Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 258 — 227. mál.
Stjórnartillaga.
Tillaga til þingsályktunar
um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025–2028.
Frá dómsmálaráðherra.
Alþingi ályktar skv. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025–2028:
A. KYN, ÁHRIF OG ÞÁTTTAKA
Á tímabilinu 2025–2028 verði verkefni úr þessari framkvæmdaáætlun styrkt. Um verði að ræða samstarfsverkefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands eða ráðuneyta og ríkisstofnana, félagasamtaka eða háskólasamfélagsins þar sem tilgangurinn sé að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu á sviði jafnréttismála eða innleiða tillögur sem megi telja til afraksturs aðgerða í þessari framkvæmdaáætlun. Dómsmálaráðuneytið auglýsi eftir umsóknum frá ráðuneytum og úthluti styrkjum að undangengnu faglegu mati skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 5 og samþætting þess við önnur heimsmarkmið.
2. Samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum verði markvisst kynntur. Útbúið verði kynningarmyndband um samninginn ætlað almenningi á íslensku, ensku og á auðskildu máli. Þá verði haldinn kynningarfundur um samninginn með samtökum kvenna sem standa vörð um réttindi kvenna.
Markmið aðgerðarinnar verði að auka vitund um réttindi sem samningurinn á að tryggja.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samráði við Jafnréttisstofu.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.
3. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur sveitarfélaga.
Jafnréttisstofa haldi námskeið og veiti fræðslu um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur sveitarfélaga á Íslandi. Fræðsluefni verði aðgengilegt á vef Jafnréttisstofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga í framhaldinu.
Markmið aðgerðarinnar verði að kynna þau verkfæri sem í boði eru þegar kemur að kynjasamþættingu og kenna nýtingu þeirra við stefnumótun og verklagsþróun í þágu sveitarfélaga og íbúa þeirra.
Tímaáætlun: 2025–2027.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið og Jafnréttisstofa.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.
4. Hugræn vinna kynjanna.
Unnið verði að því að fanga kynjamynstur hugrænnar vinnu á Íslandi. Unnin verði eigindleg rannsókn á hugrænni vinnu með viðtalsviðbót við megindlega tímarannsókn sem Hagstofa Íslands gerði fyrir forsætisráðuneyti. Í eigindlegu rannsókninni verði rýnt betur í niðurstöður megindlegu rannsóknarinnar sem endurspegla hugræna vinnu og ósýnilega verðmætasköpun hennar.
Markmið aðgerðarinnar verði að fanga umfang hugrænnar vinnu kynjanna á Íslandi.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Háskóla Íslands.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5 og 5.4.
5. Nýskapandi leiðir við fjármögnun jafnréttisverkefna ríkisins.
Unnið verði að nýskapandi leiðum við fjármögnun jafnréttisverkefna ríkisins með útgáfu sjálfbærra kynjaðra skuldabréfa um fjármögnun verkefna sem stuðla að kynjajafnrétti.
Markmið aðgerðarinnar verði að stuðla að fjárfestingartækifærum sem stuðla að sjálfbærni og jafnrétti.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.
6. Jafnrétti í nýsköpun.
Unnið verði að því að bæta stöðu kvenna í nýsköpun. Á fyrri hluta tímabils framkvæmdaáætlunarinnar verði gerð heildstæð greining á stöðu kvenna í nýsköpunarumhverfinu. Leitast verði við að greina ástæður þess að stöðu kvenna í fjármögnunarumhverfi nýsköpunar er ábótavant og af hverju hlutur kvenna er minni en karla þegar kemur að fjármögnun verkefna og fjárfestingu í sprotafyrirtækjum. Þetta á sérstaklega við um tæknigreinar. Kynja- og jafnréttissjónarmið verði samþætt í endurskoðun á stoðkerfi nýsköpunar, mati á rannsóknaumhverfi og mati á rannsóknum. Sett verði upp mælaborð nýsköpunar og nýsköpunargátt þar sem hægt verði að kalla fram kyngreinda tölfræði.
Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka og bæta stöðu kvenna í nýsköpunarumhverfinu.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið í samstarfi við Vísinda- og nýsköpunarráð.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 9.5 og 5.c.
7. Jafnrétti í íþróttaumfjöllun í fjölmiðlum.
Unnið verði að því að jafna hlut kynjanna í íþróttaumfjöllun. Birtingarmynd kvenna í íþróttaumfjöllun í fjölmiðlum verði metin og hvort þörf sé á úrbótum til að styrkja stöðu kvenna í íþróttaumfjöllun og auka umfjöllun um íþróttakonur.
Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka stöðu íþróttakvenna í íþróttaumfjöllun.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.b, 5.c og 10.3.
8. Jafnrétti í fjölmiðlaumfjöllun.
Metið verði hvort umfjöllun í fjölmiðlum sé í samræmi við 26. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, þar sem segir að fjölmiðlum beri að gæta þess að sjónarmið jafnt karla og kvenna komi fram. Skoðað verði hvort fjölmiðlaumfjöllun sé almennt í samræmi við stöðu kvenna í samfélaginu. Leiðir til að auka sýnileika kvenna í fjölmiðlun verði greindar ef þörf þykir.
Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka stöðu kvenna í fjölmiðlaumfjöllun og stuðla að nauðsynlegum úrbótum ef ástæða þyki til.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.b, 5.c og 10.3.
9. Jafnrétti og gervigreind.
Samhliða stefnumótun og undirbúningi lagasetningar stjórnvalda um gervigreind verði áhrif þessarar tæknibyltingar á jafnréttismál metin, bæði tækifæri sem í tækninni felast en einnig greindar áskoranir hennar á jafnrétti. Unnin verði úttekt þar sem litið verði til mögulegra áhrifa gervigreindar á jafnrétti á breiðum grundvelli. Markmið úttektar verði að auka getu hins opinbera til að takast á við hættu á hlutdrægni og mismunun í ákvarðanatökuferlum sem byggjast á eða hagnýta gervigreind, og benda stjórnvöldum á leiðir til úrbóta. Þar sem gervigreindartækni er enn í stöðugri þróun verði verkefninu skipt í tvo hluta:
a. Yfirlit á breiðum grundvelli.
b. Sérstakar tillögur til stjórnvalda.
Markmið aðgerðarinnar verði að meta áhrif gervigreindar á jafnrétti.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisstofu.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.b.
B. KYNJUÐ TÖLFRÆÐI OG MÆLABORÐ
Útbúið verði rafrænt mælaborð sem innihaldi þá kyngreindu tölfræði sem til er og verði mælaborð vistað á vefsvæði dómsmálaráðuneytis og Jafnréttisstofu.
Markmið aðgerðarinnar verði að kyngreindri tölfræði verði safnað saman á einn stað og þær tölur verði reglubundið uppfærðar.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa í samstarfi við Hagstofuna og aðra hagaðila.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.
