Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 558  —  235. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993 (riðuveiki o.fl.).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá atvinnuvegaráðuneyti, Bændasamtökum Íslands og Dýraverndarsambandi Íslands og Karólínu Elísabetardóttur.
    Nefndinni bárust fjórar umsagnir sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, þess efnis að unnt sé að innleiða tillögur sem lagðar eru fram í landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu, sameiginlegu stefnuskjali stjórnvalda og bænda.
    Meginefni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi er lögð til heimild fyrir ráðherra til að setja í reglugerð skyldu til að rækta dýr þannig að þau verði ónæm fyrir tilteknum dýrasjúkdómi og fyrirskipa ræktun með það að markmiði að útrýma eða hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma. Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að ráðherra geti falið Matvælastofnun með reglugerðum að framfylgja tilteknum fyrirmælum um aðgerðir og að taka ákvarðanir um þær í tengslum við alvarlega dýrasjúkdóma sem koma upp, auk þess að taka ákvarðanir um greiðslu bóta á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að ráðherra verði heimilt að setja ákvæði í reglugerð um flokkun landsvæða, bæja og starfsstöðva þar sem sérstakar ráðstafanir skulu gilda til að hefta útbreiðslu alvarlegra dýrasjúkdóma.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Nefndin fjallaði um málið og er einhuga um mikilvægi afgreiðslu þess. Riðuveiki í sauðfé hefur um langan tíma valdið töluverðu tjóni í sveitum landsins, bæði fjárhagslegu og ekki síður tilfinningalegu. Þeir gestir sem nefndin fékk til fundar við sig voru almennt jákvæðir og hvöttu til afgreiðslu málsins.
    Í umsögn Karólínu Elísabetardóttur, bónda og baráttukonu fyrir breyttu verklagi þegar upp kemur riðuveiki í sauðfé, er frumvarpinu í megindráttum fagnað og kveðst hún í flestu sammála greinargerð frumvarpsins. Gerir hún þó athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Nefndin hefur, í samráði við ráðuneytið, farið vel yfir umsögn hennar og þykir nauðsynlegt að bregðast sérstaklega við ákveðnum ábendingum í umsögninni. Gerðar eru athugasemdir við 3. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um heimild Matvælastofnunar til að banna flutning á öllu því sem borið getur smitefni milli staða. Nefndin bendir á að Matvælastofnun hefur skv. 11. gr. laganna heimildir til þess að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnasvæða telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu dýrasjúkdóma. Með frumvarpinu er lagt til að styrkja lagastoð fyrir nauðsynlegum takmörkunum sem Matvælastofnun getur gripið til svo að unnt sé að hindra útbreiðslu smitefna alvarlegra dýrasjúkdóma. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðið verði víðtækara en nú er og taki til flutnings á öllu því sem borið getur með sér smitefni, þar á meðal fóðri. Upptalningin er ekki tæmandi enda almennur ómöguleiki að telja upp allar hugsanlegar smitferjur þótt þeirra helstu sé getið í lögum. Nefndin telur afar mikilvægt að heimild til að takmarka eða banna flutninga sé ótvíræð og nægjanlega víðtæk til að koma í veg fyrir stórfellt tjón af völdum dýrasjúkdóma og standa vörð um velferð dýra með því að hindra að þau smitist. Takmarkanir þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru vissulega strangar en helgast af illri nauðsyn. Þegar alvarlegir dýrasjúkdómar koma upp er mikilvægt að brugðist sé við með skjótum hætti svo að unnt sé að hefta útbreiðslu þeirra með sem bestum hætti. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að fleiri dýr smitist af sjúkdómum sem hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir. Yfirdýralæknir og síðar Matvælastofnun hafa frá upphafi haft heimildir til að leggja á takmarkanir til að hefta útbreiðslu dýrasjúkdóma. Frumvarpið felur í sér breytingu sem er ætlað veita skýrari og víðtækari heimildir þannig að enginn vafi leiki á því að stjórnvald geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana við uppkomu dýrasjúkdóma.
    Þá er í umsögn Karólínu Elísabetardóttur lagt til að bætt verði við frumvarpið ákvæði þess efnis að Matvælastofnun skuli hafa samráð við viðkomandi sveitarstjórn komi til þess að stofnunin nýti sér heimildir til að setja á takmarkanir í því skyni að hefta útbreiðslu dýrasjúkdóma. Nefndin telur rétt að árétta að lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim ná til allra sjúkdóma og allra dýrategunda, jafnt gæludýra, búfjár og villtra dýra. Varnir og viðbrögð við uppkomu dýrasjúkdóma geta verið afar fjölbreytt, allt eftir eðli viðkomandi sjúkdóms, og að sama skapi þurfa viðbrögð stundum að vera afar hröð til að hefta útbreiðslu bráðsmitandi sjúkdóma. Þá geta viðbrögð beinst að starfsemi á afmörkuðu landsvæði eða að stökum einstaklingi eða dýri. Sveitarstjórnir hafa alla jafna ekki fagþekkingu á dýrasjúkdómum og hafa almennt ekki hlutverk í ákvörðunum um takmarkanir til að hefta útbreiðslu sjúkdóma. Er það mat nefndarinnar að skylda til samráðs við viðkomandi sveitarstjórnir hverju sinni sé til þess fallin að tefja mögulegt viðbragð Matvælastofnunar og torveldi umgjörð skilvirkrar stjórnsýslu, með ófyrirséðum afleiðingum. Aðkoma sveitarfélaga í hverju tilfelli væri ekki til þess fallin að bæta viðbragð við dýrasjúkdómum hverju sinni þótt vissulega kunni að reynast heillavænlegt að viðhafa slíkt samráð í einstaka tilfellum. Nefndin telur af þeim sökum ekki æskilegt að bæta við slíku samráðsferli við sveitastjórnir þegar kemur að nauðsynlegum ráðstöfunum þegar dýrasjúkdómar koma upp.

Breytingartillögur.
    Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki sérstakrar skýringar.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðsins „flutningum“, orðsins „hreinsanir“ og orðsins „sjúkdómameðferðir“ í 2. efnismálsl. a-liðar komi: flutningi; hreinsun; og: sjúkdómameðferð.
                  b.      Á eftir orðinu „aflífun“ síðara sinni í 2. efnismálsl. a-liðar komi: dýra.
     2.      Inngangsmálsliður 4. gr. orðist svo: Við 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna bætist.
     3.      Í stað orðanna „kemur þar sem við á“ í a-lið 7. gr. komi: tvívegis kemur.

    Sigurður Ingi Jóhannsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.
    Bergþór Ólason skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara um að nefndin hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til ábendinga í umsögn Karólínu Elísabetardóttur þess efnis að skynsamlegt væri að Matvælastofnun hefði samráð við sveitarfélög áður en takmarkanir væru innleiddar. Telur hann að betra hefði verið ef nefndin hefði skoðað þær ábendingar með jákvæðari hætti en niðurstaðan varð.

Alþingi, 20. maí 2025.

Sigurjón Þórðarson,
form.
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
frsm.
Bergþór Ólason,
með fyrirvara.
Eiríkur Björn Björgvinsson. Eydís Ásbjörnsdóttir. Jón Gunnarsson.
Kristján Þórður Snæbjarnarson. María Rut Kristinsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson.