Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 283  —  252. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um starfstengda eftirlaunasjóði.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um starfstengda eftirlaunasjóði.
    Lög þessi gilda ekki um:
     1.      Lífeyrissjóði sem falla undir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 987/2009 frá 16. september 2009 sem kveður á um framkvæmd reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, og sem innleiddar voru með reglugerðum nr. 442/2012 og nr. 443/2012, um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um almannatryggingar.
     2.      Sjóði sem falla undir lög um verðbréfasjóði, lög um vátryggingastarfsemi, lög um fjármálafyrirtæki, lög um markaði fyrir fjármálagerninga og lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
     3.      Sjóði sem reknir eru með gegnumstreymiskerfi.
     4.      Sjóði þar sem sjóðfélagar hafa ekki lögvarinn rétt til lífeyris og iðgjaldagreiðendur geta krafist greiðslna sinna aftur án þess að skyldum til greiðslu lífeyris sé fullnægt.

2. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Aðildarfyrirtæki: Fyrirtæki eða annar aðili sem starfar sem vinnuveitandi eða er sjálfstætt starfandi og greiðir framlög til starfstengds eftirlaunasjóðs.
     2.      Eftirlaunaréttindi: Réttindi sem eru greidd þegar eftirlaunaaldri er náð eða þegar þess er vænst að honum verði náð eða þegar þau eru greidd sem viðbótarframlag, í formi greiðslna við andlát, örorku eða starfslok, eða í formi stuðningsgreiðslna eða þjónustu vegna sjúkdóms, fátæktar eða andláts.
     3.      Eftirlaunaþegi: Einstaklingur sem fær greidd starfstengd eftirlaun.
     4.      Gistiríki: Aðildarríki þar sem félagsmála- og vinnulöggjöf sem tengist starfstengdum réttindakerfum á við um tengslin milli aðildarfyrirtækisins og sjóðfélaga eða lífeyrisþega.
     5.      Heimaríki: Aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins þar sem starfstengdur eftirlaunasjóður hefur verið skráður eða verið veitt starfsleyfi og þar sem höfuðstöðvar hans eru.
     6.      Líffræðileg áhætta: Áhætta tengd andláti, örorku og langlífi sjóðfélaga.
     7.      Lykilstarfssvið: Geta eða heimild innan starfstengds eftirlaunasjóðs til að sinna viðfangsefnum, svo sem áhættustjórnun, innri endurskoðun og tryggingafræðilegri athugun.
     8.      Samningur um eftirlaunaréttindi: Samningur, samkomulag eða reglur sem fela í sér hvaða eftirlaunaréttindi eru tryggð og hvaða skilyrði þarf að uppfylla.
     9.      Sjóðfélagi: Einstaklingur sem á rétt á eða mun eiga rétt á starfstengdum eftirlaunaréttindum í samræmi við ákvæði samnings um eftirlaunaréttindi.
     10.      Starfstengdur eftirlaunasjóður: Lögaðili sem starfar á grundvelli sjóðsöfnunar, aðskilinn frá þeim aðila sem greiðir iðgjöldin, í þeim tilgangi að tryggja eftirlaunarétt í samræmi við samninga þar um.
     11.      Starfsemi yfir landamæri: Rekstur starfstengds eftirlaunasjóðs þar sem samband milli aðildarfyrirtækis, sjóðfélaga og eftirlaunaþega ræðst af félagsmála- og vinnulöggjöf sem á við um starfstengda eftirlaunasjóði aðildarríkis annars en heimaríkis.
     12.      Viðtökusjóður: Starfstengdur eftirlaunasjóður sem tekur við öllum réttindum og skuldbindingum samkvæmt samningi um eftirlaunaréttindi eða hluta þeirra frá starfstengdum eftirlaunasjóði í öðru aðildarríki.

3. gr.

Aðild.

    Aðild að starfstengdum eftirlaunasjóði skal byggjast á samningi um eftirlaunaréttindi á milli starfsmanna og vinnuveitanda þeirra. Þá er sjálfstætt starfandi aðilum heimilt að semja um aðild að starfstengdum eftirlaunasjóði.

4. gr.

Skilyrði fyrir starfsemi og skráningu.

    Ráðuneytið veitir starfstengdum eftirlaunasjóði starfsleyfi að uppfylltum sömu skilyrðum og koma fram í V. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
    Ákvæði IV., VI. og VII. kafla A sem og VIII.–X. kafla laga nr. 129/1997 gilda um starfsemi starfstengds eftirlaunasjóðs nema annað komi fram í lögum þessum.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður með höfuðstöðvar hér á landi skal vera skráður hjá Fjármálaeftirlitinu og háður eftirliti þess. Þegar um er að ræða starfsemi sem nær yfir landamæri skv. 6. gr. skal tilgreina í skránni í hvaða aðildarríki starfstengdur eftirlaunasjóður starfar. Fjármálaeftirlitið skal senda skráningarupplýsingar til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal takmarka starfsemi sína við starfstengd eftirlaun. Starfsemi starfstengds eftirlaunasjóðs skal vera fjárhagslega og lagalega aðskilin frá starfsemi aðildarfyrirtækis.

5. gr.

Rekstrarkröfur.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal setja sér viðhlítandi samþykktir um rekstur og starfsemi sjóðsins, sbr. 1. mgr. 4. gr. Þá skal sjóðurinn tryggja að aðildarfyrirtæki hans ábyrgist greiðslu eftirlauna þegar það hefur skuldbundið sig til greiðslu reglulegra iðgjalda.

II. KAFLI

Flutningur yfir landamæri.

6. gr.

Starfsemi yfir landamæri.

    Starfstengdum eftirlaunasjóði með starfsleyfi hér á landi er heimilt að stunda starfsemi yfir landamæri.
    Starfstengdum eftirlaunasjóði ber að tilkynna Fjármálaeftirlitinu hyggist hann veita viðtöku iðgjaldi vegna starfsmanns sem starfar í öðru ríki ásamt upplýsingum um frá hvaða ríki greiðsla kemur, nafn greiðanda og helstu einkenni viðkomandi samnings.
    Fjármálaeftirlitið skal taka afstöðu til tilkynningar sjóðs um starfsemi yfir landamæri eigi síðar en þremur mánuðum frá því að fullbúið erindi berst eftirlitinu. Geri Fjármálaeftirlitið ekki athugasemdir við fyrirhugaða starfsemi sjóðsins skal eftirlitið senda upplýsingar þess efnis til eftirlitsaðila í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og tilkynna viðkomandi eftirlaunasjóði þar um. Að því loknu er eftirlaunasjóðnum heimilt að veita iðgjaldi viðtöku vegna starfsmanns sem starfar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við lög og reglur þess ríkis.
    Fjármálaeftirlitið skal eigi síðar en sex vikum eftir að tilkynning skv. 2. mgr. berst óska eftir upplýsingum frá viðkomandi eftirlitsaðila í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins um hvaða kröfur í löggjöf eiga við um starfsemi hans í gistiríki sem og hvaða upplýsingakröfur gistiríkið gerir til hans. Verði breytingar á regluverki um starfstengd réttindakerfi í gistiríki sem tekur til starfsemi sem nær yfir landamæri skal gistiríki upplýsa Fjármálaeftirlitið um breytingarnar. Hið sama gildir verði breytingar á upplýsingakröfum gistiríkis skv. 3 mgr. Fjármálaeftirlitið skal upplýsa sjóðinn um áorðnar breytingar. Starfstengdum eftirlaunasjóði er heimilt að hefja starfsemi yfir landamæri þegar stofnuninni hefur borist þess háttar tilkynning frá Fjármálaeftirlitinu eða þegar frestur skv. 1. málsl. er liðinn.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður með starfsemi sem nær yfir landamæri skal vera undir eftirliti þar til bærs aðila í gistiríki. Við brot á reglum í starfsemi sjóðsins skal eftirlitsaðili í gistiríki tafarlaust tilkynna slíka háttsemi til Fjármálaeftirlitsins. Komi slík háttsemi fram skal Fjármálaeftirlitið og gistiríki sjóðsins gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að sjóðurinn láti af brotum á reglum sem um hann gilda. Láti sjóðurinn ekki af háttsemi sinni er eftirlitsaðila í gistiríki heimilt, að undangenginni tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins, að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari brot á reglum um starfsemi sjóðsins.

7. gr.

Flutningur yfir landamæri.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður getur flutt eignir og skuldbindingar sínar að hluta eða öllu leyti til starfstengds eftirlaunasjóðs sem hefur starfsleyfi í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins.
    Flutningur eigna og skuldbindinga er háður fyrirframsamþykki meiri hluta sjóðfélaga og eftirlaunaþega og aðildarfyrirtækis sjóðs. Þá er flutningur háður samþykki Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsaðila í heimaríki viðtökusjóðs. Kostnaður við flutning skal ekki falla á sjóðfélaga og eftirlaunaþega sjóðsins.
    Sjóður skal senda Fjármálaeftirlitinu beiðni um fyrirhugaðan flutning ásamt skriflegu samkomulagi milli sjóðanna auk þeirra gagna sem eftirlitið metur nauðsynleg. Fjármálaeftirlitið kannar beiðnina með hliðsjón af hag beggja sjóða og hvort ástæða sé til að ætla að yfirfærsla geti skaðað sjóðfélaga og eftirlaunaþega og aðra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta. Yfirfærsla eigna og skuldbindinga er aðeins heimil ef eftirlitsstjórnvald í heimaríki viðtökusjóðs staðfestir að tilskildum kröfum um gjaldþol sé fullnægt að yfirtöku lokinni.
    Fjármálaeftirlitið skal leita eftir samþykki eftirlitsstjórnvalds viðtökusjóðs sem hefur þrjá mánuði til að gefa álit sitt. Komi ekki svar frá viðkomandi eftirlitsstjórnvaldi skal litið svo á að það sé samþykkt flutningnum.
    Telji Fjármálaeftirlitið að synja beri um leyfi til flutnings skal sjóðunum tilkynnt um það án tafar. Að öðrum kosti skal Fjármálaeftirlitið birta opinberlega tilkynningu vegna beiðni um flutning og óska eftir skriflegum athugasemdum sjóðfélaga, eftirlaunaþega og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta innan tiltekins frests sem eigi skal vera skemmri en einn mánuður.
    Fjármálaeftirlitið veitir leyfi til flutnings að liðnum fresti skv. 4. mgr. telji það, að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafa komið, að orðið skuli við flutningsbeiðninni.
    Réttindi og skyldur sjóðfélaga, eftirlaunaþega og annarra sem hafa hagsmuna að gæta halda gildi sínu við flutning.
    Þegar starfstengdur eftirlaunasjóður með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki, sem hefur stofnsett útibú eða veitir þjónustu hér á landi, hyggst yfirfæra iðgjaldastofn sinn til annars félags, sem hefur starfsleyfi í aðildarríki, skal Fjármálaeftirlitið birta opinberlega tilkynningu vegna yfirfærslubeiðninnar skv. 3. mgr. ef ábyrgð skuldbindinga er hér á landi.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður með höfuðstöðvar hér á landi getur móttekið iðgjaldastofn annars starfstengds eftirlaunasjóðs. Slík yfirfærsla er einungis heimil ef Fjármálaeftirlitið staðfestir að tilskildum kröfum um gjaldþol sé fullnægt að lokinni yfirtöku stofnsins. Ef Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning frá eftirlitsstjórnvaldi í öðru aðildarríki um yfirfærslu iðgjaldastofns til starfstengds eftirlaunasjóðs með höfuðstöðvar hér á landi skal það veita eftirlitsstjórnvaldinu álit sitt innan þriggja mánaða frá því að beiðni um yfirfærslu barst. Viðtökusjóður skal senda Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar vegna yfirfærslunnar að mati Fjármálaeftirlitsins.

III. KAFLI

Fjárhagsgrundvöllur starfstengds eftirlaunasjóðs.

8. gr.

Eftirlit og tryggingafræðileg athugun.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður með starfsleyfi hér á landi skal hafa yfir að ráða nægum og viðeigandi eignum til að standa undir skuldbindingum sínum að því er varðar öll réttindakerfi sem hann starfrækir. Hið sama gildir um starfstengdan eftirlaunasjóð með starfsemi yfir landamæri.
    Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirlit með að eignir starfstengds eftirlitssjóðs dugi fyrir skuldbindingum hans.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að tilteknir þættir í starfsemi starfstengds eftirlaunasjóðs verði takmarkaðir eða stöðvaðir tímabundið í því skyni að koma í veg fyrir háttsemi sem er talin andstæð ákvæðum laga þessara en einkum ef:
     a.      sjóðurinn verndar hagsmuni sjóðfélaga ekki á fullnægjandi hátt,
     b.      sjóðurinn uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfi,
     c.      sjóðurinn vanrækir alvarlega að rækja skyldur samkvæmt þeim reglum sem gilda um starfsemi hans,
     d.      um starfsemi í öðru landi er að ræða og sjóðurinn virðir ekki kröfur vinnu- og félagsmálalöggjafar gistiríkis sem tengist starfstengdum eftirlaunaréttindum.
    Ákvörðun um að takmarka eða stöðva tiltekna þætti í starfsemi starfstengds eftirlaunasjóðs skal ítarlega rökstudd og tilkynnt sjóðnum.
    Ef sjóður reynist ekki gjaldhæfur að mati Fjármálaeftirlitsins eða að hann uppfyllir ekki skilyrði um varasjóð skv. 9. gr. er ráðherra heimilt að skipa lífeyrissjóði umsjónaraðila um tiltekinn tíma að fengnum tillögum frá Fjármálaeftirlitinu skv. X. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
    Tryggingafræðileg athugun á fjárhag starfstengds eftirlitssjóðs skal fara fram ár hvert. Athugunin skal framkvæmd af tryggingastærðfræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hefur viðurkenningu eftirlitsins til slíks starfs og framkvæmd til samræmis við ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

9. gr.

