Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 266 — 235. mál.
Stjórnarfrumvarp.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993 (riðuveiki o.fl.).
Frá atvinnuvegaráðherra.
1. gr.
a. 1. mgr. orðast svo:
Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um varúðarráðstafanir til að útrýma eða hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma, sem nauðsynlegar eru ef upp kemur grunur um smitsjúkdóma sem eru tilkynningarskyldir, sbr. 3. mgr., eða ef þeirra verður vart og um nýja áður óþekkta sjúkdóma hér á landi, þ.m.t. ákvæði um sóttvörn og samgang við svæði þar sem sjúkdómur hefur komið upp. Heimilt er að kveða á um sérstakt eftirlit, bann við flutningum, einangrun dýra og bæja og/eða húsa, rannsóknir, hreinsanir, ónæmisaðgerðir, þ.m.t. ræktun, sjúkdómameðferðir, aflífun í rannsóknarskyni, sýnatöku og skýrslugerð, aflífun og eyðingu dýrahræja. Ráðherra er heimilt að fela Matvælastofnun með reglugerð að taka ákvarðanir um slíkar aðgerðir og viðbrögð við dýrasjúkdómum sem koma upp, sem og ákvarðanir um greiðslu bóta.
b. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Ráðherra er heimilt að setja ákvæði í reglugerð um flokkun landsvæða, bæja og starfsstöðva þar sem sérstakar ráðstafanir skulu gilda til að hefta útbreiðslu alvarlegra dýrasjúkdóma í samræmi við eðli viðkomandi sjúkdóms og faraldsfræðilegra þátta. Matvælastofnun skal birta flokkunina á vef sínum.
2. gr.
3. gr.
Matvælastofnun er heimilt að takmarka eða banna flutning á öllu því sem borið getur smitefni, þar á meðal dýr, vörur, afurðir, fóður eða tæki á milli eða innan sóttvarnarsvæða eða landsvæða, bæja og starfsstöðva, samkvæmt flokkun á grundvelli 3. mgr. 7. gr. telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra.
4. gr.
5. gr.
6. gr.
Ráðherra er heimilt með reglugerð að skilgreina arfgerðir þess fjár sem má flytja yfir varnarlínur og arfgerðir fjár sem ekki má flytja yfir varnarlínur.
7. gr.
a. Á eftir „ráðherra“ kemur þar sem við á: eða Matvælastofnunar.
b. Á eftir „samkvæmt lögum þessum“ í kemur: eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.
8. gr.
Greinargerð.
Frumvarp þetta er samið í atvinnuvegaráðuneytinu. Meginmarkmið þess er að tryggja að unnt sé að innleiða tillögur sem lagðar eru fram í skýrslunni Landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu, sameiginlegu stefnuskjali stjórnvalda og bænda. Landsáætlunin var undirrituð af þáverandi matvælaráðherra, forstjóra Matvælastofnunar og formanni Bændasamtaka Íslands sumarið 2024. Gera þarf breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim til að unnt sé að vinna að þeim verkefnum sem fram koma í landsáætluninni.
Unnið er að heildarendurskoðun löggjafar um heilbrigði og velferð dýra. Um er að ræða lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, lög um innflutning dýra, nr. 54/1990, og lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, auk laga um velferð dýra, nr. 55/2013. Um áratugur er frá setningu laga um velferð dýra en hin lögin eru um og yfir 30 ára gömul. Á yfirstandandi ári er stefnt að útgáfu stöðumats og síðar stefnu í þessum málaflokki sem er undirstaða að gerð frumvarpa í málaflokknum. Straumhvörf urðu í baráttunni við útrýmingu riðuveiki í sauðfé með tilkomu verndandi arfgerða í íslensku sauðfé sem fundust fyrir fáeinum misserum og ekki þykir forsvaranlegt að bíða með að leggja fram þær breytingar sem fram koma í frumvarpi þessu þar til heildarendurskoðun er lokið.
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Hinn 8. júlí 2024 undirrituðu þáverandi matvælaráðherra, Matvælastofnun og Bændasamtök Íslands landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu. Í áætluninni er lýst hvernig útrýma eigi riðuveiki í sauðfé hér á landi. Gert er ráð fyrir umtalsvert breyttri nálgun við útrýmingu riðuveiki frá því sem verið hefur. Horfið er frá því að reyna að útrýma riðusmitefninu sjálfu og megináhersla lögð á að útrýma veikinni með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu ásamt áframhaldandi aðgerðum til að hefta mögnun og dreifingu þess. Er frumvarpi þessu ætlað að bregðast við þeim tillögum sem fram koma í landsáætluninni svo að unnt verði að vinna samkvæmt henni og útrýma sauðfjárriðu. Þá er einnig brýnt að tryggja fullnægjandi lagastoð fyrir setningu nýrrar reglugerðar um riðuveiki annars vegar og um flutning fjár yfir varnarlínur hins vegar.
