Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 655  —  226. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012 (umsagnarskylda húsa og mannvirkja).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Arkitektafélagi Íslands, Minjastofnun Íslands og Gylfa Helgason fornleifafræðing.
    Nefndinni bárust þrjár umsagnir auk minnisblaðs og kynningar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu er lagt til að afnema skyldu eigenda húsa og mannvirkja, svo og forráðamanna kirkna, sem byggð voru á tímabilinu 1924–1940 til að leita álits Minjastofnunar Íslands ef gera á breytingar, flytja eða rífa þau. Þess í stað kveður frumvarpið á um formlega heimild þessara aðila til að leita slíkrar umsagnar Minjastofnunar, óháð byggingarári, og er með frumvarpinu gert ráð fyrir að slíkt sé gert ef ætla má að hús, mannvirki eða kirkjur séu varðveisluverð og hluti af byggingararfi þjóðarinnar. Auk þess kveður frumvarpið á um heimild byggingarfulltrúa til að leggja til að eigendur húsa og mannvirkja, svo og forráðamenn kirkna, leiti eftir áliti Minjastofnunar áður en leyfi er veitt til framkvæmda. Verði frumvarpið að lögum verður byggingarfulltrúum því ekki lengur skylt að fylgjast með að slíks álits sé aflað vegna framkvæmda á húsum, mannvirkjum og kirkjum sem reist voru á árunum 1924–1940. Með þessu er stefnt að því að draga úr álagi í stjórnsýslu byggingarfulltrúa.
    
Umfjöllun nefndarinnar.
Umsagnarskylda um hús og mannvirki byggð á árunum 1924–1940 aflögð.
    Nefndin fjallaði um afnám umsagnarskyldu Minjastofnunar, tilgang hennar og markmið. Frá því að breytingalög nr. 126/2022, á lögum um menningarminjar, tóku gildi hefur Minjastofnun verið skylt að veita umsögn um öll hús og mannvirki sem byggð voru á tímabilinu 1924–1940, ef fyrirhugað var að breyta, rífa eða flytja þau. Þessi skylda til að veita umsögn hefur skapað verulegt álag á stjórnsýslu Minjastofnunar.
    Í frumvarpinu og fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að fagleg rök skorti fyrir því að slík skylda næði til allra húsa og mannvirkja byggðra á þessu tímabili og átti það sérstaklega við um hús og mannvirki byggð á tímabilinu 1930–1940. Umsagnarskyldan hafi þar að auki í mörgum tilvikum reynst óþörf. Í fyrsta lagi vegna þess að hús og mannvirki byggð á tímabilinu sem umsagnarskyldan tekur til séu oft þegar undir hverfisvernd á grundvelli skipulagsáætlana sveitarfélaga. Þá hafi reynslan sýnt að sveitarfélög standi vörð um varðveisluverð hverfi og götumyndir frá þessum tíma. Í öðru lagi vegna þess að oft hafi þessi hús og mannvirki ekki varðveislugildi eða tengsl við byggingararf þjóðarinnar.
    Þrátt fyrir að slíkar umsagnir séu því í mörgum tilfellum ekki nauðsynlegar krefjast þær verulegrar vinnu og tíma af hálfu Minjastofnunar. Það dregur úr getu stofnunarinnar til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum, einkum þeim sem varða friðuð og friðlýst hús. Með því að afnema umsagnarskylduna væri unnt að gera störf Minjastofnunar skilvirkari og markvissari. Stofnunin gæti þá betur beint kröftum sínum að frumkvæðisvinnu og vernd þeirra húsa og mannvirkja sem sannarlega teljast varðveisluverð óháð tilteknum aldursviðmiðum.
    Meiri hlutinn tekur undir þetta markmið frumvarpsins, að gera stjórnsýslu Minjastofnunar vandaðri og skilvirkari og að fremur verði lögð áhersla á verndun húsa og mannvirkja sem sannarlega þarf að vernda. Meiri hlutinn fagnar þeim áhrifum frumvarpsins að opna fyrir almenna heimild eigenda húsa og mannvirkja til að óska eftir faglegu áliti Minjastofnunar Íslands óháð byggingarári. Þetta muni auka öryggi yngri byggingararfs en í frumvarpinu og fyrir nefndinni kom fram að mörg yngri hús sem hingað til hefðu fallið utan umsagnarskyldu væru með mjög hátt varðveislugildi. Reynslan hefði þá sýnt sig að eigendur yngri húsa og mannvirkja leituðu oft slíks álits Minjastofnunar að eigin frumkvæði, sem stofnunin hefur ekki getað brugðist við. Yrði frumvarpið að lögum væru eldri hús ekki rétthærri yngri húsum að þessu leyti. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi þess að eigendur húsa og mannvirkja haldi áfram að leita álits Minjastofnunar áður en farið er í framkvæmdir á húsum eða mannvirkjum sem kunna að hafa tengsl við byggingararf þjóðarinnar og hafa varðveislugildi. Loks vill meiri hlutinn geta þess að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram á nokkrum stöðum að umsagnarskylda um hús og mannvirki sem byggð voru á tímabilinu 1925–1940 verði lögð af en það sé skýrt að ætlunin sé að afnema umsagnarskyldu fyrir tímabilið 1924–1940, að báðum árum meðtöldum.
    