11. Þróun mælikvarða í jafnréttismálum.
Ýtt verði úr vör tilraunaverkefni um þróun mælikvarða og söfnun gagna til að meta framgang jafnréttismála á Íslandi í tengslum við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, og mismunarlöggjöfina frá 2018.
Markmið aðgerðarinnar verði að þróa mælikvarða um jafnrétti.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Hagstofuna.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.
12. Mælaborð um jafnrétti á sveitarstjórnarstigi.
Þróað verði mælaborð fyrir tölfræði á sviði jafnréttismála á sveitarstjórnarstiginu í anda sambærilegs Evrópuverkefnis. Mælaborðið feli í sér myndræna framsetningu á breytum eins og hlutfalli kynjanna í sveitarstjórnum, nefndum og ráðum, upplýsingum um hlutfall sveitarfélaga með jafnlaunavottun og jafnréttisáætlanir, svo dæmi séu nefnd. Mælaborðið verði sérstaklega kynnt fyrir sveitarstjórnum í því skyni að mynda grundvöll til aðgerða sem stuðli að auknu jafnrétti.
Markmið aðgerðarinnar verði að stuðla að auknu jafnrétti innan sveitarfélaga.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofu og Hagstofu Íslands.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.
13. Söfnun kyngreindra tölfræðigagna í landbúnaði.
Farið verði í markvissa söfnun á kyngreindum tölfræðigögnum varðandi stöðu kynjanna í landbúnaði. Skilgreint verði umfang og eðli þeirra gagna sem þörf er á að séu til staðar svo að hægt sé að leggja raunhæft mat á stöðu kynjanna innan greinarinnar. Í kjölfarið verði lagðar til leiðir til söfnunar nauðsynlegra gagna sem nýtast stjórnvöldum við samþættingu kynjasjónarmiða við ákvarðanatöku og stefnumótun í landbúnaði.
Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka stöðu kvenna í landbúnaði.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Atvinnuvegaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5, 8 og 10.
14. Söfnun kyngreindra tölfræðigagna í sjávarútvegi.
Farið verði í markvissa söfnun á kyngreindum tölfræðigögnum varðandi stöðu kynjanna í sjávarútvegi og fiskeldi. Skilgreint verði umfang og eðli þeirra gagna sem þörf er á að séu til staðar svo að hægt sé að leggja raunhæft mat á stöðu kynjanna innan greinanna. Í kjölfarið verði lagðar til leiðir til söfnunar nauðsynlegra gagna sem nýtast stjórnvöldum við samþættingu kynjasjónarmiða við ákvarðanatöku og stefnumótun í sjávarútvegi.
Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka stöðu kvenna í sjávarútvegi.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Atvinnuvegaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5, 8 og 10.
15. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða við úthlutanir úr Loftslags- og orkusjóði.
Unnið verði að greiningu á fyrirliggjandi kyngreindum gögnum í tengslum við styrkveitingar Loftslags- og orkusjóðs til kaupa einstaklinga á rafbílum, með sérstakri áherslu á að meta hvaða áhrif styrkveitingar hafi haft á jafnrétti kynjanna.
Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka áhrif styrkveitinganna á jafnrétti kynjanna.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið í samstarfi við Loftslags- og orkusjóð/Umhverfis- og orkustofnun.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 7 og 5.
C. JAFNRÉTTI Á VINNUMARKAÐI OG KYNBUNDINN LAUNAMUNUR
Unnið verði að þróun og eftirfylgni virðismatskerfis í samræmi við yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga í mars 2024. Stýrihópur um virðismat starfa í þágu launajafnréttis stýri vinnu um þróun og innleiðingu kerfisins sem byggist á fyrri tillögum aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Í samræmi við yfirlýsinguna liggi nýtt kerfi fyrir eigi síðar en í árslok 2026.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.4, 5.5, 5.a, 5.c, 8.8, 8.7, 8.8, 10.3 og 10,4.
17. Jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfesting.
Unnið verði áfram að innleiðingu jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar. Samhliða verði reynsla af framkvæmd jafnlaunakerfisins frá því að lög um jafnlaunavottun tóku gildi metin.
Unnið verði að framkvæmd og eftirfylgni eftirfarandi verkefna:
a. Jafnréttisstofa safni og birti upplýsingar á vefsvæði stofnunarinnar um fyrirtæki og stofnanir sem hlotið hafa jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu.
b. Áfram verði lögð áhersla á að kynna staðfestingarleið laga nr. 150/2020 sem kveður á um að fyrirtæki og stofnanir með 25–49 starfsmenn geti valið á milli þess að fá jafnlaunastaðfestingu eða jafnlaunavottun.
c. Dómsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa vinni sameiginlega að greiningu á því hvernig hægt sé að bæta jafnlaunakerfið með hliðsjón af fyrirliggjandi reynslu.
d. Jafnréttisstofa skili skýrslu til dómsmálaráðuneytis tvisvar á gildistíma framkvæmdaáætlunar um framfylgd laganna ásamt mati á því hvernig til hafi tekist að framfylgja lögunum. Með skýrslunum fylgi yfirlit um fyrirtæki og stofnanir sem hafi:
. innleitt jafnlaunastaðalinn og fengið jafnlaunavottun,
. sótt um og fengið jafnlaunastaðfestingu.
Markmið aðgerðarinnar verði að öll fyrirtæki og stofnanir sem heyra undir lögin öðlist vottun eða eftir atvikum jafnlaunastaðfestingu. Jafnframt verði framfylgd laganna metin og lagaákvæði og reglur endurskoðaðar.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 8.5, 8.8, 16.5, 16.10 og 16.b.
18. Rannsókn á launamun kynjanna.
Á tímabili framkvæmdaáætlunarinnar verði gerð rannsókn á launamun karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við Hagstofu Íslands.
Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka kynbundinn launamun og meta árangur af starfi stjórnvalda á launamun karla og kvenna.
Tímaáætlun: 2028.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Hagstofu Íslands.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 8.5, 8.8, 16.5, 16.10 og 16.b.
19. Rannsókn á launamun innfæddra kvenna og innflytjendakvenna.
Rannsókn fari fram á kynbundnum launamun milli innfæddra kvenna og innflytjendakvenna og mismunandi stöðu þeirra á vinnumarkaði, bæði í samanburði við karla í sömu stöðu og aðra minnihlutahópa.
Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka hvort munur sé á stöðu innfæddra kvenna og innflytjendakvenna og hvort síðarnefndi hópurinn verði fyrir margþættri mismunun á vinnumarkaði.
Tímaáætlun: 2026–2027.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 8.5 og 8.8.
D. KYNBUNDIÐ OG KYNFERÐISLEGT OFBELDI
Lokið verði við landsáætlun um framkvæmd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningsins) frá 2011, sbr. 10. gr. samningsins sem kveður á um ábyrgð hins opinbera á samræmingu, framkvæmd, eftirfylgni og mati á aðgerðum og ráðstöfunum vegna samningsskuldbindinga. Landsáætlunin hafi jafnframt að markmiði að skapa heildaryfirsýn yfir innleiðingu laga, stjórnvaldsaðgerðir og aðrar ráðstafanir, þ.m.t. gagnasöfnun og rannsóknir, sbr. 11. gr. samningsins. Samhliða verði unnið að eftirfylgni fyrstu fyrirtöku Íslands árið 2021 hjá eftirlitsnefnd samningsins með framkvæmd skuldbindinga hans. Landsáætlunin verði unnin í samráði við önnur ráðuneyti, ríkisstofnanir, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra hlutaðeigandi og feli m.a. í sér eftirfarandi aðgerðir:
a. Leitað verði fyrirmynda í landsáætlunum annarra aðildarríkja Evrópuráðsins.
b. Mótuð verði tímasett landsáætlun með markmiðum, aðgerðum, árangursvísum og ábyrgðaraðilum.
c. Metin verði framfylgni ákvæða samningsins hér á landi með tilliti til löggjafar og annarra ráðstafana.
d. Unnin verði stöðuskýrsla um framkvæmd samningsins árlega.
e. Staðið verði fyrir kynningu og fræðslu á samningnum og landsáætlun á vef Stjórnarráðsins og víðar.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.2, 5.3, 5.6, 10.2, 10.3, 10.4, 16.1, 16.2, 16.3, 16.6 og 16.10.
21. Vitundarvakning um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofeldi (Istanbúlsamninginn).
Unnið verði að vitundarvakningu um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamninginn) frá 2011, sbr. 13. gr. samningsins.
Markmið aðgerðarinnar verði að auka vitund og skilning almennings um mismunandi birtingarmyndir ofbeldis sem falla undir gildissvið samningsins.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.2, 5.3, 5.6, 16.1, 16.2, 16.3, 16.6 og 16.10.
22. Áfallamiðuð nálgun í réttarvörslukerfinu og þarfir kvenna í fangelsum.
Allt starfsfólk Fangelsismálastofnunar fái fræðslu og þjálfun í áfallamiðaðri nálgun til að koma til móts við mismunandi þarfir kvenna og karla sem eru vistuð í fangelsum með það að leiðarljósi að auka öryggi, hvort sem horft er til samskiptahátta, í nærumhverfinu eða þegar út í samfélagið er komið. Sérhæfðir aðilar verði fengnir inn í fangelsin til að sinna innleiðingu á áfallamiðaðri nálgun, fræðslu, þjálfun og framþróun.
Markmið aðgerðarinnar verði að auka þekkingu starfsfólks Fangelsismálastofnunar á mismunandi áhrifum og afleiðingum áfalla á kynin svo að hægt sé að skapa umhverfi sem auki öryggistilfinningu þeirra sem eru í fangelsum.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Fangelsismálastofnun.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 3, einkum 3.5, 4 og 16, einkum 16.1.
23. Karlar og kynbundið ofbeldi.
Skipaður verði starfshópur um karla og jafnrétti sem skoði sérstaklega hlutverk karla í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Verkefnið taki m.a. til sambandsins milli kynbundins og kynferðislegs áreitis og ofbeldis annars vegar og hugmynda um karlmennsku, mörk og samþykki hins vegar. Starfshópurinn taki mið af samþykktum leiðbeiningum Evrópuráðsins um hlutverk karla og drengja í jafnréttismálum og forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi.
Markmið aðgerðarinnar verði að finna leiðir til að virkja karla frekar í baráttunni gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisstofu og aðra hagsmunaaðila.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 3, 4, 5, einkum 5.2, og 16, einkum 16.1.
24. Heiðursofbeldi og neikvætt félagslegt taumhald.
Fræðsla um einkenni og birtingarmyndir heiðursofbeldis og neikvæðs félagslegs taumhalds verði efld meðal starfsmanna í félagsþjónustu, lögreglu, innan skóla og frístundasviðs, heilbrigðiskerfisins og annarra viðeigandi aðila. Unnið verði fræðsluefni og því miðlað meðal framangreindra aðila.
Markmið aðgerðarinnar verði að efla þekkingu á birtingarmyndum neikvæðs félagslegs taumhalds og heiðursofbeldis og hvernig bregðast skuli við því.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Félags- og -húsnæðismálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.3 og 16.1.
25. Þjónustuúrræði fyrir gerendur heimilis- og kynferðisofbeldis.
Kortlögð verði þau úrræði sem standa gerendum heimilis- og kynferðisofbeldis til boða í samanburðarlöndum með það að markmiði að fjölga og bjóða upp á fjölbreyttari úrræði fyrir gerendur kynbundins ofbeldis.
Markmið aðgerðarinnar verði að skoða hvernig fjölga megi úrræðum fyrir gerendur kynbundins ofbeldis.
Tímaáætlun: 2026–2027.
Ábyrgð: Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.2 og 16.1.
26. Innleiðing verklags í heilbrigðisþjónustu til handa þolendum ofbeldis.
Unnið verði mat á árangri á verklagi sem innleitt var í heilbrigðiskerfinu við móttöku þolenda heimilisofbeldis. Teknar verði saman tölfræðiupplýsingar úr rafrænu skráningarformi fyrir heimilisofbeldismál og kallað eftir upplifun heilbrigðisstarfsmanna af verklaginu.
Markmið aðgerðarinnar verði að fá upplýsingar um birtingarmyndir heimilisofbeldis í heilbrigðiskerfinu á Íslandi og meta reynslu af nýju verklagi.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.2 og 16.1.
27. Kynferðisleg áreitni innan íslenskrar ferðaþjónustu.
Unnin verði greining á kynferðislegri áreitni gagnvart konum sem starfa í ferðaþjónustunni og lagt mat á hvers vegna kynferðisleg áreitni er jafn algeng og raun ber vitni innan starfsgreinarinnar. Skoðaðar verði leiðir til að draga úr kynferðislegri áreitni og auka öryggi kvenna sem starfa innan ferðaþjónustunnar, hvort sem það er með lagabreytingu, fræðslu, vinnufyrirkomulagi eða öðrum hætti.
Markmið aðgerðarinnar verði að vinna gegn kynferðislegri áreitni og auka öryggi kvenna sem starfa innan ferðaþjónustunnar.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Atvinnuvegaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.2, 10.3 og 16.1.
E. JAFNRÉTTI Í MENNTUN OG ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSSTARFI
Til þess að tryggja að jafnréttisfræðsla sé fléttuð inn í kennslu skóla á öllum skólastigum, sbr. 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, verði gæðaviðmið við mat á starfi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfi grunnskóla endurskoðuð. Þannig verði stuðlað að markvissri jafnréttisfræðslu samkvæmt aðalnámskrám. Jafnframt verði gert ráð fyrir úttekt á jafnréttisfræðslu í þriggja ára áætlun mennta- og barnamálaráðuneytis.
Markmið aðgerðarinnar verði að flétta jafnréttisfræðslu inn í kennslu á öllum skólastigum.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisstofu.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 4 og 5.
29. Þekking starfsfólks í framhaldsskólum á sviði kynja- og jafnréttisfræða.
Þekking kennara, stjórnenda og annars starfsfólks í framhaldsskólum á kynja- og jafnréttisfræði verði efld, m.a. til að tryggja samþættingu innan skólanna og færni kennara til að kenna slík fög og flétta inn í aðra kennslu og starfsemi skólanna.
Markmið aðgerðarinnar verði að auka þekkingu á kynja- og jafnréttisfræðum meðal kennara, stjórnenda og annars starfsfólks í öllum framhaldsskólum á landinu.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið og Háskóla Íslands.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 5, 10 og 16.
30. Brotthvarf drengja úr námi og nemenda með annað móðurmál en íslensku.
Ástæður brotthvarfs úr námi á framhaldsskólastigi verði skoðaðar, sérstaklega meðal drengja og nemenda með annað móðurmál en íslensku. Samhliða verði niðurstöður rannsókna og önnur þekking um orsakir brotthvarfs nýttar til stefnumótunar, m.a. til að móta markvissari úrræði gegn brotthvarfi úr námi.
Markmið aðgerðarinnar verði að draga úr brotthvarfi drengja og nemenda með annað móðurmál en íslensku á framhaldsskólastigi.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 4.1, 4.3, 4.5, 4.6, 4.c og 5.1.
31. Uppfærsla á gátlista Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.
Gátlisti fyrir námsefnishöfunda verði yfirfarinn og uppfærður svo að hann henti fyrir öll skólastig og þjóni betur breyttu samfélagi. Úthlutun úr Þróunarsjóði námsgagna taki mið af því hvort námsefni hafi verið unnið með hliðsjón af uppfærðum gátlista Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Einnig verði námsefni sem unnið hefur verið með hliðsjón af gátlista sem tengist jafnréttis- og kynjafræðum eftir skólastigum gert aðgengilegt með rafrænum hætti.
Markmið aðgerðarinnar verði að tryggja að allt nýtt námsefni og námsefni sem tekið er til endurskoðunar taki tillit til fólks af öllum kynjum og fjölbreytileikans.
Tímaáætlun: 2025–2027.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 4 og 5.
32. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi (EKKO) í framhaldsskólum.
Unnið verði að vitundarvakningu um jafnréttismál í framhaldsskólum með eflingu fræðslu og þekkingar á jafnrétti og EKKO-málum.
Markmið aðgerðarinnar verði að auka þekkingu á EKKO-málum í framhaldsskólum.
Tímaáætlun: 2025–2027.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 4, 5 og 10.
33. Jafnrétti í íþróttastarfi.
Unnið verði að virkri þátttöku í sameiginlegu verkefni Evrópusambandsins og Evrópuráðsins um aukið jafnrétti í íþróttum.
Markmið aðgerðarinnar verði að marka farveg stefnumótunar í jafnréttismálum á málefnasviði íþrótta.
Tímaáætlun: 2025–2027.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.5 og 16.7.
34. Jafnrétti í stefnumótun í íþróttum.
Staðið verði fyrir opnum samráðsfundi um jafnrétti í íþróttum í samráði við helstu hagaðila íþróttastarfs á Íslandi. Við vinnuna verði jafnframt tekið mið af skoðunum og sjónarmiðum barna og ungmenna.
Markmið aðgerðarinnar sem felst í opnum fundum styðji við stefnumótun og jafnrétti í íþróttastarfi, sbr. aðgerð 33.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 5 og 5.c.
35. Endurskoðun íþróttalaga með tilliti til jafnréttis.
Unnið verði að heildarendurskoðun íþróttalaga, nr. 64/1998. Meðal fyrirhugaðra breytinga verði ný ákvæði um jafnrétti í íþróttastarfi, sbr. 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Markmið aðgerðarinnar verði að auka vægi jafnréttismála í íþróttastarfi.
Tímaáætlun: 2025–2026.
Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3 og 5.
36. Jöfn kynjahlutföll og fjölbreyttur nemendahópur á háskólastigi.
Unnið verði að því að jafna kynjahlutföll nemenda á háskólastigi og að nemendur á háskólastigi endurspegli fjölbreytileika samfélagsins. Ástæður kynjahalla verði greindar og samhliða ráðist í markvisst átak til að miðla upplýsingum til þeirra hópa sem ekki skila sér í háskólanám ásamt öðrum aðgerðum til að ná til hópanna. Einnig verði metin kynjaáhrif annars konar námsmats en stúdentsprófs til grundvallar inngöngu í háskóla.
Markmið aðgerðarinnar verði að jafna kynjahlutföll nemenda á háskólastigi.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 4.3, 4.4 og 4.5.
F. ALÞJÓÐASTARF
Eflt verði alþjóðlegt málsvarastarf og aðgerðir Íslands á sviði kynjajafnréttismála. Byggt verði á árangri undanfarinna ára með það að sérstöku markmiði að sporna við víðtæku bakslagi á sviði kynjajafnréttismála. Verkefnið feli í sér eftirfarandi þætti:
a. Samráð og samstarf við líkt þenkjandi ríki, alþjóðastofnanir og félagasamtök um eflingu kynjajafnréttis og þátttöku í aðgerðabandalögum á því sviði.
b. Stutt verði við sérstök jafnréttisverkefni í þróunarríkjum í samræmi við áherslur í stefnu Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu 2024–2028.
c. Sinnt verði málsvarastarfi og verkefnum sem miða að því að fá karlmenn og drengi að jafnréttismálum, m.a. með skipulagningu viðburða, svo sem rakarastofuráðstefna á vettvangi alþjóðastofnana og víðar.
d. Áhersla verði lögð á kynjajafnrétti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á meðan Ísland á sæti í ráðinu 2025–2027.
e. Áhersla verði lögð á upplýsingamiðlun um jafnréttismál á Íslandi í gegnum vefmiðla og störf utanríkisþjónustunnar.
Markmið aðgerðarinnar verði að efla málsvarastarf á alþjóðavettvangi í þágu kynjajafnréttis.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.
38. Fjórða landsáætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi.
Mótuð verði fjórða landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi. Verkefnið verði byggt á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1.325 frá árinu 2000 og tengdum ályktunum sem kveða m.a. á um framlag kvenna til öryggis og friðar í heiminum.
Markmið verkefnisins verði að vinna fjórðu landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi.
Tímaáætlun: 2025.
Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5 og 16.