3. Meginefni frumvarpsins.
Meginefni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi er lagt til í 1. gr. frumvarpsins að fengin verði heimild fyrir ráðherra til að setja í reglugerð skyldu til að rækta dýr þannig að þau verði ónæm fyrir tilteknum dýrasjúkdómi, sem og að geta fyrirskipað ræktun, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Mikilvægur liður í útrýmingu riðuveiki er að ræktaður verði sauðfjárstofn sem er ónæmur fyrir veikinni og að fé sem tekið er að nýju eða bætt í hjörð eftir að riðuveiki hefur komið þar upp sé ónæmt fyrir riðu. Því er með frumvarpinu lagt til að skýrt sé kveðið á um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að skylda dýraeigendur til ræktunar gegn dýrasjúkdómum, þar á meðal riðuveiki, og jafnframt að ræktun falli undir hugtakið ónæmisaðgerðir í c-lið 1. mgr. 8. gr. laganna þannig að ráðherra geti fyrirskipað ræktun. Lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim eru rúmlega 30 ára gömul og á þeim tíma sem lögin voru sett fólust ónæmisaðgerðir einna helst í bólusetningum. Með aukinni þekkingu og tækni hafa fleiri ónæmisaðgerðir rutt sér til rúms, m.a. sú að rækta dýr út frá þekktri arfgerð sem ver þau fyrir tilteknum sjúkdómum. Rétt þykir að taka af allan vafa um að ræktun gegn sjúkdómum sé hluti af ónæmisaðgerðum í skilningi laganna.
Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að ráðherra geti falið Matvælastofnun með reglugerðum að framfylgja tilteknum fyrirmælum um aðgerðir og að taka ákvarðanir um þær í tengslum við alvarlega dýrasjúkdóma sem koma upp, auk þess að taka ákvarðanir um greiðslu bóta á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Nýti ráðherra heimild til setningar slíkra reglugerða er breytingin til þess fallin að auka fyrirsjáanleika og einfalda stjórnsýslu þegar upp kemur alvarlegur dýrasjúkdómur og verður tilgreint nánar í reglugerðum í hvaða tilvikum Matvælastofnun væri ætlað að taka stjórnsýslulegar ákvarðanir. Mun það bæta og auka skilvirkni stjórnsýslunnar að viðbrögð við dýrasjúkdómum séu fyrirsjáanleg, auk þess sem ákvarðanir Matvælastofnunar, sem teknar verða á grundvelli slíkra reglugerða, verða kæranlegar til ráðuneytisins. Tillagan er í samræmi við landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu, en þar er lagt til að stjórnsýsla við uppkomu riðuveiki og varnir gegn henni færist að mestu frá ráðuneytinu til Matvælastofnunar.
Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að ráðherra verði heimilt að setja ákvæði í reglugerð um flokkun landsvæða, bæja og starfsstöðva þar sem sérstakar ráðstafanir skulu gilda til að hefta útbreiðslu alvarlegra dýrasjúkdóma í samræmi við eðli viðkomandi sjúkdóms og faraldsfræðilegra þátta og að Matvælastofnun skuli birta flokkunina á vef sínum. Þannig geti ráðherra með setningu reglugerðar falið Matvælastofnun að skilgreina takmörkunarsvæði umhverfis staði þar sem sérstakar ráðstafanir skulu gilda í samræmi við eðli viðkomandi sjúkdóms. Slík landsvæði eru nefnd takmörkunarsvæði í nágrannalöndunum og oftast afmörkuð með kílómetraradíus frá þeim stað þar sem alvarlegur dýrasjúkdómur kemur upp, en einnig getur verið rétt að miða við landfræðilegar og faraldsfræðilegar aðstæður. Lögin skilgreina sóttvarnarsvæði m.a. sem landsvæði afmörkuð með varnarlínum, en meðal sauðfjárbænda og í stjórnsýslunni eru þessi sóttvarnarsvæði nefnd sauðfjárveikivarnarhólf. Landinu er skipt í 25 slík hólf með auglýsingu um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma, nr. 88/2018. Rétt þykir að viðhalda þessu fyrirkomulagi þar til heildarendurskoðun laganna fer fram. Engu að síður er mikilvægt að stjórnvöld geti skilgreint landsvæði, bæi eða starfsstöðvar ótengt sóttvarnarsvæðum þar sem sérstakar ráðstafanir skulu gilda til að hefta útbreiðslu alvarlegra dýrasjúkdóma í samræmi við eðli viðkomandi sjúkdóms og faraldsfræðilegra þátta. Þannig yrðu landsvæði, bæir og starfsstöðvar flokkuð eftir áhættu þegar upp kemur alvarlegur dýrasjúkdómur, þ.m.t. riðuveiki.