Afnám umsagnarskyldu um kirkjur.
    Með frumvarpinu er einnig lagt til að umsagnarskylda Minjastofnunar vegna framkvæmda á kirkjum byggðum á tímabilinu 1924–1940 verði felld niður. Af minnisblaði frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti frá 27. maí 2025 og umfjöllun fyrir nefndinni má ráða að ekki séu fyrir hendi nægjanleg fagleg rök, út frá sjónarhóli kirkjubyggingarlistar, til að réttlæta lögbundna umsagnarskyldu einungis vegna kirkna sem reistar voru á þessu tímabili. Þannig væri ljóst að nýlegri kirkjur, sem reistar eru eftir árið 1940, gætu ekki síður en eldri kirkjur haft menningarlegt og byggingarlistarlegt gildi. Verði frumvarpið að lögum geta forráðamenn kirkna leitað álits Minjastofnunar óháð byggingarári og fagnar meiri hlutinn þeim áhrifum frumvarpsins. Meiri hlutinn bendir jafnframt á það sem kom fram fyrir nefndinni að meiri hluti kirkna hér á landi sé enn í virkri notkun og í eigu viðkomandi sóknarnefnda, og því sé almennt ólíklegt að til niðurrifs komi eða framkvæmda sem gætu haft skaðleg áhrif á varðveisluverðar kirkjur. Þó ítrekar meiri hlutinn að Minjastofnun hefur heimild til skyndifriðunar ef tilefni er til að bregðast við framkvæmdum sem hefðu möguleg skaðleg áhrif í för með sér.
    
Breytingartillaga.
Álits Minjastofnunar leitað (b-liður 1. gr.).
    Með frumvarpinu er kveðið á um heimild byggingarfulltrúa að leggja til að eigendur húsa og mannvirkja, svo og forráðamenn kirkna, leiti eftir áliti Minjastofnunar Íslands áður en leyfi er veitt til framkvæmda. Markmið breytingarinnar er að létta álagi af byggingarfulltrúum sem er þá talið hafa jákvæð áhrif til einföldunar og aukinnar skilvirkni leyfisveitinga. Í umfjöllun í greinargerð með frumvarpinu um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar er lagt til að í stað umsagnarskyldu verði um að ræða formlega heimild sveitarfélaga og almennings sem eigenda húsa og mannvirkja sem ekki falla undir aldursfriðun, eru varðveisluverð og hluti af byggingararfi þjóðarinnar til að leita álits Minjastofnunar Íslands ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa.
    Meiri hlutinn telur ljóst að með breytingunni sé ætlunin að fela byggingarfulltrúa að meta þegar framkvæmd fer fram hvort tilefni sé til að ætla að um sé að ræða hús, mannvirki eða kirkju með varðveislugildi eða tengsl við byggingararf þjóðarinnar, og meta þá hvort þörf sé á að afla álits Minjastofnunar. Meiri hlutinn tekur undir markmið frumvarpsins og telur breytinguna til þess fallna að bæta verklag og auka skilvirkni í stjórnsýslu. Meiri hlutinn telur aftur á móti óskýrt af orðalagi ákvæðisins hvað felist í þessari „formlegu heimild sveitarfélaga og almennings“ og hvaða skyldur hún leggi á eigendur húsa og mannvirkja, svo og forráðamenn kirkna, þegar byggingarfulltrúi sannarlega telur nauðsynlegt að mat Minjastofnunar liggi fyrir.
    Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi mats Minjastofnunar í framangreindum tilvikum og til að taka af vafa um túlkun ákvæðisins leggur meiri hlutinn til þá breytingu á orðalagi b-liðar 1. gr. frumvarpsins að í stað þess að byggingarfulltrúum verði heimilt að leggja til að eigendur húsa og mannvirkja, svo og forráðamenn kirkna, leiti eftir áliti Minjastofnunar Íslands áður en leyfi er veitt til framkvæmda verði þeim heimilt að gera framangreint að skilyrði. Meiri hlutinn áréttar að slík skyldubundin álitsumleitan á einungis við þegar byggingarfulltrúi telur að tilefni sé til að ætla að um sé að ræða hús, mannvirki eða kirkju með varðveislugildi eða tengsl við byggingararf þjóðarinnar.
    
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „leggja til“ í b-lið 1. gr. komi: gera að skilyrði.

    Ingibjörg Isaksen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. júní 2025.

Víðir Reynisson,
form., frsm.
Grímur Grímsson. Guðmundur Ari Sigurjónsson.
Heiða Ingimarsdóttir. Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir.