Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 660  —  256. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti, Blaðamannafélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Sýn hf., Útgáfufélagi Austurlands ehf., ÖBÍ réttindasamtökum, Árvakri hf., Fjölmiðlatorginu ehf., Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands. Nefndinni bárust tíu erindi sem eru aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu er kveðið á um áframhaldandi stuðning við einkarekna frétta- og dagskrármiðla vegna kostnaðar sem fellur til við miðlun frétta og fréttatengds efnis og við umfjöllun um samfélagsleg málefni.

Umfjöllun nefndarinnar.
Stuðningur við einkarekna fjölmiðla.
    Í frumvarpinu er lagt til að tekinn verði aftur upp í lög um fjölmiðla, nr. 38/2011, X. kafli B þar sem fjallað er um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Ákvæði kaflans féllu úr gildi 1. janúar 2025 og er því ekkert stuðningskerfi í gildi samkvæmt núgildandi lögum. Vinna við endurskoðun kaflans stendur þó yfir. Gert er ráð fyrir því að nýtt frumvarp, þar sem lagt verður til að fest verði í sessi framtíðarfyrirkomulag stuðnings við einkarekna fjölmiðla, verði lagt fram á haustþingi árið 2025. Af þeim sökum er gildistími kaflans samkvæmt frumvarpi þessu takmarkaður við eitt ár.
    Meiri hlutinn telur brýnt að frumvarpið verði að lögum svo að fjölmiðlar geti hlotið stuðning fyrir árið 2025. Þau sjónarmið komu fram fyrir nefndinni að afkoma sumra fjölmiðla væri beinlínis háð því. Í greinargerð með frumvarpinu kemur einnig fram að margt bendi til þess að brottfall styrkjakerfis geti haft veruleg og neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi fjölmiðla, leitt til samdráttar og fækkunar á fjölmiðlamarkaði og þar með skaðað samkeppni og fjölbreytni. Til að koma í veg fyrir slíkar afleiðingar telur meiri hlutinn mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt á yfirstandandi vorþingi.
    Í þessu sambandi tekur meiri hlutinn undir það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu um mikilvægi fjölmiðla í lýðræðissamfélagi og þýðingu þess að hér starfi traustir, óháðir og stöðugir fjölmiðlar, sérstaklega á tímum mikillar upplýsingaóreiðu sem aukist hefur með auknum vinsældum samfélagsmiðla. Meiri hlutinn telur því áríðandi að styrkja fjölmiðla til þess að hér starfi fjölbreyttir og sjálfstæðir fjölmiðlar sem miðla ólíkum sjónarmiðum. Slíkur stuðningur er þýðingarmikill fyrir rekstur fjölmiðla, einkum minni fjölmiðla á landsbyggðinni, sem meiri hlutinn telur brýnt að viðhalda og efla.

Hámark rekstrarstuðnings.
    Ein breyting er gerð frá því sem kveðið var á um í lögum nr. 53/2023 en þar var hámark stuðnings til hvers umsækjanda 25% af fjárveitingu til verkefnisins. Í frumvarpinu er lagt til að það verði lækkað í 22%. Fyrir nefndinni kom fram óánægja með lækkunina þar sem hún myndi helst bitna á stærstu fjölmiðlafyrirtækjunum, Sýn og Árvakri. Meiri hlutinn bendir hins vegar á að breytingunni er ætlað að stuðla að jafnari dreifingu stuðnings milli umsækjenda. Meiri hlutinn tekur undir umrætt markmið breytingarinnar og áréttar að um sé að ræða viðleitni til að styrkja rekstur staðbundinna fjölmiðla á landsbyggðinni sem tryggir fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og kemur í veg fyrir að svokallaðar fréttaeyðimerkur myndist.
    Meiri hlutinn telur hins vegar ljóst að rekstrarumhverfi fjölmiðla verði æ flóknara og brothættara, m.a. vegna þeirra tækniframfara og þróunar sem hefur átt sér stað. Sérstakt vandamál í þessum efnum er breytt hegðun auglýsenda á íslenskum auglýsingamarkaði en þeir kjósa í auknum mæli að eiga í viðskiptum við erlend stórfyrirtæki í stað innlendra fjölmiðla. Þetta hefur augljós áhrif á rekstur fjölmiðla innan lands. Telur meiri hlutinn mikilvægt að ráðist verði í heildarendurskoðun á ákvæðum kaflans með það að leiðarljósi að tryggja viðeigandi stuðning við innlenda fjölmiðla til framtíðar svo að hér geti starfað fjölbreyttir og sterkir fjölmiðlar. Telur meiri hlutinn að margt í umsögnum um frumvarpið sem sendar voru geti gagnast við þá endurskoðun og hvetur menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti til að kynna sér þær við undirbúning nýs frumvarps.

Breytingartillaga.
    Meiri hlutinn leggur til eina breytingu sem er tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Inngangsmálsgrein 3. gr. orðist svo:
    2. mgr. 64. gr. laganna orðast svo.

    Ingibjörg Isaksen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. júní 2025.

Víðir Reynisson,
form.
Guðmundur Ari Sigurjónsson,
frsm.
Grímur Grímsson.
Heiða Ingimarsdóttir. Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir.