Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 408  —  219. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um rétt til fæðingarorlofs.


     1.      Hversu margir foreldrar barna sem fæddust á árunum 2021–2024 áttu rétt til fæðingarorlofs?
    Vinnumálastofnun býr einungis yfir upplýsingum um þá foreldra sem sækja um fæðingarorlof til stofnunarinnar á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Vinnumálastofnun býr því ekki yfir upplýsingum um hve margir foreldrar barna sem fæddust, voru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á umræddum árum áttu rétt til fæðingarorlofs en sóttu hins vegar aldrei um slíkt orlof til stofnunarinnar.
    Á árinu 2021 bárust Vinnumálastofnun 4.830 umsóknir um fæðingarorlof frá foreldrum sem áttu rétt til fæðingarorlofs, á árinu 2022 bárust 4.367 umsóknir og á árinu 2023 bárust 4.289 umsóknir auk þess sem 4.266 umsóknir bárust stofnuninni á árinu 2024.
    Réttur til fæðingarorlofs fellur niður er barn nær 24 mánaða aldri og því liggja ekki fyrir endanlegar tölur fyrir fæðingarárin 2023 og 2024.

     2.      Foreldrar hversu margra barna hafa fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs frá því að réttur til tólf mánaða fæðingarorlofs tók gildi árið 2021?
    Hvorki félags- og húsnæðismálaráðuneytið né Vinnumálastofnun búa yfir upplýsingum um hve mörg börn foreldrar eiga sem hafa fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs frá því að réttur til tólf mánaða fæðingarorlofs tók gildi árið 2021.
    Aftur á móti býr Vinnumálastofnun yfir upplýsingum um fjölda foreldra sem á umræddu tímabili hafa fullnýtt rétt sinn til fæðingarorlofs á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020. Árið 2021 fullnýttu 3.092 foreldrar sjálfstæðan rétt sinn til fæðingarorlofs, á árinu 2022 var um að ræða 2.495 foreldra sem fullnýttu rétt sinn og á árinu 2023 var um að ræða 2.223 foreldra auk þess sem 1.855 foreldrar fullnýttu rétt sinn til fæðingarorlofs á árinu 2024.
    Réttur til fæðingarorlofs fellur niður er barn nær 24 mánaða aldri og því liggja ekki fyrir endanlegar tölur fyrir fæðingarárin 2023 og 2024.

     3.      Hvernig skiptist lengd fæðingarorlofs frá árinu 2021 eftir kynjum?
    Á árinu 2021 nýttu mæður 213 daga og feður 131 dag að meðaltali af rétti sínum til fæðingarorlofs, á árinu 2022 nýttu mæður 218 daga og feður 131 dag að meðaltali og á árinu 2023 nýttu mæður 218 daga og feður 124 daga að meðaltali auk þess sem mæður nýttu 215 daga og feður 100 daga að meðaltali á árinu 2024.
    Foreldrar sem hvorki eru skráðir móðir né faðir hjá Vinnumálastofnun nýttu að meðaltali 141 dag af rétti sínum til fæðingarorlofs á árinu 2021, um var að ræða 256 daga að meðaltali á árinu 2022 og 146 daga að meðaltali á árinu 2023 en 122 daga að meðaltali á árinu 2024.
    Réttur til fæðingarorlofs fellur niður er barn nær 24 mánaða aldri og því liggja ekki fyrir endanlegar tölur fyrir fæðingarárin 2023 og 2024.

     4.      Hversu margir foreldrar dreifðu fæðingarorlofsrétti sínum á árunum 2021–2024 yfir fleiri mánuði en þá tólf sem þeir eiga samanlagt rétt á? Svar óskast sundurliðað eftir kynjum, árum og mánaðafjölda sem fæðingarorlof stendur yfir.
    Ekki er unnt að kalla fram umbeðnar upplýsingar úr tölvukerfum Vinnumálastofnunar en stofnunin hefur þegar hafið vinnu við að breyta tölvukerfum sínum þannig að eftir breytingarnar verði unnt að kalla fram upplýsingarnar í einhverri mynd.