Í tilviki riðuveiki í sauðfé verður tilgreint í reglugerð hvernig staðið skuli að flokkun bæja og takmarkanir tilgreindar fyrir hvern flokk. Horfið verður frá víðtækum takmörkunum sem nú eru settar jafnt á alla bæi í sýktu sauðfjárveikivarnarhólfi, en þess í stað munu takmarkanir sem settar verða bæi byggjast á áhættumati sem felst í að mestar takmarkanir verða á riðubæjum, minni á áhættubæjum og minnst á bæjum sem hvorki eru riðu- né áhættubæir en eru þó í sama sauðfjárveikivarnarhólfi. Breytingunni er ætlað að styrkja lagastoð fyrir nauðsynlegri flokkun landsvæða, bæja og starfsstöðva þegar upp koma alvarlegir dýrasjúkdómar og er undirstaða fyrir nýrri nálgun í baráttunni gegn riðuveiki. Smitvarnir með tilheyrandi höftum verða þannig mismiklar á bæjum þó að þeir séu innan sama sóttvarnarsvæðis.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalla á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.
5. Samráð.
Landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu var til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-98/2024) frá 8. maí til 4. júní 2024 og bárust 17 umsagnir. Áform um lagasetningu voru ekki kynnt sérstaklega í samráðsgáttinni en fóru í innra samráð á fundi ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta og voru jafnframt sérstaklega kynnt dómsmálaráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Matvælastofnun og Bændasamtök Íslands. Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-54/2025) 3. mars 2025 og var veittur frestur til að koma umsögnum á framfæri til 12. mars 2025. Engar athugasemdir bárust á samráðstíma en ein umsögn barst að tímafresti loknum en hún varðaði ekki efni frumvarpsins.
6. Mat á áhrifum.
Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á bændur og Matvælastofnun. Miðað er við að ræktunarmarkmiðum samkvæmt landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu verði náð með jákvæðum aðgerðum, þ.e. með stuðningi, hvatningu og viðurkenningu. Nauðsynlegt er þó að heimilt sé að mæla fyrir um skyldu til að rækta sauðfé sem er ónæmt fyrir riðuveiki til að tryggja árangur. Fram til þessa hefur þátttakan í ræktun gegn riðuveiki farið fram úr björtustu vonum.
Með frumvarpinu er verið að leggja til að ráðherra geti, með reglugerð, falið Matvælastofnun að mæla fyrir um aðgerðir þegar upp kemur dýrasjúkdómur í stað þess að hann þurfi að fyrirskipa sérhverja aðgerð sjálfur á grundvelli 8. gr. laganna. Um er að ræða heimildarákvæði en verði það nýtt mun það fela í sér einföldun á stjórnsýslu. Samkvæmt gildandi lögum leggur Matvælastofnun til aðgerðir þegar riðuveiki kemur upp, eða aðrir alvarlegir dýrasjúkdómar, með því að senda ráðherra tillögu þar um. Í kjölfarið fyrirskipar ráðherra til hvaða ráðstafana skal grípa á grundvelli 8. gr. laganna til að útrýma eða hindra útbreiðslu, svo sem niðurskurðar, hreinsana o.fl. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, við uppkomu riðuveiki í sauðfé, annast Matvælastofnun allan undirbúning og framkvæmd niðurskurðar og förgun smitefna. Samhliða niðurskurði gerir ráðuneytið samning við ábúanda. Ráðuneytið er háð upplýsingum og faglegu mati Matvælastofnunar við gerð samningsins. Gangi breytingar í frumvarpi þessu eftir mun ráðherra vera heimilt að kveða á um í reglugerð að Matvælastofnun taki ákvörðun um niðurskurð og hvort og þá hvaða fé verði undanskilið niðurskurði, að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem verði tilgreindar í reglugerðinni. Matvælastofnun verði einnig falið að taka ákvörðun varðandi hreinsun, förgun lausamuna og ákvörðun bóta í kjölfar aðgerða. Þær ákvarðanir yrðu kæranlegar til ráðuneytisins enda um stjórnvaldsákvarðanir Matvælastofnunar að ræða. Núverandi fyrirkomulag er tímafrekt og þungt í vöfum. Ákvarðanir varðandi riðumál hafa ekki verið kæranlegar til æðra stjórnvalds en það verður mögulegt gangi breytingarnar eftir. Það eykur skilvirkni stjórnsýslunnar að þetta sé á hendi einnar stofnunar en ekki bæði ráðuneytis og stofnunarinnar. Þannig munu bændur aðeins þurfa að hafa samskipti við eina stofnun í stað tveggja. Verði frumvarpið að lögum og ráðherra nýti heimildir til setningar reglugerða mun stjórnsýslan að mestu leyti flytjast til Matvælastofnunar auk þess sem stofnuninni er ætlað að annast alla umsýslu með landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu sem var samþykkt 8. júlí 2024 og er að fullu fjármögnuð í fjárlögum og fjármálaáætlun.
