Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 257  —  226. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012 (umsagnarskylda húsa og mannvirkja).

Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna: „sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1940 eða fyrr, svo og forráðamönnum kirkna sem reistar voru 1940 eða fyrr, er skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: svo og forráðamönnum kirkna sem ekki njóta friðunar er heimilt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands.
     b.      2. mgr. orðast svo: Byggingarfulltrúum er heimilt að leggja til að eigendur húsa og mannvirkja, svo og forráðamenn kirkna, leiti eftir áliti Minjastofnunar Íslands áður en leyfi er veitt til framkvæmda.
     c.      Í stað orðanna: „Í byggingarleyfi“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: Við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012.
    Samkvæmt 29. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012, eru öll hús og mannvirki sem byggð voru árið 1923 eða fyrr friðuð á grundvelli aldurs. Í 30. gr. laganna er kveðið á um verndun annarra húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar en voru byggð 1940 eða fyrr. Í greininni er mælt fyrir um svokallaða umsagnarskyldu, en í þeim tilvikum er kveðið á um skyldu eigenda til að leita álits Minjastofnunar Íslands ef þeir hyggjast breyta húsum eða mannvirkjum, flytja þau eða rífa.
    Forsaga málsins er sú að ákvæði 30. gr. laganna var breytt með 2. gr. laga nr. 126/2022 þar sem viðmiðunarártalið 1940 kom inn í stað ársins 1925. Í frumvarpi því er varð að lögunum (429. mál á 153. lögþ.) var hins vegar lagt til að viðmiðunarártalið yrði 1930 en ártalinu var breytt í 1940 í meðförum þingsins og þannig samþykkt á Alþingi. Í umsögn Minjastofnunar Íslands um frumvarpið komu fram fagleg rök fyrir að miða skyldi við ártalið 1930 en það ár hafi markað afgerandi skil í sögu byggingarlistar á Íslandi þegar svokölluð steinsteypuklassík hafi vikið fyrir virknihyggju (fúnksjónalisma). Jafnframt kom fram í greinargerð með frumvarpinu að stefnt væri að því að tryggja verndun þeirra húsa og mannvirkja sem raunverulega væri þörf á að nytu verndar og að koma í veg fyrir að hús og önnur mannvirki sem ekki væri þörf á að vernda öðluðust slíka vernd eingöngu sökum aldurs. Lögin tóku gildi 1. janúar 2023.
    Samkvæmt tölum fasteignaskrár Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru friðlýst hús og mannvirki á landinu 563 talsins, aldursfriðuð hús sem bera fastanúmer 4.328 talsins og því til viðbótar eru umsagnarskyld hús skv. 30. gr. laga um menningarminjar 8.380, þar af eru 3.439 byggð á árabilinu 1924–1930 og 4.941 á árunum 1931–1940. Önnur mannvirki en hús með fastanúmer eru ekki inni í þessum tölum en lögin ná einnig til þeirra.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Sú breyting sem gerð var með 2. gr. laga nr. 126/2022 að færa viðmiðunarártal 30. gr. laga um menningarminjar í 1940 hefur haft þau áhrif að álag á stjórnsýslu minjamála hefur aukist töluvert, enda hús sem falla undir umsagnarskyldu rúmlega 8.000 talsins. Umsagnarskyldan hefur þá reynst íþyngjandi fyrir sveitarfélög og húseigendur. Grundvallaratriði er að ekki eru talin nægjanlega sterk fagleg rök við tengsl byggingararfs sem réttlæti gildandi viðmiðunarártal í lögum. Því má jafnframt halda fram að íþyngjandi fyrirkomulag dragi úr getu Minjastofnunar Íslands til að fjalla á vandaðan hátt um öll mál sem til lengri tíma getur haft neikvæð áhrif á varðveislu húsa, annarra mannvirkja og fornminja með hátt varðveislugildi sem sannarlega þarf að vernda.
    Mikilvægt er að lögbundin vernd gangi ekki lengra en þurfa þykir á faglegum grundvelli, sé markviss og kröftum minjavörslunnar sé ekki varið í það sem ekki þarf að vernda. Leita þarf jafnvægis til að húsvernd nái markmiðum sínum um vernd varðveisluverðra hús og mannvirkja.
    Eftirfarandi tafla 1 sýnir fjölda húsa sem falla undir lög um menningarminjar, nr. 80/2012, og hlutfall þeirra sem njóta friðunar og þeirra sem falla undir 30. gr. laganna um umsagnarskyldu. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eru hús sem reist voru á árunum 1924–1930 nú 3.439 talsins og hús sem reist voru á árunum 1931–1940 4.941 talsins, alls 8.380 hús, og eru þá önnur mannvirki frá 1924–1940 ótalin. Til samanburðar þá eru aldursfriðuð hús 4.328 talsins og friðlýst hús 557 talsins.

Tafla 1: Fjöldi húsa sem falla undir lög um menningarminjar, þar af eru 8.380 umsagnarskyld hús sem reist voru á árunum 1924–1940. Heimild: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, 2025.

Flokkun Fjöldi %
Umsagnarskyld hús, 1931–1940 4.941 37,25%
Umsagnarskyld hús, 1924–1930 3.439 25,93%
Aldursfriðuð hús 4.328 32,63%
Friðlýst hús 557 4,20%
Samtals 13.265 100,00%

    Á húsadeild Minjastofnunar Íslands eru tvö stöðugildi arkitekta sem sinna öllu landinu. Mat stofnunarinnar er að mál sem varða umsagnarskyld hús taki almennt ekki styttri tíma í undirbúningi og afgreiðslu en mál sem varða aldursfriðuð hús. Þörf sé því á að forgangsraða við nýtingu fjármuna til að sinna betur friðuðum og friðlýstum húsum og mannvirkjum.
    Af framansögðu er ljóst að umsagnarskylda húsa og mannvirkja nær til yfir 63% þeirra húsa sem lög um menningarminjar ná til, útheimtir hlutfallslega jafn mikið vinnuframlag og aldursfriðuð hús en felur ekki í sér þá lögbundnu vernd sem ætla mætti. Um er að ræða leiðbeinandi álit sem byggingarfulltrúum sveitarfélaga ber ekki skylda til að fara eftir. Færa má rök fyrir því að óbreytt ástand dragi úr skilvirkni vinnu vegna verndunar friðaðra og friðlýstra húsa.
    Rétt er að halda því sérstaklega til haga að allt til ársins 2023 miðaði umsagnarskylda húsa skv. 30. gr. laganna við fast ártal sem var 1925. Hefði lögum um menningarminjar ekki verið breytt árið 2022 hefði umsagnarskylda húsa runnið sitt skeið á enda í lok árs 2025.
    Einnig má benda á að í umsögnum við frumvarpið sem lagt fram haustið 2022 komu fram sjónarmið í samráði þess efnis að aldursfriðun skyldi miða við árið 1918 og var þá vísað til þess að bygging timburhúsa hefði að mestu lagst af í kjölfar brunans í Reykjavík árið 1915. Farin var sú leið í frumvarpinu að leggja til að færa viðmiðunarár umsagnarskyldu fram um fimm ár, til 1930 í stað 1925, og var þá horft til svokallaðrar steinsteypuklassíkur. Samhliða því var lagt til að festa aldursfriðun við 1923, þ.e. hús sem voru byggð það ár eða fyrr, en aldursfriðun hafði áður miðið við hlaupandi ártal samkvæmt 100 ára reglunni og var komið að því byggingarári samkvæmt henni. Hús byggð 1931–1940 bættust við umsagnarskylduna í meðförum Alþingis.
    Það hefur sýnt sig að hluti húsa sem byggð voru á árabilinu 1924–1930 fellur innan hverfisverndar í aðalskipulagi sveitarfélaga. Má þar sérstaklega benda á elsta borgarhlutann í Reykjavík innan Hringbrautar. Þó má finna smærri þyrpingar húsa eða stök hús sem ekki njóta hverfisverndar í smærri byggðarlögum og í dreifbýli. Í einhverjum sveitarfélögum eru til staðar áætlanir um verndarsvæði í byggð sem ráðherra hefur staðfest. Einnig hefur reynsla síðustu ára sýnt að sveitarfélögin hafi látið meira til sín taka á sviði húsverndar og vilji gera byggingararfi hærra undir höfði m.a. með öflugri hverfisvernd.
