Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 258  —  227. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025–2028.


Frá dómsmálaráðherra.



    Alþingi ályktar skv. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025–2028:

A. KYN, ÁHRIF OG ÞÁTTTAKA

1. Framkvæmdasjóður kynjajafnréttismála.
    Á tímabilinu 2025–2028 verði verkefni úr þessari framkvæmdaáætlun styrkt. Um verði að ræða samstarfsverkefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands eða ráðuneyta og ríkisstofnana, félagasamtaka eða háskólasamfélagsins þar sem tilgangurinn sé að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu á sviði jafnréttismála eða innleiða tillögur sem megi telja til afraksturs aðgerða í þessari framkvæmdaáætlun. Dómsmálaráðuneytið auglýsi eftir umsóknum frá ráðuneytum og úthluti styrkjum að undangengnu faglegu mati skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 5 og samþætting þess við önnur heimsmarkmið.

2. Samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum verði markvisst kynntur. Útbúið verði kynningarmyndband um samninginn ætlað almenningi á íslensku, ensku og á auðskildu máli. Þá verði haldinn kynningarfundur um samninginn með samtökum kvenna sem standa vörð um réttindi kvenna.
    Markmið aðgerðarinnar verði að auka vitund um réttindi sem samningurinn á að tryggja.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samráði við Jafnréttisstofu.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.

3. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur sveitarfélaga.
    Jafnréttisstofa haldi námskeið og veiti fræðslu um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur sveitarfélaga á Íslandi. Fræðsluefni verði aðgengilegt á vef Jafnréttisstofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga í framhaldinu.
    Markmið aðgerðarinnar verði að kynna þau verkfæri sem í boði eru þegar kemur að kynjasamþættingu og kenna nýtingu þeirra við stefnumótun og verklagsþróun í þágu sveitarfélaga og íbúa þeirra.
Tímaáætlun: 2025–2027.
Ábyrgð: Innviðaráðuneytið og Jafnréttisstofa.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.

4. Hugræn vinna kynjanna.
    Unnið verði að því að fanga kynjamynstur hugrænnar vinnu á Íslandi. Unnin verði eigindleg rannsókn á hugrænni vinnu með viðtalsviðbót við megindlega tímarannsókn sem Hagstofa Íslands gerði fyrir forsætisráðuneyti. Í eigindlegu rannsókninni verði rýnt betur í niðurstöður megindlegu rannsóknarinnar sem endurspegla hugræna vinnu og ósýnilega verðmætasköpun hennar.
    Markmið aðgerðarinnar verði að fanga umfang hugrænnar vinnu kynjanna á Íslandi.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Háskóla Íslands.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5 og 5.4.

5. Nýskapandi leiðir við fjármögnun jafnréttisverkefna ríkisins.
    Unnið verði að nýskapandi leiðum við fjármögnun jafnréttisverkefna ríkisins með útgáfu sjálfbærra kynjaðra skuldabréfa um fjármögnun verkefna sem stuðla að kynjajafnrétti.
    Markmið aðgerðarinnar verði að stuðla að fjárfestingartækifærum sem stuðla að sjálfbærni og jafnrétti.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.

6. Jafnrétti í nýsköpun.
    Unnið verði að því að bæta stöðu kvenna í nýsköpun. Á fyrri hluta tímabils framkvæmdaáætlunarinnar verði gerð heildstæð greining á stöðu kvenna í nýsköpunarumhverfinu. Leitast verði við að greina ástæður þess að stöðu kvenna í fjármögnunarumhverfi nýsköpunar er ábótavant og af hverju hlutur kvenna er minni en karla þegar kemur að fjármögnun verkefna og fjárfestingu í sprotafyrirtækjum. Þetta á sérstaklega við um tæknigreinar. Kynja- og jafnréttissjónarmið verði samþætt í endurskoðun á stoðkerfi nýsköpunar, mati á rannsóknaumhverfi og mati á rannsóknum. Sett verði upp mælaborð nýsköpunar og nýsköpunargátt þar sem hægt verði að kalla fram kyngreinda tölfræði.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka og bæta stöðu kvenna í nýsköpunarumhverfinu.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið í samstarfi við Vísinda- og nýsköpunarráð.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 9.5 og 5.c.

7. Jafnrétti í íþróttaumfjöllun í fjölmiðlum.
    Unnið verði að því að jafna hlut kynjanna í íþróttaumfjöllun. Birtingarmynd kvenna í íþróttaumfjöllun í fjölmiðlum verði metin og hvort þörf sé á úrbótum til að styrkja stöðu kvenna í íþróttaumfjöllun og auka umfjöllun um íþróttakonur.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka stöðu íþróttakvenna í íþróttaumfjöllun.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.b, 5.c og 10.3.

8. Jafnrétti í fjölmiðlaumfjöllun.
    Metið verði hvort umfjöllun í fjölmiðlum sé í samræmi við 26. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, þar sem segir að fjölmiðlum beri að gæta þess að sjónarmið jafnt karla og kvenna komi fram. Skoðað verði hvort fjölmiðlaumfjöllun sé almennt í samræmi við stöðu kvenna í samfélaginu. Leiðir til að auka sýnileika kvenna í fjölmiðlun verði greindar ef þörf þykir.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka stöðu kvenna í fjölmiðlaumfjöllun og stuðla að nauðsynlegum úrbótum ef ástæða þyki til.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.b, 5.c og 10.3.

9. Jafnrétti og gervigreind.
    Samhliða stefnumótun og undirbúningi lagasetningar stjórnvalda um gervigreind verði áhrif þessarar tæknibyltingar á jafnréttismál metin, bæði tækifæri sem í tækninni felast en einnig greindar áskoranir hennar á jafnrétti. Unnin verði úttekt þar sem litið verði til mögulegra áhrifa gervigreindar á jafnrétti á breiðum grundvelli. Markmið úttektar verði að auka getu hins opinbera til að takast á við hættu á hlutdrægni og mismunun í ákvarðanatökuferlum sem byggjast á eða hagnýta gervigreind, og benda stjórnvöldum á leiðir til úrbóta. Þar sem gervigreindartækni er enn í stöðugri þróun verði verkefninu skipt í tvo hluta:
a.      Yfirlit á breiðum grundvelli.
b.      Sérstakar tillögur til stjórnvalda.
    Markmið aðgerðarinnar verði að meta áhrif gervigreindar á jafnrétti.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisstofu.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.b.

B. KYNJUÐ TÖLFRÆÐI OG MÆLABORÐ

10. Kyngreind tölfræði.
    Útbúið verði rafrænt mælaborð sem innihaldi þá kyngreindu tölfræði sem til er og verði mælaborð vistað á vefsvæði dómsmálaráðuneytis og Jafnréttisstofu.
    Markmið aðgerðarinnar verði að kyngreindri tölfræði verði safnað saman á einn stað og þær tölur verði reglubundið uppfærðar.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa í samstarfi við Hagstofuna og aðra hagaðila.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.

11. Þróun mælikvarða í jafnréttismálum.
    Ýtt verði úr vör tilraunaverkefni um þróun mælikvarða og söfnun gagna til að meta framgang jafnréttismála á Íslandi í tengslum við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, og mismunarlöggjöfina frá 2018.
    Markmið aðgerðarinnar verði að þróa mælikvarða um jafnrétti.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Hagstofuna.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.

12. Mælaborð um jafnrétti á sveitarstjórnarstigi.
    Þróað verði mælaborð fyrir tölfræði á sviði jafnréttismála á sveitarstjórnarstiginu í anda sambærilegs Evrópuverkefnis. Mælaborðið feli í sér myndræna framsetningu á breytum eins og hlutfalli kynjanna í sveitarstjórnum, nefndum og ráðum, upplýsingum um hlutfall sveitarfélaga með jafnlaunavottun og jafnréttisáætlanir, svo dæmi séu nefnd. Mælaborðið verði sérstaklega kynnt fyrir sveitarstjórnum í því skyni að mynda grundvöll til aðgerða sem stuðli að auknu jafnrétti.
    Markmið aðgerðarinnar verði að stuðla að auknu jafnrétti innan sveitarfélaga.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisstofu og Hagstofu Íslands.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.

13. Söfnun kyngreindra tölfræðigagna í landbúnaði.
    Farið verði í markvissa söfnun á kyngreindum tölfræðigögnum varðandi stöðu kynjanna í landbúnaði. Skilgreint verði umfang og eðli þeirra gagna sem þörf er á að séu til staðar svo að hægt sé að leggja raunhæft mat á stöðu kynjanna innan greinarinnar. Í kjölfarið verði lagðar til leiðir til söfnunar nauðsynlegra gagna sem nýtast stjórnvöldum við samþættingu kynjasjónarmiða við ákvarðanatöku og stefnumótun í landbúnaði.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka stöðu kvenna í landbúnaði.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Atvinnuvegaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5, 8 og 10.

14. Söfnun kyngreindra tölfræðigagna í sjávarútvegi.
    Farið verði í markvissa söfnun á kyngreindum tölfræðigögnum varðandi stöðu kynjanna í sjávarútvegi og fiskeldi. Skilgreint verði umfang og eðli þeirra gagna sem þörf er á að séu til staðar svo að hægt sé að leggja raunhæft mat á stöðu kynjanna innan greinanna. Í kjölfarið verði lagðar til leiðir til söfnunar nauðsynlegra gagna sem nýtast stjórnvöldum við samþættingu kynjasjónarmiða við ákvarðanatöku og stefnumótun í sjávarútvegi.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka stöðu kvenna í sjávarútvegi.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Atvinnuvegaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5, 8 og 10.

15. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða við úthlutanir úr Loftslags- og orkusjóði.
    Unnið verði að greiningu á fyrirliggjandi kyngreindum gögnum í tengslum við styrkveitingar Loftslags- og orkusjóðs til kaupa einstaklinga á rafbílum, með sérstakri áherslu á að meta hvaða áhrif styrkveitingar hafi haft á jafnrétti kynjanna.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka áhrif styrkveitinganna á jafnrétti kynjanna.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið í samstarfi við Loftslags- og orkusjóð/Umhverfis- og orkustofnun.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 7 og 5.

C. JAFNRÉTTI Á VINNUMARKAÐI OG KYNBUNDINN LAUNAMUNUR

16. Virðismat starfa í þágu launajafnréttis.
    Unnið verði að þróun og eftirfylgni virðismatskerfis í samræmi við yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga í mars 2024. Stýrihópur um virðismat starfa í þágu launajafnréttis stýri vinnu um þróun og innleiðingu kerfisins sem byggist á fyrri tillögum aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Í samræmi við yfirlýsinguna liggi nýtt kerfi fyrir eigi síðar en í árslok 2026.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.4, 5.5, 5.a, 5.c, 8.8, 8.7, 8.8, 10.3 og 10,4.

17. Jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfesting.
    Unnið verði áfram að innleiðingu jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar. Samhliða verði reynsla af framkvæmd jafnlaunakerfisins frá því að lög um jafnlaunavottun tóku gildi metin.
    Unnið verði að framkvæmd og eftirfylgni eftirfarandi verkefna:
     a.      Jafnréttisstofa safni og birti upplýsingar á vefsvæði stofnunarinnar um fyrirtæki og stofnanir sem hlotið hafa jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu.
     b.      Áfram verði lögð áhersla á að kynna staðfestingarleið laga nr. 150/2020 sem kveður á um að fyrirtæki og stofnanir með 25–49 starfsmenn geti valið á milli þess að fá jafnlaunastaðfestingu eða jafnlaunavottun.
     c.      Dómsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa vinni sameiginlega að greiningu á því hvernig hægt sé að bæta jafnlaunakerfið með hliðsjón af fyrirliggjandi reynslu.
     d.      Jafnréttisstofa skili skýrslu til dómsmálaráðuneytis tvisvar á gildistíma framkvæmdaáætlunar um framfylgd laganna ásamt mati á því hvernig til hafi tekist að framfylgja lögunum. Með skýrslunum fylgi yfirlit um fyrirtæki og stofnanir sem hafi:
.      innleitt jafnlaunastaðalinn og fengið jafnlaunavottun,
.      sótt um og fengið jafnlaunastaðfestingu.
    Markmið aðgerðarinnar verði að öll fyrirtæki og stofnanir sem heyra undir lögin öðlist vottun eða eftir atvikum jafnlaunastaðfestingu. Jafnframt verði framfylgd laganna metin og lagaákvæði og reglur endurskoðaðar.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 8.5, 8.8, 16.5, 16.10 og 16.b.

18. Rannsókn á launamun kynjanna.
    Á tímabili framkvæmdaáætlunarinnar verði gerð rannsókn á launamun karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við Hagstofu Íslands.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka kynbundinn launamun og meta árangur af starfi stjórnvalda á launamun karla og kvenna.
     Tímaáætlun: 2028.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Hagstofu Íslands.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 8.5, 8.8, 16.5, 16.10 og 16.b.

19. Rannsókn á launamun innfæddra kvenna og innflytjendakvenna.
    Rannsókn fari fram á kynbundnum launamun milli innfæddra kvenna og innflytjendakvenna og mismunandi stöðu þeirra á vinnumarkaði, bæði í samanburði við karla í sömu stöðu og aðra minnihlutahópa.
    Markmið aðgerðarinnar verði að rannsaka hvort munur sé á stöðu innfæddra kvenna og innflytjendakvenna og hvort síðarnefndi hópurinn verði fyrir margþættri mismunun á vinnumarkaði.
     Tímaáætlun: 2026–2027.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 8.5 og 8.8.

D. KYNBUNDIÐ OG KYNFERÐISLEGT OFBELDI

20. Landsáætlun um framkvæmd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningsins).
    Lokið verði við landsáætlun um framkvæmd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningsins) frá 2011, sbr. 10. gr. samningsins sem kveður á um ábyrgð hins opinbera á samræmingu, framkvæmd, eftirfylgni og mati á aðgerðum og ráðstöfunum vegna samningsskuldbindinga. Landsáætlunin hafi jafnframt að markmiði að skapa heildaryfirsýn yfir innleiðingu laga, stjórnvaldsaðgerðir og aðrar ráðstafanir, þ.m.t. gagnasöfnun og rannsóknir, sbr. 11. gr. samningsins. Samhliða verði unnið að eftirfylgni fyrstu fyrirtöku Íslands árið 2021 hjá eftirlitsnefnd samningsins með framkvæmd skuldbindinga hans. Landsáætlunin verði unnin í samráði við önnur ráðuneyti, ríkisstofnanir, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra hlutaðeigandi og feli m.a. í sér eftirfarandi aðgerðir:
     a.      Leitað verði fyrirmynda í landsáætlunum annarra aðildarríkja Evrópuráðsins.
     b.      Mótuð verði tímasett landsáætlun með markmiðum, aðgerðum, árangursvísum og ábyrgðaraðilum.
     c.      Metin verði framfylgni ákvæða samningsins hér á landi með tilliti til löggjafar og annarra ráðstafana.
     d.      Unnin verði stöðuskýrsla um framkvæmd samningsins árlega.
     e.      Staðið verði fyrir kynningu og fræðslu á samningnum og landsáætlun á vef Stjórnarráðsins og víðar.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.2, 5.3, 5.6, 10.2, 10.3, 10.4, 16.1, 16.2, 16.3, 16.6 og 16.10.

21. Vitundarvakning um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofeldi (Istanbúlsamninginn).
    Unnið verði að vitundarvakningu um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamninginn) frá 2011, sbr. 13. gr. samningsins.
    Markmið aðgerðarinnar verði að auka vitund og skilning almennings um mismunandi birtingarmyndir ofbeldis sem falla undir gildissvið samningsins.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.2, 5.3, 5.6, 16.1, 16.2, 16.3, 16.6 og 16.10.

22. Áfallamiðuð nálgun í réttarvörslukerfinu og þarfir kvenna í fangelsum.
    Allt starfsfólk Fangelsismálastofnunar fái fræðslu og þjálfun í áfallamiðaðri nálgun til að koma til móts við mismunandi þarfir kvenna og karla sem eru vistuð í fangelsum með það að leiðarljósi að auka öryggi, hvort sem horft er til samskiptahátta, í nærumhverfinu eða þegar út í samfélagið er komið. Sérhæfðir aðilar verði fengnir inn í fangelsin til að sinna innleiðingu á áfallamiðaðri nálgun, fræðslu, þjálfun og framþróun.
    Markmið aðgerðarinnar verði að auka þekkingu starfsfólks Fangelsismálastofnunar á mismunandi áhrifum og afleiðingum áfalla á kynin svo að hægt sé að skapa umhverfi sem auki öryggistilfinningu þeirra sem eru í fangelsum.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Fangelsismálastofnun.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 3, einkum 3.5, 4 og 16, einkum 16.1.

23. Karlar og kynbundið ofbeldi.
    Skipaður verði starfshópur um karla og jafnrétti sem skoði sérstaklega hlutverk karla í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Verkefnið taki m.a. til sambandsins milli kynbundins og kynferðislegs áreitis og ofbeldis annars vegar og hugmynda um karlmennsku, mörk og samþykki hins vegar. Starfshópurinn taki mið af samþykktum leiðbeiningum Evrópuráðsins um hlutverk karla og drengja í jafnréttismálum og forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi.
    Markmið aðgerðarinnar verði að finna leiðir til að virkja karla frekar í baráttunni gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisstofu og aðra hagsmunaaðila.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Markmið 3, 4, 5, einkum 5.2, og 16, einkum 16.1.

24. Heiðursofbeldi og neikvætt félagslegt taumhald.
    Fræðsla um einkenni og birtingarmyndir heiðursofbeldis og neikvæðs félagslegs taumhalds verði efld meðal starfsmanna í félagsþjónustu, lögreglu, innan skóla og frístundasviðs, heilbrigðiskerfisins og annarra viðeigandi aðila. Unnið verði fræðsluefni og því miðlað meðal framangreindra aðila.
    Markmið aðgerðarinnar verði að efla þekkingu á birtingarmyndum neikvæðs félagslegs taumhalds og heiðursofbeldis og hvernig bregðast skuli við því.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Félags- og -húsnæðismálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.3 og 16.1.

25. Þjónustuúrræði fyrir gerendur heimilis- og kynferðisofbeldis.
    Kortlögð verði þau úrræði sem standa gerendum heimilis- og kynferðisofbeldis til boða í samanburðarlöndum með það að markmiði að fjölga og bjóða upp á fjölbreyttari úrræði fyrir gerendur kynbundins ofbeldis.
    Markmið aðgerðarinnar verði að skoða hvernig fjölga megi úrræðum fyrir gerendur kynbundins ofbeldis.
     Tímaáætlun: 2026–2027.
     Ábyrgð: Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.2 og 16.1.

26. Innleiðing verklags í heilbrigðisþjónustu til handa þolendum ofbeldis.
    Unnið verði mat á árangri á verklagi sem innleitt var í heilbrigðiskerfinu við móttöku þolenda heimilisofbeldis. Teknar verði saman tölfræðiupplýsingar úr rafrænu skráningarformi fyrir heimilisofbeldismál og kallað eftir upplifun heilbrigðisstarfsmanna af verklaginu.
    Markmið aðgerðarinnar verði að fá upplýsingar um birtingarmyndir heimilisofbeldis í heilbrigðiskerfinu á Íslandi og meta reynslu af nýju verklagi.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.2 og 16.1.

27. Kynferðisleg áreitni innan íslenskrar ferðaþjónustu.
    Unnin verði greining á kynferðislegri áreitni gagnvart konum sem starfa í ferðaþjónustunni og lagt mat á hvers vegna kynferðisleg áreitni er jafn algeng og raun ber vitni innan starfsgreinarinnar. Skoðaðar verði leiðir til að draga úr kynferðislegri áreitni og auka öryggi kvenna sem starfa innan ferðaþjónustunnar, hvort sem það er með lagabreytingu, fræðslu, vinnufyrirkomulagi eða öðrum hætti.
    Markmið aðgerðarinnar verði að vinna gegn kynferðislegri áreitni og auka öryggi kvenna sem starfa innan ferðaþjónustunnar.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Atvinnuvegaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.1, 5.2, 10.3 og 16.1.

E. JAFNRÉTTI Í MENNTUN OG ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSSTARFI

28. Jafnréttisfræðsla á öllum skólastigum.
    Til þess að tryggja að jafnréttisfræðsla sé fléttuð inn í kennslu skóla á öllum skólastigum, sbr. 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, verði gæðaviðmið við mat á starfi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfi grunnskóla endurskoðuð. Þannig verði stuðlað að markvissri jafnréttisfræðslu samkvæmt aðalnámskrám. Jafnframt verði gert ráð fyrir úttekt á jafnréttisfræðslu í þriggja ára áætlun mennta- og barnamálaráðuneytis.
    Markmið aðgerðarinnar verði að flétta jafnréttisfræðslu inn í kennslu á öllum skólastigum.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisstofu.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 4 og 5.

29. Þekking starfsfólks í framhaldsskólum á sviði kynja- og jafnréttisfræða.
    Þekking kennara, stjórnenda og annars starfsfólks í framhaldsskólum á kynja- og jafnréttisfræði verði efld, m.a. til að tryggja samþættingu innan skólanna og færni kennara til að kenna slík fög og flétta inn í aðra kennslu og starfsemi skólanna.
    Markmið aðgerðarinnar verði að auka þekkingu á kynja- og jafnréttisfræðum meðal kennara, stjórnenda og annars starfsfólks í öllum framhaldsskólum á landinu.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið og Háskóla Íslands.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 5, 10 og 16.

30. Brotthvarf drengja úr námi og nemenda með annað móðurmál en íslensku.
    Ástæður brotthvarfs úr námi á framhaldsskólastigi verði skoðaðar, sérstaklega meðal drengja og nemenda með annað móðurmál en íslensku. Samhliða verði niðurstöður rannsókna og önnur þekking um orsakir brotthvarfs nýttar til stefnumótunar, m.a. til að móta markvissari úrræði gegn brotthvarfi úr námi.
    Markmið aðgerðarinnar verði að draga úr brotthvarfi drengja og nemenda með annað móðurmál en íslensku á framhaldsskólastigi.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 4.1, 4.3, 4.5, 4.6, 4.c og 5.1.

31. Uppfærsla á gátlista Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.
    Gátlisti fyrir námsefnishöfunda verði yfirfarinn og uppfærður svo að hann henti fyrir öll skólastig og þjóni betur breyttu samfélagi. Úthlutun úr Þróunarsjóði námsgagna taki mið af því hvort námsefni hafi verið unnið með hliðsjón af uppfærðum gátlista Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Einnig verði námsefni sem unnið hefur verið með hliðsjón af gátlista sem tengist jafnréttis- og kynjafræðum eftir skólastigum gert aðgengilegt með rafrænum hætti.
    Markmið aðgerðarinnar verði að tryggja að allt nýtt námsefni og námsefni sem tekið er til endurskoðunar taki tillit til fólks af öllum kynjum og fjölbreytileikans.
     Tímaáætlun: 2025–2027.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 4 og 5.

32. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi (EKKO) í framhaldsskólum.
    Unnið verði að vitundarvakningu um jafnréttismál í framhaldsskólum með eflingu fræðslu og þekkingar á jafnrétti og EKKO-málum.
    Markmið aðgerðarinnar verði að auka þekkingu á EKKO-málum í framhaldsskólum.
     Tímaáætlun: 2025–2027.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 4, 5 og 10.

33. Jafnrétti í íþróttastarfi.
    Unnið verði að virkri þátttöku í sameiginlegu verkefni Evrópusambandsins og Evrópuráðsins um aukið jafnrétti í íþróttum.
    Markmið aðgerðarinnar verði að marka farveg stefnumótunar í jafnréttismálum á málefnasviði íþrótta.
     Tímaáætlun: 2025–2027.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.5 og 16.7.

34. Jafnrétti í stefnumótun í íþróttum.
    Staðið verði fyrir opnum samráðsfundi um jafnrétti í íþróttum í samráði við helstu hagaðila íþróttastarfs á Íslandi. Við vinnuna verði jafnframt tekið mið af skoðunum og sjónarmiðum barna og ungmenna.
    Markmið aðgerðarinnar sem felst í opnum fundum styðji við stefnumótun og jafnrétti í íþróttastarfi, sbr. aðgerð 33.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3, 5 og 5.c.

35. Endurskoðun íþróttalaga með tilliti til jafnréttis.
    Unnið verði að heildarendurskoðun íþróttalaga, nr. 64/1998. Meðal fyrirhugaðra breytinga verði ný ákvæði um jafnrétti í íþróttastarfi, sbr. 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
    Markmið aðgerðarinnar verði að auka vægi jafnréttismála í íþróttastarfi.
     Tímaáætlun: 2025–2026.
     Ábyrgð: Mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 3 og 5.

36. Jöfn kynjahlutföll og fjölbreyttur nemendahópur á háskólastigi.
    Unnið verði að því að jafna kynjahlutföll nemenda á háskólastigi og að nemendur á háskólastigi endurspegli fjölbreytileika samfélagsins. Ástæður kynjahalla verði greindar og samhliða ráðist í markvisst átak til að miðla upplýsingum til þeirra hópa sem ekki skila sér í háskólanám ásamt öðrum aðgerðum til að ná til hópanna. Einnig verði metin kynjaáhrif annars konar námsmats en stúdentsprófs til grundvallar inngöngu í háskóla.
    Markmið aðgerðarinnar verði að jafna kynjahlutföll nemenda á háskólastigi.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
    Ábyrgð: Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 4.3, 4.4 og 4.5.

F. ALÞJÓÐASTARF

37. Málsvarastarf og aðgerðir Íslands á alþjóðavettvangi í þágu kynjajafnréttis.
    Eflt verði alþjóðlegt málsvarastarf og aðgerðir Íslands á sviði kynjajafnréttismála. Byggt verði á árangri undanfarinna ára með það að sérstöku markmiði að sporna við víðtæku bakslagi á sviði kynjajafnréttismála. Verkefnið feli í sér eftirfarandi þætti:
     a.      Samráð og samstarf við líkt þenkjandi ríki, alþjóðastofnanir og félagasamtök um eflingu kynjajafnréttis og þátttöku í aðgerðabandalögum á því sviði.
     b.      Stutt verði við sérstök jafnréttisverkefni í þróunarríkjum í samræmi við áherslur í stefnu Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu 2024–2028.
     c.      Sinnt verði málsvarastarfi og verkefnum sem miða að því að fá karlmenn og drengi að jafnréttismálum, m.a. með skipulagningu viðburða, svo sem rakarastofuráðstefna á vettvangi alþjóðastofnana og víðar.
     d.      Áhersla verði lögð á kynjajafnrétti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á meðan Ísland á sæti í ráðinu 2025–2027.
     e.      Áhersla verði lögð á upplýsingamiðlun um jafnréttismál á Íslandi í gegnum vefmiðla og störf utanríkisþjónustunnar.
    Markmið aðgerðarinnar verði að efla málsvarastarf á alþjóðavettvangi í þágu kynjajafnréttis.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5.

38. Fjórða landsáætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi.
    Mótuð verði fjórða landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi. Verkefnið verði byggt á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1.325 frá árinu 2000 og tengdum ályktunum sem kveða m.a. á um framlag kvenna til öryggis og friðar í heiminum.
    Markmið verkefnisins verði að vinna fjórðu landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi.
     Tímaáætlun: 2025.
     Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5 og 16.

39. Aukin kynjasamþætting og efnahagsleg valdefling kvenna í alþjóðaviðskiptum.
    Unnið verði að því að móta áherslur um áframhaldandi framkvæmd og eftirfylgni með kynjasamþættingu og efnahagslegri valdeflingu kvenna í alþjóðaviðskiptum. Verkefnið feli í sér eftirfarandi þætti:
     a.      Kortlagningu á starfi annarra ríkja varðandi efnahagslega valdeflingu kvenna til að draga lærdóm af hér á landi.
     b.      Greiningu á því hvaða upplýsingar og kyngreindu gögn vanti til þess að móta markmið og mælikvarða.
     c.      Samráð við konur í atvinnulífinu um hvernig megi efla þátttöku kvenna í alþjóðaviðskiptum.
    Markmið verkefnisins verði að kortleggja og greina leiðir til þess að móta áherslur þegar kemur að valdeflingu kvenna í alþjóðaviðskiptum.
     Tímaáætlun: 2025–2028.
     Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.
     Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Einkum markmið 5 og 8.

Greinargerð.

    Dómsmálaráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um áttundu framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum skv. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020 (kynjajafnréttislaga). Framkvæmdaáætlun þessari er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verkefnum sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjafnréttis. Áætlunin er lögð fram að fengnum tillögum ráðuneyta, auk þess sem hliðsjón var höfð af umræðum á jafnréttisþingi og niðurstöðum umræðuhópa frá fundum samráðsvettvangs um jafnréttismál. Dagskrá samráðsvettvangsins var í anda nýrrar jafnréttislöggjafar og var markmið fundarins að ná því fram hver brýnustu verkefnin í jafnréttismálum væru um þessar mundir, hvað stjórnvöld gætu gert til þess að bregðast við þeim verkefnum og hverjar skyldur stjórnvalda væru. Veigamestu atriðin sem komu fram á samráðsvettvangi voru kynbundið ofbeldi, jafnrétti á vinnumarkaði, kyn og völd, menntun og jafnrétti, jafnréttisfræðsla, fjölbreytileiki, konur af erlendum uppruna og mikilvægi kyngreindra tölfræðigagna.
    Tillagan var jafnframt unnin í samráði við Jafnréttisstofu og kynnt í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-78/2024). Alls bárust sex umsagnir, frá byggðarráði sveitarfélagsins Skagafjarðar, Alþýðusambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Samtökum atvinnulífsins og tveimur einstaklingum sem sendu sameiginlega umsögn. Umsagnirnar leiddu til breytinga í einu tilviki en verða að öðru leyti hafðar til hliðsjónar við framkvæmd áætlunarinnar.
    Á tímabilinu 2025–2028 verða verkefni úr þessari framkvæmdaáætlun kynjajafnréttismála styrkt um 48 millj. kr., 12 millj. kr. á ári. Á undanförnum árum hefur upphæðin verið 10 millj. kr. árlega. Verkefnin eru ýmist samstarfsverkefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands eða ráðuneyta og ríkisstofnana, félagasamtaka eða háskólasamfélagsins þar sem tilgangurinn er að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu á sviði jafnréttismála eða innleiða tillögur sem telja má til afraksturs aðgerða í þessari framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Dómsmálaráðuneytið mun auglýsa eftir umsóknum frá ráðuneytum og úthluta styrkjum að undangengnu faglegu mati skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála. Þá er gert ráð fyrir fjármögnun einstakra verkefna innan ramma ráðuneyta.
    Fyrstu almennu lögin um jafnrétti kvenna og karla tóku gildi árið 1976, lög um jafnrétti kvenna og karla, nr. 78/1976. Síðan þá hefur jafnréttislöggjöfin verið endurskoðuð fimm sinnum (1985, 1991, 2000, 2008 og 2020) í samræmi við breytingar í samfélaginu og alþjóðlega þróun. Fyrsta framkvæmdaáætlunin í jafnréttismálum var lögð fram í desember 1986.
    Núgildandi jafnréttislög, lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, voru samþykkt á Alþingi í árslok 2020. Samdægurs voru samþykkt lög um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020, en þau lúta að skipulagi stjórnsýslu á sviði jafnréttismála og ná m.a. til starfa Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála.
    Með setningu laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, var heimiluð hlutlaus skráning kyns í þjóðskrá. Breytingin fól í sér að þrír möguleikar urðu á kynskráningu í stað tveggja áður, þ.e. karl, kona og hlutlaus kynskráning. Með lögunum var einnig fólki frá 15 ára aldri heimilað að njóta óskoraðs réttar til að breyta skráningu kyns síns í þjóðskrá.
    Nýju jafnréttislögin frá 2020 taka mið af þessum nýja veruleika og með þeim er í fyrsta skipti í íslenskri kynjajafnréttislöggjöf gert ráð fyrir þremur möguleikum á kynskráningu. Þar af leiðandi er það nú í fyrsta skipti sem framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum tekur einnig til fólks með hlutlausa kynskráningu.
    Með nýju jafnréttislögunum frá 2020 var einnig í fyrsta skipti kveðið á um skýrt bann við fjölþættri mismunun. Með því er átt við þegar einstaklingi er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu sem nýtur verndar samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018, og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018. Framangreindri breytingu var ætlað að hafa þau áhrif að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kyni, kynþætti og þjóðernisuppruna, fötlun, kynhneigð o.fl. Með þessu var einstaklingum sem telja sér mismunað á grundvelli fjölþættrar mismununar veitt aukin réttarvernd. Dæmi um slík tilvik væri ætlað brot gegn fatlaðri konu af tilteknum kynþætti. Framkvæmdaáætlun þessi tekur mið af þessu.
    Í ljósi allra framangreindra lagabálka sem varða jafnrétti á einhvern hátt er rétt að árétta að þegar vísað er til jafnréttislaga í framkvæmdaáætlun þessari er átt við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.
    Frá upphafi árs 2019 voru jafnréttismál vistuð í forsætisráðuneyti en frá 1. mars 2025 heyra jafnréttismál undir dómsmálaráðuneyti, þar á meðal lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um stjórnsýslu jafnréttismála, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, lög um kynrænt sjálfræði, Jafnréttisstofa, kærunefnd jafnréttismála og Jafnréttissjóður Íslands.
    Margt hefur áunnist á undanförnum árum í jafnréttismálum á Íslandi. Litið er til Íslands á alþjóðavettvangi varðandi löggjöf um jafnréttismál, áherslu stjórnvalda á að sinna frumkvæðiskyldu á sviði jafnréttismála og varðandi þann árangur sem löggjöf og stefnumótun hefur skilað í jafnréttismálum. Til framfaraskrefa má nefna þau markvissu skref sem tekin hafa verið til að uppræta kynbundinn launamun, m.a. með löggjöf um jafnlaunavottun, verkefni um virðismat starfa í þágu launajafnréttis og reglulegum rannsóknum á launamun kynjanna, nánast jöfn hlutföll kvenna og karla sem kjörinna fulltrúa og ný lög um fæðingarorlof sem hafa leitt til þess að fjöldi feðra tekur fæðingarorlof sem leiðir af sér jafnari stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Kynjuð fjárlagagerð hefur verið fest í sessi við gerð fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps. Kerfisbundnar aðgerðir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi hafa leitt af sér umbætur í meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, bætt löggjöf og auknar fjárveitingar til málaflokksins hafa leitt til sterkari réttarstöðu brotaþola, bættrar þjónustu við þolendur og eflingar forvarna og fræðslu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.
    Kynjuð fjárlagagerð var lögfest með lögum um opinber fjármál sem tóku gildi árið 2016. Til þess að mæta ákvæði jafnréttislaga um kynjasamþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla opinbera stefnumótun og áætlanagerð og ákvæði laga um kynjaða fjárlagagerð við gerð fjárlaga hefur verið unnið mikið og metnaðarfullt starf innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í fjárlagafrumvarpi hvers árs er fjallað um áhrif ráðstafana á tekju- og gjaldahlið á jafnrétti, þar að auki er fjallað um kynjaða fjárlagagerð í fjármálaáætlun ríkisins til fimm ára, þá hafa flest ráðuneyti sett sér jafnréttismarkmið í fjármálaáætlun sem fylgt er eftir í fjárlagafrumvarpi. Unnin hefur verið markviss greiningarvinna þegar kemur að stöðu kynjanna á málefnasviðum og málaflokkum Stjórnarráðsins. Hefur það verið gert með mótun fimm ára áætlunar um kynjaða fjárlagagerð 2019–2023, með grunnskýrslu kynjaðrar fjárlagagerðar frá árinu 2019, þar sem finna má greiningu á stöðu kynjanna á flestum þeim málefnasviðum og málaflokkum sem fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp taka til. Grunnskýrslunni hefur svo verið fylgt eftir með stöðuskýrslum um kortlagningu kynjasjónarmiða fyrir árin 2021 og 2022 og hafa skýrslurnar nýst vel við jafnréttismat á ráðstöfun fjármuna við gerð fjármálaáætlana og fjárlagafrumvarpa.
    Ísland hefur verið í efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir ríki þar sem kynjajafnrétti mælist mest 15 ár í röð. Við greiningu ráðsins er staða hvers ríkis metin út frá fjórum lykilþáttum kynjajafnréttis: stjórnmálaþátttöku, efnahagslegri stöðu, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntunarstigi, þar sem hver lykilþáttur er greindur og gagna aflað fyrir hvert ríki um launajafnrétti, hlutfall kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga, atvinnutekjur og atvinnuþátttöku. Greining Alþjóðaefnahagsráðsins gefur þó ekki heildarmynd af stöðu kynjanna hér á landi. Þrátt fyrir að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi hafi verið með þeirri mestu innan ríkja OECD um árabil eru konur líklegri til að vinna hlutastörf en karlar og rannsóknir rekja það til þess að konur sinna í mun meira mæli ólaunuðum umönnunarstörfum en karlar. Þá er íslenskur vinnumarkaður enn mjög kynskiptur og hafa rannsóknir sýn fram á að það sé ein meginorsök kynbundins launamunar á íslenskum vinnumarkaði. Hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja fór hækkandi fram til ársins 2014 eftir að kynjakvóti í stjórnum hlutafélaga, fyrirtækja og lífeyrissjóða var lögbundinn árið 2010 en hefur haldist nokkurn veginn óbreyttur síðan þá. Árið 2023 var hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með 50 launamenn eða fleiri, þar sem stjórnarmenn voru fjórir eða fleiri, 41,4% í tilfelli almennra hlutafélaga og 36,5% í einkahlutafélögum. Lagasetning og fjölgun kvenna í stjórnum virðist þrátt fyrir allt ekki hafa skilað fleiri konum í stjórnendastöður stærstu fyrirtækja atvinnulífsins, karlar eru þar enn í miklum meiri hluta. Tíðni kynbundins ofbeldis eykst á tímum hamfara, átaka og efnahagsþrenginga. Kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum jókst á Íslandi í heimsfaraldri COVID-19, samkvæmt tölfræði lögreglunnar jukust tilkynningar um heimilisofbeldi af hendi maka úr 370 tilkynningum árið 2018 í 453 tilkynningar árið 2021, gerendur voru í langflestum tilvikum karlar og þolendur konur, árið 2024 voru 467 tilkynningar til lögreglunnar um heimilisofbeldi af hálfu maka.
    Í jafnréttislögum er kveðið á um að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skuli greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Jafnframt er kveðið á um þá skyldu fyrirtækja og stofnana með 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli að öðlast jafnlaunavottun á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. Stjórnvöld hafa í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins lagt áherslu á verkefni sem ætlað er að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði og uppræta kynbundinn launamun. Í skýrslu Hagstofu Íslands frá árinu 2024 kemur fram að launamunur karla og kvenna hefur dregist saman síðustu ár, á árunum 2019–2023 fór munur á atvinnutekjum úr 25,5% í 21,9%, óleiðréttur launamunur lækkaði úr 13,9% í 9,3% og leiðréttur launamunur úr 4,4% í 3,6%. Þessi rannsókn sem og aðrar hafa leitt í ljós að ein meginástæða launamunar á Íslandi er kynskiptur vinnumarkaður og vanmat á störfum kvenna. Laun eru almennt lægri í starfsgreinum þar sem konur eru í miklum meiri hluta, líkt og heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntagreinum, samanborið við starfsgreinar þar sem karlar eru í meiri hluta. Starfshópur um endurmat á virði kvennastarfa, með fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, lagði fram tillögur í september 2021 að aðgerðum þar sem byggt var á þessum markmiðum. Í kjölfarið var sett af stað vinna með sömu aðilum um ákveðið þróunarverkefni um þróun virðismatskerfis starfa í þágu launajafnréttis. Jafnlaunastofa vann tillögu að virðismatskerfi í þágu launajafnréttis fyrir starfshópinn og var verkefnið m.a. kynnt á opnum fundi vorið 2024. Í yfirlýsingu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra frá júní 2024, í tengslum við kjarasamninga sama ár, kom fram að farið yrði í aðgerðir gegn kynbundnum launamun, m.a. á grunni tillagna fyrri starfshópa. Útbúið yrði heildstætt virðismatskerfi sem hefði launajafnrétti að leiðarljósi. Miðað er við að nýtt kerfi verði tilbúið í árslok 2026 og verði eftir það innleitt í áföngum í samkomulagi aðila.
    Á undanförnum árum hafa stjórnvöld lagt áherslu á að vinna markvisst að aðgerðum gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni, umbótum í meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu og eflingu forvarna og fræðslu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Þetta hefur verið gert með endurskoðun og umbótum á löggjöf, má þar helst nefna lög um kynferðislega friðhelgi sem styrkja réttarvernd einstaklinga með hliðsjón af þeim samfélagslegu breytingum sem orðið hafa með aukinni tæknivæðingu og viðhorfsbreytingum gagnvart kynferðisbrotum á Íslandi. Þá var fyrsta fullfjármagnaða heildstæða áætlunin um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, samþykkt árið 2020, sbr. þingsályktun nr. 37/150. Í fyrsta sinn eru settar fram heildstæðar úrbætur sem byggjast á forvörnum sem eru samþættar kennslu og starfi á öllum skólastigum, innan frístundaheimila og félagsmiðstöðva og í öðru æskulýðs- og tómstundastarfi. Birt hefur verið aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota fyrir árin 2023–2025 þar sem m.a. var litið til tilmæla úr skýrslu eftirlitsnefndar um framfylgd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, en með henni verður áfram unnið markvisst að úrbótum við meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu. Framlög til löggæslu vegna kynferðisbrota og kynbundins ofbeldis voru hækkuð um 200 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2022. Til þess að tryggja öryggi fólks í landinu og takast á við skipulagða glæpastarfsemi, m.a. mansal, hafa stjórnvöld ákveðið að fjölga lögreglumönnum um 50 á árinu 2025. Jafnframt hafa stjórnvöld beitt sér fyrir því að bæta úrræði og þjónustu við þolendur kynferðis- og kynbundins ofbeldis með því að bæta þjónustu við komu þolenda á heilbrigðisstofnanir og styrkt og tryggt rekstrargrundvöll fyrir þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis. Þá var veitt fjármagn til Kvennaathvarfsins vegna nýbyggingar samtakanna og stofnunar kvennaathvarfs á Akureyri. Einnig hafa stjórnvöld tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi í baráttunni gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Ýmis verkefni tengd þeirri baráttu voru áherslumál stjórnvalda í formennsku Íslands í Evrópuráðinu árin 2022–2023 og formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um jafnréttismál og málefni hinsegin fólks árin 2019 og 2023. Þá er Ísland þátttakandi í átaksverkefninu Kynslóð jafnréttis á vegum UN Women. Markmið verkefnisins er að vinna að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með aðgerðum til ársins 2026. Verkefnið er unnið á sex málefnasviðum og stýrt af alþjóðlegum aðgerðabandalögum. Ísland leiðir aðgerðabandalag um kynbundið ofbeldi innan átaksverkefnisins, ásamt Bretlandi, Úrúgvæ, Kenía, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, UN Women, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Ford Foundation (góðgerðasjóði) og völdum alþjóðasamtökum kvennahreyfingarinnar. Skuldbindingar Íslands í átaksverkefninu eru 23 talsins og hafa það að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi með auknum forvörnum, bæta samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og efla þjónustu og stuðningsúrræði við bæði þolendur og gerendur.
    Á undanförnum árum hefur orðið bakslag í réttindum kvenna og hinsegin fólks í heiminum. Réttur kvenna til að ráða yfir eigin líkama hefur verið hertur með þungunarlöggjöf bæði í Evrópu og vestanhafs. Kynbundið ofbeldi er enn of algengt og enn hefur ekki tekist að útrýma kynbundnum launamun. Það kerfisbundna kynjakerfi og kynjamisrétti sem fyrirfinnst í raunheimum heldur áfram í netheimum og hefur myndast þar nýr vettvangur fyrir hatursorðræðu gegn konum og hinsegin fólki sem í sífellt meira mæli veigrar sér við að taka þátt í stjórnmálum vegna þeirra árása og hótana sem þau verða fyrir. Stöðugt þarf því að berjast fyrir, standa vörð um og stuðla markvisst að jafnrétti kynjanna og mannréttindum.
Tillögu dómsmálaráðherra til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum til næstu fjögurra ára er ætlað að ná utan um nokkur af brýnustu verkefnunum í málaflokknum. Ekki er um að ræða tæmandi upptalningu á þeim verkefnum sem brýn eru talin. Tillagan felur í sér áætlun sem skiptist í sex kafla og 39 aðgerðir sem áætlað er að framkvæma á gildistíma hennar. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun stjórnvalda á sviði kynjajafnréttismála birtist skýrt.
    Tillagan felur í sér áframhaldandi áherslu stjórnvalda á jafnlaunakerfi. Unnið verður áfram að innleiðingu jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar samhliða því að greining fer fram á því hvort ástæða sé til að gera breytingar á kerfinu í ljósi fyrirliggjandi reynslu. Jafnframt verður haldið áfram að rannsaka reglulega launamun karla og kvenna í samstarfi við Hagstofu Íslands. Þá má finna aðgerð sem lýtur að auknu jafnrétti erlendra kvenna á vinnumarkaði, þ.e. með því að unnin verður rannsókn á launamun innfæddra kvenna og innflytjendakvenna. Jafnframt er lögð áhersla á söfnun kyngreindra gagna og tölfræði við samþættingu jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku. Í því skyni má finna aðgerðir um söfnun kyngreindra tölfræðigagna um stöðu kynjanna í landbúnaði og sjávarútvegi og birtingu kyngreindra gagna með sérstöku mælaborði þegar kemur að alls kyns upplýsingum er varða sveitarstjórnir. Þá eru aðgerðir sem snúa að því að tryggja þekkingu á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða meðal kjörinna fulltrúa og stjórnenda sveitarfélaga með það að markmiði að tryggja jafnrétti og jafna meðferð við stefnumótun og ákvarðanatöku sveitarfélaga. Samkvæmt tillögunni verður áfram unnið að áherslumálum stjórnvalda varðandi kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Jafnframt má finna nýskapandi aðgerð um fjármögnun jafnréttisverkefna ríkisins með útgáfu kynjaðra skuldabréfa.
    Í kafla um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi er að finna aðgerð þar sem brugðist er við tilmælum eftirlitsnefndar um framkvæmd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningsins), sem birt voru árið 2022 að lokinni fyrstu fyrirtöku nefndarinnar um framfylgd samningsins hér á landi. Jafnframt verður unnið að bættri stöðu kvenna í fangelsum á Íslandi. Áfram er lögð áhersla á að styrkja og tryggja jafnrétti og jafnréttisfræðslu í skóla- og íþróttastarfi, m.a. með auknu aðgengi að kynja- og jafnréttisfræðslu, uppfærslu gátlista fyrir námsefni með tilliti til jafnréttislaga, þátttöku í sameiginlegu evrópsku verkefni um jafnrétti í íþróttum og með samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við íþróttalög. Þá er í tillögunni aðgerð sem ætlað er að skoða stöðu kvenna í íþróttaumfjöllun sem og almennri fjölmiðlaumfjöllun. Jafnframt má finna aðgerð tengda nýjum raunveruleika gervigreindartækninnar og áhrif og áskoranir hennar á jafnrétti metin.
    Að lokum má nefna alþjóðlegar skyldur íslenskra stjórnvalda á sviði jafnréttismála. Í tillögunni er kveðið á um að efla alþjóðlegt málsvarastarf og aðgerðir Íslands á sviði kynjajafnréttismála, m.a. með því að styðja jafnréttisverkefni í þróunarríkjum, og áfram verður unnið að áherslum Íslands á hlutverk karla í jafnréttismálum á vettvangi alþjóðastofnana og víðar. Þá verður lögð áhersla á kynjajafnrétti í forystuverkefnum Íslands á alþjóðavettvangi. Í tillögunni er jafnframt aðgerð sem snýr að fjórðu landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi en aðgerðin byggist á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 sem kveður á um framlag kvenna til öryggis og friðar í heiminum. Þá verður áfram unnið að kynjasamþættingu og efnahagslegri valdeflingu kvenna í alþjóðaviðskiptum sem hefur það að markmiði að tryggja betur hagsmuni kvenna og þátttöku í samningum á sviði alþjóðaviðskipta.
    Með tillögu þessari fylgir skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála 2020–2024, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, sbr. 12. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020.

Um einstakar aðgerðir tillögunnar.
UM A. KYN, ÁHRIF OG ÞÁTTTÖKU
Um 1. aðgerð.

    Framkvæmdasjóður kynjajafnréttismála er starfræktur í dómsmálaráðuneytinu. Markmið sjóðsins er að efla jafnréttisstarf stjórnvalda með úthlutun til verkefna ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Um sjóðinn gilda reglur um úthlutun framkvæmdasjóðs kynjajafnréttismála. Skv. 1. gr. er markmið sjóðsins „að stuðla að eftirfylgni við verkefni úr þingsályktun um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum þannig að nýta megi niðurstöður, reynslu og þekkingu sem fæst með umræddum verkefnum“.

Um 2. aðgerð.

    Í lokaathugasemdum nefndar um samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum við níundu reglubundnu skýrslu Íslands frá 31. maí 2023 (CEDAW/C/ISL/CO/9) lýsir nefndin áhyggjum af þekkingarskorti á samningnum, valfrjálsu bókuninni við hann og almennum tilmælum nefndarinnar meðal kvenna, einkum aðfluttra kvenna og kvenna með fötlun, sem hamlar því að þær geti sótt rétt sinn. Nefndin mælir með því að stjórnvöld setji aukinn kraft í að auka vitund meðal kvenna um réttindi sín samkvæmt samningnum og þau úrræði sem eru í boði til þess að sækja þessi réttindi, m.a. kæruleiðir einstaklinga og rannsóknarferli samkvæmt valfrjálsu bókuninni við samninginn, sem og meðal samtaka kvenna og aðila sem standa vörð um mannréttindi kvenna. Í framkvæmdaáætluninni er lagt til að auka þekkingu kvenna, einkum aðfluttra kvenna og kvenna með fötlun, á samningnum. Því verður sérstaklega horft til þess að kynningarmyndband um samninginn verði á íslensku, ensku og á auðskildu máli. Við gerð myndbandanna verður horft til samningsins, almennra tilmæla nefndarinnar og valfrjálsu bókunarinnar við samninginn. Kynningarfundur með samtökum kvenna sem standa vörð um mannréttindi kvenna byggist á ítarlegri efnistökum.

Um 3. aðgerð.

    Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða er mikilvægur þáttur í því að tryggja jafnrétti og jafna meðferð við stefnumótun, ákvarðanatöku og þjónustu. Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar og stjórnendur fái fræðslu um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða og læri að nýta þau verkfæri sem eru í boði, fái þekkingu á ávinningi og nauðsyn þess að skipuleggja, þróa og innleiða verklag kynja- og jafnréttissamþættingar og að samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða verði hluti af öllu gæðastarfi sveitarfélaganna. Því er lagt til að Jafnréttisstofa haldi námskeið og veiti almenna fræðslu um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur og að innviðaráðuneytið sjái um að boða til námskeiðahalds og fræðslufunda, sem yrðu leiddir af Jafnréttisstofu, fyrir öll sveitarfélög í landinu. Samhliða námskeiðum og fræðslu verður efni þessu tengt gert aðgengilegt á vef Jafnréttisstofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Um 4. aðgerð.

    Erfitt getur verið að setja nákvæma mælistiku á hugræna vinnu þar sem hún er huglæg og ósýnileg öðrum en krefst samt sem áður orku og tíma þess sem sinnir henni og hana má vinna á meðan verið er að sinna öðrum verkefnum. Því er lagt til að unnin verði eigindleg rannsókn í formi viðtalsbókar til þess að ná betur utan um eðli hugrænnar vinnu. Þetta er í takt við áhersluatriði megindlegrar tímanotkunarrannsóknar Hagstofu Íslands og forsætisráðuneytis. Slík eigindleg rannsókn gæti fangað kynjaðan raunveruleika og nýst við stefnumótunarvinnu á sviði kynjajafnréttis.

Um 5. aðgerð.

    Í kjölfar uppfærslu á fjármögnunarramma fyrir sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs hefur verið gefinn út viðauki um fjármögnun verkefna sem stuðla að kynjajafnrétti. Þetta gerir kleift að fjármagna ríkissjóð m.a. með útgáfu sjálfbærra kynjaðra skuldabréfa, innan lands og erlendis. Gerð hins sérstaka viðauka við fjármögnunarrammann um jafnrétti endurspeglar áherslur á jafnréttismál og valdeflingu kvenna og metnað til að vera í fararbroddi á alþjóðavísu þegar kemur að beitingu tækja opinberra fjármála og fjármálamarkaða til að stuðla að jafnrétti, enda er jafnrétti kynjanna einn hornsteina utanríkisstefnu Íslands. Markaður með sjálfbær skuldabréf hefur vaxið hratt á undanförnum áratug og fjölbreytileiki aukist. Líkt og með önnur sjálfbær fjármögnunartæki er aukin eftirspurn eftir fjárfestingartækifærum sem stuðla að sjálfbærni og jafnrétti. Ísland varð fyrst ríkja til að gefa út kynjuð skuldabréf í júní 2024 og nýtti þannig leiðandi stöðu sína í jafnréttismálum á alþjóðavísu. Um er að ræða jafnréttisverkefni á borð við fjárfestingu í umönnunarhagkerfinu til að draga úr ólaunuðum umönnunarstörfum kvenna og félags- og efnahagslegan stuðning við konur í viðkvæmri stöðu. Verkefnið telst vel á veg komið þegar gefin hafa verið út sjálfbær skuldabréf um fjármögnun verkefna sem stuðla að kynjajafnrétti. Þegar árangursskýrsla liggur fyrir telst verkefninu lokið.

Um 6. aðgerð.

    Skýrslur og greiningar hafa leitt í ljós að kynjahalli er talsverður í nýsköpunarumhverfinu, sérstaklega í tæknigreinum. Staða kvenna í akademíu og hagnýting rannsókna úr háskólaumhverfinu verður skoðuð sérstaklega með tilliti til tækifæra og menningar. Mat á rannsóknum er að miklu leyti bundið við mat á útgefnum tímaritsgreinum og bókum. Metið verður hvort rannsóknarmat sem fer fram á þennan hátt gæti jafnréttissjónarmiða í nútímasamfélagi og hvort taka eigi tillit til fleiri þátta við mat á rannsóknum, t.d. samfélagsáhrifa rannsókna, miðlunar niðurstaðna til almennings, samstarfs o.fl. Háskóli Íslands og Rannís hafa skuldbundið sig til að endurskoða rannsóknarmat og hvatt verður til að fleiri stofnanir geri slíkt hið sama. Hlutfall kvenna á meðal frumkvöðla er lágt á Íslandi sem og annars staðar á Norðurlöndum og sýna niðurstöður greiningar KPMG fyrir Framvís – samtök engla og vísifjárfesta í nýsköpun að á árinu 2021 fengu kvenkyns teymi 2% fjármagns og blönduð teymi 53% fjármagns frá íslenskum vísisjóðum. Þegar litið er til umsókna um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar eru karlar um 73% umsækjenda og flest nýsköpunarfyrirtæki, sem njóta endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar, eru í tæknigeiranum þar sem karlar eru í meiri hluta. Tækifæri eru til að auka fjölbreytni og verður sérstaklega litið til stuðningskerfis nýsköpunar og hvernig kynin nýta þau verkfæri sem stuðningskerfið býður upp á. Einnig verður litið til annarra minnihlutahópa í nýsköpun, svo sem frumkvöðla á landsbyggðinni og af erlendum uppruna.

Um 7. aðgerð.

    Fjölmiðlar gegn mikilvægu hlutverki við að vekja athygli á konum í íþróttum og hafa mótandi áhrif á viðhorf til kvenna og íþrótta. Skortur á umfjöllun um íþróttakonur hefur áhrif á sýnileika kvenna í íþróttum. Þá er einnig umfjöllun um íþróttakonur önnur en um karla, umfjöllun um þær byggist oft á staðalímyndum um kvenleika, barneignir, útlit þeirra og oft er umfjöllunin kynferðisleg frekar en um íþróttahæfileika þeirra. Þegar íþróttaumfjöllun í fjölmiðlum á Íslandi er rýnd kemur í ljós að það hallar verulega á konur. Mikilvægt er að íþróttaafrekum karla og kvenna séu gerð jöfn skil í fjölmiðlum. Fyrirmyndir af sama kyni geta hvatt yngri iðkendur til dáða. Lagt er til að metin sé þörf á útbótum til að styrkja stöðu íþróttakvenna í íþróttaumfjöllun og auka umfjöllun um íþróttakonur með það að markmiði að jafna hlut kynjanna í íþróttaumfjöllun fjölmiðla.

Um 8. aðgerð.

    Fjölmiðlar hafa það hlutverk að koma upplýsingum á framfæri við almenning og eru fjölmiðlar ein mikilvægasta upplýsingalind almennings í lýðræðissamfélögum. Þeir geta haft félagsmótandi áhrif, stuðlað að félagslegum breytingum sem og staðið í vegi fyrir þeim. Fjölbreytni í umfjöllun fjölmiðla og sýnileiki sem flestra þjóðfélagshópa er mikilvægur til að gefa sem besta mynd af þjóðfélaginu og aðstæðum mismunandi hópa. Rannsóknir benda til þess að í íslenskum fréttamiðlum sé meiri kynjahalli en gera mætti ráð fyrir miðað við stöðu kvenna í samfélaginu. Fáar konur eru til að mynda í hlutverki sérfræðinga og álitsgjafa í fréttum, þrátt fyrir að konur hafi verið meiri hluti háskólanema í tæplega fjóra áratugi og þeim hafi fjölgað í hópi sérfræðinga, ásamt því að gegna leiðandi stöðum hjá hinu opinbera og í fjöldahreyfingum launafólks. Það er mikilvægt að fjölmiðlar fjalli til jafns um kynin, svo að konur og aðrir minnihlutahópar verði ekki ósýnileg í umfjöllun samtímans. Í 26. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, segir að fjölmiðlum beri að gæta þess að sjónarmið jafnt karla og kvenna komi fram. Lagt er til að metið verði hvort fjölmiðlaumfjöllun sé almennt í samræmi við stöðu kvenna í samfélaginu og leiðir til að auka sýnileika kvenna í fjölmiðlun verði greindar ef þörf þykir.

Um 9. aðgerð.

    Gervigreindartækni hefur þróast hratt á síðustu árum og stjórnvöld, íslensk sem erlend, skortir yfirsýn yfir notkun tækninnar, áhrif á opinbera stjórnsýslu og starfsemi hins opinbera. Mikilvægt er að bera tækifæri og áskoranir við notkun tækninnar saman við aukna stafvæðingu hins opinbera. Líta þarf til siðferðilegra sjónarmiða við frekari innleiðingu gervigreindar. Mikilvægt er að fylgjast vel með umræðu á alþjóðlegum vettvangi þar sem gervigreindartæknin nær yfir landamæri og getur byggt á upplýsingum óháð tungumáli eða stað. Mikilvægt er að kerfi sem byggjast á gervigreind verði hönnuð með jafnrétti kynja í huga, annars eiga þau á hættu að viðhalda og jafnvel auka kynjaskekkju. Það getur leitt til ósanngjarnar niðurstöðu greininga og komið í veg fyrir markmið um inngildingu. Gagnsæ þróun og siðferðileg nýting gervigreindartækni getur aftur stuðlað að auknu jafnrétti og þannig tryggt aðkomu fjölbreyttra sjónarmiða. Af þessum ástæðum er það siðferðileg skylda að tryggja að jafnrétti sé haft að leiðarljósi við þróun og innleiðingu gervigreindar. Slík samþætting eykur gæði stefnumótunar og tryggir réttlátara samfélag. Aukin nýting gagna og gervigreindar við ákvarðanatöku hefur áhrif á fjölmörg svið og þætti í starfi hins opinbera. Sem dæmi má nefna ráðningar í opinber störf eða innleiðingu jafnlaunakerfa, ákvörðun bóta og annarra réttinda, við löggæslu og í dóms- og réttarkerfi þar sem ákveðnir hópar gætu orðið fyrir mismunun. Lagt er til að unnin verði úttekt til að varpa ljósi á hvar helstu áhættuþætti við notkun gervigreindar í starfi hins opinbera liggja varðandi jafnréttismál.

UM B. KYNJAÐA TÖLFRÆÐI OG MÆLABORÐ

Um 10. aðgerð.

    Söfnun og meðferð upplýsinga um stöðu kynjanna í samfélaginu er hornsteinn að markvissu jafnréttisstarfi. Kyngreinda tölfræði er að finna víða og um árabil var gefinn út á pappír bæklingur sem síðast kom út árið 2019 í útgáfunni Konur og karlar. Brýnt er að hafa á einum stað kyngreindar upplýsingar sem auðvelda aðgengi almennings, fræðafólks og annarra aðila sem leita að upplýsingum í tengslum við rannsóknir og úttektir. Lagt er til að leitað verði samstarfs við Hagstofu Íslands um að gera átak í að safna á einn stað þeim kyngreindu upplýsingum sem til eru.

Um 11. aðgerð.

    Til að mæla framfarir í jafnréttismálum skiptir þróun mælikvarða miklu máli. Þá er mikilvægt hvaða mælingar eru notaðar til að meta jafnrétti. Mælikvarðar eru undirstaða vandaðrar stefnumótunar og ákvarðanatöku. Við val á mælikvörðum þarf að vera skýrt hvað á að mæla, til hvers mælt er og hvort gögn séu til. Æskilegt er að hægt sé að brjóta mælinguna niður á þjóðfélagshópa til að draga fram mismunandi stöðu. Auka má gæði mælikvarða með því að viðeigandi niðurbrot á tölfræði eftir sem flestum bakgrunnsbreytum sé mögulegt, svo fremi að persónuverndarsjónarmið mæli ekki gegn því. Finna þarf leiðir til að takast á við þær áskoranir sem fylgja skráningu og birtingu viðkvæmra gagna út frá smæð hópa þar sem upplýsingar um hlutaðeigandi einstaklinga geta orðið persónugreinanlegar. Ráðist verður í tilraunaverkefni um þróun mælikvarða og söfnun gagna til að meta framgang jafnréttismála.

Um 12. aðgerð.

    Greitt aðgengi að kyngreindum tölfræðiupplýsingum er ein af lykilforsendum þess að varpa ljósi á stöðu kynjanna. Lagt er til að þróað verði mælaborð yfir kynjaða tölfræði á sviði sveitarstjórnarmála sem leiðir fram helstu breytur á sviði kynjajafnréttis myndrænt á vef Jafnréttisstofu. Þar má nefna hlutfall kynjanna í sveitarstjórnum, helstu nefndum og ráðum, upplýsingar um hlutfall sveitarfélaga með jafnlaunavottun og jafnréttisáætlanir, svo dæmi séu tekin. Jafnframt verður skoðað hvort hægt verði að leiða fram upplýsingar um þátttöku minnihlutahópa á borð við innflytjendur í stjórnum sveitarfélaganna. Lögð verður áhersla á að nýta nútímatækni á sviði sjálfvirkni til að uppfæra upplýsingar í mælaborðinu þegar slíku verður við komið.