Breytingarnar munu ekki hafa áhrif á dýr umfram áhrif ræktunar annarra erfðaeiginleika í dýrum. Við hraða innleiðingu verndandi erfðaeiginleika gegn riðuveiki er þó hætta á að erfðafjölbreytileiki í íslenska sauðfjárstofninum glatist, en á því er tekið í útgefinni landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu. Í landsáætluninni er gert ráð fyrir hraðri ræktun á áhættubæjum og áhættusvæðum, sem öll eru á Norðurlandi vestra, en hægari ræktun annars staðar á landinu. Þetta er gert til að verja sauðfjárstofninn á áhættusvæðunum á sem skemmstum tíma en varðveita erfðafjölbreytileikann annar staðar á landinu með hægari ræktun.
Með frumvarpinu er einnig verið að veita Matvælastofnun heimild til þess að birta opinberlega upplýsingar um sjúkdómastöðu bæja. Nú þegar eru birtar upplýsingar um staðfesta dýrasjúkdóma á vef Matvælastofnunar enda mikilvægt að upplýsa bændur og almenning um hvar alvarlegir smitandi dýrasjúkdómar hafi greinst svo að unnt sé að gera viðeigandi ráðstafanir til að verjast smiti. Með frumvarpinu er verið að setja skýra lagastoð fyrir birtingu upplýsinga um alvarlega dýrasjúkdóma.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld umfram þegar samþykktar fjárveitingar í tengslum við landsáætlun um útrýmingu á riðu, en breytingarnar sem frumvarpið felur í sér munu stuðla að skilvirkari stjórnsýslu sem gæti á móti dregið úr kostnaði til lengri tíma litið.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Þá er einnig lagt til að ráðherra geti sett ákvæði í reglugerð sem heimili Matvælastofnun að flokka landsvæði óháð sóttvarnarsvæðum eins og þau eru skilgreind í lögunum, bæi og starfsstöðvar þar sem sérstakar ráðstafanir skuli gilda til að hefta útbreiðslu alvarlegra dýrasjúkdóma í samræmi við eðli viðkomandi sjúkdóms og faraldsfræðilegra þátta. Gengið er út frá að Matvælastofnun hafi skýra heimild til að nafngreina viðkomandi bæ eða starfsstöð og áhættuflokkun þeirra og skilgreina landsvæði umhverfis staðinn þar sem sérstakar ráðstafanir skuli gilda í samræmi við eðli viðkomandi sjúkdóms og birta opinberlega. Slík landsvæði eru nefnd takmörkunarsvæði í nágrannalöndum okkar og oftast afmörkuð með kílómetraradíus frá þeim stað þar sem alvarlegur dýrasjúkdómur kemur upp, en einnig getur verið rétt að miða við landfræðilegar og faraldsfræðilegar aðstæður.
Um 2. gr.
Um 3. gr.
Heimild til að takmarka eða banna flutninga þarf að vera ótvíræð og nægjanlega víðtæk í því augnamiði að koma í veg fyrir stórfellt tjón af völdum dýrasjúkdóma og standa vörð um velferð dýra með því að hindra að þau smitist. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að fleiri dýr smitist af sjúkdómum sem hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir með skjótum og ströngum takmörkunum á flutningum alls þess sem getur dreift smiti.
Um 4. gr.
Um 5. gr.
Um 6. gr.
Með ræktun sauðfjár með verndandi arfgerðir eða mögulega verndandi arfgerðir gegn riðuveiki er skynsamlegt að gefa bændum möguleika á að flytja fé sem ber þessar arfgerðir yfir varnarlínur, óháð því hvort flutningurinn tengist endurnýjun bústofns eftir niðurskurð. Ákvæðið stuðlar að hraðari útbreiðslu verndandi arfgerða, svo sem með flutningi arfhreinna hrúta yfir varnarlínur.
Um 7. gr.
Um 8. gr.