Ferill 254. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 531  —  254. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020 (námsstyrkir og endurgreiðslur).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti, Landssamtökum íslenskra stúdenta og Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Nefndinni bárust fimm umsagnir sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, að skilyrði lánþega til að hljóta námsstyrk verði rýmkuð, að vaxtaviðmiðum verði breytt og að heimild í lögunum til að greiða af einu láni í einu verði rýmkuð. Einnig eru lagðar til aðrar breytingar sem varða framkvæmd laganna.

Umfjöllun nefndarinnar.
Endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020.
    Lög um Menntasjóð námsmanna tóku gildi 1. júlí 2020. Þau fólu í sér grundvallarbreytingar á námslánakerfinu frá því sem áður var, einkum með samspili vaxta á námslán og niðurgreiðslu þeirra í formi námsstyrkja sem er ætlað að hvetja nemendur til að ljúka námi á tilskildum tíma. Í bráðabirgðaákvæði VIII í lögunum var kveðið á um endurskoðun að liðnum þremur árum frá gildistöku. Á 154. löggjafarþingi var lögð fram skýrsla um mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna (þskj. 765, 577. mál). Í skýrslunni kom fram að sífellt færri nemendur nýttu sér stuðning sjóðsins. Þá voru í henni ábendingar um að núverandi lánafyrirkomulag hentaði ekki stórum hópi námsmanna, einkum þeim sem lakast standa.
    Almennt voru umsagnaraðilar jákvæðir í garð fyrirliggjandi frumvarps og töldu að um mikilvægar breytingar væri að ræða. Þó komu fram sjónarmið um að ganga mætti enn lengra varðandi tiltekin atriði, svo sem með því að lengja upphaf endurgreiðslutíma námslána enn frekar, lækka vaxtaþak og hækka hlutfall niðurfellingar námslána í formi námsstyrkja til samræmis við það sem þekkist á Norðurlöndum. Þá hefur verið bent á að tilefni sé til að endurskoða undanþágu námslána frá áhrifum gjaldþrotaskipta skv. 26. gr. laganna. Fyrir nefndinni var jafnframt áréttuð nauðsyn þess að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna. Í því samhengi var bent á fleiri atriði í núgildandi lögum sem þarfnast endurskoðunar.
    Í ljósi þeirra ábendinga sem komið hafa fram frá gildistöku laga um Menntasjóð námsmanna telur meiri hlutinn mikilvægt að málið nái fram að ganga í því skyni að bæta kjör námsmanna og stuðla enn betur að því markmið laganna að tryggja jöfn tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Jafnframt tekur meiri hlutinn undir mikilvægi þess að unnið verði að frekari endurskoðun laganna á grundvelli ábendinga sem fram hafa komið frá helstu hagaðilum og fjallað er um í skýrslu um mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

Námsstyrkir og vaxtaviðmið námslána.
    Nefndin fjallaði um þá breytingu á styrkjakerfi námslána, sem lögð er til í frumvarpinu, að í stað 30% niðurfellingar höfuðstóls námslána í lok náms gætu lánþegar sem uppfylla kröfur um námsframvindu hlotið 20% niðurfellingu við lok hverrar námsannar og 10% niðurfellingu við námslok ef þeir ljúka námi innan tilskilinna tímamarka. Þá var rætt um þá breytingu á vaxtaviðmiðum námslána, sem einnig er lögð til í frumvarpinu, að byggt yrði á þriggja ára meðaltali vaxta í stað eins mánaðar meðaltals. Með þessu fyrirkomulagi myndu áhrif stýrivaxtaákvarðana Seðlabanka Íslands á vaxtabyrði námslána minnka frá því sem verið hefur.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að bregðast við óhagstæðum vaxtakjörum sem hafa leitt til þess að greiðslubyrði námslána hefur þyngst verulega. Sífellt færri nemendur hafa nýtt sér stuðning sjóðsins og hlutfall þeirra sem hafa hlotið námsstyrk hefur verið mun lægra en gert var ráð fyrir þegar lögin tóku gildi. Af þessum sökum telur meiri hlutinn að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu mikilvægar. Má þar nefna breytingu varðandi vaxtaviðmið námslána, sem eykur fyrirsjáanleika við afborgun námslána, og breytingu sem hefur í för með sér að rýmkuð verði heimild lánþega, sem hafa þurft að greiða af fleiri en einni lánategund, til að endurgreiða fyrst lán samkvæmt núgildandi lögum . Þá telur meiri hlutinn að með samþykkt frumvarpsins verði stigið mikilvægt skref í átt að því að rýmka skilyrði lánþega til að hljóta námsstyrk. Það ætti að leiða til þess að fleiri lánþegar uppfylli skilyrði.

Heimild til að skilmálabreyta lánum.
    Með frumvarpinu er lögð til tímabundin heimild í ákvæði til bráðabirgða sem veitir lánþegum sem tekið hafa H-lán heimild til að láta skilmálabreyta þeim lánum til samræmis við vaxtaviðmið skv. 4. og 5. gr. frumvarpsins. Heimildin gildir tímabundið frá og með gildistöku laganna til 1. apríl 2027. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að heimildin sé ekki afturvirk og falli úr gildi 1. janúar 2027. Meiri hlutinn vekur athygli á því að sú dagsetning sem fram kemur í greinargerð er röng. Misfarist hefur að uppfæra dagsetninguna til samræmis við ákvæði til bráðabirgða skv. 8. gr. frumvarpsins, þ.e. að heimildin mun gilda til 1. apríl 2027.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 20. maí 2025.

Víðir Reynisson,
form.
Guðmundur Ari Sigurjónsson,
frsm.
Grímur Grímsson.
Ingvar Þóroddsson. Kolbrúnu Áslaugar Baldursdóttur.