39. Aukin kynjasamþætting og efnahagsleg valdefling kvenna í alþjóðaviðskiptum.
Unnið verði að því að móta áherslur um áframhaldandi framkvæmd og eftirfylgni með kynjasamþættingu og efnahagslegri valdeflingu kvenna í alþjóðaviðskiptum. Verkefnið feli í sér eftirfarandi þætti:
a. Kortlagningu á starfi annarra ríkja varðandi efnahagslega valdeflingu kvenna til að draga lærdóm af hér á landi.
b. Greiningu á því hvaða upplýsingar og kyngreindu gögn vanti til þess að móta markmið og mælikvarða.
c. Samráð við konur í atvinnulífinu um hvernig megi efla þátttöku kvenna í alþjóðaviðskiptum.
Markmið verkefnisins verði að kortleggja og greina leiðir til þess að móta áherslur þegar kemur að valdeflingu kvenna í alþjóðaviðskiptum.
Tímaáætlun: 2025–2028.
Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5 og 8.
Greinargerð.
Tillagan var jafnframt unnin í samráði við Jafnréttisstofu og kynnt í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-78/2024). Alls bárust sex umsagnir, frá byggðarráði sveitarfélagsins Skagafjarðar, Alþýðusambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Samtökum atvinnulífsins og tveimur einstaklingum sem sendu sameiginlega umsögn. Umsagnirnar leiddu til breytinga í einu tilviki en verða að öðru leyti hafðar til hliðsjónar við framkvæmd áætlunarinnar.
Á tímabilinu 2025–2028 verða verkefni úr þessari framkvæmdaáætlun kynjajafnréttismála styrkt um 48 millj. kr., 12 millj. kr. á ári. Á undanförnum árum hefur upphæðin verið 10 millj. kr. árlega. Verkefnin eru ýmist samstarfsverkefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands eða ráðuneyta og ríkisstofnana, félagasamtaka eða háskólasamfélagsins þar sem tilgangurinn er að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu á sviði jafnréttismála eða innleiða tillögur sem telja má til afraksturs aðgerða í þessari framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Dómsmálaráðuneytið mun auglýsa eftir umsóknum frá ráðuneytum og úthluta styrkjum að undangengnu faglegu mati skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála. Þá er gert ráð fyrir fjármögnun einstakra verkefna innan ramma ráðuneyta.
Fyrstu almennu lögin um jafnrétti kvenna og karla tóku gildi árið 1976, lög um jafnrétti kvenna og karla, nr. 78/1976. Síðan þá hefur jafnréttislöggjöfin verið endurskoðuð fimm sinnum (1985, 1991, 2000, 2008 og 2020) í samræmi við breytingar í samfélaginu og alþjóðlega þróun. Fyrsta framkvæmdaáætlunin í jafnréttismálum var lögð fram í desember 1986.
Núgildandi jafnréttislög, lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, voru samþykkt á Alþingi í árslok 2020. Samdægurs voru samþykkt lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, en þau lúta að skipulagi stjórnsýslu á sviði jafnréttismála og ná m.a. til starfa Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála.
Með setningu laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, var heimiluð hlutlaus skráning kyns í þjóðskrá. Breytingin fól í sér að þrír möguleikar urðu á kynskráningu í stað tveggja áður, þ.e. karl, kona og hlutlaus kynskráning. Með lögunum var einnig fólki frá 15 ára aldri heimilað að njóta óskoraðs réttar til að breyta skráningu kyns síns í þjóðskrá.
Nýju jafnréttislögin frá 2020 taka mið af þessum nýja veruleika og með þeim er í fyrsta skipti í íslenskri kynjajafnréttislöggjöf gert ráð fyrir þremur möguleikum á kynskráningu. Þar af leiðandi er það nú í fyrsta skipti sem framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum tekur einnig til fólks með hlutlausa kynskráningu.
Með nýju jafnréttislögunum frá 2020 var einnig í fyrsta skipti kveðið á um skýrt bann við fjölþættri mismunun. Með því er átt við þegar einstaklingi er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Framangreindri breytingu var ætlað að hafa þau áhrif að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kyni, kynþætti og þjóðernisuppruna, fötlun, kynhneigð o.fl. Með þessu var einstaklingum sem telja sér mismunað á grundvelli fjölþættrar mismununar veitt aukin réttarvernd. Dæmi um slík tilvik væri ætlað brot gegn fatlaðri konu af tilteknum kynþætti. Framkvæmdaáætlun þessi tekur mið af þessu.
Í ljósi allra framangreindra lagabálka sem varða jafnrétti á einhvern hátt er rétt að árétta að þegar vísað er til jafnréttislaga í framkvæmdaáætlun þessari er átt við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.
Frá upphafi árs 2019 voru jafnréttismál vistuð í forsætisráðuneyti en frá 1. mars 2025 heyra jafnréttismál undir dómsmálaráðuneyti, þar á meðal lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um stjórnsýslu jafnréttismála, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, lög um kynrænt sjálfræði, Jafnréttisstofa, kærunefnd jafnréttismála og Jafnréttissjóður Íslands.
Margt hefur áunnist á undanförnum árum í jafnréttismálum á Íslandi. Litið er til Íslands á alþjóðavettvangi varðandi löggjöf um jafnréttismál, áherslu stjórnvalda á að sinna frumkvæðiskyldu á sviði jafnréttismála og varðandi þann árangur sem löggjöf og stefnumótun hefur skilað í jafnréttismálum. Til framfaraskrefa má nefna þau markvissu skref sem tekin hafa verið til að uppræta kynbundinn launamun, m.a. með löggjöf um jafnlaunavottun, verkefni um virðismat starfa í þágu launajafnréttis og reglulegum rannsóknum á launamun kynjanna, nánast jöfn hlutföll kvenna og karla sem kjörinna fulltrúa og ný lög um fæðingarorlof sem hafa leitt til þess að fjöldi feðra tekur fæðingarorlof sem leiðir af sér jafnari stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Kynjuð fjárlagagerð hefur verið fest í sessi við gerð fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps. Kerfisbundnar aðgerðir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi hafa leitt af sér umbætur í meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, bætt löggjöf og auknar fjárveitingar til málaflokksins hafa leitt til sterkari réttarstöðu brotaþola, bættrar þjónustu við þolendur og eflingar forvarna og fræðslu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.
