Ferill 215. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 561 — 215. mál.
2. umræða.
Nefndarálit
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (fjölburaforeldrar og veikindi á meðgöngu).
Frá meiri hluta velferðarnefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá félags- og húsnæðismálaráðuneyti, Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), Bandalagi háskólamanna (BHM) og BSRB.
Nefndinni bárust þrjár umsagnir auk minnisblaðs frá félags- og húsnæðismálaráðuneyti og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, sem eru liður í því að styrkja enn frekar fæðingarorlofskerfið í því skyni að stuðla að betra jafnvægi milli atvinnuþátttöku foreldra og fjölskyldulífs. Með frumvarpinu er lagt til að réttur til lengra fæðingarorlofs sem og lengri réttur til fæðingarstyrks vegna alvarlegra veikinda á meðgöngu sem vara fram yfir fæðingu barns verði tryggður innan fæðingarorlofskerfisins. Um er að ræða sams konar rétt og er í núgildandi lögum tryggður þeim sem fætt hafa barn og glíma við alvarleg veikindi sem rekja má til fæðingar barnsins. Þá er með frumvarpinu lagt til að auka sameiginlegan rétt fjölburaforeldra til fæðingarorlofs sem og fæðingarstyrks. Auk þess er lagt til að fallið verði frá því að miða breytingar á fjárhæðum greiðslna til foreldris úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks við hver áramót. Þess í stað verði ráðherra heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnar að samþykkja breytingar á fjárhæðum á öðrum tímum ef aðstæður krefjast þess.
Umfjöllun nefndarinnar.
Aukinn réttur til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks vegna fjölburafæðinga (1. og 3. gr.).
Nefndin fjallaði um frjálsa skiptingu sameiginlegs réttar foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks sem lögð er til með frumvarpinu. Í umsögnum komu fram ábendingar er varða útfærslu þess réttar. Kom m.a. fram að frjáls skipting þeirra viðbótarmánaða sem frumvarpið kveður á um gangi gegn markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof. Fram komu sjónarmið um að sú leið að hvort foreldri um sig fái sjálfstæðan þriggja mánaða rétt fyrir hvert barn umfram eitt samrýmdist betur tvíþættu markmiði laganna um að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sem og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þá komu einnig fram sjónarmið um að reynslan sýndi að almennt tækju feður fæðingarorlof í samræmi við þann sjálfstæða rétt sem þeim er fenginn samkvæmt lögum og framseldu sameiginlegan rétt til móður.
Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu, m.a. um tölulegar upplýsingar um skiptingu á töku fæðingarorlofs milli fjölburaforeldra. Þar kemur fram að á árunum 2020–2022 hafi 95–96% foreldra, sem sóttu um réttinn, nýtt lögbundinn aukinn rétt. Í minnisblaðinu kemur fram að feður hafi nýtt 10–16% af þeim rétti og mæður 84–90%.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að meðganga og fæðing fjölbura sé á margan hátt frábrugðin meðgöngu og fæðingu einbura auk þess sem fjölburum fylgi aukið álag fyrir foreldra. Meiri hlutinn telur eðlilegt að í þeim sérstöku tilvikum þegar foreldrar eigi fjölbura sé hinn aukni réttur sameiginlegur með frjálsri skiptingu. Í núgildandi lögum er aukinn réttur vegna fjölburafæðinga sameiginlegur með frjálsri skiptingu milli foreldra. Markmið þessa frumvarps snúi að því að lengja þann rétt úr þremur mánuðum í sex mánuði. Telur meiri hlutinn með vísan til framangreinds að ekki séu forsendur til þess að gera breytingar á frumvarpinu til skiptingar á þeim rétti.
Veikindi í tengslum við meðgöngu eða fæðingu barns (2. og 4. gr.).
Nefndin fjallaði um hvað teldist til alvarlegra veikinda í skilningi laganna og hvort þörf væri á að skýra hugtakið frekar. Hugtakið „alvarleg veikindi“ er nú þegar að finna í núgildandi lögum. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 144/2020 kemur fram að miðað sé við að veikindi foreldris sem fætt hefur barn verði rakin til fæðingarinnar og að foreldrið hafi af þeim völdum verið ófært um að annast um barn sitt í fæðingarorlofi sínu að mati sérfræðilæknis. Þar kemur einnig fram að önnur veikindi foreldris sem fætt hefur barn veiti ekki rétt til lengingar fæðingarorlofs. Með frumvarpinu er lagt til að breyting verði á þessu, þannig að veikindi foreldris á meðgöngu veiti rétt til lengingar fæðingarorlofs eins og átt hefur við um veikindi tengd fæðingu barns.
Samkvæmt gildandi lögum er það á hendi sérfræðilæknis að meta hvort veikindin hafi verið alvarleg, þau rakin til fæðingar eða meðgöngu og hvort foreldri hafi verið ófært um að annast barn sitt þann tíma sem fæðingarorlof eða fæðingarstyrkur var greiddur. Foreldrar þurfa því að rökstyðja þörf á framangreindri lengingu fæðingarorlofs með vottorði sérfræðilæknis og í framhaldinu meti Vinnumálastofnun hvort lenging sé nauðsynleg og er stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilæknum við matið. Meiri hlutinn telur í ljósi framangreinds eðlilegt að matið sé á hendi sérfræðilækna eins og verið hefur og eru ekki taldar forsendur til að skýra hugtakið „alvarleg veikindi“ sérstaklega. Vinnumálastofnun geti samkvæmt lögunum óskað eftir umsögnum annarra sérfræðilækna þegar stofnunin metur hvort þörf sé á lengingu réttarins og telur meiri hlutinn að þar með séu nægilegir varnaglar til staðar til að mat á því hvort um alvarleg veikindi er að ræða verði hlutlægt.
Breytingar á hámarksgreiðslum.
Við 1. umræðu málsins var lögð fram tillaga til breytingar á frumvarpi þessu, sem miðar að því að hækkanir hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði taki til þeirra sem eiga rétt til greiðslna, en miðist ekki við fæðingardag barns eins og verið hefur. Meiri hlutinn telur slíka breytingu á frumvarpinu ekki í samræmi við markmið og afmörkun þess um að auka rétt fjölburaforeldra og rétt til lengri fæðingarstyrks vegna veikinda á meðgöngu. Meiri hlutinn telur engu að síður mikilvægt að hækkanir á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði miðist við þá sem eiga rétt til greiðslna á hverjum tíma, en ekki fæðingardag barns. Beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að greina hvort framangreind breyting sé tæk og í kjölfarið vinna að nauðsynlegum breytingum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof.
Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
Alþingi, 23. maí 2025.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, frsm. | Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, form. |
Aðalsteinn Leifsson. | |
Sigurjón Þórðarson. | Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir. |