Varasjóður.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal mynda varasjóð umfram skuldbindingar til að standa undir sveiflum vegna réttindakerfa þar sem sjóðurinn sjálfur en ekki aðildarfyrirtæki ber líffræðilega áhættu eða þar sem gefið er loforð um ákveðna ávöxtun eða ákveðin réttindi. Varasjóðurinn skal endurspegla eignir og áhættugerð allra lífeyriskerfa sem sjóðurinn starfrækir og vera varanlegur. Eignir í varasjóði skulu ekki vera háðar fyrirsjáanlegum skuldbindingum heldur vera varafjármagn vegna mismunar milli áætlaðra og raunverulegra gjalda og hagnaðar.

10. gr.

Gjaldþolskrafa og lágmarksfjármagn.

    Starfstendur eftirlaunasjóðir skal uppfylla skilyrði um gjaldþol.
    Eftirtaldar eignir mynda grunn til útreiknings á gjaldþoli starfstengds lífeyrissjóðs við mat á eiginfjárgrunni sjóðs:
     1.      Innborgað hlutafé að frádregnum eigin hlutabréfum sjóðs.
     2.      Stofnfé að viðbættum framlögum eigenda gagnkvæms félags ef þau uppfylla það skilyrði að í stofnsamningi eða samþykktum sé kveðið á um að ekki sé heimilt að greiða eigendum framlögin ef það hefði í för með sér að gjaldþol færi niður fyrir tilskilið lágmark. Skilyrði er að við félagsslit skuli fyrst gera upp allar aðrar skuldir félagsins. Enn fremur skal í stofnsamningi eða samþykktum kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu skuli tilkynnt um greiðslur slíkra skulda, nema þær tengist lokum aðildar einstakra félagsmanna að félaginu, með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara og að það geti lagt bann við útborgun innan þess frests. Umrædd ákvæði og breytingar á þeim öðlast ekki gildi nema með samþykki Fjármálaeftirlitsins.
     3.      Varasjóðir sem ekki eru til að mæta skuldbindingum starfstengds eftirlaunasjóðs.
     4.      Óráðstafaður hagnaður að frádregnu ójöfnuðu tapi og ráðgerðum arðgreiðslum.
     5.      Ágóðasjóðir ef þeir koma fram í efnahagsreikningi og nota má til að mæta tapi hafi ekki verið tekin ákvörðun um að úthluta úr þeim til sjóðfélaga og eftirlaunaþega.
    Lágmarksfjármagn starfstengds eftirlaunasjóðs skal vera í samræmi við skuldbindingar sem sjóðurinn hefur undirgengist.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

11. gr.

Fjárfestingarreglur.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar, áhættu og skynsemisreglu og til samræmis við VII. kafla A. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Í því skyni skulu fjárfestingar sjóðs m.a. vera í samræmi við eftirfarandi reglur:
     1.      Við fjárfestingar í eignum skal hafa langtímahagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi. Ef um er að ræða hugsanlegan hagsmunaárekstur skal sjóðurinn eða einingin sem stýrir safni hans sjá til þess að fjárfestingin sé eingöngu í þágu sjóðfélaga.
     2.      Við ákvörðun um fjárfestingu er sjóði heimilt að taka tillit til hugsanlegra langtímaáhrifa hennar á umhverfisþætti og félagslega þætti auk stjórnarhátta.
     3.      Fjárfest skal í eignum þannig að öryggi, gæði, lausafjárstaða og arðsemi safnsins í heild sé tryggt.
     4.      Fjárfesting í aðildarfyrirtæki skal ekki vera meiri en 5% eignasafnsins í heild og þegar aðildarfyrirtæki er hluti af samstæðu skal fjárfesting í fyrirtækjum í sömu samstæðu og aðildarfyrirtæki tilheyrir ekki vera yfir 10% eignasafnsins. Magntakmarkanir skv. 1. málsl. eiga ekki við um fjárfestingar í eignum skv. a-lið 1. og a-lið 2. tölul. 2. mgr. 36. gr. a laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

IV. KAFLI

Skilyrði um starfsemi starfstengdra eftirlaunasjóða.

12. gr.

Ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra.

    Stjórn starfstengds eftirlaunasjóðs ber ábyrgð á því að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög þessi, stjórnvaldsfyrirmæli sett samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins. Stjórn starfstengds lífeyrissjóðs skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins. Stjórnin setur sér starfsreglur og gerir tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins á ársfundi.
    Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem sjóðstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá sjóðstjórn.

13. gr.

Almennar kröfur til stjórnkerfis.

    Starfstengdur lífeyrissjóður skal hafa til staðar skilvirkt stjórnkerfi sem tryggir að honum sé stjórnað á traustan og varfærinn hátt. Stjórnkerfið skal vera í samræmi við eðli, umfang og margbreytileika starfseminnar.
    Stjórnkerfið skal að lágmarki fela í sér gagnsætt og viðeigandi stjórnskipulag með skýrri dreifingu og aðgreiningu ábyrgðar, ásamt skilvirkri miðlun upplýsinga.
    Stjórnkerfið skal taka tillit til umhverfisþátta og félagslegra þátta auk stjórnarhátta við ákvarðanatöku um fjárfestingar.
    Stjórn starfstengds eftirlaunasjóðs skal setja skriflega stefnu um áhættustýringu, innri endurskoðun og, ef við á, tryggingafræðilega þætti og útvistaða starfsemi. Stjórn skal tryggja innleiðingu framangreindra stefna. Þær skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti með hliðsjón af öllum verulegum breytingum á stjórnkerfi og því sviði sem stefnurnar fjalla um.
    Stjórn skal tryggja að starfstengdur eftirlaunasjóður sé með skilvirkt innra eftirlit.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal gera ráðstafanir, þ.m.t. viðbragðsáætlun, til að tryggja samfellu og reglufestu í starfseminni.
    Stjórn skal tryggja að starfstengdur eftirlaunasjóður geri ráðstafanir til að tryggja samfellu og reglufestu í starfsemi sinni, þ.m.t. með þróun viðbragðsáætlunar.
    Fjármálaeftirlitið leggur mat á stjórnkerfi starfstengds eftirlaunasjóðs og yfirvofandi áhættu sem sjóður telur að geti haft áhrif á fjárhagslega stöðu hans. Telji Fjármálaeftirlitið stjórnkerfi starfstengds eftirlaunasjóðs óviðunandi samkvæmt kröfum þessa kafla skal það krefja viðkomandi sjóð um úrbætur.

14. gr.

Kröfur um hæfi og hæfni.

    Starfstengdur lífeyrissjóður skal tryggja að stjórnarmenn þess, framkvæmdastjóri, lykilstarfsmenn og útvistunaraðilar hafi gott orðspor ásamt þekkingu, hæfni og reynslu til að geta sinnt starfinu á tilhlýðilegan hátt.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og breytingar á stjórn, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmönnum og útvistunaraðila sjóðs. Fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi stjórna rmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna starfstengds eftirlaunasjóðs til skoðunar.
    Stjórnarmenn starfstengds eftirlaunasjóðs og framkvæmdastjóri skulu vera fjárhagslega sjálfstæðir, lögráða og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinber gjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera búsettir hér á landi, í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
    Stjórnarmenn í starfstengdum eftirlaunasjóði mega ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Stjórnarmenn starfstengds eftirlaunasjóðs mega ekki sinna lögmannsstörfum fyrir annan starfstengdan eftirlaunasjóð. Starfsmönnum starfstengds eftirlaunasjóðs er ekki heimilt að sitja í stjórn hans.
    Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess.
    Seðlabanki Íslands setur nánari reglur um hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, þar á meðal um hvað felst í fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu, góðu orðspori og fjárhagslegu sjálfstæði, og um hvernig staðið skuli að hæfismati.
    Um hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra starfstengds eftirlaunasjóðs til meðferðar máls fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

15. gr.

Starfskjarastefna.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal setja sér starfskjarastefnu sem skal a.m.k. ná til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og starfsmanna sem fara með lykilstarfssvið eða hafa veruleg áhrif á áhættusnið hans. Starfskjarastefna sjóðs skal taka mið af stærð, eðli og umfangi starfsemi hans.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal birta opinberlega og reglubundið upplýsingar um starfskjarastefnu sína nema annað leiði af lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Þegar starfstengdur eftirlaunasjóður hefur sett sér starfskjarastefnu gilda eftirfarandi reglur:
     1.      Stefnunni skal viðhaldið í samræmi við starfsemi, áhættusnið og markmið sjóðsins og langtímahagsmuni, langtímastöðugleika og langtímaframmistöðu sjóðsins í heild. Stefnan skal styðja við trausta, varfærna og árangursríka stjórnun hans.
     2.      Stefnan skal vera í samræmi við langtímahagsmuni sjóðfélaga.
     3.      Stefnan skal fela í sér ráðstafanir sem miða að því að komast hjá hagsmunaárekstrum.
     4.      Stefnan skal vera í samræmi við trausta og skilvirka áhættustýringu og ekki hvetja til áhættusækni sem samræmist ekki áhættusniði eða reglum sjóðsins.
     5.      Stefnan skal gilda um útvistunaraðila að undanskildum þeim aðilum sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 1. gr.
     6.      Stefnan skal endurskoðuð og uppfærð af stjórn sjóðs á a.m.k. þriggja ára fresti.
     7.      Stjórnarhættir við ákvörðun starfskjara og eftirlit með þeim skulu vera skýrir, gagnsæir og skilvirkir.

16. gr.

Lykilstarfssvið.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal innan starfsemi sinnar hafa áhættustýringu, innri endurskoðun og, þegar við á, tryggingafræðilega athugun sem lykilstarfssvið. Aðili sem ber ábyrgð á lykilstarfssviði skal geta sinnt skyldum sínum á árangursríkan, hlutlausan, sanngjarnan og óháðan hátt.
    Aðila sem ber ábyrgð á lykilsstarfsviði hjá starfstengdum eftirlaunasjóði er óheimilt að bera ábyrgð á sambærilegu lykilstarfssviði hjá aðildarfyrirtæki nema sjóður geti sýnt fram á viðeigandi ráðstafanir í tengslum við hagsmunaárekstra.
    Aðili sem ber ábyrgð á lykilstarfsemi sjóðs skal tilkynna stjórn og framkvæmdastjóra um hvers konar mikilvægar niðurstöður á ábyrgðarsviði hans og tilmæli um aðgerðir, sem stjórn og framkvæmdastjóri taka ákvörðun um.
    Aðili sem ber ábyrgð á lykilstarfsemi sjóðs skal, með fyrirvara um réttinn til að fella ekki á sig sök, upplýsa Fjármálaeftirlitið ef stjórn starfstengds eftirlaunasjóðs og framkvæmdastjóri grípa ekki til viðeigandi og tímanlegra ráðstafana til úrbóta, svo sem ef hætta er á að ekki verði farið að lögbundinni kröfu sem getur haft áhrif á hagsmuni sjóðfélaga eða ef ekki hefur verið farið að lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

17. gr.

Áhættustýring .

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína. Hjá sjóði skulu vera til staðar fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar sem gera honum kleift að greina, meta, vakta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal tilnefna starfsmann hjá sjóðnum til að bera ábyrgð á greiningu, mælingu og skýrslugjöf um áhættu og skal tilnefningin tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Áhættustýring sjóðs skal vera óháð öðrum starfseiningum hans. Sé ekki unnt að tryggja aðskilnað starfa, sökum smæðar sjóðs, skal sjóðurinn sjá til þess að innra eftirlit sé nægjanlegt til að lágmarka líkur á hagsmunaárekstrum. Sjóðurinn skal tryggja að áhættustýring hafi nægilegt fjármagn og heimildir, m.a. til þess að afla gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru í starfsemi áhættustýringar.
    Áhættustýring skal vera skilvirk og vel samþætt skipulagi og ákvarðanatöku starfstengds eftirlaunasjóðs og höfð að leiðarljósi í starfi stjórnar, framkvæmdastjóra og þeirra sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum sjóðsins. Gera skal áhættustýringu sjóðs viðvart um öll meiri háttar eða óvenjuleg viðskipti starfstengds eftirlaunasjóðs áður en þau fara fram.
    Áhættustýring skal a.m.k. taka til áhættu varðandi eftirfarandi þætti, eftir því sem við á:
     a.      sölu trygginga og meðhöndlun varasjóða,
     b.      eigna- og skuldastýringu,
     c.      fjárfestingar, sérstaklega vegna afleiðna og verðbréfunar og hliðstæðra skuldbindinga,
     d.      stýringu lausafjár og samþjöppunaráhættu,
     e.      stýringu rekstraráhættu,
     f.      vátryggingar og aðrar áhættuvarnir,
     g.      umhverfisþætti og félagslega þætti auk stjórnarhátta sem tengjast eignasafni sjóðsins og stýringu þess.
    Þegar sjóðfélagar og eftirlaunaþegar bera áhættu í samræmi við samning um eftirlaunaréttindi skal áhættustýring meta þá áhættu sem þeir kunna að verða fyrir.

18. gr.

Innri endurskoðun.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal hafa virka innri endurskoðun sem felur í sér mat á skilvirkni og gæðum innra eftirlitskerfis og annarra þátta stjórnkerfisins, þ.m.t. útvistaðri starfsemi. Innri endurskoðun skal vera óháð öðrum lykilstarfssviðum sjóðs.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um verkefni innri endurskoðunar.

19. gr.

Tryggingafræðileg starfsemi.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður sem veitir tryggingu gagnvart áhættu sem tengist ævilíkum einstaklinga og ábyrgist ávöxtun eða tiltekin réttindi fyrir lífeyrisþega skal hafa skilvirka tryggingafræðilega starfsemi til að:
     a.      samræma og hafa umsjón með útreikningi skuldbindinga sjóðs,
     b.      leggja mat á viðeigandi forsendur, aðgerðir og undirliggjandi líkön við útreikning skuldbindinga,
     c.      meta gæði gagna sem notuð eru við útreikning á skuldbindingum og hvort þau séu fullnægjandi,
     d.      bera saman forsendur sem liggja að baki skuldbindingum á grundvelli fenginnar reynslu,
     e.      upplýsa stjórn um útreikninga skuldbindinga,
     f.      gefa álit á heildarstefnu hvað lífeyristryggingar varðar,
     g.      gefa álit á endurtryggingavernd sjóðsins,
     h.      stuðla að skilvirkri framkvæmd áhættustýringarkerfis sjóðs.
    Tryggingafræðileg athugun sjóðs skal framkvæmd af tryggingastærðfræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins til slíks starfs.