Um 13. aðgerð.

    Áskorun er að átta sig á stöðu kynjanna innan frumframleiðslu landbúnaðarins út frá þeim gögnum sem til eru. Opinber tölfræðigögn gefa ekki alltaf rétta mynd af stöðu kynjanna innan greinarinnar, m.a. vegna þess að starfsframlag kvenna er í mörgum tilfellum hvergi skráð í opinberum gögnum. Þau gögn sem þó eru til staðar gefa ákveðna mynd af stöðu kynjanna og af þeim mætti draga þá ályktun að frumframleiðsla landbúnaðar væri karllæg atvinnugrein og að konur væru minna sýnilegar innan hennar. Þau gögn sem um ræðir eru m.a. upplýsingar um upphæðir stuðningsgreiðslna samkvæmt búvörusamningum eftir kynjum. Undanfarin ár hefur þó færst í aukana að bú séu rekin sem lögaðilar í stað einyrkjarekstrar. Erfitt hefur reynst að tengja upplýsingar um raunverulega eigendur í greiðslukerfi búvörusamninga og þar með verður erfiðara að átta sig á hvernig opinberar greiðslur nýtast eftir kynjum, m.a. með tilliti til launagreiðslna og réttindasöfnunar. Önnur gögn sem styðjast má við þegar greina á stöðu kynjanna í landbúnaði eru umsóknir um nýliðunarstuðning landbúnaðarins samkvæmt búvörusamningum. Samkvæmt þeim má sjá að meiri hluti umsækjanda er karlar. Einnig hefur verið stuðst við upplýsingar um lánveitingar Byggðastofnunar til starfsemi í landbúnaði en árið 2023 voru langflestar lánsbeiðnir frá aðilum þar sem karlar og konur komu að rekstri, eða um 77% umsókna. Þau opinberu gögn sem styðjast má við gefa því til kynna að staða kynjanna innan atvinnugreinarinnar sé ójöfn og að þó nokkuð halli á konur. Gögnin segja þó ekki alla söguna en sýnileiki kvenna í landbúnaði hefur aukist og hlutur kvenna er vaxandi á ákveðnum sviðum landbúnaðarins. Má sem dæmi nefna að nú eru fleiri konur framkvæmdastjórar, formenn eða stjórnarmenn hagsmunasamtaka í landbúnaði en áður. Mikilvægt er að kyngreind gögn liggi fyrir svo að hægt sé að gera raunhæft mat á kynja- og jafnréttisáhrifum verkefna, aðgerða og stefnumótandi ákvarðana á málefnasviði landbúnaðar, m.a. liggja nú fyrir samþykktar þingsályktanir um landbúnaðarstefnu og matvælastefnu og fram undan er vinna við að móta aðgerðaáætlanir vegna þeirra. Hér er því lagt til að skoða hvaða gögnum þarf að safna, hvaða upplýsingar gefa sem skýrasta mynd af stöðunni og skilgreina umfang vinnunnar. Þá er einnig stefnt að því að skoða hvort hægt sé að nýta Afurð, greiðslukerfi landbúnaðarins, til að safna gögnunum.

Um 14. aðgerð.

    Á undanförnum árum hafa verið gerðar rannsóknir sem hægt er að nýta til að draga ályktanir um stöðu kynjanna í sjávarútvegi en þó nokkrar áskoranir snúa að opinberum gögnum. Gögn sem safnað er, hvort sem þau eru bein eða afleidd, eru oft ekki kyngreinanleg eða erfitt að draga ályktun um kyngreiningu af fyrirliggjandi gögnum. Tölfræðiupplýsingar og niðurstöður rannsókna sem þó eru fyrir hendi benda til þess að verulegt ójafnvægi sé almennt á milli stöðu kynja í sjávarútvegi og fiskeldi. Því er mikilvægt að bæta öflun og miðlun kyngreinanlegra gagna til þess að geta brugðist við þessum kynjamun. Vegna áðurnefnds ójafnvægis kemur sambærilegt ójafnvægi einnig fram í ráðstöfun fjármagns til málefnasviðsins. Því er lagt til að skoðað verði hvaða gögnum þarf að safna og hvaða upplýsingar gefa sem skýrasta mynd af stöðu kynjanna í sjávarútvegi. Fyrsta skref verkefnisins er því að skilgreina umfang gagnaöflunar. Í kjölfarið yrði farið í markvissa söfnun á þeim gögnum sem nauðsynleg eru svo að ákvarðanataka, bæði hvað varðar stefnumótun og ráðstöfun fjármagns á málefnasviði sjávarútvegsins, megi vera sem sanngjörnust.

Um 15. aðgerð.

    Loftslags- og orkusjóður, í daglegu tali nefndur Orkusjóður, styður við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, orkunýtingar og hringrásarhagkerfis. Sjóðurinn er jafnframt beintengdur stuðningsaðgerðum, svo sem styrkjum til kaupa á rafbílum. Markmið aðgerðarinnar er að greina hvernig styrkveitingar til rafbílakaupa einstaklinga hafa dreifst eftir kyni borið saman við virðisaukaskattsívilnanir til rafbílakaupa. Fyrirkomulag beinna styrkveitinga Orkusjóðs til rafbílakaupa einstaklinga er nýtt af nálinni en það tók gildi í byrjun árs 2024 og leysti af hólmi eldra fyrirkomulag sem fól í sér niðurfellingu virðisaukaskatts vegna kaupa og innflutnings á hreinorkubílum. Kyngreind gögn um eignarhald nýskráðra bíla eftir orkugjafa sýna að karlar eru töluvert líklegri til þess að vera skráðir eigendur nýrra rafbíla. Fyrirkomulagi styrkveitinga er ætlað að tryggja aukinn jöfnuð til rafbílakaupa en þar sem styrkirnir fela í sér fasta krónutölu eru þeir hlutfallslega hærri við kaup á ódýrari rafbílum. Þar sem konur eru líklegri til þess að kaupa sér smærri og hagkvæmari bíla en karlar má ætla að styrkjafyrirkomulagið henti betur með tilliti til kynjajafnréttis. Nauðsynlegt er að baráttan gegn loftslagsbreytingum eigi sér stað á forsendum jafnréttis og réttlátra umskipta, enda geta aðgerðir í loftslagsmálum bæði aukið og dregið úr félagslegu misrétti eftir því hvernig að þeim er staðið. Samkvæmt stefnu stjórnvalda um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum er mikilvægt að breytingar komi ekki harðar niður á viðkvæmum hópum og að félagslegt réttlæti sé leiðarstef. Í uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum kemur fram að aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum skuli taka mið af samfélagslegum áhrifum og stuðla að réttlæti í grænum umskiptum. Mikilvægt er að aðgerðir í loftslagsmálum miði samhliða að auknu jafnrétti og jöfnuði en verði ekki til þess að auka á misrétti og aðstöðumun. Með því að leggja réttar áherslur og tryggja samspil við efnahagslegar og félagslegar aðgerðir er hægt að hámarka árangur loftslagsaðgerða og tryggja um leið réttlát umskipti.

UM C. JAFNRÉTTI Á VINNUMARKAÐI OG KYNBUNDINN LAUNAMUN

Um 16. aðgerð.

    Forsætisráðherra skipaði aðgerðahóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði í september 2021. Hlutverk hópsins byggðist á tillögum starfshóps um endurmat á virði kvennastarfa sem settur var á laggirnar í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BSRB við ríki og sveitarfélög vorið 2020. Þar var því lýst yfir af hálfu fyrri ríkisstjórnar að sett yrði af stað vinna til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði með því að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meiri hluta.
    Aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði skilaði skýrslu með tillögum að virðismatskerfi og byggist verkefnið nú á tillögum fyrri aðgerðahóps og sækir stoð sína í yfirlýsingu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra vegna aðgerða stjórnvalda til stuðnings kjarasamningum á vinnumarkaði 2024.

Um 17. aðgerð.

    Lög um jafnlaunavottun tóku gildi 1. janúar 2018. Með nýjum kynjajafnréttislögum árið 2020 var gerð sú breyting að nú geta minnstu fyrirtækin á almenna vinnumarkaðnum valið að sækja um jafnlaunastaðfestingu í stað jafnlaunavottunar. Áfram verður unnið markvisst að framfylgd laganna þar sem markmiðið er að öll fyrirtæki og stofnanir sem heyra undir lögin öðlist vottun eða jafnlaunastaðfestingu.
    Jafnframt verður skoðað sérstaklega hvort ástæða er til að gera breytingar á lagaákvæðum og reglum um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu í ljósi fyrirliggjandi reynslu. Bent hefur verið á að stuðla mætti að einföldun og aukinni skilvirkni jafnlaunakerfisins.
    Jafnréttisstofa safnar upplýsingum um þau fyrirtæki sem fá jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu.

Um 18. aðgerð.

    Árið 2025 voru birtar niðurstöður rannsóknar á launamun karla og kvenna sem Hagstofa Íslands sá um í samstarfi við ráðuneyti jafnréttismála. Niðurstöðurnar leiða í ljós að launamunur karla og kvenna hefur dregist saman frá 2019–2023 og á það jafnt við um atvinnutekjur, óleiðréttan og leiðréttan launamun. Kynbundinn launamunur minnkaði úr 25,5% niður í 21,9%, óleiðréttur launamunur á tímakaupi reglulegra heildarlauna fór úr 13,9% í 9,3% og leiðréttur launamunur úr 4,4% í 3,6% á tímabilinu. Mestur kynbundinn launamunur var í öllum tilvikum meðal starfsmanna á almennum vinnumarkaði á tímabilinu. Kynbundinn leiðréttur launamunur meðal þeirra var 4,5% árið 2023, meðal ríkisstarfsmanna 3,0% og starfsfólks sveitarfélaga 0,6%.
    Niðurstöður rannsókna sýna fram á að nýta þarf fjölbreyttar leiðir til að ná frekari árangri við að jafna kynbundinn launamun. Helsta áskorunin á því sviði felst í kynskiptum vinnumarkaði, þ.e. í vanmati á hefðbundnum kvennastörfum í samanburði við hefðbundin karlastörf. Stjórnvöld hafa ýtt úr vör viðamikilli vinnu í samvinnu við fulltrúa sveitarfélaga og helstu hagaðila á vinnumarkaði í því skyni að þróa virðismatskerfi starfa í þágu launajafnréttis. Með þróun kerfisins standa vonir til að hægt verði að draga verulega úr launabili milli hefðbundinna kvenna- og karlastétta á allra næstu árum. Með sama hætti er stuðlað að því að draga úr kynbundnum launamun með þróun og innleiðingu jafnlaunakerfis.
Mikilvægt er að halda áfram reglulegum rannsóknum á launamun karla og kvenna í því skyni að meta og stuðla að markvissum árangri af aðgerðum stjórnvalda í þágu launajafnréttis.

Um 19. aðgerð.

    Konur úr hópi innflytjenda eiga á hættu að verða fyrir margþættri mismunun þar sem þeim er mismunað út frá kyni og uppruna. Í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025 er aðgerð um rannsókn á launamun milli innfæddra og innflytjenda á vinnumarkaði. Mikilvægt er að sjá hvort óútskýrður launamunur sé á milli innlendra kvenna og innflytjendakvenna á sama tíma og staða kvenna almennt er borin saman við stöðu karla. Því er lagt til að rannsóknin verði útvíkkuð þannig að hún nái einnig til kynbundins launamunar og stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði og að sérstaklega verði horft til svokallaðra hefðbundinna kvenna- og karlastétta.

UM D. KYNBUNDIÐ OG KYNFERÐISLEGT OFBELDI

Um 20. aðgerð.

    Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningurinn) tók gildi 1. ágúst 2018. Istanbúlsamningurinn er fyrsti lagalega bindandi alþjóðasamningurinn sem tekur heildstætt á ofbeldi gegn konum og kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að sinna forvörnum, veita vernd og aðstoða konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila og bjóða gerendum úrræði og meðferð. Fullgilding Istanbúlsamningsins af Íslands hálfu er í samræmi við markmið stjórnvalda um aðgerðir til að útrýma kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, þ.m.t. ofbeldi í nánum samböndum. Liður í því markmiði er framkvæmd aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins 2023–2025 og skipun stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi, sem m.a. vinnur að tillögum um aðgerðir gegn stafrænu ofbeldi, viðbrögðum við #églíka/#metoo-frásögnum kvenna og endurskoðun á forvarna- og fræðslustefnu að því er varðar kynferðislegt ofbeldi og áreitni.
Verkefni um gerð stefnumarkandi landsáætlunar um framkvæmd Istanbúlsamningsins byggist á 10. gr. samningsins sem kveður á um að skilgreina ábyrgð hins opinbera á samræmingu, framkvæmd og eftirfylgni aðgerða vegna þeirra skuldbindinga sem aðild að samningnum felur í sér. Landsáætlunin skal jafnframt hafa að markmiði að skapa yfirsýn yfir innleiðingu laga og ráðstafana stjórnvalda sem lúta að framkvæmd samningsins og eftirfylgni fyrstu fyrirtöku Íslands árið 2021 hjá eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með framkvæmd skuldbindinga samningsins.

