Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 22 — 22. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma.
Flm.: Sigurður Ingi Jóhannsson, Halla Hrund Logadóttir, Ingibjörg Isaksen, Stefán Vagn Stefánsson, Þórarinn Ingi Pétursson.
Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Ráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina eigi síðar en haustið 2025.
Greinargerð.
Íslenskir bankar eru of smáir til að eiga þess kost að bjóða fram slíka fjármálaþjónustu, þar sem þeir eru að hluta bundnir af eigin fjármögnunarkjörum. Íslenska ríkið og lífeyrissjóðir eru að vissu leyti í yfirburðastöðu á íslenskum fjármálamarkaði og geta með einfaldari hætti og á hagstæðari kjörum haft aðgang að langtímafjármögnun.
Viðfangsefnið gengur út á að bankar geti fjármagnað húsnæðislán á óverðtryggðum vöxtum til lengri tíma en þeir bjóða upp á í dag. Með breyttum reglum og þróaðri fjármálamarkaði, til að mynda í gegnum vaxtaskiptasamninga, en það eru samningar þar sem aðilar skiptast á föstum og breytilegum vaxtagreiðslum af tilteknum höfuðstól yfir ákveðið tímabil, er hægt að auðvelda bönkum að bjóða upp á slík lán. Stjórnvöld geta bætt regluverkið og liðkað fyrir á fjármálamarkaði til að tryggja hvort tveggja, líkt og gert er í nágrannalöndum okkar. Slíkt fyrirkomulag er þekkt og ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að það yrði einnig við lýði hér á landi. Það er hagsmunamál fasteignakaupenda og þar með heimilanna að festa vaxtakjör til lengri tíma þannig að húsnæðislántakendum sé ekki refsað afturvirkt þegar vextir hækka. Fyrirsjáanleiki við fjármögnun húsnæðis skiptir heimilin máli.
Ávinningur af þessu fyrirkomulagi getur verið margvíslegur. Í fyrsta lagi ber að nefna þann augljósa ábata að íbúðarkaupendur geti fengið hagstæðari fasteignalán og verulega aukinn fyrirsjáanleika. Í öðru lagi, verði farin vaxtaskiptasamningsleið, má búast við að ríkissjóður geti lækkað vaxtakostnað sinn með því að færa vaxtagreiðslur sínar í meira mæli yfir í skammtímavexti, sem eru yfirleitt lægri en langtímavextir. Í þriðja lagi má gera ráð fyrir að verðtryggð lán heyri sögunni til ef óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma standa fasteignakaupendum til boða.