20. gr.

Eigið áhættumat.

    Hluti af áhættustýringu starfstengds eftirlaunasjóðs skal vera að gera eigið áhættumat. Sjóður skal gera eigið áhættumat að lágmarki á þriggja ára fresti og án tafar þegar mikil breyting verður á áhættusniði eða starfsemi hans.
    Áhættumat skal m.a. fela í sér eftirfarandi atriði:
     a.      útlistun á því hvernig eigið áhættumat er fellt inn í stjórnunarferli og ákvarðanatökuferli sjóðs,
     b.      mat á því hversu árangursríkt áhættustýringarkerfið er,
     c.      útlistun á því hvernig sjóður kemur í veg fyrir hagsmunaárekstra gagnvart aðildarfyrirtæki ef lykilstarfssviðum hans er útvistað til aðildarfyrirtækis,
     d.      mat á heildarfjármögnunarþörf sjóðs, m.a. lýsingu á endurreisnaráætlun þegar við á,
     e.      mat á áhættu fyrir sjóðfélaga og eftirlaunaþega sem tengist útgreiðslu eftirlauna og árangri aðgerða til úrbóta, að teknu tilliti til, eftir því sem við á, verðtryggingar og við hvaða aðstæður lífeyrisréttindi kunna að skerðast, þar á meðal áunnin réttindi,
     f.      eigindlegt mat á þeim kerfum sem tryggja eftirlaun, m.a., eftir því sem við á, ábyrgðum, samningum eða hvers konar öðrum fjárhagslegum stuðningi frá aðildarfyrirtækinu, vátryggingum eða endurtryggingum eða tryggingu sjóðsins sjálfs,
     g.      eigindlegt mat á rekstraráhættu,
     h.      mat á nýrri eða aðsteðjandi áhættu, þ.m.t. ef hugað er að umhverfis- og félagslegum þáttum sem og stjórnarháttum þegar ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar, áhættu sem tengist loftslagsbreytingum, notkun auðlinda og afskriftum eigna vegna reglubreytinga.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal í eigin áhættumati lýsa þeim aðferðum sem hann hefur sett sér til að greina og meta áhættu sem hann kann að standa frammi fyrir og sem getur haft áhrif á getu hans til að standa við skuldbindingar sínar.
    Stefnumarkandi ákvarðanir starfstengds eftirlaunasjóðs skulu taka mið af áhættumati samkvæmt þessari grein.

21. gr.

Fjárfestingarstefna.

    Stjórn starfstengds eftirlaunasjóðs skal móta og kunngera skriflega yfirlýsingu um fjárfestingarstefnu sjóðs og einstaka deildir hans til samræmis við VII. kafla A laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
    Í lýsingu á fjárfestingarstefnu skulu a.m.k. koma fram upplýsingar um framkvæmd mælinga á fjárfestingaráhættu, framkvæmd við áhættustýringu, fyrirkomulag fjárfestinga að teknu tilliti til skuldbindinga sjóðs auk upplýsinga um hvernig tekið hafi verið tillit til umhverfisþátta og félagslegra þátta auk stjórnarhátta í fjárfestingarstefnu.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína fyrir komandi ár til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 1. desember ár hvert.

22. gr.

Útvistun.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður sem útvistar lykilstarfssviði eða annarri starfsemi sinni ber ábyrgð á því að farið sé að lögum þessum.
    Útvistun skal ekki leiða til:
     a.      skerðingar á gæðum stjórnkerfis sjóðsins,
     b.      óhóflegrar aukningar á rekstraráhættu sjóðsins,
     c.      takmörkunar á möguleikum Fjármálaeftirlitsins til að sinna eftirliti með því hvort sjóðurinn uppfylli skyldur sínar,
     d.      skerðingar á samfelldri og fullnægjandi þjónustu við sjóðfélaga og eftirlaunaþega.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal tryggja að hin útvistaða starfsemi gangi eðlilega fyrir sig. Til að tryggja val sjóðs á þjónustuveitanda skal valferlið vera opið og gegnsætt. Starfstengdur eftirlaunasjóður skal hafa viðvarandi eftirliti með starfsemi þjónustuveitandans.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður sem útvistar lykilstarfssviðum, stjórnun sjóðsins eða annarri starfsemi sem lög þessi taka til skal gera skriflegan samning við þjónustuveitandann. Slíkur samningur skal hafa lagalegt gildi og í honum skulu réttindi og skyldur sjóðsins og þjónustuveitandans vera skýrt skilgreindar.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal upplýsa Fjármálaeftirlitið tímanlega um útvistun á starfsemi sem lög þessi taka til. Sjóðurinn skal upplýsa Fjármálaeftirlitið um fyrirhugaða útvistun lykilsstarfssviða og stjórnun sjóðsins áður en hún tekur gildi. Fjármálaeftirlitinu skal tilkynnt um allar mikilvægar breytingar á útvistun.

23. gr.

Eignastýring.

    Starfstengdum eftirlaunasjóði er heimilt að fela stýringu eignasafns sjóðs til bærs aðila sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki og sem hefur starfsleyfi til slíkrar starfsemi samkvæmt tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS), 2009/138/EB um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga, 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, 2013/36/ESB um aðgang að starfsemi lánastofnana og varfærnieftirlit með lánastofnunum og verðbréfafyrirtækjum (CRD IV), eða 2014/65/ESB um markaði fyrri fjármálagerninga (MiFID II), eða starfstengdum eftirlaunasjóðum með starfsleyfi samkvæmt lögum viðkomandi aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins.

24. gr.

Skipun vörsluaðila.

    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að starfstengdur eftirlaunasjóður skipi einn eða fleiri vörsluaðila til að gæta eigna og gegna umsjónarskyldu skv. 25. og 26. gr. í þeim tilvikum þegar sjóðfélagar og eftirlaunaþegar bera fjárfestingaráhættuna að hluta eða að öllu leyti. Þá er gistiríki starfstengda eftirlaunasjóðsins heimilt að krefjast þess að sjóður skipi einn eða fleiri vörsluaðila til að gæta eigna og gegna umsjónarskyldu skv. 25. og 26. gr. starfi hann yfir landamæri í samræmi við 6. gr., nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt. Vörsluaðili skal uppfylla hæfnis- og starfskröfur í samræmi við lög og reglur Sambandsins.
    Fjármálaeftirlitið getur í samræmi við 36. gr. bannað að eignum í umsjón vörsluaðila eða fjárvörslufyrirtæki á yfirráðasvæði þeirra sé ráðstafað að vild ef lögbært yfirvald í heimaríki starfstengds eftirlaunasjóðs fer fram á slíkt.
    Vörsluaðili skal skipaður með skriflegu samkomulagi. Í samningnum skal mælt fyrir um miðlun upplýsinga sem vörsluaðili þarf til að geta sinnt störfum sínum samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum eða reglugerðum þar um.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður og vörsluaðili skulu sinna verkefnum sínum af heiðarleika, heilindum, fagmennsku og í þágu sjóðfélaga og eftirlaunaþega.
    Vörsluaðili skal ekki stunda aðra þá starfsemi sem valdið getur hættu á hagsmunaárekstrum á milli starfstengds eftirlaunasjóðs, sjóðfélaga hans og eftirlaunaþega. Vörsluaðili ber ábyrgð á að gæta aðskilnaðar starfa sinna sem valdið geta hagsmunaárekstrum, og mögulegir hagsmunaárekstrar skilgreindir, þeim stjórnað, þeir vaktaðir og birtir með viðeigandi hætti fyrir stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn starfstengds eftirlaunasjóðs sem og sjóðfélögum hans og eftirlaunaþegum.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal, ef vörsluaðili er ekki skipaður, gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem kunna að koma við úrlausn verkefna sem og lausn þeirra.

25. gr.

Varsla eigna og bótaábyrgð vörsluaðila.

    Ef eignir starfstengds eftirlaunasjóðs sem tengjast réttindakerfi sjóðsins eru faldar vörsluaðila til umsjónar skal vörsluaðilinn hafa í vörslu sinni alla fjármálagerninga á vörslureikningi sem stofnaður er í bókhaldi hans sem og aðra fjármálagerninga sem sjóðnum er heimilt er að afhenda vörsluaðila. Vörsluaðilinn skal tryggja að fjármálagerningar starfstengds eftirlaunasjóðs sem varðveittir eru hjá vörsluaðila séu aðgreindir í bókhaldi vörsluaðilans í samræmi við lög um markaði fyrir fjármálagerninga.
    Ef um aðrar eignir starfstengds eftirlaunasjóðs er að ræða en um getur í 1. mgr. skal vörsluaðili sannreyna að sjóðurinn sé eigandi eignanna og halda sérstaka skrá um þær. Starfstengdum eftirlaunasjóði ber að færa sönnun á að hann sé raunverulegur eigandi eignanna. Vörsluaðila ber að uppfæra skrána reglulega.
    Vörsluaðili ber ábyrgð gagnvart starfstengdum lífeyrissjóði, sjóðfélögum hans og eftirlaunaþegum vegna tjóns sem hann bakar þeim með vanrækslu á skyldum sínum. Hið sama gildir þótt vörsluaðili feli þriðja aðila að hluta eða öllu leyti eignir sem honum hefur verið falið að varðveita.
    Ef vörsluaðili er ekki tilnefndur af starfstengdum eftirlaunasjóði skal sjóðurinn m.a.:
     a.      tryggja að varsla á fjármálagerningum sé tilhlýðileg sem og að aðgætni sé tryggð við vörslu þeirra,
     b.      halda skrár þar sem unnt er að auðkenna allar eignir sjóðsins,
     c.      gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í tengslum við varðveislu eigna,
     d.      upplýsa Fjármálaeftirlitið, að beiðni þess, hvernig eignir sjóðsins eru varðveittar.

26. gr.

Umsjónarskyldur vörsluaðila.

    Auk þeirra verkefna sem um getur í 1. og 2. mgr. 24. gr. skal vörsluaðili sem skipaður er til að hafa umsjón með eignum starfstengds eftirlaunasjóðs:
     a.      fara að fyrirmælum starfstengds eftirlaunasjóðs nema þau stangist á við lög eða reglur sjóðsins,
     b.      tryggja að endurgjald sé greitt til starfstengds eftirlaunasjóðs innan eðlilegra tímamarka þegar átt hafa sér stað viðskipti með eignir sjóðsins og
     c.      tryggja að tekjur af eignum séu notaðar í samræmi við reglur sjóðsins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur heimaríki starfstengds eftirlaunasjóðs ákveðið önnur umsjónarverkefni sem vörsluaðila ber að sinna.
    Ef enginn vörsluaðili er skipaður til umsjónarstarfa skal starfstengdur eftirlaunasjóður annast verklag sem tryggir að þau verkefni, sem annars myndu falla undir eftirlit vörsluaðila, séu framkvæmd á tilhlýðilegan hátt innan sjóðsins.

V. KAFLI

Upplýsingar til sjóðfélaga.

27. gr.

Upplýsingagjöf til sjóðfélaga o.fl.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður sem veitt hefur verið starfsleyfi hér á landi skal tryggja að:
     a.      nýjum sjóðfélögum séu veittar upplýsingar skv. 32. gr.
     b.      sjóðfélögum séu veittar upplýsingar skv. 28.–31. gr., 33. og 35. gr. og
     c.      eftirlaunaþegum séu veittar upplýsingar skv. 28., 34. og 35. gr.
    Upplýsingar sem um getur í 1. mgr. skulu:
     a.      uppfærðar reglulega,
     b.      vera skýrar og hnitmiðaðar,
     c.      ekki vera villandi og samræmi í orðaforða og innihaldi texta,
     d.      vera auðveldar aflestrar,
     e.      vera á íslensku og
     f.      vera aðgengilegar væntanlegum sjóðfélögum, sjóðfélögum og eftirlaunaþegum að kostnaðarlausu á rafrænu formi, til að mynda á varanlegum miðli, á vef eða á pappírsformi.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja frekari reglur um upplýsingagjöf.

28. gr.

Almennar upplýsingar um lífeyriskerfið.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal tryggja að sjóðfélagar og eftirlaunaþegar séu nægjanlega upplýstir um það réttindakerfi sem sjóðurinn starfrækir, m.a. um:
     a.      heiti sjóðsins, hvar hann er skráður eða hefur verið veitt starfsleyfi og eftirlitsaðila sjóðs,
     b.      réttindi og skyldur sem aðilar lífeyrissjóðsins hafa,
     c.      upplýsingar um fjárfestingarstefnu,
     d.      eðli fjárfestingaráhættu sem sjóðfélagar og eftirlaunaþegar bera,
     e.      skilyrði fyrir tryggingu að hluta eða í heild eða að því er varðar tiltekið bótastig eða, ef trygging er ekki veitt samkvæmt réttindakerfinu, skýringu þess efnis,
     f.      fyrirkomulag sem vernda áunnin réttindi sjóðfélaga eða fyrirkomulag við lækkun réttinda, ef við á,
     g.      þegar sjóðfélagar bera fjárfestingaráhættu eða geta tekið fjárfestingarákvarðanir,
     h.      uppbyggingu kostnaðar sem sjóðfélagar og eftirlaunaþegar bera þegar um er að ræða kerfi sem veitir ekki tiltekin réttindi,
     i.      val sjóðfélaga og eftirlaunaþega við útgreiðslu eftirlauna,
     j.      upplýsingar um fyrirkomulag við flutning lífeyrisréttinda eigi sjóðfélagi rétt á slíkum flutningi.
    Sjóðfélagar skulu, þegar um er að ræða réttindakerfi þar sem sjóðfélagar bera fjárfestingaráhættu og þegar þeim stendur til boða fleiri en ein fjárfestingarleið, vera upplýstir um skilyrði varðandi þá fjárfestingarkosti sem í boði eru og, þar sem við á, skilyrði fjárfestingarleiða hafi sjóðfélagi ekki valið sér slíka leið.
    Sjóðfélagar og eftirlaunaþegar eða fulltrúar þeirra skulu fá allar viðeigandi upplýsingar um breytingar á reglum réttindakerfis innan hæfilegs tíma. Þá ber starfstengdum eftirlaunasjóði að veita sjóðfélögum og eftirlaunaþegum upplýsingar um hvernig verulegar breytingar á vátryggingaskuld hafa á réttindi þeirra.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður ber að hafa upplýsingar samkvæmt ákvæðinu aðgengilegar.

