3. mgr. 65. gr. CRD. Þar er m.a. kveðið á um að lögbær yfirvöld skuli hafa heimildir til að krefjast upplýsinga frá tilgreindum aðilum, þar á meðal blönduðum eignarhaldsfélögum í fjármálastarfsemi, en greint er frá því hvers konar félög það eru í 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. b laganna. Til að gæta samræmis við tilskipunarákvæðið er lagt til að vísun til blandaðra eignarhaldsfélaga í fjármálastarfsemi verði bætt við 4. mgr. 107. gr. laganna. Tillagan tekur mið af ábendingu Eftirlitsstofnunar EFTA til ráðuneytisins.

Um 5. gr.

    Í 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna segir að tilgreind ákvæði þeirra skuli gilda um samstæðu þar sem móðurfélagið er fjármálafyrirtæki, blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði. Ákvæðið byggist m.a. á 2. mgr. 109. gr. CRD. Þar er rætt um skyldu til að uppfylla tilgreindar skuldbindingar „á samstæðu- eða undirsamstæðugrunni“. Með tilliti til ábendingar frá Eftirlitsstofnun EFTA er lagt til að vísun til undirsamstæðu verði bætt við 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna til að skerpa á því að samstæða í skilningi ákvæðisins geti verið undirsamstæða.

Um 6. gr.

    Í 2. mgr. 117. gr. a laganna er ráðherra falið að innleiða með reglugerð undirgerðir CRR sem byggjast ekki á tæknistöðlum frá evrópsku eftirlitsstofnununum á fjármálamarkaði. Í 11. tölul. málsgreinarinnar er ráðherra falið að innleiða undirgerðir sem samþykktar eru með stoð í 461. gr. a CRR um óhefðbundna staðalaðferð að því er varðar markaðsáhættu. Lagt er til að töluliðnum verði breytt til að taka mið af breytingum á 461. gr. a CRR með CRR III.
    Í 3. og 8. tölul. 2. mgr. 117. gr. a laganna er ráðherra falið að innleiða undirgerðir sem eru samþykktar með stoð í 4. mgr. 115. gr. og 1. mgr. 456. gr. CRR. Þeim málsgreinum í CRR er breytt með CRR III. Gildandi töluliðir í lögunum eru þó taldir ná áfram yfir breyttu ákvæðin í CRR. Því er ekki talið nauðsynlegt að breyta þeim vegna þessara breytinga með CRR III.

Um 7. gr.

    Í 2. mgr. 117. gr. b laganna er Seðlabanka Íslands falið að innleiða með reglum undirgerðir CRR sem byggjast á tæknistöðlum frá evrópsku eftirlitsstofnununum á fjármálamarkaði. Lagt er til að nokkrum töluliðum verði bætt við málsgreinina, felldir brott eða þeim breytt til að taka mið af nýjum, brottfelldum eða breyttum heimildum til að samþykkja undirgerðir samkvæmt CRR III.
    Í 3., 28., 29., 34., 36., 45., 50., 54., 56., 58., 79. og 81. tölul. málsgreinarinnar er Seðlabankanum falið að innleiða undirgerðir sem eru samþykktar með stoð í 8. mgr. 20. gr., 5. mgr. 143. gr., 2. mgr. 144., 3. mgr. 173. gr., 3. mgr. 180., 3. mgr. 279. gr. a, 9. mgr. 325. gr., 8. mgr. 325. gr. az, 3. mgr. 325. gr. be, 4. mgr. 325. gr. bg, 7. mgr. 430. gr. og 434. gr. a gr. CRR. Þeim ákvæðum í CRR er breytt með CRR III. Gildandi töluliðir í lögunum eru þó taldir ná áfram yfir breyttu ákvæðin í CRR. Því er ekki talið nauðsynlegt að breyta þeim vegna þessara breytinga með CRR III.

Um 8. gr.

    CRR III öðlaðist í meginatriðum gildi í Evrópusambandinu 1. janúar 2025, þótt sumar breytingar taki gildi síðar eða í fösum. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 291/2024 um upptöku CRR III í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið var gerð aðlögun á 2. gr. CRR III sem heimilar EFTA-ríkjunum að seinka gildistöku gerðarinnar um allt að sex mánuði frá þeim tíma, þ.e. til 1. júlí 2025. Lagt er til að lögin taki þegar gildi, sem felur í sér að þau taka gildi daginn eftir birtingu í Stjórnartíðindum, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005. Tillagan tekur mið af ábendingum Seðlabanka Íslands til ráðuneytisins, sbr. umfjöllun um samráð í 5. kafla.