Um 21. aðgerð.

    Í 1. mgr. 13. gr. samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningsins) er kveðið á um að samningsaðilar skuli reglulega og á öllum stigum stuðla að eða standa að átaksverkefnum eða áætlunum til vitundarvakningar, m.a. í samvinnu við innlend jafnréttis- og mannréttindasamtök, almenning, frjáls félagasamtök, þar sem það á við, í því skyni að auka vitund og skilning almennings um mismunandi birtingarmyndir ofbeldis sem falla undir gildissvið samningsins, afleiðingar þess fyrir börn og mikilvægi þess að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi. Enn fremur segir í 2. mgr. að samningsaðilar skuli tryggja víðtæka miðlun upplýsinga til almennings um tiltækar aðgerðir til að koma í veg fyrir ofbeldi sem fellur undir gildissvið samningsins. Því er lagt til að unnið verði að vitundarvakningu um Istanbúlsamninginn.

Um 22. aðgerð.

    Áfallamiðuð nálgun í réttarvörslukerfinu er mikilvæg, sérstaklega fyrir kvenfanga sem eru mjög oft þolendur ofbeldis. Á sama tíma er áfallamiðuð nálgun mikilvæg fyrir karlmenn sem eru fangar og oft gerendur ofbeldis en eiga þó margir að baki erfiða áfallasögu sem þolendur. Mikilvægt er að aðstoða gerendur því að engir þolendur eru án gerenda. Vitað er að stór hluti þeirra sem afplána í fangelsum, óháð kyni, á sér langa og flókna áfallasögu. Þótt áfallamiðuð nálgun eigi við um alla fanga er samt ljóst að konur í fangelsum eru sérstaklega viðkvæmur hópur og hafa flestar konur í fangelsum orðið fyrir margs konar áföllum fyrir fangelsisvist. Þessi reynsla getur haft hamlandi áhrif á samskipti og hegðun og aukið líkur á fíkniefnavanda og þróun geðraskana. Þá hafa rannsóknir sýnt að ákveðnar aðstæður geta ýtt undir frekari áfallaviðbrögð og er fangelsisumhverfið þar á meðal. Því er mikilvægt að gera það sem hægt er til að draga úr þeim neikvæðu þáttum sem geta ýtt undir hvers konar áfallaviðbrögð. Einstaklingar í afplánun standa frammi fyrir margs konar áskorunum og mikilvægt að reynt sé að lágmarka aðstæður og samskipti sem geta aukið áfallaviðbrögð, svo sem sjálfsskaða, tilfinningalegt ójafnvægi, aukna vímuefnaneyslu og ofbeldi. Fyrstu skrefin sem þarf að taka í þeim efnum er að starfsfólk fangelsa hafi skilning á því hvaða afleiðingar áföll á lífsleiðinni geta haft á einstaklinga og misjöfn áhrif þeirra á kynin, skilji og sé meðvitað um hver einkennin eru og leiti leiða til að draga úr þeim þáttum sem geta kallað fram, aukið eða endurvakið áfallaviðbrögð. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að félagsleg staða kvenna í afplánun er almennt slæm og þær eru líklegri en karlar í sömu stöðu til að glíma við vímuefnavanda og geðræn vandamál. Stór hluti kvenfanga glímir við andleg veikindi, konur í fangelsum eru líklegri til að hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku og konur hefja að jafnaði fyrstu afplánun síðar á lífsleiðinni en karlar og eru þá oft lengra leiddar af fíkn og öðrum andlegum og líkamlegum sjúkdómum en karlar. Mæður í afplánun eru líklegri en feður í sömu stöðu til þess að vera eini eða helsti umönnunaraðili barns/barna sinna.
    Skortur er á rannsóknum um hag kvenna í fangelsum á Íslandi. Umboðsmaður Alþingis gerði skýrslu árið 2023 um stöðu kvenna í fangelsum á grundvelli OPCAT-eftirlitsins. Margar kvennanna sem umboðsmaður ræddi við lýstu erfiðleikum í æsku, vímuefnavanda, sögu um áföll og ofbeldi og andlegum veikindum. Nýleg viðtalsrannsókn um reynslu kvenfanga, m.a. af meðferðarúrræðum, bendir til þess að vandi þeirra sé flókinn og samofinn áfallasögu þeirra sem þolenda kynbundins og kynferðislegs ofbeldis. Því er lagt til að allt starfsfólk Fangelsismálastofnunar fái þjálfun í áfallamiðaðri nálgun og í að sinna kvenkyns föngum, sem og fræðslu um ólíkar þarfir og þjónustu kynjanna meðan á afplánun stendur svo að hægt sé að skapa umhverfi sem eykur öryggistilfinningu bæði þeirra sem eru vistaðir í fangelsum og þeirra sem vinna í fangelsum.

Um 23. aðgerð.

    Karlar og drengir hafa mikilvægu hlutverki að gegna í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi gegn konum og stúlkum, þar á meðal sem aðstandendur, vitni eða bandamenn. Ofbeldi gegn konum er birtingarmynd ójafnra valdatengsla kvenna og karla og hefur áhrif á samfélagið í heild. Til að uppræta kynbundið ofbeldi er mikilvægt að virkja karla og leggja áherslu á þátttöku þeirra í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Lagt er því til að skipaður verði starfshópur sem skoði sérstaklega hlutverk karla í baráttunni gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Sérstaklega verði leitað eftir samstarfi við samtök á borð við Stígamót í Reykjavík og Aflið á Akureyri. Starfshópurinn taki mið af verkefnum sem þegar hafa verið unnin á sviði ofbeldisforvarna í nágrannalöndum. Horft verði til leiðbeininga jafnréttisnefndar Evrópuráðsins um hlutverk karla og drengja í jafnréttismálum og forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, sem hlutu samþykki aðildarríkjanna árið 2023.

Um 24. aðgerð.

    Í skýrslu GREVIO, eftirlitsnefndar Evrópuráðsins með framkvæmd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, er tilmælum beint til Íslands um að efla þurfi þekkingu starfsfólks í félagsþjónustu, lögreglu, skóla og frístundasviðs, heilbrigðiskerfis, þeirra sem sinna þjónustuúrræði fyrir þolendur ofbeldis og fleiri viðeigandi aðila á birtingarmyndum neikvæðs félagslegs taumhalds og heiðursofbeldis og hvernig bregðast skuli við því. Því er lagt til að unnið verði fræðsluefni og því miðlað markvisst til framangreindra aðila. Við gerð fræðsluefnis er gert ráð fyrir að litið verði til verkefna sem unnið er að á Norðurlöndunum en Ísland er þátttakandi í norrænu tengslaneti sem fjallar reglulega um stöðu þessara mála og kortleggur aðgerðir gegn neikvæðu félagslegu taumhaldi og heiðursofbeldi.

Um 25. aðgerð.

    Auka þarf úrræði fyrir gerendur heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis á Ísland. Á þetta er m.a. bent í skýrslu GREVIO, eftirlitsnefndar Evrópuráðsins með framkvæmd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Hér á landi býðst gerendum einkum tvö meðferðarúrræði en það eru Heimilisfriður og Taktu skrefið. Gert er ráð fyrir að kortlagt verði í samanburðarlöndum hvers konar þjónusta stendur þessum hópi til boða auk þess sem kannað verður hver veiti þjónustuna, hver beri ábyrgð á henni, hvaða árangur sé af þjónustunni o.fl. með það að markmiði að bjóða fjölbreyttari úrræði hér á landi fyrir gerendur ofbeldis.

Um 26. aðgerð.

    Heimilisofbeldi er stærsta ógn við lýðheilsu kvenna en um þriðjungur kvenna hefur mátt þola líkamlegt og/eða kynferðislegt ofbeldi af hálfu maka. Einstaklingar af öllum kynjum eru þolendur heimilisofbeldis en konur eru líklegri til að vera þolendur. Heilbrigðisstarfsfólk er oft fyrstu aðilarnir, og jafnvel þeir einu, sem fá vitneskju um ofbeldið og því brýnt að fyrir hendi sé verklag og skýrar boðleiðir um viðeigandi þjónustu. Mikilvægt er að hafa upplýsingar um birtingarmynd heimilisofbeldis innan heilbrigðiskerfisins en slíkar niðurstöður eru mikilvægar við ákvarðanatöku, stefnumótun og forgangsröðun verkefna. Innleitt hefur verið nýtt verklag um móttöku þolenda heimilisofbeldis hjá heilbrigðisstofnunum. Verklagið er hugsað út frá þverfaglegri nálgun og þjónustu innan heilbrigðiskerfisins þar sem hjúkrunarfræðingar, læknar, félagsráðgjafar og sálfræðingar vinna saman að málum þolenda en einnig er rík áhersla lögð á samstarf milli kerfa, svo sem við lögreglu, félagsþjónustu, neyðarathvörf og barnavernd.
    Innleiðing verklags móttöku þolenda heimilisofbeldis hófst haustið 2023 og er annars vegar kynning á nýju verklagi við móttöku þolenda ofbeldisins á öllum heilbrigðisstofnunum landsins og hins vegar kynning á nýju rafrænu skráningarformi sem nýta á til að halda utan um tölfræði í málaflokknum. Til þess að leggja mat á árangur verklagsins er lagt til að óskað verði eftir gögnum í formi eigindlegra upplýsinga úr rafrænu skráningarformi í heimilisofbeldismálum tvisvar sinnum á ári, m.a. eftir ýmsum ítarlegum breytum sem hægt er að kalla fram úr skráningarforminu. Jafnframt verði gert ráð fyrir að einu sinni á ári verði spurningalisti sendur til heilbrigðisstarfsfólks sem vinnur í málaflokknum með það að markmiði að meta árangur innleiðingarinnar og bregðast um leið við þeim ábendingum sem fram kunna að koma. Tilgangur vinnunnar er að fá skýra sýn á umfang og eðli birtingarmyndar heimilisofbeldis á Íslandi en einnig að varpa ljósi á árangur innleiðingarinnar í heilbrigðiskerfinu.
    Mikilvægt er að mæla árangur af innleiðingu verklags og rafrænu skráningarformi til að skilja betur hvar þörfin liggur, hvað þarf að gera betur og hvað gengur vel. Án slíkra upplýsinga er erfitt að koma til móts við þarfir heilbrigðisstarfsfólks og þolenda heimilisofbeldis sem leita á heilbrigðisstofnanir landsins.

Um 27. aðgerð.

    Niðurstöður rannsóknar Háskóla Íslands, Áfallasögu kvenna, frá árinu 2022 sýndu að um 15% kvenna í ferðaþjónustu hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri áreitni á vinnustað. Niðurstöðurnar gáfu jafnframt til kynna að kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart konum sé algengara á vinnustöðum með vaktafyrirkomulagi og óreglulegum og löngum vinnutíma en annars staðar. Konur sem vinna við slíkar aðstæður eru líklegar til að vera einar að störfum með mögulegum gerendum og engin vitni að því sem þar fer fram. Því er lagt til að greint verði hvers vegna kynferðisleg áreitni gagnvart konum sem starfa í ferðaþjónustunni er jafn algeng og raun ber vitni, skoðaðar verði leiðir til að draga úr slíku ofbeldi og auka starfsöryggi kvenna í ferðaþjónustu, hvort sem það er með lagabreytingu, fræðslu, breyttu vinnufyrirkomulagi eða öðrum hætti.

UM E. JAFNRÉTTI Í MENNTUN OG ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSSTARFI

Um 28. aðgerð.

    Eftirlit með jafnréttisfræðslu í skólastarfi færðist til þess ráðuneytis sem fer með menntamál með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Jafnréttisfræðsla hefur því ákveðna sérstöðu í skólakerfinu þar sem menntamálayfirvöldum er gert að hafa eftirlit með þessu fagi sérstaklega enda er jafnréttisfræðsla lykilatriði til að ná fram jafnrétti í samfélaginu. Jafnrétti er einn af sex grunnþáttum menntunar á öllum skólastigum í aðalnámskrám. Grunnþættirnir ná til starfshátta, inntaks og námsumhverfis og eiga að stuðla að samfellu í skólakerfinu. Grunnþátturinn jafnrétti er nánar útfærður í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla. Því er lagt til að endurskoðuð verði gæðaviðmið við mat á starfi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfi grunnskóla til að tryggt verði að jafnréttisfræðsla sé fléttuð inn í skólastarfið á öllum skólastigum eins og gert er ráð fyrir í aðalnámskrám.