Kynjuð fjárlagagerð var lögfest með lögum um opinber fjármál sem tóku gildi árið 2016. Til þess að mæta ákvæði jafnréttislaga um kynjasamþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla opinbera stefnumótun og áætlanagerð og ákvæði laga um kynjaða fjárlagagerð við gerð fjárlaga hefur verið unnið mikið og metnaðarfullt starf innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í fjárlagafrumvarpi hvers árs er fjallað um áhrif ráðstafana á tekju- og gjaldahlið á jafnrétti, þar að auki er fjallað um kynjaða fjárlagagerð í fjármálaáætlun ríkisins til fimm ára, þá hafa flest ráðuneyti sett sér jafnréttismarkmið í fjármálaáætlun sem fylgt er eftir í fjárlagafrumvarpi. Unnin hefur verið markviss greiningarvinna þegar kemur að stöðu kynjanna á málefnasviðum og málaflokkum Stjórnarráðsins. Hefur það verið gert með mótun fimm ára áætlunar um kynjaða fjárlagagerð 2019–2023, með grunnskýrslu kynjaðrar fjárlagagerðar frá árinu 2019, þar sem finna má greiningu á stöðu kynjanna á flestum þeim málefnasviðum og málaflokkum sem fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp taka til. Grunnskýrslunni hefur svo verið fylgt eftir með stöðuskýrslum um kortlagningu kynjasjónarmiða fyrir árin 2021 og 2022 og hafa skýrslurnar nýst vel við jafnréttismat á ráðstöfun fjármuna við gerð fjármálaáætlana og fjárlagafrumvarpa.
Ísland hefur verið í efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir ríki þar sem kynjajafnrétti mælist mest 15 ár í röð. Við greiningu ráðsins er staða hvers ríkis metin út frá fjórum lykilþáttum kynjajafnréttis: stjórnmálaþátttöku, efnahagslegri stöðu, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntunarstigi, þar sem hver lykilþáttur er greindur og gagna aflað fyrir hvert ríki um launajafnrétti, hlutfall kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga, atvinnutekjur og atvinnuþátttöku. Greining Alþjóðaefnahagsráðsins gefur þó ekki heildarmynd af stöðu kynjanna hér á landi. Þrátt fyrir að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi hafi verið með þeirri mestu innan ríkja OECD um árabil eru konur líklegri til að vinna hlutastörf en karlar og rannsóknir rekja það til þess að konur sinna í mun meira mæli ólaunuðum umönnunarstörfum en karlar. Þá er íslenskur vinnumarkaður enn mjög kynskiptur og hafa rannsóknir sýn fram á að það sé ein meginorsök kynbundins launamunar á íslenskum vinnumarkaði. Hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja fór hækkandi fram til ársins 2014 eftir að kynjakvóti í stjórnum hlutafélaga, fyrirtækja og lífeyrissjóða var lögbundinn árið 2010 en hefur haldist nokkurn veginn óbreyttur síðan þá. Árið 2023 var hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með 50 launamenn eða fleiri, þar sem stjórnarmenn voru fjórir eða fleiri, 41,4% í tilfelli almennra hlutafélaga og 36,5% í einkahlutafélögum. Lagasetning og fjölgun kvenna í stjórnum virðist þrátt fyrir allt ekki hafa skilað fleiri konum í stjórnendastöður stærstu fyrirtækja atvinnulífsins, karlar eru þar enn í miklum meiri hluta. Tíðni kynbundins ofbeldis eykst á tímum hamfara, átaka og efnahagsþrenginga. Kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum jókst á Íslandi í heimsfaraldri COVID-19, samkvæmt tölfræði lögreglunnar jukust tilkynningar um heimilisofbeldi af hendi maka úr 370 tilkynningum árið 2018 í 453 tilkynningar árið 2021, gerendur voru í langflestum tilvikum karlar og þolendur konur, árið 2024 voru 467 tilkynningar til lögreglunnar um heimilisofbeldi af hálfu maka.
Í jafnréttislögum er kveðið á um að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skuli greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Jafnframt er kveðið á um þá skyldu fyrirtækja og stofnana með 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli að öðlast jafnlaunavottun á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. Stjórnvöld hafa í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins lagt áherslu á verkefni sem ætlað er að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði og uppræta kynbundinn launamun. Í skýrslu Hagstofu Íslands frá árinu 2024 kemur fram að launamunur karla og kvenna hefur dregist saman síðustu ár, á árunum 2019–2023 fór munur á atvinnutekjum úr 25,5% í 21,9%, óleiðréttur launamunur lækkaði úr 13,9% í 9,3% og leiðréttur launamunur úr 4,4% í 3,6%. Þessi rannsókn sem og aðrar hafa leitt í ljós að ein meginástæða launamunar á Íslandi er kynskiptur vinnumarkaður og vanmat á störfum kvenna. Laun eru almennt lægri í starfsgreinum þar sem konur eru í miklum meiri hluta, líkt og heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntagreinum, samanborið við starfsgreinar þar sem karlar eru í meiri hluta. Starfshópur um endurmat á virði kvennastarfa, með fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, lagði fram tillögur í september 2021 að aðgerðum þar sem byggt var á þessum markmiðum. Í kjölfarið var sett af stað vinna með sömu aðilum um ákveðið þróunarverkefni um þróun virðismatskerfis starfa í þágu launajafnréttis. Jafnlaunastofa vann tillögu að virðismatskerfi í þágu launajafnréttis fyrir starfshópinn og var verkefnið m.a. kynnt á opnum fundi vorið 2024. Í yfirlýsingu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra frá júní 2024, í tengslum við kjarasamninga sama ár, kom fram að farið yrði í aðgerðir gegn kynbundnum launamun, m.a. á grunni tillagna fyrri starfshópa. Útbúið yrði heildstætt virðismatskerfi sem hefði launajafnrétti að leiðarljósi. Miðað er við að nýtt kerfi verði tilbúið í árslok 2026 og verði eftir það innleitt í áföngum í samkomulagi aðila.