    Fágæti eykur varðveislugildi minja en hið gagnstæða dregur úr því. Ljóst er að hvorki er hægt né æskilegt að vernda allar menningarminjar og hús. Mikill fjöldi húsa sem í dag falla undir umsagnarskyldu þarfnast ekki sérstakrar verndunar í lögum, bæði þar sem þau eru ekki öll varðveisluverð og mörg þeirra eru þegar undir hverfisvernd á grundvelli skipulagsáætlana sveitarfélaga. Má ætla að skynsamlegra sé að sérfræðingum Minjastofnunar Íslands sé veitt svigrúm til að fást frekar við friðuð og friðlýst hús og mannvirki og önnur varðveisluverð hús sem falla utan aldursviðmiða. Þá hefur reynslan jafnframt sýnt að almenningur leitar til stofnunarinnar um hús og mannvirki byggð eftir 1940 enda eru mörg hús sem falla utan umsagnarskyldu með mjög hátt varðveislugildi. Með frumvarpinu er því lagt til að umsagnarskylda húsa á fyrrnefndu árabili verði færð í það horf að í stað skyldu verði um að ræða formlega heimild sveitarfélaga og almennings sem eigenda húsa og mannvirkja sem ekki falla undir aldursfriðun, eru varðveisluverð og hluti af byggingararfi þjóðarinnar, til að leita álits Minjastofnunar Íslands ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa.
    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að tryggja skilvirka og markvissa varðveislu húsa og mannvirkja á faglegum grundvelli þannig að verndin nái utan um það sem sannarlega þarf að vernda. Þá er mikilvægt að koma í veg fyrir að minjar sem hvorki er þörf á né æskilegt að njóti verndar öðlist vernd eingöngu sökum aldurs, auk þess að tryggja vandaða og skilvirka stjórnsýslu minjamála þannig að minjavernd nái markmiðum sínum. Ljóst er að umsagnarskylda eins og hún tíðkast í dag skapar mikið álag á stjórnsýslu minjamála án þess að nægilega fagleg rök búi að baki. Með lagasetningunni er stefnt að því að vinda ofan af þessu íþyngjandi álagi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að umsagnarskylda um hús sem byggð voru á tímabilinu 1925–1940 verði lögð af og í stað þess mælt fyrir um formlega heimild sveitarfélaga og almennings sem eigenda húsa og mannvirkja sem ekki falla undir aldursfriðun, eru varðveisluverð og hluti af byggingararfi þjóðarinnar, til að leita álits Minjastofnunar Íslands ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Gerðar verða breytingar í samræmi við þetta á 30. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kallaði til samráðs fulltrúa Minjastofnunar Íslands. Haldnir voru fundir með stofnuninni.
    Áform um lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 3. til 17. febrúar 2025 mál nr. S-13/2025). Umsagnir um áformin bárust frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Minjastofnun Íslands og Landsvirkjun.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kom fram að sambandið lýsi yfir stuðningi við breytingarnar þar sem þær samræmist stefnu þess um einföldun löggjafar og ferla í skipulags- og byggingarmálum. Með breytingunni muni álag á stjórnsýslu minjamála og sveitarfélaga minnka og eftirlitshlutverk byggingarfulltrúa verði einfaldara. Sambandið leggi því til að lögum um menningarminjar verði breytt í samræmi við áformin.
    Í umsögn Landsvirkjunar er fagnað því framtaki að lækka viðmiðunarmörk aftur til samræmis við upphaflegt markmið lagasetningarinnar, eða til 1930, enda liggi fyrir því fagleg rök. Í umsögninni er jafnframt tekið undir að breytingin sé líkleg til að létta álagi á stjórnsýslu og auka getu Minjastofnunar Íslands til að fjalla á vandaðan hátt um þau mál sem krefjist aðkomu hennar ásamt því að fjarlægja íþyngjandi kröfu á húseigendur. Ljóst sé að álag á byggingarfulltrúa sveitarfélaga muni minnka sem hafi jákvæð áhrif til einföldunar og aukinnar skilvirkni leyfisveitinga.