29. gr.

Yfirlit um lífeyrisréttindi.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal útbúa yfirlitsskjal fyrir hvern sjóðfélaga þar sem fram koma upplýsingar um fjárhæð greiddra iðgjalda, greiðslutímabil, áunnin réttindi, væntanleg lífeyrisréttindi, svo og þau atriði sem geta haft áhrif á rétt til lífeyris. Í skjalinu skal jafnframt vera að finna upplýsingar um uppbyggingu kerfisins sem og þá löggjöf sem gildir um réttindakerfið. Í yfirliti skal tilgreint tímabil upplýsinga.
    Fjármálaeftirlitið skal krefjast þess að upplýsingar í yfirlitsskjali um lífeyrisréttindi séu réttar, uppfærðar og að allir sjóðfélagar geti nálgast þær endurgjaldslaust að minnsta kosti árlega á rafrænu formi, þar með talið á varanlegum miðli eða á vefs, eða á pappírsformi, óski sjóðfélagi eftir því. Allar verulegar breytingar á upplýsingum um lífeyrisréttindi næst liðins árs skulu koma fram í yfirlitsskjali.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur til að ákvarða forsendur fyrir spár sem mælt er fyrir um í d-lið 1. mgr. 30. gr. Starfstengdum eftirlaunasjóði ber að fara að reglum bankans við ákvörðun árlegrar nafnávöxtunar fjárfestinga, árlega verðbólgu og framtíðarþróun launa.

30. gr.

Yfirlitsskjal um lífeyrisréttindi.

    Í yfirlitsskjali starfstengds eftirlaunasjóðs til sjóðfélaga skulu m.a. koma fram eftirfarandi upplýsingar:
     a.      nafn og kennitala sjóðfélaga auk upplýsinga um eftirlaunaaldur,
     b.      heiti og heimilisfang starfstengds eftirlaunasjóðs auk upplýsinga um lífeyrisáætlun sjóðfélaga,
     c.      upplýsingar um áfallalífeyri sem réttindakerfið býður upp á,
     d.      upplýsingar um væntanleg lífeyrisréttindi auk upplýsinga um hvaða þættir kunni að hafa áhrif til breytinga,
     e.      upplýsingar um áunnin réttindi,
     f.      upplýsingar um greidd iðgjöld síðustu 12 mánaða,
     g.      sundurliðun á kostnaði sem sjóður hefur dregið frá iðgjöldum sjóðfélaga,
     h.      upplýsingar um fjárfestingarkosti réttindakerfisins í heild.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal í yfirlitsskjali veita sjóðfélaga eins nákvæmar upplýsingar og kostur er hverju sinni.

31. gr.

Viðbótarupplýsingar.

    Í yfirlitsskjali starfstengds eftirlaunasjóðs til sjóðfélaga skulu koma fram upplýsingar hvar og hvernig sjóðfélaginn getur aflað sér viðbótarupplýsinga um m.a.:
     a.      hagnýtar upplýsingar um val sjóðfélaga,
     b.      upplýsingar um ársreikning og fjárfestingarstefnu starfstengds eftirlaunasjóðs,
     c.      upplýsingar um þær forsendur sem liggja að baki útreikningi ellilífeyris,
     d.      upplýsingar um fjárhæð réttindagreiðslna við starfslok.
    Ef sjóðfélagi ber fjárfestingaráhættu og hefur ekki val um fjárfestingarkosti iðgjalda sinna skal starfstengdur eftirlaunasjóður tilgreina í yfirlitsskjali hvar sjóðfélaginn getur aflað sér frekari upplýsinga.

32. gr.

Upplýsingar til nýrra sjóðfélaga.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal upplýsa nýja sjóðfélaga um:
     a.      alla valkosti sem sjóðfélagi hefur, m.a. fjárfestingarkosti,
     b.      hvað felst í réttindakerfi sjóðs, þar á meðal um áfallalífeyri,
     c.      hvort og hvernig tekið sé tilliti til umhverfisþátta, loftslagsþátta og félagslegra þátta í fjárfestingarstefnu sjóðs sem og stjórnarhátta fyrirtækja,
     d.      hvar unnt sé að nálgast frekari upplýsingar um réttindakerfi sjóðs.
    Þegar sjóðfélagar bera áhættu af fjárfestingum eða geta valið á milli mismunandi fjárfestingaleiða skal sjóður veita væntanlegum sjóðfélögum upplýsingar um sögulega ávöxtun af fjárfestingum tengdum lífeyrisáætlun síðastliðin fimm ár eða þau ár sem lífeyrissjóðurinn hefur verið starfræktur, ef það er skemur en fimm ár, auk upplýsinga um uppbyggingu kostnaðar sem sjóðfélagar og eftirlaunaþegar bera.
    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal upplýsa sjóðfélaga sem ekki hafa val um lífeyrissjóð um:
     a.      hvaða valkostir þeim standa til boða, þ.m.t. fjárfestingarkostir,
     b.      hvað felst í réttindakerfi sjóðs, þar á meðal um áfallalífeyri,
     c.      hvort og hvernig tekið sé tilliti til umhverfisþátta, loftslagsþátta og félagslegra þátta í fjárfestingarstefnu sjóðs sem og stjórnarhátta fyrirtækja,
     d.      hvar unnt sé að nálgast frekari upplýsingar um réttindakerfi sjóðs.

33. gr.

Upplýsingar til væntanlegra eftirlaunaþega.

    Starfstengdur eftirlaunasjóður skal auk yfirlitsskjals um lífeyrisréttindi afhenda sjóðfélaga sem nálgast eftirlaunaaldur tímanlega upplýsingar um útgreiðslureglur sem í gildi eru við töku lífeyris.

34. gr.

Upplýsingar til eftirlaunaþega.

    Starfstengdum eftirlaunasjóði ber að veita eftirlaunaþega reglulegar upplýsingar um væntan lífeyri og útgreiðslureglur hans.
    Starfstengdum eftirlaunasjóði ber að tilkynna eftirlaunaþega um skerðingar á lífeyrisgreiðslum án tafar. Tilkynningin skal koma fram þremur mánuðum áður en framkvæmdin tekur gildi.
    Þegar eftirlaunaþegi ber verulega áhættu af fjárfestingu iðgjalda skal starfstengdur eftirlaunasjóður upplýsa hann reglubundið um breytingar sem kunna að verða.

35. gr.

Viðbótarupplýsingar til sjóðfélaga og eftirlaunaþega.

    Starfstengdum eftirlaunasjóði ber að beiðni sjóðfélaga, eftirlaunaþega eða fulltrúa þeirra að veita upplýsingar um:
     a.      ársreikninga og ársskýrslu viðkomandi réttindakerfis,
     b.      meginreglur um fjárfestingarstefnu,
     c.      forsendur sem notaðar eru við útreikning ellilífeyris og þætti sem kunni að hafa áhrif til breytinga.

VI. KAFLI

Varfærniseftirlit

36. gr.

Eftirlit.

    Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með starfstengdum eftirlaunasjóðum og útibúum erlendra starfstengdra eftirlaunasjóða hér á landi samkvæmt lögum þessum og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

37. gr.

Starfsemi stunduð án tilskilinna leyfa.

    Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi sem fellur undir lög þessi sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur eftirlitið krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.

38. gr.

Ráðstafanir Fjármálaeftirlitsins við brotum á lögunum.

    Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi starfstengds eftirlaunasjóðs brjóti gegn lögum þessum, reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim, staðfestum samþykktum eftirlaunasjóða eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi sjóði hæfilegan frest til úrbóta, nema brot sé alvarlegt.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að tilteknir þættir í starfsemi starftengds eftirlaunasjóðs verði takmarkaðir eða stöðvaðir tímabundið í því skyni að koma í veg fyrir háttsemi sem er talin andstæð ákvæðum laga þessara, en einkum ef:
     a.      sjóðurinn verndar ekki með fullnægjandi hætti hagsmuni sjóðfélaga og eftirlaunaþega,
     b.      sjóðurinn uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfi,
     c.      sjóðurinn vanrækir alvarlega skyldur sínar samkvæmt þeim reglum sem gilda um starfsemi hans,
     d.      um starfsemi í öðru landi er að ræða og sjóðurinn virðir ekki kröfu vinnu- og félagsmálalöggjafar gistiríkis sem snerta starfstengdan lífeyri.
    Ákvörðun um að takmarka eða stöðva tiltekna þætti í starfsemi starfstengds eftirlaunasjóðs skal ítarlega rökstudd og tilkynnt sjóðnum.
    Fjármálaeftirlitið getur krafist kyrrsetningar eigna starfstengds eftirlaunasjóðs reynist sjóðurinn ekki gjaldhæfur að mati Fjármálaeftirlitsins eða eigi stofnunin ekki skyldubundinn varasjóð samkvæmt ákvæðum laga þessara.
    Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins gilda, eftir því sem við getur átt, lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Heimilt er að beita ákvæðum þeirra laga um dagsektir, févíti og leit og haldlagningu gagna við upplýsingaöflun og eftirlit á grundvelli laga þessara.

39. gr.

Upplýsinga- og gagnaskil.

    Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá starfstengdum eftirlaunasjóði, dótturfyrirtækjum hans sem og hlutdeildarfyrirtækjum auk félaga sem verkefnum eftirlaunasjóðs hefur verið útvistað til, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með viðkomandi eftirlaunasjóði. Þá getur Fjármálaeftirlitið framkvæmt vettvangsathugun hjá starfstengdum eftirlaunasjóði og eftir atvikum á starfsstöð þjónustuaðila sjóðs, þegar um er að ræða útvistun verkefna, til að tryggja að starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga og reglna.

40. gr.

Gagnsæi og birting upplýsinga.

    Fjármálaeftirlitið skal haga störfum sínum á gagnsæjan og ábyrgan hátt að virtri þagnarskyldu um trúnaðarupplýsingar.
    Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar á vef sínum:
     1.      Lög, reglugerðir, reglur, ákvarðanir og aðrar réttarheimildir og leiðbeiningar sem varða starfstengda eftirlaunasjóði.
     2.      Upplýsingar um eftirlitsferlið.
     3.      Samantekt um framkvæmd laga þessara.
     4.      Markmið eftirlits með starfstengdum eftirlaunasjóðum ásamt tilgangi og starfsemi eftirlitsins.
     5.      Upplýsingar um viðurlög og aðrar ráðstafanir sem liggja við brotum á lögunum.

41. gr.

Samstarf eftirlitsstjórnvalda milli landa.

    Fjármálaeftirlitið skal veita eftirlitsstjórnvöldum hlutaðeigandi heimaríkja upplýsingar um starfsemi útibúa starfstengds eftirlaunasjóðs hér á landi og um brot þeirra gegn þeim lögum sem um starfsemina gilda. Sama gildir um starfstengda eftirlaunasjóði sem veita þjónustu hér á landi.
    Um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að krefjast þess að starfstengdur eftirlaunasjóður sem hefur höfuðstöðvar í öðru aðildarríki og hefur útibú eða veitir þjónustu hér á landi og fer ekki að þeim lögum sem um starfsemina gilda fer eftir 37. og 38. gr. laga þessara.
    Fái Fjármálaeftirlitið upplýsingar frá eftirlitsstofnun annars aðildarríkis um að starfstengdur eftirlaunasjóður, sem hefur höfuðstöðvar hér á landi og hefur útibú eða veitir þjónustu í því aðildarríki, fari ekki að lögum þar skal það grípa til viðeigandi ráðstafana og tilkynna eftirlitsstofnuninni um þær ráðstafanir.
    Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir aðstoð Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um að koma á fót evrópskri eftirlitsstofnun (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) ef eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja vinna ekki með því vegna annmarka á að útibú hér á landi fari að lögum þessum. Sama gildir um eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja ef Fjármálaeftirlitið vinnur ekki með þeim vegna útibúa þar.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni og Eftirlitsstofnun EFTA um synjun á stofnun útibús og starfsemi hér á landi. Einnig skal Fjármálaeftirlitið upplýsa til hvaða ráðstafana hefur verið gripið.

42. gr.

Refsiákvæði.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt.

43. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laganna með reglugerð.

44. gr.

Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2341 frá 14. desember 2016 um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2021 frá 5. febrúar 2021, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 3 frá 11. janúar 2024, bls. 97.

45. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi lög um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 78/2007.

46. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessar verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003: Orðin „nr. 78/2007“ í 6. tölul. 4. gr. laganna falla brott.
     2.      Lög um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016: Við 1. málsl. 14. tölul. 6. gr. laganna bætist: eða veiting tryggingar fyrir stofnun sem fellur undir gildissvið laga um starfstengda eftirlaunasjóði.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með því er lagt til að ný heildarlög um starfstengda eftirlaunasjóði leysi af hólmi lög um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 78/2007. Frumvarpið er byggt á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2341 frá 14. desember 2016 um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri. Tilskipunin er í daglegu tali nefnd „IORP II“ (sem er skammstöfun á „Institutions for Occupational retirement provision“) og verður nefnd svo hér eftir. IORP II er liður í frekari viðleitni Evrópusambandsins til að þróa innri markað á Evrópska efnahagssvæðinu á þann veg að fjármálastofnunum sé kleift að starfa í öðrum aðildarríkjum og tryggja víðtæka vernd fyrir neytendur fjármálaþjónustu. Líkt og forveri IORP II gerir tilskipunin stofnunum kleift að bjóða skilgreinda þjónustu yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins og skapar þannig forsendur fyrir öflugri innri markaði fyrir starfstengdan eftirlaunasparnað.
    Gildandi lög um starfstengda eftirlaunasjóði byggðust á forvera IORPP II, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/41/EB frá 3. júní 2003, um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri (hér eftir IORP I). Þar sem IORP II felur í sér umtalsverðar breytingar á eldri tilskipun um starfstengdan eftirlaunasparnað þykir rétt að taka lögin til heildarendurskoðunar. Þá er talin þörf á að lög um starfstengda eftirlaunasjóði endurspegli gildandi verklag við innleiðingu tilskipana en gildandi lög endurspegla eldra verklag við innleiðingu tilskipana.
    Þau markmið sem felast í IORP II eru m.a. að tryggja frekar góða stjórnarhætti lögaðila sem bjóða upp á starfstengdan eftirlaunasparnað, upplýsingagjöf til sjóðfélaga, gagnsæi og öryggi starfstengdra eftirlaunasjóða, í því skyni að auðvelda frekar hreyfanleika launafólks milli aðildarríkja, útvistun á starfsemi og beitingu skynsemisreglunnar í fjárfestingum lögaðila um starfstengd eftirlaunaréttindi. Þess ber þó að geta að þrátt fyrir að gildandi lög um starfstengda eftirlaunasjóði hafi tekið gildi árið 2007 hafa hvorki íslenskir né erlendir aðilar sótt um starfsleyfi á grundvelli þeirra. Engir starfstengdir eftirlaunasjóðir eru því starfandi hér á landi.
    Líkt og við átti um IORP I er með IORP II gengið út frá því að skerða ekki forræði einstakra ríkja á fyrirkomulagi lífeyrismála. Tilskipunin hefur því ekki bein áhrif á hið almenna lífeyriskerfi á Íslandi heldur varðar eingöngu starfstengda eftirlaunasjóði í skilningi tilskipunarinnar. Frumvarpið tekur þannig hvorki til skyldubundins framlags til lífeyrissjóða né skylduaðildar að lífeyrissjóðum sem kveðið er á um í annarri stoð íslenska lífeyrissjóðakerfisins. Undir skyldubundin framlög til íslenskra lífeyrissjóða fellur lögbundið 15,5% framlag, auk skyldubundinna framlaga á grundvelli kjarasamninga og/eða sérlaga. Tilskipuninni er þannig ætlað að stuðla að lágmarkssamræmingu á lífeyrismarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins en misjafnt er hve stór hluti lífeyrissparnaðar hjá aðildarríkjunum fellur undir gildissvið tilskipunarinnar.
    Ef lífeyrissjóður tekur jafnframt við iðgjöldum sem ekki eru skyldubundin, á grundvelli starfsleyfis þar um, skulu þau vistuð í sérstakri deild eða deildum og skal eignum sem standa eiga undir þeim réttindum haldið aðskildum frá eignum sem tilheyra skyldubundnum deildum. Slík framlög falla undir ákvæði tilskipunarinnar að því tilskildu að þau séu starfstengd og valkvæð. Hið sama á við um einstaklingsbundinn viðbótarlífeyrissparnað skv. II. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, en slíkur sparnaður fellur ekki undir tilskipunina þar sem hann er byggður á ákvörðun einstaklings en er ekki starfstengdur í skilningi tilskipunarinnar. Einstaklingsbundinn viðbótarlífeyrissparnaður fellur undir þriðju stoð íslenska lífeyriskerfisins. Starfstengdur eftirlaunasjóður hefur því ekki heimild til að taka á móti iðgjaldagreiðslum vegna einstaklingsbundins viðbótarlífeyrissparnaðar í skilningi laga nr. 129/1997, þar sem slíkur sjóður er viðbót við þriggja stoða kerfi íslenska lífeyriskerfisins. Í skattalegu tilliti skal samkvæmt lögum um tekjuskatt farið með greiðslur úr starfstengdum eftirlaunasjóðum á sama hátt og greiðslu lífeyris úr almennum lífeyrissjóðum.
    Líkt og í gildandi lögum frá 2007, að teknu tilliti til uppbyggingar íslenska lífeyrissjóðakerfisins og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, er litið svo á að starfstengdir eftirlaunasjóðir í skilningi tilskipunarinnar séu sjálfstæðar einingar til hliðar við hina venjubundnu íslensku lífeyrissjóði og lagarammi þeirra afmarkaður út frá því. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfstengdum eftirlaunasjóðum og ýmsar meginreglur laga nr. 129/1997 eiga við um slíka sjóði.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    IORP II tilskipunin felur í sér endurútgáfu á IORP I. IORP I var innleidd í íslenskan rétt með lögum um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 78/2007, en íslensk löggjöf um starfstengda eftirlaunasjóði hefur frá upphafi fylgt evrópskri löggjöf. Þar sem IORP I hefur nokkrum sinnum tekið veigamiklum breytingum frá setningu laga nr. 78/2007, m.a. með IORP II tilskipuninni, þykir rétt að gildandi lög verði endurskoðuð með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á kröfum til starfstengdra eftirlaunasjóða og að lög um starfstengda eftirlaunasjóði endurspegli núgildandi verklag við innleiðingu tilskipana.
    Með frumvarpinu er IORP II innleidd í íslenskan rétt. Þar er að finna sambærileg eða óbreytt ákvæði og eru nú þegar í gildandi rétti sem og ný ákvæði sem miða m.a. að því að efla lágmarksvernd fyrir sjóðfélaga og eftirlaunaþega og ná þannig fram því markmiði sem að er stefnt með tilskipuninni. Þrátt fyrir að unnt hefði verið að innleiða IORP II með breytingum á gildandi rétti var valið að setja ný heildarlög. Meginmarkmið tilskipunarinnar endurspeglast þannig í frumvarpinu auk þess sem lagt er til að í ákveðnum tilvikum sé Seðlabanka Íslands heimilt að setja frekari reglur um þá framkvæmd sem þar er kveðið á, til að mynda um hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra starfstengds eftirlaunasjóðs, verkefni innri endurskoðunar og upplýsingagjöf til sjóðfélaga. Þá er í frumvarpinu, til samræmis við IORP I, lagt til að ráðherra verði veitt heimild að kveða nánar á um framkvæmd laganna með reglugerð.
    Þar sem IORP II miðar líkt og IORP I að lágmarkssamræmingu kemur hún ekki í veg fyrir að sett séu frekari ákvæði en kveðið er á um í tilskipuninni, m.a. til að vernda sjóðfélaga og eftirlaunaþega starfstengdra eftirlaunasjóða. Það er þó háð því skilyrði að slík ákvæði séu í samræmi við skuldbindingar aðildarríkjanna samkvæmt lögum Evrópusambandsins. Rökin fyrir lágmarkssamræmingu eru þau að ekki þykir rétt að beitt sé sömu nálgun á allar stofnanir um starfstengdan lífeyri þar sem umtalsverður munur er á skipulagi og reglum um stofnanir um starfstengdan lífeyri í aðildarríkjunum. Þar sem starfstengdum lífeyrissjóðum er ætlað að fylgja að einhverju leyti meginreglum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hafa einstaka ákvæði frumvarpsins verið aðlöguð að gildandi rétti og er tilvísun þess efnis að finna í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins. Það svigrúm sem tilskipunin felur í sér er þannig nýtt að þessu leyti en ekki er gengið lengra við innleiðingu hennar en efnið gefur til kynna og ekki er lagt til að það verði látið ná til annarra aðila en starfstengdra eftirlaunasjóða.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni IORP II-tilskipunarinnar snýr að því að styrkja regluverk Evrópusambandsins fyrir starfsemi starfstengdra eftirlaunasjóða. Tilskipunin byggist á IORP I-tilskipuninni en í IORP II er lögð rík áhersla á að tryggja betri vernd fyrir lífeyrisþega, auka gagnsæi og auka kröfur um góða stjórnunarhætti.
    Í frumvarpinu eru að einhverju leyti að finna sömu eða sambærileg lagaákvæði og innleidd voru í íslenskan rétt með lögum um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 78/2007, í tengslum við IORP I-tilskipuninna. Þá eru í frumvarpinu að finna tillögur að nýjum ákvæðum sem ætlað er að ná fram því markmiði sem IORP II-tilskipunin mælir fyrir um. Frumvarpið fylgir að mestu uppsetningu tilskipunarinnar.
    Líkt og í gildandi lögum tekur gildissvið frumvarpsins til lögaðila sem taka við valkvæðum og starfstengdum iðgjöldum til myndunar og útgreiðslu eftirlaunaréttinda, starfa á grunni sjóðsöfnunar og eru aðskildir frá þeim fyrirtækjum sem greiða iðgjöld til þeirra. Þá byggist aðild að starfstengdum eftirlaunasjóði á samningi á milli starfsmanna og vinnuveitanda. Í frumvarpinu er að finna þau skilyrði sem uppfylla þarf til að starfrækja starfstengdan eftirlaunasjóð og kunna þau að einhverju leyti að vera ítarlegri en sambærileg ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, 129/1997. Líkt og gilt hefur veitir fjármála- og efnahagsráðherra starfstengdum eftirlaunasjóði starfsleyfi hér á landi og þá er slíkum sjóðum heimilt að starfa yfir landamæri Evrópska efnahagssvæðisins launþegum til hagsbóta. Sjóður um starfstengd eftirlaunaréttindi með starfsleyfi hér á landi skal vera skráður hjá Fjármálaeftirlitinu og vera háður eftirliti þess.
    Í frumvarpinu eru m.a. gerðar ríkari kröfur um góða stjórnarhætti með sérstaka áherslu á áhættustýringu og varnir gegn hagsmunaárekstrum. Þá er að finna ákvæði um auknar kröfur um upplýsingagjöf og gagnsæi en upplýsingagjöf til sjóðfélaga skal vera reglubundin og skýr. Einnig er lagt til að gerð verði sú krafa að sjóðirnir sendi sjóðfélögum yfirlit um m.a. lífeyrisréttindi sem er sambærilegt við þau skilyrði sem fram koma í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en í IORP II eru ítarleg ákvæði um upplýsingaskyldu til m.a. sjóðfélaga. Þá er einnig að finna tillögur um að gerðar verði kröfur um að upplýsa skuli sjóðfélaga um áhættur, kostnað og gjöld og stefnu sjóðs um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Jafnframt er lagt til að starfstengdir eftirlaunasjóðir taki mið af sjálfbærnimarkmiðum sem felur það í sér að sjóðirnir geta tekið tillit til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta í fjárfestingarákvörðunum sínum og veiti upplýsingar um hvort horft hafi verið til þessara sjónarmiða.
    Þá eru í frumvarpinu ákvæði sem hafa það að markmiði að auðvelda starfsemi starfstengdra lífeyrissjóða yfir landamæri sem og aukið eftirlit með starfsemi slíkra sjóða. Jafnframt er að finna tillögur um kröfur á sjóðina sem eiga að tryggja það að sjóðfélagar fái sanngjarnan og öruggan aðgang að lífeyrisréttindum sínum óháð búsetu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Verði frumvarpið að lögum þurfa sjóðir um starfstengd eftirlaunaréttindi sem óska eftir að starfa hér á landi m.a. að laga sig að kröfum um gagnsæi, áhættustýringu og sjálfbærni ásamt auknu eftirliti.
    Fjárfestingarreglur starfstengdra eftirlaunasjóða eru almennt rýmri en þær reglur sem gilda um almenna lífeyrissjóði en eru þó innan almennra varfærnismarka. Helsta nýmælið sem lagt er til í frumvarpinu og varðar fjárfestingarreglur slíkra sjóða er að þeim verður gert að fjárfesta til samræmis við svokallaða skynsemisreglu eða varfærnisreglu. Reglan felur m.a. í sér að fjárfest skuli með aðgát, af kunnáttu og af kostgæfni með hagsmuni sjóðfélaga og lífeyrisþega að leiðarljósi. Í inngangi tilskipunarinnar kemur fram að eftirlitsaðferðir og venjur séu mismunandi í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Því hafi ríkin nokkuð valfrelsi um þær fjárfestingarreglur sem starfstengdum eftirlaunasjóði á þeirra yfirráðasvæði ber að fara eftir. Með vísan til þessa er lagt til að um fjárfestingarheimildir starfstengdra eftirlaunasjóða gildi m.a. sömu reglur og gilda um vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar en reglurnar eru mun rýmri en fjárfestingarreglur almennra lífeyrissjóða.
    Loks er að finna ákvæði um þau skilyrði sem gilda skulu um útvistun á lykilstarfssviði eða annarri starfsemi sjóðs sem ekki má fara þannig fram að hún auki rekstraráhættu sjóðs óþarflega. Að auki eru ákvæði um eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins auk ákvæða um að starfstengdum eftirlaunasjóði með starfsleyfi hér á landi sé heimilt að veita viðtöku iðgjaldi vegna starfsmanns sem starfar í öðru ríki (þjónusta yfir landamæri) en tilkynna ber eftirlitinu um slíkar iðgjaldagreiðslur.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Fyrirhuguð lagasetning varðar skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum og felur í sér innleiðingu á efnisákvæðum IORP II-tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Ekki er gert ráð fyrir framsali valdheimilda til alþjóðlegra stofnana í gerðinni. Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Efni frumvarpsins snertir einkum lögaðila sem taka við valkvæðum og starfstengdum iðgjöldum. Drög að frumvarpinu voru kynnt Seðlabanka Íslands 20. febrúar 2025 og voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 3. mars 2025 (mál nr. S-53/2025). Opið var fyrir umsagnir í samráðsgáttinni til 10. mars. Alls bárust tvær umsagnir um drögin.
     1.      Í umsögn Persónuverndar er vakin athygli á orðalagi 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins um starfskjarastefnu. Í umsögninni er bent á að aðlaga ætti orðalag ákvæðisins að því réttarumhverfi sem ríkjandi er hvað snertir almenn ákvæði um vernd persónuupplýsinga. Bent er á að hin almenna persónuverndarlöggjöf hafi að geyma reglur sem gilda þvert á málefnasvið en ekki sérreglur um vinnslu persónuupplýsinga í afmörkuðum tilvikum. Fram kemur að hafa mætti tilvísun til þess í ákvæðinu að eitthvað geti leitt af persónuverndarlöggjöfinni í umræddu samhengi fremur en að hún beinlínis kveði á um tiltekin atriði. Þá bendir stofnunin á þann möguleika að tekin sé afstaða til þess í frumvarpinu hvað teljist málefnalegt og nauðsynlegt að birta um starfskjarastefnu eftirlaunasjóða. Fallist var á tillögur stofnunarinnar og hefur orðalagi ákvæðisins verið breytt til samræmis við framkomna tillögu sem og aukið við skýringar við ákvæðið.
     2.      Í umsögn Samtaka atvinnulífsins er vakin athygli á að þrátt fyrir að hér á landi hafi ekki reynt á löggjöf um starfstengda eftirlaunasjóði hafi IORP-tilskipanirnar þjónað ákveðnu hlutverki sem viðmiðunarregluverk sem gjarnan sé horft til við mótun og umræðu um íslenska lífeyrissjóði. Aftur á móti sé í frumvarpinu að finna kröfu um að starfstengdir eftirlaunasjóðir skuli horfa til sjónarmiða um umhverfisþætti og félagslega þætti auk stjórnarhátta og að það eigi jafnt við um stjórnkerfi sjóðsins, ákvarðanir um fjárfestingu sem og áhættustýringu. Samtökin telja að gengið sé lengra við innleiðingu þar sem í tilskipun Evrópusambandsins sé ekki gerð krafa um að starfstengdir eftirlaunasjóðir horfi til slíkra sjónarmiða. Þeim sé það heimilt og þurfi að tilgreina hvort þeir horfi til slíkra sjónarmiða við áhættustýringu og fjárfestingarákvarðanir. Með vísan til þess að IORP II hafi þjónað sem viðmiðunarregluverk fyrir umræðu um umgjörð íslenska lífeyriskerfisins telja samtökin mikilvægt að ekki séu lagðar þyngri kröfur á starfstengda eftirlaunasjóði en almennt gildi í Evrópu. Mæla samtökin með því að gerðar verði breytingar á frumvarpinu þannig að starfstengdum eftirlaunasjóðum verði heimilt en ekki skylt að horfa til umhverfisþátta og félagslegra þátta auk stjórnarhátta í stjórnkerfi sínu, við val á fjárfestingum og í áhættustýringu. Athugasemdir samtakanna hafa verið teknar til skoðunar og breyting gerð á 2. tölul. 11. gr. frumvarpsins um fjárfestingarreglur, til samræmis við ábendinguna. Þá er rétt að geta þess að í aðfararorðum IORP II kemur fram að aðildarríkin ættu að skylda starfstengda eftirlaunasjóði til að greina sérstaklega frá því ef horft er til þessara þátta við fjárfestingarákvarðanir og áhættustýringu. Það útiloki þó ekki að sjóður uppfylli skilyrðin ef hann upplýsir um hvort horft hafi verið til þáttanna.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á hagkerfið.
    Tilskipunin tekur ekki til skyldubundins framlags og aðildar að lífeyrissjóðum sem tíðkast almennt hér á landi heldur einungis til eftirlaunasjóða sem eru starfstengdir og valkvæðir og á því ekki heldur við um séreignarsjóði sem myndaðir eru með viðbótarlífeyrissparnaði einstaklinga þar sem þeir eru ekki starfstengdir. Ákvæði frumvarpsins eiga þannig við um eftirlaunasjóði sem komið væri á fót í frjálsum samningum milli starfsmanna og vinnuveitenda þeirra um tiltekin störf. Þar sem engir slíkir sjóðir eru starfandi hér á landi er ekki ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á hagkerfið.