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld lagt áherslu á að vinna markvisst að aðgerðum gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni, umbótum í meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu og eflingu forvarna og fræðslu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Þetta hefur verið gert með endurskoðun og umbótum á löggjöf, má þar helst nefna lög um kynferðislega friðhelgi sem styrkja réttarvernd einstaklinga með hliðsjón af þeim samfélagslegu breytingum sem orðið hafa með aukinni tæknivæðingu og viðhorfsbreytingum gagnvart kynferðisbrotum á Íslandi. Þá var fyrsta fullfjármagnaða heildstæða áætlunin um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, samþykkt árið 2020, sbr. þingsályktun nr. 37/150. Í fyrsta sinn eru settar fram heildstæðar úrbætur sem byggjast á forvörnum sem eru samþættar kennslu og starfi á öllum skólastigum, innan frístundaheimila og félagsmiðstöðva og í öðru æskulýðs- og tómstundastarfi. Birt hefur verið aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota fyrir árin 2023–2025 þar sem m.a. var litið til tilmæla úr skýrslu eftirlitsnefndar um framfylgd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, en með henni verður áfram unnið markvisst að úrbótum við meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu. Framlög til löggæslu vegna kynferðisbrota og kynbundins ofbeldis voru hækkuð um 200 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2022. Til þess að tryggja öryggi fólks í landinu og takast á við skipulagða glæpastarfsemi, m.a. mansal, hafa stjórnvöld ákveðið að fjölga lögreglumönnum um 50 á árinu 2025. Jafnframt hafa stjórnvöld beitt sér fyrir því að bæta úrræði og þjónustu við þolendur kynferðis- og kynbundins ofbeldis með því að bæta þjónustu við komu þolenda á heilbrigðisstofnanir og styrkt og tryggt rekstrargrundvöll fyrir þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Þá var veitt fjármagn til Kvennaathvarfsins vegna nýbyggingar samtakanna og stofnunar kvennaathvarfs á Akureyri. Einnig hafa stjórnvöld tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi í baráttunni gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Ýmis verkefni tengd þeirri baráttu voru áherslumál stjórnvalda í formennsku Íslands í Evrópuráðinu árin 2022–2023 og formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um jafnréttismál og málefni hinsegin fólks árin 2019 og 2023. Þá er Ísland þátttakandi í átaksverkefninu Kynslóð jafnréttis á vegum UN Women. Markmið verkefnisins er að vinna að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með aðgerðum til ársins 2026. Verkefnið er unnið á sex málefnasviðum og stýrt af alþjóðlegum aðgerðabandalögum. Ísland leiðir aðgerðabandalag um kynbundið ofbeldi innan átaksverkefnisins, ásamt Bretlandi, Úrúgvæ, Kenía, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, UN Women, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Ford Foundation (góðgerðasjóði) og völdum alþjóðasamtökum kvennahreyfingarinnar. Skuldbindingar Íslands í átaksverkefninu eru 23 talsins og hafa það að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi með auknum forvörnum, bæta samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og efla þjónustu og stuðningsúrræði við bæði þolendur og gerendur.
Á undanförnum árum hefur orðið bakslag í réttindum kvenna og hinsegin fólks í heiminum. Réttur kvenna til að ráða yfir eigin líkama hefur verið hertur með þungunarlöggjöf bæði í Evrópu og vestanhafs. Kynbundið ofbeldi er enn of algengt og enn hefur ekki tekist að útrýma kynbundnum launamun. Það kerfisbundna kynjakerfi og kynjamisrétti sem fyrirfinnst í raunheimum heldur áfram í netheimum og hefur myndast þar nýr vettvangur fyrir hatursorðræðu gegn konum og hinsegin fólki sem í sífellt meira mæli veigrar sér við að taka þátt í stjórnmálum vegna þeirra árása og hótana sem þau verða fyrir. Stöðugt þarf því að berjast fyrir, standa vörð um og stuðla markvisst að jafnrétti kynjanna og mannréttindum.
Tillögu dómsmálaráðherra til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum til næstu fjögurra ára er ætlað að ná utan um nokkur af brýnustu verkefnunum í málaflokknum. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu á þeim verkefnum sem brýn eru talin. Tillagan felur í sér áætlun sem skiptist í sex kafla og 39 aðgerðir sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun stjórnvalda á sviði kynjajafnréttismála birtist skýrt.
Tillagan felur í sér áframhaldandi áherslu stjórnvalda á jafnlaunakerfi. Unnið verður áfram að innleiðingu jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar samhliða því að greining fer fram á því hvort ástæða sé til að gera breytingar á kerfinu í ljósi fyrirliggjandi reynslu. Jafnframt verður haldið áfram að rannsaka reglulega launamun karla og kvenna í samstarfi við Hagstofu Íslands. Þá má finna aðgerð sem lýtur að auknu jafnrétti erlendra kvenna á vinnumarkaði, þ.e. með því að unnin verður rannsókn á launamun innfæddra kvenna og innflytjendakvenna. Jafnframt er lögð áhersla á söfnun kyngreindra gagna og tölfræði við samþættingu jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku. Í því skyni má finna aðgerðir um söfnun kyngreindra tölfræðigagna um stöðu kynjanna í landbúnaði og sjávarútvegi og birtingu kyngreindra gagna með sérstöku mælaborði þegar kemur að alls kyns upplýsingum er varða sveitarstjórnir. Þá eru aðgerðir sem snúa að því að tryggja þekkingu á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða meðal kjörinna fulltrúa og stjórnenda sveitarfélaga með það að markmiði að tryggja jafnrétti og jafna meðferð við stefnumótun og ákvarðanatöku sveitarfélaga. Samkvæmt tillögunni verður áfram unnið að áherslumálum stjórnvalda varðandi kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Jafnframt má finna nýskapandi aðgerð um fjármögnun jafnréttisverkefna ríkisins með útgáfu kynjaðra skuldabréfa.
Í kafla um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er að finna aðgerð þar sem brugðist er við tilmælum eftirlitsnefndar um framkvæmd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningsins), sem birt voru árið 2022 að lokinni fyrstu fyrirtöku nefndarinnar um framfylgd samningsins hér á landi. Jafnframt verður unnið að bættri stöðu kvenna í fangelsum á Íslandi. Áfram er lögð áhersla á að styrkja og tryggja jafnrétti og jafnréttisfræðslu í skóla- og íþróttastarfi, m.a. með auknu aðgengi að kynja- og jafnréttisfræðslu, uppfærslu gátlista fyrir námsefni með tilliti til jafnréttislaga, þátttöku í sameiginlegu evrópsku verkefni um jafnrétti í íþróttum og með samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við íþróttalög. Þá er í tillögunni aðgerð sem ætlað er að skoða stöðu kvenna í íþróttaumfjöllun sem og almennri fjölmiðlaumfjöllun. Jafnframt má finna aðgerð tengda nýjum raunveruleika gervigreindartækninnar og áhrif og áskoranir hennar á jafnrétti metin.
Að lokum má nefna alþjóðlegar skyldur íslenskra stjórnvalda á sviði jafnréttismála. Í tillögunni er kveðið á um að efla alþjóðlegt málsvarastarf og aðgerðir Íslands á sviði kynjajafnréttismála, m.a. með því að styðja jafnréttisverkefni í þróunarríkjum, og áfram verður unnið að áherslum Íslands á hlutverk karla í jafnréttismálum á vettvangi alþjóðastofnana og víðar. Þá verður lögð áhersla á kynjajafnrétti í forystuverkefnum Íslands á alþjóðavettvangi. Í tillögunni er jafnframt aðgerð sem snýr að fjórðu landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi en aðgerðin byggist á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 sem kveður á um framlag kvenna til öryggis og friðar í heiminum. Þá verður áfram unnið að kynjasamþættingu og efnahagslegri valdeflingu kvenna í alþjóðaviðskiptum sem hefur það að markmiði að tryggja betur hagsmuni kvenna og þátttöku í samningum á sviði alþjóðaviðskipta.
Með tillögu þessari fylgir skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála 2020–2024, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, sbr. 12. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020.
Um einstakar aðgerðir tillögunnar.
UM A. KYN, ÁHRIF OG ÞÁTTTÖKU
Um 1. aðgerð.