    Í umsögn Minjastofnunar Íslands eru áformin talin jákvæð fyrir minjavörsluna og tekið undir rökstuðning ráðuneytisins fyrir breytingunni. Fyrir gildistöku laga um menningarminjar, nr. 80/2012, hafi umsagnarskylda húsa og mannvirkja miðast við árið 1918. Þegar lög um menningarminjar tóku gildi í janúar 2013 miðaðist umsagnarskyldan við 1925 og aldursfriðun við 1913. Hinn 1. janúar 2023 hafi aldursfriðun húsa og mannvirkja samkvæmt svokallaðri hundrað ára reglu verið komin til 1923 og var fest við það ártal með lagabreytingu. Þá hafi einungis verið tvö ár sem féllu undir umsagnarskylduna og lagði Minjastofnun Íslands til að hún yrði færð til 1930, en með því yrðu umsagnarskyld hús u.þ.b. 3.500 talsins. Sú tillaga hafi byggst á faglegum forsendum. Þær forsendur hafi m.a. verið þær að árin milli 1924 og 1930 hafi verið mikið framfara- og uppbyggingarskeið víðast hvar á landinu þar sem reistar voru veglegar steinsteyptar byggingar í klassískum og sérþjóðlegum byggingarstíl, ekki síst í aðdraganda Alþingishátíðarinnar 1930. Í meðförum Alþingis hafi umsagnarskyldan samkvæmt breytingarfrumvarpinu verið færð til ársins 1940 og húsin sem falli undir umsagnarskyldu þar með orðið rúmlega 8.000 talsins án þess að stöðugildum hjá stofnuninni hafi verið fjölgað samhliða því. Mikill fjöldi húsa sem í dag falli undir umsagnarskyldu þarfnist ekki sérstakrar verndunar í lögum, bæði þar sem þau séu ekki öll varðveisluverð og þar sem mörg þeirra séu þegar undir hverfisvernd á grundvelli skipulagsáætlana sveitarfélaga. Reynslan hafi sýnt að sveitarfélög standi vörð um varðveisluverð hverfi og götumyndir frá þessum tíma, þ.e. 1925–1940. Þá liggi fyrir að orku og tíma sérfræðinga Minjastofnunar Íslands sé betur varið í friðuð og friðlýst hús og mannvirki og önnur varðveisluverð hús sem falli utan aldursviðmiða. Byggingararfurinn á Íslandi sé mjög ungur í samanburði við önnur lönd og meiri hluti húsa og mannvirkja á landinu hafi verið reistur um miðja 20. öld eða síðar. Vegna þessa sé jafn mikilvægt fyrir húsvernd að sérfræðingar Minjastofnunar Íslands geti veitt yngri byggingararfi athygli og vernd. Þess vegna mætti að mati stofnunarinnar ganga enn lengra, þ.e. að afnema umsagnarskylduna. Fjarlægja aldursviðmið og kröfu en opna formlega heimild sveitarfélaga og eigenda húsa og mannvirkja sem ekki falli undir aldursfriðun, en séu varðveisluverð og hluti af byggingararfi þjóðarinnar, til að leita álits Minjastofnunar Íslands. Reynslan hafi sýnt að mikið sé leitað til stofnunarinnar vegna breytinga og viðhalds á húsum sem reist hafi verið um miðja 20. öld eða síðar. Loks lagði stofnunin fram tillögu að orðalagi 30. gr. laganna í samræmi við fyrrgreinda tillögu. Leggur stofnunin áherslu á það að verði tillaga hennar fyrir valinu myndi það styrkja faglegt starf stofnunarinnar við vernd friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja, auk þess sem þetta myndi opna á formlegan farveg fyrir varðveislu húsa og mannvirkja til þess að fá umfjöllun og ráðleggingar frá sérfræðingum stofnunarinnar, óháð byggingarári. Ráðuneytið taldi ábendingar Minjastofnunar Íslands málefnalegar og eftir að hafa farið yfir málið var tekin sú ákvörðun að fara þá leið í frumvarpinu sem stofnunin lagði til í umsögn sinni, þ.e. að leggja til að breyta umsagnarskyldu í heimild.
    Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 18. febrúar 2025 (mál nr. S-34/2025) og var frestur til að skila inn umsögnum til og með 6. næsta mánaðar. Alls bárust sex umsagnir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Minjastofnun Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Borgarsögusafni Reykjavíkur, Íslandsdeild ICOMOS og Þjóðminjasafni Íslands.
    Í umsögnum Arkitektafélags Íslands, Borgarsögusafns Reykjavíkur, Íslandsdeildar ICOMOS og Þjóðminjasafns Íslands voru gerðar athugasemdir við það að umsagnarskyldan yrði alfarið afnumin. Hluti þessara aðila telur ráðlegra að afnema ekki með öllu umsagnarskyldu heldur færa til 1930. Sjónarmið komu einnig fram í umsögnum þess efnis að þörf væri á skilgreiningu á varðveisluverðum yngri byggingararfi þegar aldursviðmiði sleppir og að óskýrt væri hvernig markmið frumvarpsins um markvissa og skilvirka vernd yngri byggingararfs ættu að nást. Hér verður leitast við að bregðast við efni umsagnanna hvað ofangreint varðar. Sjónarmið komu fram í umsögn sem tengdust gæðastöðlum varðandi framkvæmd húsakannana. Ekki er tekin afstaða til þess hér þar sem það tengist lagabreytingunni ekki beint.
    Mat á varðveislugildi yngri bygginga byggist á sömu matsþáttum og notaðir eru við mat á aldursfriðuðum húsum. Matsþættirnir byggjast á svonefndu SAVE-kerfi frá Danmörku. Þeir eru nánar skilgreindir í leiðbeiningum Minjastofnunar Íslands um skráningu húsa og mannvirkja. Í SAVE kerfi er lagt er mat á eftirtalda fimm meginþætti: 1) listrænt gildi sem byggingarlist, 2) menningarsögulegt gildi, 3) umhverfisgildi, 4) upprunaleika og 5) ástand mannvirkisins. Fleira getur haft áhrif á varðveislumat, svo sem fágætisgildi mannvirkis á landsvísu og samfélagslegt gildi fyrir viðkomandi stað.
    Í Danmörku hefur nýlega verið unnin skýrsla um aðferðafræði við forgangsröðun á yngri byggingum sem talið er mikilvægt að friða. Í henni eru skilgreindir ákveðnir flokkar bygginga sem mikilvægt er að gera úttekt á með tilliti til varðveislugildis. Hér á landi er í undirbúningi hliðstæð úttekt á tilteknum gerðum yngri bygginga sem tengjast íslensku samfélagi, svo sem sundlaugum og sundstöðum, félagsheimilum, byggingum tengdum sjávarútvegi og landbúnaði og minjum frá seinni heimsstyrjöld.
    Þá er mikilvægt að safna upplýsingum um og skrá verk þeirra arkitekta sem áhrif hafa haft á þróun seinni tíma byggingarlistar á Íslandi. Slík skráning var hafin á vegum byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur á árabilinu 1995–2011 auk þess sem nokkur teikningasöfn hafa nýlega verið skráð á vegum Hönnunarsafns Íslands og einkaaðila.
    Í tengslum við gerð skipulagsáætlana í þegar byggðum hverfum ber sveitarfélögum að láta gera húsakannanir. Minjastofnun Íslands hefur gefið út leiðbeiningar um gerð húsakannana sem hægt er að styðjast við. Í húsakönnunum er að finna mikilvægar upplýsingar sem nýtast við mat á varðveislugildi yngri húsa á landsvísu. Mörg sveitarfélög hafa á grundvelli húsakannana kosið að setja á hverfisvernd á götur og hverfishluta þar sem eingöngu er að finna yngri byggingar. Staðbundin hverfisvernd hefur þann kost að eiga sér rætur í viðkomandi samfélagi. Hins vegar skortir forsendur í slíkri vinnu til þess að meta með samræmdum hætti fágætisgildi tiltekinna mannvirkja á landsvísu.
    Frumkvæði að skilgreiningu og afmörkun verndarsvæða í byggð á grundvelli samnefndra laga liggur hjá sveitarfélögum sem hafa sýnt mismikinn áhuga á að leggja í slíka vegferð. Þau svæði sem hingað til hafa hlotið staðfestingu ráðherra sem verndarsvæði í byggð taka flest til eldri byggðarkjarna þar sem meiri hluti húsanna nýtur þegar friðunar á grundvelli aldursreglu laga um menningarminjar. Fá dæmi eru um tillögur að verndarsvæðum þar sem horft er til yngri bygginga.
