Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Prentað upp.
Þingskjal 688 — 256. mál.
Flutningsmenn.
2. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).
Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.
Minni hlutinn vill lýsa andstöðu við illa rökstuddar breytingar í þá átt að lækka þak styrkja í 22% rekstrarkostnaðar. Í því óheilbrigða styrkjaumhverfi sem nú ríkir væri illskásta skrefið á þessu stigi að halda óbreyttu ástandi áður en ráðist verður í heildarendurskoðun málaflokksins. Með þessu skrefi er ekki stutt við lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla, eins og er markmið styrkjanna, og tæplega verður fallist á sjónarmið um að koma þurfi til móts við landsbyggðarmiðla með þessum tiltekna hætti. Ef eitthvað er má skilja aðgerðina sem svo að sitjandi ríkisstjórn sé að senda gagnrýnum fjölmiðlum með þróttmikla starfsemi skilaboð um að óánægja ríki um störf þeirra af hálfu stjórnarinnar. Það að fyrirhuguð sé heildarendurskoðun á umhverfi fjölmiðla réttlætir ekki þetta illa ígrundaða skref. Fyrirmyndin er sögð sótt til Norðurlanda en þar eru handvalin sjónarmið og umhverfið í raun ekki samanburðarhæft. Lýst er harðri andstöðu við frumvarpið og hvatt til þess að fallið verði frá því.
Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
Í stað hlutfallstölunnar „22%“ í 1. mgr. f-liðar 2. gr. komi: 25%.
Alþingi, 10. júní 2025.
Snorri Másson, frsm. | Guðrún Hafsteinsdóttir. | Jón Pétur Zimsen. |
Ingibjörg Isaksen. |