Um 2. aðgerð.
Um 3. aðgerð.
Um 4. aðgerð.
Um 5. aðgerð.
Um 6. aðgerð.
Um 7. aðgerð.
Um 8. aðgerð.
Um 9. aðgerð.
UM B. KYNJAÐA TÖLFRÆÐI OG MÆLABORÐ
Um 10. aðgerð.
Um 11. aðgerð.
Um 12. aðgerð.
Um 13. aðgerð.
Um 14. aðgerð.
Um 15. aðgerð.
UM C. JAFNRÉTTI Á VINNUMARKAÐI OG KYNBUNDINN LAUNAMUN
Um 16. aðgerð.
Aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði skilaði skýrslu með tillögum að virðismatskerfi og byggist verkefnið nú á tillögum fyrri aðgerðahóps og sækir stoð sína í yfirlýsingu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra vegna aðgerða stjórnvalda til stuðnings kjarasamningum á vinnumarkaði 2024.
Um 17. aðgerð.
Jafnframt verður skoðað sérstaklega hvort ástæða er til að gera breytingar á lagaákvæðum og reglum um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu í ljósi fyrirliggjandi reynslu. Bent hefur verið á að stuðla mætti að einföldun og aukinni skilvirkni jafnlaunakerfisins.
Jafnréttisstofa safnar upplýsingum um þau fyrirtæki sem fá jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu.
Um 18. aðgerð.
Niðurstöður rannsókna sýna fram á að nýta þarf fjölbreyttar leiðir til að ná frekari árangri við að jafna kynbundinn launamun. Helsta áskorunin á því sviði felst í kynskiptum vinnumarkaði, þ.e. í vanmati á hefðbundnum kvennastörfum í samanburði við hefðbundin karlastörf. Stjórnvöld hafa ýtt úr vör viðamikilli vinnu í samvinnu við fulltrúa sveitarfélaga og helstu hagaðila á vinnumarkaði í því skyni að þróa virðismatskerfi starfa í þágu launajafnréttis. Með þróun kerfisins standa vonir til að hægt verði að draga verulega úr launabili milli hefðbundinna kvenna- og karlastétta á allra næstu árum. Með sama hætti er stuðlað að því að draga úr kynbundnum launamun með þróun og innleiðingu jafnlaunakerfis.
Mikilvægt er að halda áfram reglulegum rannsóknum á launamun karla og kvenna í því skyni að meta og stuðla að markvissum árangri af aðgerðum stjórnvalda í þágu launajafnréttis.
Um 19. aðgerð.
UM D. KYNBUNDIÐ OG KYNFERÐISLEGT OFBELDI
Um 20. aðgerð.
Verkefni um gerð stefnumarkandi landsáætlunar um framkvæmd Istanbúlsamningsins byggist á 10. gr. samningsins sem kveður á um að skilgreina ábyrgð hins opinbera á samræmingu, framkvæmd og eftirfylgni aðgerða vegna þeirra skuldbindinga sem aðild að samningnum felur í sér. Landsáætlunin skal jafnframt hafa að markmiði að skapa yfirsýn yfir innleiðingu laga og ráðstafana stjórnvalda sem lúta að framkvæmd samningsins og eftirfylgni fyrstu fyrirtöku Íslands árið 2021 hjá eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með framkvæmd skuldbindinga samningsins.
Um 21. aðgerð.
Um 22. aðgerð.
Skortur er á rannsóknum um hag kvenna í fangelsum á Íslandi. Umboðsmaður Alþingis gerði skýrslu árið 2023 um stöðu kvenna í fangelsum á grundvelli OPCAT-eftirlitsins. Margar kvennanna sem umboðsmaður ræddi við lýstu erfiðleikum í æsku, vímuefnavanda, sögu um áföll og ofbeldi og andlegum veikindum. Nýleg viðtalsrannsókn um reynslu kvenfanga, m.a. af meðferðarúrræðum, bendir til þess að vandi þeirra sé flókinn og samofinn áfallasögu þeirra sem þolenda kynbundins og kynferðislegs ofbeldis. Því er lagt til að allt starfsfólk Fangelsismálastofnunar fái þjálfun í áfallamiðaðri nálgun og í að sinna kvenkyns föngum, sem og fræðslu um ólíkar þarfir og þjónustu kynjanna meðan á afplánun stendur svo að hægt sé að skapa umhverfi sem eykur öryggistilfinningu bæði þeirra sem eru vistaðir í fangelsum og þeirra sem vinna í fangelsum.
Um 23. aðgerð.
Um 24. aðgerð.
Um 25. aðgerð.
Um 26. aðgerð.
Innleiðing verklags móttöku þolenda heimilisofbeldis hófst haustið 2023 og er annars vegar kynning á nýju verklagi við móttöku þolenda ofbeldisins á öllum heilbrigðisstofnunum landsins og hins vegar kynning á nýju rafrænu skráningarformi sem nýta á til að halda utan um tölfræði í málaflokknum. Til þess að leggja mat á árangur verklagsins er lagt til að óskað verði eftir gögnum í formi eigindlegra upplýsinga úr rafrænu skráningarformi í heimilisofbeldismálum tvisvar sinnum á ári, m.a. eftir ýmsum ítarlegum breytum sem hægt er að kalla fram úr skráningarforminu. Jafnframt verði gert ráð fyrir að einu sinni á ári verði spurningalisti sendur til heilbrigðisstarfsfólks sem vinnur í málaflokknum með það að markmiði að meta árangur innleiðingarinnar og bregðast um leið við þeim ábendingum sem fram kunna að koma. Tilgangur vinnunnar er að fá skýra sýn á umfang og eðli birtingarmyndar heimilisofbeldis á Íslandi en einnig að varpa ljósi á árangur innleiðingarinnar í heilbrigðiskerfinu.
Mikilvægt er að mæla árangur af innleiðingu verklags og rafrænu skráningarformi til að skilja betur hvar þörfin liggur, hvað þarf að gera betur og hvað gengur vel. Án slíkra upplýsinga er erfitt að koma til móts við þarfir heilbrigðisstarfsfólks og þolenda heimilisofbeldis sem leita á heilbrigðisstofnanir landsins.
Um 27. aðgerð.
UM E. JAFNRÉTTI Í MENNTUN OG ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSSTARFI
Um 28. aðgerð.
Um 29. aðgerð.
Um 30. aðgerð.
Um 31. aðgerð.
Um 32. aðgerð.
Um 33. aðgerð.
Um 34. aðgerð.
Um 35. aðgerð.
Um 36. aðgerð.
UM F. ALÞJÓÐASTARF
Um 37. aðgerð.
Um 38. aðgerð.
Um 39. aðgerð.
Fylgiskjal.
Jafnrétti 2024.
Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála 2020–2024.
www.althingi.is/altext/pdf/156/fylgiskjol/s0258-f_I.pdf