Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 846 — 260. mál.
3. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta, tolla og gjöld (aðgerðir gegn peningaþvætti, viðurlög o.fl.).
Frá efnahags- og viðskiptanefnd.
Nefndin hefur fjallað um málið milli 2. og 3. umræðu. Við umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram frekari sjónarmið um að undanþiggja ætti fjarvarmaveitur jöfnunargjaldi vegna dreifingar á raforku. Í 22. gr. frumvarpsins, nú 24. gr. eftir 2. umræðu, er kveðið á um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004. Nánar tiltekið er í frumvarpinu lögð til hækkun á jöfnunargjaldinu. Um þetta er nánar fjallað í áliti meiri hlutans (þskj. 691) og í greinargerð með frumvarpinu.
Nefndin fellst á framangreint sjónarmið og leggur til frekari breytingu á 24. gr. frumvarpsins þess efnis að við 3. gr. a laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku bætist ný málsgrein sem kveður á um að raforkunotkun vegna raforku til fjarvarmaveitna skuli undanþegin greiðslu jöfnunargjalds.
Þessu til stuðnings vill nefndin taka fram að fyrirhuguð hækkun á jöfnunargjaldinu hefur ekki eingöngu áhrif á raforkukostnað aðila á svæðum sem njóta þjónustu fjarvarmaveitna, rétt eins og hjá öllum landsmönnum, heldur hefur hún jafnframt áhrif á verð á heitu vatni þar sem raforka er notuð til hitunar. Breytingartillagan muni af þeirri ástæðu leiða til lægri orkukostnaðar fyrir sveitarfélög, atvinnulíf og íbúa á þessum köldu svæðum. Þá vill nefndin halda því til haga að kyntar veitur, sem breytingartillaga þessi snýr að, hafa verið hvattar til að taka í notkun dýrari forgangsorku til að minnka olíunotkun. Breytingartillagan mun þar af leiðandi hafa þau hagstæðu áhrif að draga með einhverju móti úr þeim aukakostnaði.
Jafnframt telur nefndin að breyting þessi muni hafa hvetjandi áhrif á jarðhitaleit á svæðum sem njóta ekki hitaveitu nú. Miðað við núgildandi forsendur vegna fjarvarmaveitna er áætlað að áhrif þessarar tillögu verði fyrst um sinn þau að tekjugrunnur muni minnka um 68 millj. kr. Taka þurfi þó mið af því að jarðvarmi á Ísafirði, varmadæla á Patreksfirði og fimmta varmadælan í Vestmannaeyjum getur leitt til þess að raforkunotkun minnki um allt að helming á næstu tveimur árum. Sökum þess kunna áhrif breytingartillögunnar að minnka og verða um 30–40 millj. kr. rýrnun á tekjugrunni sem er talið óverulegt eða 1–2% af heildarjöfnunargjaldstekjum.
Að lokum gerir nefndin nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu er varða gildistöku sem er ekki ætlað að hafa önnur efnisleg áhrif á frumvarpið.
Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
1. Við 24. gr.
a. Á eftir b-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Raforkunotkun vegna raforku til fjarvarmaveitna skal undanþegin greiðslu jöfnunargjalds.
b. C-liður orðist svo: Í stað 2. málsl. 4. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Gjalddagi er 1. júlí fyrir fyrstu sex mánuði þess almanaksárs og byggist gjaldið á rauntölum skv. 2. mgr. vegna fyrstu sex mánaða næstliðins árs. Gjalddagi er 1. desember fyrir seinni sex mánuði þess almanaksárs og byggist gjaldið á rauntölum skv. 2. mgr. vegna síðustu sex mánaða næstliðins árs.
2. Á eftir 24. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 3. gr. a skal gjalddagi fyrir fyrstu sjö mánuði ársins 2025 vera 1. ágúst 2025 og skal gjaldið byggjast á rauntölum skv. 2. mgr. vegna fyrstu sjö mánaða næstliðins árs. Gjalddagi fyrir fimm síðustu mánuði ársins 2025 skal vera 1. desember 2025 og skal gjaldið byggjast á rauntölum skv. 2. mgr. vegna fyrstu fimm mánaða næstliðins árs.
3. 27. gr. orðist svo:
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 22., 26. og 27. gr. gildi 1. maí 2025.
Ákvæði 24. og 25. gr. koma til framkvæmda 1. ágúst 2025.
Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álitið skv. heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
Alþingi, 8. júlí 2025.
Arna Lára Jónsdóttir, form., frsm. |
Ásthildur Lóa Þórsdóttir. | Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir. |
Pawel Bartoszek. | Sigmundur Ernir Rúnarsson. | Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir. |
Stefán Vagn Stefánsson. | Vilhjálmur Árnason. | Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. |