    Algengt er að sveitarfélög og húseigendur leiti til Minjastofnunar Íslands um mat á varðveislugildi yngri bygginga og mannvirkja þó slíkt sé ekki skylt samkvæmt lögum. Í flestum tilvikum er að um að ræða hús sem talin eru hafa varðveislugildi og sveitarfélög óska eftir faglegu mati sérfræðinga Minjastofnunar Íslands til að byggja ákvarðanir sínar á, m.a. um breytingar og niðurrif. Að mati stofnunarinnar er þessi tilhögun heppilegri og markvissari aðgerð fyrir varðveislu byggingararfsins en sú að fastbinda í lög umsagnarskyldu um hús frá þröngu árabili, án alls tillits til varðveislugildis þeirra. Slíkt faglegt mat á varðveislugildi getur einnig vegið þungt í ákvörðun húseiganda um að sækja um styrk til viðhalds eldri húss í Húsafriðunarsjóð og getur húseigandi vísað í það mat í umsókn sinni.
    Loks má benda á að stjórnvöld, þ.m.t. minjavarslan, geta farið ýmsar leiðir eða valið stefnukosti þegar kemur að markvissri vernd yngri byggingararfs og reglusetning og löggjöf er aðeins einn þeirra kosta. Hér má nefna aukna fræðslu til almennings um vernd og viðhald eldri húsa sem getur reynst skilvirk leið í átt að markmiðinu. Einnig má nefnda hagræna hvata en dæmi um það er styrkhæfni yngri byggingararfs í Húsafriðunarsjóði.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið er ekki talið hafa fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð. Hins vegar mun það hafa þau jákvæðu áhrif að draga úr álagi á stjórnsýslu minjamála og byggingarfulltrúa. Markmið frumvarpsins er í reynd að draga úr álagi á Minjastofnun Íslands í tengslum við umsagnarskyldu vegna húsa og annarra mannvirkja sem leiðir til þess að svigrúm myndast fyrir stofnunina til að sinna verkefnum sínum af aukinni skilvirkni og hagkvæmni. Með því að breyta umsagnarskyldu húsa og annarra mannvirkja yfir í heimildarákvæði verður létt á verkefnaálagi stofnunarinnar. Með þessu er ætlað að styrkja starfsemi hennar og stuðla að markvissari framkvæmd minjaverndar.
    Þá má jafnframt nefna þau áhrif sem frumvarpið mun hafa fyrir almenning, verði það að lögum, þannig að sú heimild sem opnast fyrir eigendur húsa og mannvirkja til að óska faglegs álits Minjastofnunar Íslands, óháð byggingarári, eykur öryggi yngri byggingararfs enda eru mörg yngri hús sem hingað til hafa fallið utan umsagnarskyldu með mjög hátt varðveislugildi.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 30. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012. Lögð er til breyting á 1. mgr. þannig að umsagnarskylda húsa og mannvirkja byggð 1925–1940 verði afnumin og í stað hennar verði um að ræða formlega heimild sveitarfélaga og almennings sem eigenda húsa og mannvirkja sem ekki falla undir aldursfriðun, eru varðveisluverð og hluti af byggingararfi þjóðarinnar, til að leita álits Minjastofnunar Íslands ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa.
    Með breytingu á 2. mgr. 30. gr. laganna verður mælt fyrir um heimild byggingarfulltrúa til eftirlits skv. 30. gr. frekar en skyldu. Samkvæmt umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við áform um lagasetningu þessa var greint frá því að gildandi umsagnarskylda hafi skapað mikið álag á byggingarfulltrúa.
    Sú orðalagsbreyting sem lögð er til á 3. mgr. 30. gr. skýrist af greiningu á milli samþykktar byggingaráforma skv. 11. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010, og útgáfu byggingarleyfis skv. 13. gr. sömu laga. Með þessu er stefnt að því að afstaðan til umsagnar Minjastofnunar Íslands geti legið fyrir fyrr í ferlinu en ekki bara undir lok þess, enda eru stundum gefin út svokölluð takmörkuð byggingarleyfi t.d. til jarðvegsskipta eða jarðvegsvinnu áður en hefðbundið byggingarleyfi er gefið út.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.