6.2. Áhrif á lífeyrissjóði.
    Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á lífeyrissjóði og vörsluaðila séreignarsparnaðar.

6.3. Áhrif á sjóðfélaga.
    Engir starfandi starfstengdir eftirlaunasjóðir eru hér á landi. Rétt er að vekja athygli á að frumvarpið felur í sér ríka upplýsingagjöf til sjóðfélaga. Þannig standa vonir til að sjóðfélagar sem stendur lífeyrisafurðin til boða verði upplýstari um réttindi sín og hvernig lífeyrissparnaði þeirra er varið. Á grundvelli þeirra upplýsinga geti þeir eftir atvikum tekið ákvarðanir sem stuðli að þeirri réttindaávinnslu sem þeir telja besta fyrir sig.

6.4. Áhrif á stjórnsýslu.
    Að teknu tilliti til þess að engir starfstengdir eftirlaunasjóðir eru starfandi hér á landi verður að telja að frumvarpið, verði það að lögum, hafi lítil áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

6.5. Áhrif á ríkissjóð.
    Ákvæði frumvarpsins eiga við um eftirlaunasjóði sem komið væri á fót í frjálsum samningum milli starfsmanna og vinnuveitenda þeirra um tiltekin störf. Ekki eru fyrirséð bein áhrif á ríkissjóð af samþykkt frumvarpsins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er gildissvið afmarkað og er ákvæðið til innleiðingar á 2. og 3. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið er efnislega sambærilegt við 1. gr. gildandi laga um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 78/2007, en í 2. tölul. 2. mgr. er að finna uppfærslu og endurskoðun á tilvísun til tilskipana og vísað til viðeigandi laga sem innleiddu þær.
    Í 2. gr. tilskipunarinnar er gildissviðið skilgreint þannig að það nái ekki yfir skyldubundin framlög á grundvelli laga eða kjarasamninga. Um þau framlög til lífeyrisréttinda gilda því lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sbr. umfjöllun í inngangskafla greinargerðarinnar.
    Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2341 og setja nauðsynlegan lagaramma fyrir starfstengda eftirlaunasjóði til að starfa eftir. Í frumvarpinu er einvörðungu kveðið á um starfstengda eftirlaunasjóði í skilningi tilskipunarinnar en ekki lífeyrissjóði sem fjallað er um í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Um 2. gr.

    Ákvæðið er sambærilegt 6. gr. tilskipunarinnar þar sem skilgreind eru helstu hugtök. Skilgreiningar á hugtökunum aðildarfyrirtæki, eftirlaunaréttindi, samningur um eftirlaunaréttindi, sjóðfélagi og starfstengdur eftirlaunasjóður eru efnislega samhljóða skilgreiningum í 2. gr. gildandi laga um starfstengda eftirlaunasjóði. Skilgreiningar á hugtakanotkun í frumvarpinu eru almennt þekktar á sviði lífeyrismála og fjármálamarkaða.
    Til frekari skýringar er með hugtakinu gistiríki átt við þegar starfstengdur eftirlaunasjóður í aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins stundar starfsemi í öðru aðildarríki. Gistiríki er það land sem sjóðurinn starfar í en ekki landið þar sem hann hefur heimilisfesti eða á uppruna sinn í. Sem dæmi má taka starfstengdan lífeyrissjóð sem er staðsettur í aðildarríki innan EES og býður þjónustu eða stjórnar eignum fyrir sjóðfélaga í öðru aðildarríki. Það land þar sem þjónustan er veitt nefnist þá gistiríki. Sjóðurinn getur verið án starfsstöðvar í gistiríki en þarf að vera með skráð starfsleyfi og fara að þeim lögum og reglum sem þar gilda. Þá vísar hugtakið heimaríki til ríkis þar sem starfstengdur eftirlaunasjóður hefur heimilisfesti eða aðalstöðvar. Um er að ræða ríki þar sem sjóðurinn er skráður og þar sem stjórn á starfsemi hans fer fram. Loks þykir ekki nauðsynlegt að skilgreina hugtakið lögbært yfirvald sérstaklega í ákvæðinu en með hugtakinu er átt við innlent yfirvald sem innir af hendi þær skyldur sem lögin kveða á um. Seðlabanki Íslands er lögbært yfirvald hér á landi og kemur það skýrlega fram í ákvæðum frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 3. gr. gildandi laga um starfstengda eftirlaunasjóði og er til samræmis við tilskipunina. Samkvæmt ákvæðinu skal aðild að starfstengdum eftirlaunasjóðum byggjast á samningi á milli starfsmanna og vinnuveitenda þeirra enda iðgjöld til slíkra sjóða ekki lögbundin. Þá er sjálfstætt starfandi aðilum heimilt að semja um aðild að starfstengdum eftirlaunasjóðum.

Um 4. gr.

    Ákvæðið byggist á 4. gr. gildandi laga um starfstengda eftirlaunasjóði og felur í sér innleiðingu á 7.–9. gr. tilskipunarinnar að hluta.
    Með ákvæðinu er vísað til þeirra skilyrða sem starfstengdur eftirlaunasjóður þarf að uppfylla til að unnt sé að veita honum starfsleyfi. Þá er lagt til að Fjármálaeftirlitið haldi skrá um starfstengda eftirlaunasjóði og að skráin skuli tilgreina sjóði með höfuðstöðvar sínar hér á landi og í hvaða aðildarríkjum þeir starfa. Staðsetning aðalskrifstofunnar vísar til þess staðar þar sem helstu stefnumótandi ákvarðanir starfstengds eftirlaunasjóðs eru teknar. Þá er það nýmæli að eftirlitinu beri að senda skráningarupplýsingar til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðastofnunarinnar (EIOPA).
    Til samræmis við gildandi lög er í ákvæðinu lagt til að starfstengdir eftirlaunasjóðir, í skilningi tilskipunarinnar, verði bundnir af efnisákvæðum þeirra kafla laga nr. 129/1997 sem vísað er til í ákvæðinu, nema kveðið sé á um annað í frumvarpinu. Þar er um að ræða eftirfarandi grundvallaratriði: Almenn skilyrði lífeyrissjóðsrekstrar, starfsleyfi lífeyrissjóða, rekstur og innra eftirlit og innri endurskoðun, fjárfestingarheimildir, ársreikninga og endurskoðun, eftirlit og umsjónaraðila, slit og samruna. Í ákvæðinu er lagt til að um starfsemi starfstengdra eftirlaunasjóða gildi sömu fjárfestingarheimildir og gilda um vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar en mun strangari kröfur eru gerðar til fjárfestinga lífeyrissjóða sem taka við skyldubundnum iðgjöldum til lífeyrissparnaðar. Að því leyti sem ákvæði VII. kafla A laga nr. 129/1997 vísa til VII. kafla laganna, sem kveður m.a. á um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða, gilda jafnframt ákvæði þess kafla laganna um starfsemi starfstengdra eftirlaunasjóða.
    Loks er mælt fyrir um að starfstengdur eftirlaunasjóður skuli takmarka starfsemi sína við starfstengd eftirlaun en hlutverk sjóðs er almennt að taka við iðgjöldum, ávaxta þau og greiða út þegar sjóðfélagi hefur náð eftirlaunaaldri.

Um 5. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 1. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar.
    Lagt er til að auka ábyrgð og stöðugleika í starfsemi starfstengdra eftirlaunasjóða, m.a. á þann hátt að tryggt sé að sjóðirnir fari eftir þeim samþykktum sem þeir hafa sett sér og að þeir ábyrgist að réttindi sjóðfélaga séu tryggð.
    Ákvæði 1. málsl. kveður á um að starfstengdum eftirlaunasjóði beri að setja sér samþykktir um rekstur lífeyriskerfisins í samræmi við V. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Í 2. málsl. er mælt fyrir um að ef aðildarfyrirtæki sjóðs hefur skuldbundið sig til að fjármagna hann sé það ábyrgt fyrir því að greiðslur til sjóðfélaga (eftirlaun) séu framkvæmdar samkvæmt fjármögnun sem veita átti til sjóðs. Þetta þýðir með öðrum orðum að ef fyrirtæki hefur ákveðið að leggja reglulega fram fjármuni í lífeyrissjóðinn þarf það að ábyrgjast að greiðslur séu framkvæmdar samkvæmt þeim skuldbindingum sem hafa verið gerðar.

Um 6. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 11. gr. tilskipunarinnar og byggist á 8. gr. gildandi laga um starfstengda eftirlaunasjóði.
    Ákvæði 1. mgr. er til innleiðingar á 1.–2. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar og eru ákvæðin sambærileg 1. og 2. mgr. 8. gr. gildandi laga. Ákvæðið mælir fyrir um heimild starfstengds eftirlaunasjóðs til að stunda starfsemi yfir landamæri en í því felst heimild sjóðs til að veita viðtöku iðgjaldi vegna starfsmanns sem starfar í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. er til innleiðingar á 3., 4. og 5. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar og er ákvæðið sambærilegt 3. mgr. 8. gr. gildandi laga. Í ákvæðinu er kveðið á um að starfstengdum eftirlaunasjóði beri áður en hann getur veitt iðgjaldi yfir landamæri viðtöku að tilkynna um slíka starfsemi til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið skal eigi síðar en þremur mánuðum frá því að fullbúið erindi barst taka afstöðu til erindis sjóðs og er það nýmæli frá gildandi lögum. Ekki er gerð krafa um að sjóður skrái sig sérstaklega í hverju ríki fyrir sig en Fjármálaeftirlitið skal upplýsa eftirlitsaðila um starfsemi sjóðs með starfsleyfi hér á landi bjóði hann þjónustu í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Sömu kröfur eru gerðar til upplýsingagjafar starfstengds eftirlaunasjóðs sem stundar starfsemi yfir landamæri til þeirra sem eiga réttindi í sjóðnum eða munu eignast þau.

Um 7. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 12. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I en þar var kveðið á um heimild sjóða til að fjárfesta og reka starfsemi yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins. Við innleiðinguna var m.a. horft til sambærilegs ákvæðis í 34. gr laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, þar sem kveðið er á um yfirfærslu vátryggingastofns til annars vátryggingafélags sem hefur starfsleyfi í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í ákvæðinu er m.a. kveðið á um að Fjármálaeftirlitið geti heimilað starfstengdum eftirlaunasjóði að flytja að hluta eða að öllu leyti eignir og skuldbindingar sjóðsins til starfstengds eftirlaunasjóðs í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Slíkur flutningur er þó jafnan háður samþykki sjóðfélaga og lífeyrisþegum þess sjóðs sem hyggst flytja réttindi og skuldir yfir til annars sjóðs sem og samþykki eftirlitsaðila í heimaríkjum sjóðanna.
    Þegar um er að ræða flutning á hluta eigna skal rekstrarhæfi fletta hlutans sem og þess hluta sem eftir varð vera tryggt. Til að réttindi allra sjóðfélaga og lífeyrisþega njóti verndar eftir flutning skulu báðar stofnanir um starfstengdan lífeyri eiga fullnægjandi eignir til að standa undir tryggingarskyld vegna fletta hlutans sem og þess hluta sem ekki var fluttur. Hið sama gildir séu eignir sjóðs fluttar að öllu leyti.
    Þá skal starfstengdur eftirlaunasjóður tryggja að flutningur eigna sé í samræmi við reglur um áhættustýringu og að flutningurinn hafi ekki neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu hans eða öryggi sjóðfélaga.
    Þá er mælt fyrir í ákvæðinu um hlutverk Fjármálaeftirlitsins í þessu sambandi, í samræmi við 12. gr. tilskipunarinnar, þ.e. að láta eftirlitsaðila í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins í té umræddar upplýsingar og tilkynna eftirlaunasjóðnum þar um.

Um 8. gr.

    Ákvæðið er til samræmis við 1.–4. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar og 1. og 3. mgr. 14. gr. hennar. Ákvæði 2.–4. mgr. ákvæðisins eru til samræmis við 9. gr. gildandi laga um starfstengda eftirlaunasjóði.
    Í ákvæðinu er m.a. kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli hafa eftirlit með að eignir starfstengds eftirlaunasjóðs dugi fyrir skuldbindingum hans og að tryggingafræðileg athugun á fjárhag sjóðsins skuli fara fram ár hvert. Gerð skal krafa um að sjóðurinn hafi yfir að ráða nægum og viðeigandi eignum til að standa undir skuldbindingum sínum. Hið sama gildir um starfstengdan eftirlaunasjóð með starfsemi yfir landamæri. Þá kveður ákvæðið á um að tryggingafræðileg athugun skuli fara fram til samræmis við ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

Um 9. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 15. gr. tilskipunarinnar og er efnislega samhljóða 6. gr. gildandi laga.
    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að í þeim tilvikum þar sem starfstengdur eftirlaunasjóður ber áhættu sem tengist til að mynda ævilíkum sjóðfélaga eða skal ábyrgjast tiltekin réttindi sjóðfélaga í stað aðildarfyrirtækis hans, skuli sjóður hafa yfir að ráða varanlegum viðbótareignum umfram skuldbindingar sínar til að verjast sveiflum.

Um 10. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 16. gr. og 17. gr. tilskipunarinnar. Í ákvæðinu er kveðið á um að starfstengdur eftirlaunasjóður sem veitt hefur verið starfsleyfi skuli uppfylla skilyrði um gjaldþol og lágmarksfjármagn. Þá er í ákvæðinu að finna upptalningu á því hvaða eignir mynda grunn til útreiknings á gjaldþoli sjóðs.
    Í 1. og 2. mgr. ákvæðisins er lagt til að 1. og 2. tölul. 16. gr. tilskipunarinnar verði innleiddir. Ákvæði 3. mgr. er til innleiðingar á 17. gr. tilskipunarinnar um lágmarksgjaldþol.

Um 11. gr.

    Með ákvæðinu er kveðið á um fjárfestingarreglur starfstengdra eftirlaunasjóða. Ákvæðið er til innleiðingar á 19. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði um fjárfestingarreglur er að finna í 5. gr. gildandi laga um starfstengda eftirlaunasjóði.
    Í inngangi tilskipunarinnar kemur fram að eftirlitsaðferðir og venju séu mismunandi í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Því hafi ríkin nokkuð valfrelsi um þær fjárfestingarreglur sem starfstengdum eftirlaunasjóði á þeirra yfirráðasvæði ber að fara eftir.
    Þær fjárfestingarreglur sem koma fram í 19. gr. tilskipunarinnar eru talsvert rýmri en þær sem gilda um almenna lífeyrissjóði og koma fram í VII. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Lögaðilar sem taka á móti og ávaxta einstaklingsbundinn viðbótarlífeyrissparnað, skv. VII. kafla A sömu laganna, eru hins vegar aðeins að hluta bundnir af þeim fjárfestingarreglum sem koma fram í VII. kafla laganna. Þar sem í frumvarpinu er lagt til að starfstengdir eftirlaunasjóðir fylgi fjárfestingarheimildum vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar er ákvæðið til samræmis við sjónarmið tilskipunarinnar um valfrelsi um setningu fjárfestingarreglna ríkjanna.
    Til samræmis við 19. gr. tilskipunarinnar er í 1. mgr. lagt til að lögfest verði svokölluð skynsemisregla (e. prudent person rule) í fjárfestingum sjóðanna. Þar sem starfstengdir eftirlaunasjóðir eru langtímafjárfestar og eignir þeirra almennt ekki innleystar í öðrum tilgangi en að greiða lífeyri eiga sjóðirnir að geta varið réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega á fullnægjandi hátt með því að velja eignaskiptingu sem fellur nákvæmlega að eðli og gildistíma skuldbindinga þeirra. Því er gert ráð fyrir skilvirku eftirliti sem og fjárfestingarreglum sem veita sjóðunum sveigjanleika til að ákveða öruggustu og skilvirkustu fjárfestingarstefnuna og skylda þá til að sýna varfærni. Sé farið að skynsemisreglunni krefst það fjárfestingarstefnu sem er sniðin að samsetningu sjóðfélaga sérhvers sjóðs.
    Þá er í 2. tölul. að finna nýmæli til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar og lagt til að við ákvarðanir um fjárfestingar sjóðanna verði sjóðum heimilt að taka tillit til umhverfisþátta og félagslegra þátta sem og stjórnarhátta (UFS-þættir) en UFS-þættir eru taldir mikilvægir fyrir fjármögnunarstefnu og áhættustýringarkerfi.
    Önnur ákvæði fela í sér innleiðingu á ákvæðum 19. gr. tilskipunarinnar og 2. málsl. 4. tölul. er til samræmis við 2. mgr. 5. gr. gildandi laga.

Um 12. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 20. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I. Við innleiðingu á ákvæðinu var m.a. horft til 1. mgr. 29. gr. og 5. mgr. 31. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og 38. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016. Í ákvæðinu er kveðið á ábyrgð þeirra aðila sem stýra starfsemi starfstengds eftirlaunasjóðs.

Um 13. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 21. gr. tilskipunarinnar og er til samræmis við 39. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I. Í ákvæðinu er kveðið á um þær almennu kröfur sem gerðar eru til stjórnarhátta starfstengds eftirlaunasjóðs til að tryggja heilbrigða og eðlilega stjórn þess. Þá er í ákvæðinu kveðið á um að stjórnkerfi starfstengdra eftirlaunasjóða skuli taka tillit til svokallaðra UFS-áhættuþátta til að tryggja að stýring þeirra verði í samræmi við regluverk á öðrum mörkuðum og viðurkenndar aðferðir auk annarra almennra krafna.

Um 14. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 22. gr. tilskipunarinnar en ekki var talin þörf á að innleiða sérstaklega 3.–7. mgr. greinarinnar. Ákvæðið er í meginþáttum samhljóða 31. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og 41. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I, sbr. þó b. liður 1. mgr. 9. gr. þeirrar tilskipunar.
    Í ákvæðinu er m.a. kveðið á um hver skuli vera hæfis- og hæfnisskilyrði stjórnar, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna og útvistunaraðila starfstengds eftirlaunasjóðs. Jafnframt er í ákvæðinu kveðið á um tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins verði breytingar á skipan stjórnar, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna og útvistunaraðila sjóðs. Einnig er þar kveðið á um búsetuskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Þá er kveðið á um að Seðlabanki Íslands setji nánari reglur um hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.

Um 15. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 23. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er lögð sú skylda á starfstengdan eftirlaunasjóð að setja sér starfskjarastefnu sem taka skal til stjórnar sjóðs, framkvæmdastjóra, útvistunaraðila sem og lykilstarfsmanna sjóðs. Við setningu stefnunnar skal þess m.a. gætt að hún hvetji ekki til áhættusækni sem samræmist ekki stefnu sjóðsins. Starfskjarastefna sem hvetur til óhóflegrar áhættusækni getur grafið undan traustri og skilvirkri áhættustjórnun sjóða. Við birtingu á starfskjarastefnu skal horft til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, um hvað telst vera málefnalegt og nauðsynlegt að birta að teknu tilliti til hagsmuna einstaklinga af vernd persónuupplýsinga.

Um 16. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 24. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um lykilstarfsvið í starfsemi starfstengds eftirlaunasjóðs. Í lykilstarfssviði felst geta til að inna tiltekin stjórnunarleg verkefni af hendi, svo sem áhættustjórnun, innri endurskoðun og, eftir því sem við á, tryggingafræðilega athugun. Aðilar sem sinna lykilstarfsemi hjá starfstengdum eftirlaunasjóði eiga að hafa fullnægjandi þekkingu og reynslu sem og menntun og hæfni til að sinna lykilstarfssviði. Þá er kveðið á um að einstaklingar sem bera ábyrgð á lykilstarfssviði sæti tilkynningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins sé ekki gripið til viðeigandi ráðstafa í rekstri hans. Unnt ætti að vera fyrir einn aðila eða skipulagseiningu, að undanskilinni innri endurskoðun sem skal vera óháð öðrum lykilstarfssviðum sjóðs, sbr. 18. gr. frumvarpsins, að annast fleiri en eitt lykilstarfssvið í starfsemi starfstengds eftirlaunasjóðs. Sá aðili eða skipulagseining sem annast lykilstarfssvið ætti þó að vera annar en sá sem annast sambærilegt lykilstarfssvið í aðildarfyrirtækinu.

Um 17. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 25. gr. tilskipunarinnar og er að meginefni í samræmi við 44. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, 35. gr. a. og 36. gr. e. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um að starfstengdur eftirlaunasjóður skulu hafa áhættustýringu. Með starfssviði áhættustýringar er átt við skilgreint sérstakt starfssvið sem sinnir áhættustýringu. Framkvæmdin getur falist í skipun áhættustjóra og/eða stofnun sérstakrar deildar og tekur mið af eðli, stærð og margbreytileika starfseminnar. Öllum starfsmönnum starfstengds eftirlaunasjóða ætti einnig að vera ljóst hlutverk sitt í áhættustýringu félagsins.

Um 18. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 26. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði 1. mgr. er að meginefni samhljóða 1. mgr. 47. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um að starfstengdur eftirlaunasjóður skuli hafa í skipulagi sínu innri endurskoðun sem skal vera þáttur í eftirlitskerfi hans. Hér kann að vera um að ræða sérstaka endurskoðunardeild innan sérhvers sjóðs eða sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila sem annast innri endurskoðun.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Seðlabanka Íslands sé heimilt að setja nánari reglur um verkefni innri endurskoðunar, þ.e. endurskoðunardeildar sjóðs og eftirlitsaðila sjóðs, og er það til samræmis við 2. mgr. 35. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

Um 19. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 27. gr. tilskipunarinnar og er að meginefni til í samræmi við 1. og 6. mgr. 48. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um tryggingafræðilega athugun hjá starfstengdum eftirlaunasjóði sem veitir tryggingu gagnvart áhættu sem tengist ævilíkum einstaklinga eða ábyrgist ávöxtun eða tiltekin réttindi fyrir lífeyrisþega.

Um 20. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 28. gr. tilskipunarinnar. Í 45. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, er kveðið á um eigið áhættumat vátryggingafélags. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu sjóðs til að gera eigið áhættumat. Starfstengdur eftirlaunasjóður skal gera slíkt mat m.a. í þeim tilgangi að veita stjórn og stjórnendum upplýsingar um virkni áhættustýringar og fjármagnsþörf. Matið felur í sér greiningu á möguleikum sjóðs til áframhaldandi reksturs og þeirri áhættustýringu sem nauðsynleg er í þeim tilgangi.

Um 21. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 30. gr tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var að finna í IORP I. Lagt er til að endurskoðun á fjárfestingarstefnu starfstengds eftirlaunasjóðs fari fram árlega í stað á þriggja ára fresti, líkt og tilskipunin kveður á um. Slíkt fyrirkomulag er í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar sem og almennra lífeyrissjóða en í frumvarpinu er lagt til að VII. kafli A. laga nr. 129/1997 gildi um IORP-sjóði.

Um 22. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 31. gr. tilskipunarinnar og er í samræmi við 49. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Í ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 590/2017, um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða, er kveðið á um útvistun verkefna. Í IORP II er kveðið mun ítarlegar á um heimild og skilyrði til útvistunar en gert var í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um þau skilyrði sem höfð skulu að leiðarljósi þegar starfstengdur eftirlaunasjóður útvistar lykilstarfsviði eða annarri starfsemi sinni að hluta eða að öllu leyti. Samningar um þjónustu rekstrarlegs eðlis, t.d. vegna starfsfólks sem sinnir öryggismálum eða viðhaldsþjónustu, falla hér ekki undir. Útvistun er ekki heimil ef hún skerðir í veigamiklum þáttum þjónustu eða stjórnkerfi starfstengds eftirlaunasjóðs, eykur áhættu eða hamlar eftirliti.
    Í 4. mgr. er m.a. kveðið á um skyldu sjóðs til að gera skriflegt samkomulag við þjónustuveitandann. Á grundvelli 9. gr. laga um opinbert eftirlit getur Fjármálaeftirlitið kallað eftir upplýsingum sem þarf í þágu eftirlits.
    Í 5 mgr. er lagt til að sjóðir verði skyldaðir til að tilkynna til Fjármálaeftirlitsins hvers konar útvistun verkefna sem falla undir lögin. Telja má það eðlilegt í ljósi þess að Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit um starfsemi sjóðanna. Þá er slík tillaga í samræmi við 3. mgr. 49. gr. laga nr. 100/2016 og 4. gr. reglugerðar nr. 590/2014.

Um 23. gr.

    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 32. gr. tilskipunarinnar og kveður á um heimild starfstengds eftirlaunasjóðs til að fela aðila, sem hefur tilhlýðilegt umboð til að annast slíka starfsemi, í öðru aðildarríki stýringu á eignasafni sjóðs. Efnislega sambærilegt ákvæði var að finna í IORP I.

Um 24. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 33. gr. tilskipunarinnar. Efnislega sambærilegt ákvæði var að finna í IORP I en ákvæðið IORP II um skipun vörsluaðila er mun ítarlegra.
    Í ákvæðinu er kveðið á um tilnefningu vörsluaðila eigna starfstengds eftirlaunasjóðs, varúðarráðstafanir vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra og aðrar skyldur sem á vörsluaðila hvíla. Í ákvæðinu er m.a. mælt fyrir um hvernig vörsluaðilar skulu vera tilnefndir, hvaða ábyrgð þeir bera og hvaða kröfur eru gerðar til að tryggja rétta meðferð og vernd eigna sjóðfélaga og lífeyrisþega.

Um 25. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 34. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er mælt fyrir um hvernig vörsluaðili skuli meðhöndla eignir sem hann hefur til varðveislu fyrir starfstengdan eftirlaunasjóð. Þá er kveðið á um að vörsluaðilar beri ábyrgð á því að eignir sjóða séu varðveittar á öruggan og auðkenndan hátt og hvaða kröfur eru gerðar til að tryggja rétta meðferð og vernd eigna sjóðfélaga og lífeyrisþega.

Um 26. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 35. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um þá viðbótarábyrgð og þær skyldur sem vörsluaðili hefur þegar honum er falið að hafa umsjón með eignum starfstengds eftirlaunasjóðs. Jafnframt er mælt fyrir um að í þeim tilvikum sem vörsluaðili er ekki tilnefndur beri sjóði að koma á innra eftirliti til að tryggja að verkefni sem vörsluaðili hefði annars sinnt séu framkvæmd á viðeigandi hátt.

Um 27. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 36. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu starfstengds eftirlaunasjóðs um upplýsingagjöf til sjóðfélaga og eftirlaunaþega. Þá er í ákvæðinu mælt fyrir um skýrleika upplýsinga, aðgengi að þeim og að upplýsingar skuli uppfærðar reglulega. Þá er og í 2. mgr. kveðið á um heimild Seðlabankans til að setja frekari reglur um upplýsingagjöf.

Um 28. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 37. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði tilskipunarinnar er mun ítarlegra en kveðið var á um í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um þær skyldur sem hvíla á starfstengdum eftirlaunasjóði varðandi upplýsingagjöf til sjóðfélaga og eftirlaunaþega en Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með því að sjóður uppfylli þær skyldur. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að starfstengdur eftirlaunasjóður skuli veita greinargóðar og fullnægjandi upplýsingar til sjóðfélaga og eftirlaunaþega til að aðstoða þá við að taka ákvörðun um starfslok og tryggja gagnsæi á öllum stigum kerfisins, m.a. áður en að aðild kemur. Til að mynda er mikilvægt að fram komi upplýsingar um uppsöfnuð lífeyrisréttindi, áætlaðan lífeyri, áhættu og ábyrgðir, sem og kostnað. Ef sjóðfélagar bera fjárfestingaráhættu eru viðbótarupplýsingar um fjárfestingarkosti og ávöxtun þeirra mikilvægar.

Um 29. gr.

    Ákvæði er til innleiðingar á 38. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I en í gildandi lögum var vísað til 18. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, þar sem að nokkru leyti er mælt fyrir um sambærileg skilyrði.
    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu starfstengds eftirlaunasjóðs til að útbúa yfirlit fyrir hvern sjóðfélaga um m.a. áunnin lífeyrisréttindi.
    Í 2. mgr. er m.a. kveðið á um aðgengi sjóðfélaga að slíku skjali. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að sjóðfélagar fái uppfærðar, áreiðanlegar og aðgengilegar upplýsingar um lífeyrisréttindi sín annaðhvort á rafrænu formi eða á pappírsformi. Þá mælir ákvæðið um að allar verulegar breytingar skulu kynntar sjóðfélögum á skýran hátt.
    Loks er í 3. mgr. mælt fyrir um heimild Seðlabanka Íslands til að setja reglur um forsendur sem notaðar eru við spár um lífeyrisréttindi, þar sem tekið er mið af ávöxtun fjárfestinga, verðbólgu og framtíðarþróun launa, sem getur haft áhrif á lífeyrisréttindi sjóðfélaga.

Um 30. gr.

    Ákvæði er til innleiðingar á 39. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í IORP I.
    Í ákvæðinu er að finna upptalningu á þeim upplýsingum sem koma skulu að lágmarki fram í yfirlitsskjali starfstengds eftirlaunasjóðs til sjóðfélaga.

Um 31. gr.

    Ákvæði er til innleiðingar á 40. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði tilskipunarinnar er mun ítarlegra en kveðið var á um í IORP I.
    Í ákvæðinu er lögð sú skylda á starfstengdan eftirlaunasjóða að tryggja að sjóðfélagar hafi aðgang að öllum viðbótarupplýsingum sem kunna að vera mikilvægar fyrir þá og sérstaklega um valkosti í lífeyriskerfi sjóðs, útreikninga á lífeyrisgreiðslum og forsendur sem liggja að baki fjárfestingaráhættu. Slíkar upplýsingar skulu einnig vera aðgengilegar þeim sjóðfélögum sem bera fjárfestingaráhættu.

Um 32. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 41. gr. tilskipunarinnar. Sambærilegt ákvæði var ekki í IORP I.
    Í ákvæðinu er kveðið á um þær upplýsingar sem starfstengdum eftirlaunasjóði ber að veita nýjum sjóðfélögum sem og þeim sjóðfélögum sem ekki hafa val um sjóð. Upplýsingarnar skulu fela í sér val um fjárfestingarkosti, sérkenni lífeyriskerfisins, ábyrgð á fjárfestingaráhættu og hvort og þá hvernig fjárfestingar taka mið af umhverfis-, loftslags- og félagsmálum og stjórnarháttum fyrirtækja.

Um 33. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 42. gr. tilskipunarinnar.
    Í ákvæðinu er kveðið á um að starfstengdum eftirlaunasjóði skuli tryggja að sjóðfélagar fái allar upplýsingar sem þeir þurfa áður en þeir fara á eftirlaun til að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir um lífeyrisútgreiðslur.

Um 34. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 43. gr. tilskipunarinnar og kveður á um þær upplýsingar sem starfstengdum eftirlaunasjóði ber m.a. að tilkynna sjóðfélaga, sem hefur hafið töku lífeyris.
    Ákvæðið kveður á um að eftirlaunaþegar séu reglulega upplýstir um væntanlegar lífeyrisgreiðslur og útgreiðslukosti. Ef einhverjar breytingar verða, svo sem lækkun lífeyris eða aukin fjárfestingaráhætta, ber sjóði að upplýsa eftirlaunaþega um slíkt án tafar þannig að þeir geti gripið til viðeigandi ráðstafana og verið meðvitaðir um breytingar sem hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur þeirra.

Um 35. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 44. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði tilskipunarinnar er mun ítarlegra en kveðið var á um í IORP I.
    Ákvæðið kveður á um að sjóðfélagar, eftirlaunaþegar eða fulltrúar þeirra geti óskað eftir viðbótarupplýsingum frá starfstengdum eftirlaunasjóðum um ársreikninga, fjárfestingarstefnu og spár. Slíkar upplýsingar kunna að auka gegnsæi og skilning viðkomandi aðila á því hvernig lífeyriskerfinu og fjárfestingarstarfseminni er stjórnað.

Um 36. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 45.–47. gr. tilskipunarinnar sem er að finna í V. bálki tilskipunarinnar um varfærniseftirlit. Ákvæðið er sambærilegt 1. mgr. 29. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Kveðið er á um eftirlit í 9. gr. gildandi laga en ákvæði tilskipunarinnar að þessu leyti eru nokkuð frábrugðin því sem mælt var fyrir um í IORP I.
    Í aðfararorðum tilskipunarinnar kemur fram að veita eigi lögbærum yfirvöldum nauðsynlegar valdheimildir til að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana eða ráðstafana til úrbóta ef starfstengdur eftirlaunasjóður fer ekki að þeim kröfum sem fram koma í tilskipuninni. Ákvæðinu, sem og ákvæðum 37.–38. gr., er ætlað að endurspegla það.

Um 37. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 45.–47. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið er samhljóða 2. mgr. 29. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

Um 38. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 48.–49. gr. tilskipunarinnar og mælir fyrir um valdheimildir Fjármálaeftirlitsins við brotum á lögunum.

Um 39. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 50. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði tilskipunarinnar er mun ítarlegra en kveðið var á um í IORP I.
    Ákvæði 1. málsl. er efnislega samhljóða 5. mgr. 44. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Ákvæði 2. málsl. um heimild Fjármálaeftirlitsins til vettvangsathugunar innleiðir e-lið tilskipunarinnar.
    Í ákvæðinu er kveðið á um aðgang Fjármálaeftirlitsins að upplýsingum og gögnum frá starfstengdum eftirlaunasjóði, dóttur- og hlutadeildarfyrirtækjum hans og þeim aðila eða aðilum sem verkefnum sjóðs hefur verið útvistað til. Með gögnum er átt við öll þau gögn sem nauðsynleg eru vegna eftirlits með starfseminni, til að mynda mat á eigin áhættu og fjárfestingarstefna. Ákvæðinu er ætla að tryggja að Fjármálaeftirlitið hafi nauðsynlegar heimildir og úrræði til að framkvæma eftirlit með starfstengdum eftirlaunasjóðum eða aðilum sem honum tengjast, til að krefjast upplýsinga og gagna, fara í vettvangsskoðun og tryggja að starfsemin sé í samræmi við lög og reglur.

Um 40. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á 51. gr. tilskipunarinnar. Þá er ákvæðið að meginefni til samhljóða 30. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016. Sambærilegt ákvæði var ekki í IORP I.
    Ákvæðinu er ætlað að tryggja gagnsæi og ábyrgð á því hvernig eftirliti Fjármálaeftirlitsins með starfstengdum eftirlaunasjóðum er hagað. Í ákvæðinu er kveðið á um að allar upplýsingar um starfsemi eftirlitsins, lög og reglur og reglur um viðurlög séu birtar opinberlega, þannig að almenningur og aðrar viðkomandi aðilar geti fylgst með og haft aðgang að upplýsingum.

Um 41. gr.

    Ákvæðið er til innleiðingar á m.a. 55. gr. tilskipunarinnar auk 56.–59. gr. hennar, þar sem m.a. er kveðið á um upplýsingaskipti. Ákvæðið er sambærilegt 127. gr. laga, um vátryggingastarfsemi, nr. 100/20016. Sambærileg ákvæði voru ekki í IORP I.
    Ákvæðið kveður m.a. á um til hvaða ráðstafana Fjármálaeftirlitinu er m.a. heimilt að grípa til ef starfstengdur eftirlaunasjóður fer ekki að lögum. Þá er í ákvæðinu kveðið á um upplýsingaskyldu Fjármálaeftirlitsins gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í öðrum aðildarríkjum og til hvaða aðgerða gripið skuli til ef sjóður sem hefur höfuðstöðvar í öðru aðildarríki en starfsemi hér á landi uppfyllir ekki ákvæði laganna. Jafnframt er kveðið á um viðbrögð Fjármálaeftirlitsins ef sjóður með höfuðstöðvar hér á landi en starfsemi í öðru aðildarríki fer ekki að lögum í því ríki.

Um 42. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 55. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sbr. 10. gr. gildandi laga um starfstengda eftirlaunasjóði. Í 55. gr. laga nr. 129/1997 er kveðið á um refsiviðurlög við brotum gegn þeim lögum. Með hliðsjón af uppbyggingu og tilvísunum í frumvarpinu er lagt til að sams konar refsiviðurlög gildi varðandi brot gegn ákvæðum frumvarpsins, verði það að lögum.

Um 43. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 11. gr. gildandi laga. Greinin felur í sér almenna reglugerðarheimild og þarfnast ekki skýringa.

Um 44. gr.

    Ákvæðið kveður á um að verði frumvarpið að lögum feli þau lög í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2016/2341/EB frá 14. desember 2016 um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri.

Um 45. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.

Um 46. gr.

    Ákvæði felur í sér breytingar á öðrum lögum sem eru afleiddar breytingar sem leiðir af frumvarpinu.
    Í 1. tölul. er lagt til að tilvísun í laganúmer gildandi laga um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 78/2007, falli brott í 6. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þar sem að í frumvarpinu er lagt til að lög nr. 78/2007 falli brott, verði það að lögum.
    Í 2. tölul. er lögð til breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, til innleiðingar á 1. tölul. 63. gr. IORP II. Breytingin leiðir til þess að aðilar sem endurtryggja áhættur fyrir starfstengda eftirlaunasjóði falla undir þær reglur laga um vátryggingastarfsemi sem gilda um endurtryggingastarfsemi.