Um 29. aðgerð.

    Mikilvægt er að kennarar á öllum skólastigum búi yfir þekkingu á kynja- og jafnréttis-fræðum til að hægt sé að uppfylla 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, þar sem m.a. segir: „Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks.“ Því er lagt til að þróuð verði fræðsluúrræði fyrir kennara, stjórnendur og annað starfsfólk framhaldsskóla til þess að tryggja að það geti veitt viðeigandi fræðslu í samræmi við fyrrnefnt ákvæði. Með kynja- og jafnréttisfræðslu skapast rými til að fjalla um samfélagslegar hugmyndir sem viðhalda kynjaójöfnuði. Með fræðslu er hægt að stuðla að aukinni vitund um kynjamisrétti, uppræta staðalímyndir og ýta undir heilbrigð samskipti í nánum samböndum.

Um 30. aðgerð.

    Í menntastefnu til ársins 2030 er kveðið á um að skólar og aðrar menntastofnanir taki mið af þörfum, getu og hæfni sérhvers nemanda og vinni út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins. Samfélaginu beri skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja öllum tækifæri til þess að þroskast og dafna á eigin forsendum innan menntakerfisins. Mikilvægt sé að tryggja að allir nemendur finni sig í menntakerfinu og að stuðlað sé að jafnrétti innan þess. Til að ná því markmiði þarf að ráðast í aðgerðir til að draga úr brotthvarfi úr framhaldsskóla sem er meira hjá strákum en stelpum. Þá er brotthvarf nemenda af erlendum uppruna sérstakt áhyggjuefni. Brotthvarf drengja og barna af erlendum uppruna verði því skoðað sérstaklega þar sem námsárangur gefur vísbendingu um að þessir hópar séu í aukinni brotthvarfshættu. Halda þarf áfram söfnun og greiningu gagna fyrir þennan hóp nemenda og í framhaldinu skilgreina lykiltölur til að unnt sé að fylgjast með þróun brotthvarfs og grípa til viðeigandi ráðstafana.

Um 31. aðgerð.

    Í 3. mgr. 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, kemur eftirfarandi fram: „Öll kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.“ Vísbendingar eru um að námsgögn sem í boði eru hér á landi séu ekki í takt við samtímann og að þörf sé á að endurskoða námsefni til að endurspegla betur jafnrétti kynjanna og fjölbreytni nemenda. Ekki er talið gerlegt að endurskoða allt námsefni að sinni en þess í stað er lagt til að jafnréttisgátlisti sem notaður er við námsgagnagerð verði endurskoðaður og uppfærður til að tryggja að allt nýtt námsefni taki tillit til fólks af mismunandi kynjum, hinsegin fólks og fólks með mismunandi menningarbakgrunn. Jafnframt mun úthlutun úr Þróunarsjóði námsgagna taka mið af því hvort námsefni hafi verið unnið með hliðsjón af uppfærðum gátlista Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Þá verður gert aðgengilegt rafrænt námsefni sem unnið hefur verið með hliðsjón af gátlista sem tengist jafnréttis- og kynjafræðum eftir skólastigum.

Um 32. aðgerð.

    Í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023 var fjallað um jafnrétti og öryggi í framhaldsskólum og félagslífi þeirra. Í ljósi mikilvægis málaflokksins og þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað undanfarin ár um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi (EKKO-mál) er nauðsynlegt að leggja áherslu á áframhaldandi fræðsluátak í framhaldsskólum. Vorið 2024 var gefinn úr EKKO-leiðarvísir fyrir framhaldsskóla. Unnið verður að kynningu á leiðarvísi ásamt því að setja saman vinnuhóp sem hefur það að markmiði að undirbúa aðra útgáfu leiðarvísisins.

Um 33. aðgerð.

    Sameiginleg jafnréttisáætlun Evrópusambandsins og Evrópuráðsins um aukið jafnrétti í íþróttum 2023–2025 hefur það að markmiði að veita opinberum aðilum og íþróttafélögum stuðning við innleiðingu jafnréttisstefna og -áætlana og aðstoða við að draga úr kynjamisrétti í íþróttum. Verkefnið er byggt á þremur stoðum: gagnasöfnun og greiningu, upplýsingamiðstöð á netinu sem býður upp á tölfræði og dæmi um bestu starfsvenjur og samstarfi við fjölmiðla vegna samfélagsumræðunnar og vitundarvakningar. Um er að ræða framhald af samnefndu verkefni frá 2018 og 2019. Niðurstöður þess, þar sem 18 ríki tóku þátt, leiddu í ljós talsverðan kynjahalla á hinum ýmsu sviðum íþrótta. Einungis 8% forseta Ólympíusambanda voru konur, 35% ráðuneyta sem fara með íþróttamál höfðu aðgerðaáætlun um aukna þátttöku kvenna og stúlkna í íþróttum og kvenkyns afreksþjálfarar í viðkomandi þátttökuríkjum voru rétt undir fjórðungi, eða 22%. Íslensk stjórnvöld taka þátt í verkefninu með það að markmiði að kanna stöðu jafnréttis í íþróttum á Íslandi, bera stöðuna hér á landi saman við önnur Evrópulönd og marka farveg stefnumótunar í málaflokknum. Þátttaka í verkefninu nýtist vel til að efla jafnréttismál á málefnasviði íþrótta.

Um 34. aðgerð.

    Jafnrétti, í víðum skilningi hugtaksins, er órjúfanlegur þáttur í íþróttastarfi á Íslandi og ætti að vera ófrávíkjanlegt markmið í allri stefnumótun stjórnvalda. Ísland er aðili að íþróttanefnd Evrópuráðsins og í endurskoðuðum Evrópusáttmála um íþróttir er vísað til jafnréttis í 6. gr. um mannréttindi og 7. gr. um siðferði í íþróttum. Á tímabilinu 2025–2026 stendur mennta- og barnamálaráðuneytið fyrir samráðsfundi, málstofu eða ráðstefnu um jafnrétti í íþróttum um þær áskoranir sem stjórnvöld, frjáls félagasamtök og aðrir aðilar standa frammi fyrir og til hvaða aðgerða þurfi að grípa á sviði jafnréttismála í íþróttum. Helstu hag- og samráðsaðilar á sviði íþrótta verða boðaðir til samtals ásamt því sem börn og ungmenni fá að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri við vinnuna.

Um 35. aðgerð.

    Íþróttalög, nr. 64/1998, eru í endurskoðun. Samráðsfundir hafa farið fram á fyrstu skrefum heildarendurskoðunarinnar með helstu hagaðilum mennta- og barnamálaráðuneytis á borð við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Íþróttasamband fatlaðra. Gildandi íþróttalög eru að einhverju leyti úr sér gengin og því er nauðsynlegt að lagaumhverfið endurspegli þær breytingar sem hafa orðið í samfélaginu og á sviði íþrótta. Í ljósi aukins vægis jafnréttismála almennt og áhersluatriða ráðherra þegar kemur að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum barna og ungmenna eru lagaákvæði um jafnrétti í íþróttastarfi meðal fyrirhugaðra breytinga.

Um 36. aðgerð.

Hlutfall karlmanna í háskólanámi hefur á undanförnum árum/áratugum verið talsvert minna en kvenfólks og eru þeir nú einungis um 40% nýnema. Mikilvægt er að snúa þessari þróun við og hvetja karlmenn til háskólanáms til að tryggja jafnrétti og fjölbreytni í háskólum landsins ásamt því að koma í veg fyrir ójafnvægi menntunar í samfélaginu og á vinnumarkaði. Einnig er mikilvægt að ná til annarra hópa sem ekki skila sér í háskólanám í sömu hlutföllum og aðrir hópar, t.d. hópar sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Lagt er til að ástæður kynjahalla verði greindar og samhliða ráðist í markvisst átak til að miðla upplýsingum til þeirra hópa sem ekki skila sér í háskólanám ásamt öðrum aðgerðum til að ná til hópanna.

UM F. ALÞJÓÐASTARF

Um 37. aðgerð.

    Þrátt fyrir miklar alþjóðlegar framfarir á sviði kynjajafnréttis undanfarna áratugi má nú greina aukna andstöðu við þá þróun og jafnvel bakslag. UN Women, stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, birti árið 2023 niðurstöður rannsókna sem gáfu til kynna að það tæki að óbreyttu um 300 ár að ná heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti. Stjórnmálaöfl andsnúin réttindum kvenna og stúlkna, þar á meðal kyn- og frjósemisréttindum, hafa víða notið vaxandi stuðnings og orðræða um hefðbundin fjölskyldugildi og hlutverkaskiptingu kynjanna í hávegum höfð, m.a. í tengslum við lýðfræðilega þróun í átt til fólksfækkunar og öldrunar þjóða. Erfiðlega hefur gengið að ráða niðurlögum kynbundins ofbeldis og stafrænt kynbundið ofbeldi og áreitni er talið draga úr vilja kvenna til að gegna leiðtogastöðum á opinberum vettvangi, sbr. skýrslu Evrópuþingsins frá árinu 2018 um stafrænt ofbeldi og hatursorðræðu á netinu gegn konum. Verkefnið felur í sér að íslensk stjórnvöld beiti sér á alþjóðlegum vettvangi gegn bakslagi og stuðli að áframhaldandi framþróun á sviði kynjajafnréttis. Í ljósi árangurs sem náðst hefur á Íslandi á sviði kynjajafnréttis og endurspeglast m.a. í stöðu Íslands á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um jafnrétti kynjanna geta íslensk stjórnvöld látið að sér kveða á þessu sviði og mikilvægt er að þekking og reynsla Íslands nýtist í þágu aukins jafnréttis á alþjóðavísu. Upplýsingamiðlun um jafnréttismál á Íslandi og aðgerðir á þessu sviði verður liður í verkefninu, auk öflugs málsvarastarfs og sérstakra verkefna, ekki síst í þróunarríkjum og á vettvangi alþjóðastofnana.

Um 38. aðgerð.

    Erindi ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1.325, sem samþykkt var árið 2000, og síðari ályktana um konur, frið og öryggi er brýnt á tímum hnignandi öryggisástands í heiminum. Ályktunin sem snýr að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna frá löndum þar sem óstöðugleiki eða átök ríkja byggist á fjórum meginstoðum, þ.e. aðgerðum til að fyrirbyggja átök, þátttaka kvenna í friðarferlum, vernd mannréttinda kvenna í átökum og í kjölfar átaka og að tekið sé tillit til þarfa kvenna í tengslum við og í kjölfar átaka. Árið 2004 kallaði Kofi Annan, þáverandi aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, eftir því að ríki gerðu áætlun um hvernig þau hygðust vinna að framgangi ályktunar 1.325. Ísland var á meðal fyrstu ríkja til að bregðast við og setti sér slíka framkvæmdaáætlun árið 2008. Önnur áætlun Íslands leit dagsins ljós árið 2013 og sú þriðja kom út árið 2018, sem gilti fyrir árin 2018–2022. Lagt er til að utanríkisráðuneytið leiði vinnu við fjórðu landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi fyrir tímabilið 2024–2030 í samráði við önnur ráðuneyti, stofnanir og félagasamtök sem starfa að málaflokknum.

Um 39. aðgerð.

    Ísland hefur verið leiðandi í fjölþjóðlegu málsvarastarfi er lýtur að efnahagslegri valdeflingu kvenna. Slíkt starf hefur að markmiði að tryggja betur hagsmuni kvenna og þátttöku í samningum á sviði alþjóðaviðskipta, svo sem hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (e. WTO) og Fríverslunarsamtökum Evrópu (e. EFTA). Ísland hafði frumkvæði að stofnun óformlegs vinnuhóps um utanríkisviðskipti og kynjajafnrétti innan WTO og sinnti formennsku hans framan af. Þökk sé markvissri og skipulagðri vinnu líkt þenkjandi ríkja undanfarin ár hefur hópurinn fest sig í sessi og gegnir vaxandi hlutverki við að auka efnahagslega valdeflingu kvenna og þátttöku í alþjóðaviðskiptum. Verkefnið felur í sér að rýna upplýsingar sem aðildarríkin hafa deilt í starfi vinnuhópsins með lærdóm fyrir Ísland í huga, svo sem hvaða gögn þau vinna með, hvernig greiningar þau hafa gert og til hvaða aðgerða þau hafa gripið eða hvaða áform þau hafa. Einnig verður leitast við að meta hvaða kyngreindu gögn og upplýsingar vanti til þess að móta markmið og mælikvarða sem styðja við markmið stjórnvalda um að stuðla að jafnrétti á þessu sviði. Jafnframt verður haft samráð við konur í atvinnulífinu um hvernig megi efla þátttöku kvenna í alþjóðaviðskiptum.


Fylgiskjal.

Jafnrétti 2024.
Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála 2020–2024.

www.althingi.is/altext/pdf/156/fylgiskjol/s0258-f_I.pdf