Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 661 — 214. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, lögum um Vatnajökulsþjóðgarð og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (gjaldtaka o.fl. vegna Náttúruverndarstofnunar).
Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Landsvirkjun, Náttúruverndarstofnun, ÓFEIG náttúruvernd, Landvarðafélagi Íslands og Samtökum ferðaþjónustunnar.
Nefndinni bárust sex umsagnir og erindi sem eru aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, og í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, verði breytt og þau samræmd vegna sameiningar hluta Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs í eina stofnun, Náttúruverndarstofnun, sbr. 5. gr. laga um Náttúruverndarstofnun, nr. 111/2024, sem tóku gildi 1. janúar 2025. Auk þess er með frumvarpinu lagt til að ákvarðanir samkvæmt fyrrgreindum lögum verði framvegis kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í stað ráðherra og því lögð til breyting á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011.
Umfjöllun nefndarinnar.
Úrskurðarvald kærumála til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (2., 5. og 9. gr.).
Samkvæmt lögum um náttúruvernd sæta ákvarðanir um framkvæmd laganna kæru til ráðherra, utan 63. gr. þeirra, en ákvarðanir teknar á grundvelli þess ákvæðis eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvarðanir teknar á grundvelli laga um Vatnajökulsþjóðgarð eru kæranlegar til ráðherra, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Með 2., 5. og 9. gr. frumvarpsins er lagt til að úrskurðarvald í kærumálum sem falla undir náttúruverndarlög og lög um Vatnajökulsþjóðgarð verði fært frá ráðherra og til úrskurðarnefndarinnar. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að ráðuneytinu berast að jafnaði þrjár til fimm kærur á ári og því ólíklegt að þessi breyting hafi teljandi áhrif á málafjölda úrskurðarnefndarinnar. Að úrskurðarvald sé allt á hendi sjálfstæðrar úrskurðarnefndar telur meiri hlutinn til þess fallið að tryggja enn fremur réttaröryggi aðila og vandaða stjórnsýslumeðferð.
Nefndin ræddi lagaskil en gert er ráð fyrir að verði frumvarpið að lögum taki lögin gildi þegar í stað. Samkvæmt almennum lagaskilareglum er gert ráð fyrir að þær ákvarðanir sem voru kærðar til ráðherra fyrir gildistöku laga þessara sæti úrlausnar ráðherra. Sama gildi um stjórnvaldsákvarðanir sem voru teknar í gildistíð eldri laga. Ljóst er að þær ákvarðanir sem teknar verða á grundvelli laga um náttúruvernd og laga um Vatnajökulsþjóðgarð verða kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála verði frumvarpið að lögum.
Landverðir starfsmenn Náttúruverndarstofnunar.
Í umsögn Landvarðafélags Íslands kom fram stuðningur við meginatriði frumvarpsins. Þess var óskað að nefndin tæki til skoðunar að leggja til breytingu á b-lið 6. gr. frumvarpsins sem er ætlað að lögfesta heimildir Náttúruverndarstofnunar til að stöðva tilteknar athafnir og framkvæmdir. Óskaði félagið eftir að heimildin yrði rýmkuð þannig að hún tæki einnig til þess að landvörðum verði heimilt að kanna hvort tilskilin leyfi til starfsemi séu til staðar. Meiri hlutinn bendir í þessu samhengi á að landverðir eru starfsmenn Náttúruverndarstofnunar og telur því ekki þörf á að leggja til breytingu á frumvarpinu hvað þetta varðar.
Breytingartillögur.
Svæðisstjórnir þjóðgarða (1. gr.).
Með 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. mgr. 82. gr. laga um náttúruvernd sem kveður á um skipun svæðisstjórna á svæðum sem friðlýst hafa verið sem þjóðgarður. Lagt er til að lögfesta skyldu ráðherra til stofna svæðisstjórn. Í ákvæðinu kemur m.a. fram að einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af ferðamálasamtökum á starfssvæði þjóðgarðs og Samtökum ferðaþjónustunnar skuli eiga áheyrnaraðild að fundum stjórnar.
Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar eru settar fram tvíþættar athugasemdir við frumvarpið. Annars vegar telja samtökin að ferðaþjónustan eigi að hafa sama hlutverk í svæðisstjórn og náttúru- og umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök og hins vegar telja samtökin eðlilegra að þau tilnefni fulltrúa þar sem ekki er sjálfgefið að starfandi ferðamálasamtök séu á viðkomandi svæðum.
Meiri hlutinn tekur ekki undir fyrri athugasemdina og hvað þá síðari varðar telur meiri hlutinn mikilvægt að áfram sé gert ráð fyrir aðkomu svæðisbundinna ferðamálasamtaka ef þau eru til staðar, enda safnist þar víðtæk þekking og reynsla af starfssvæði þjóðgarðs. Séu virk staðbundin ferðamálasamtök ekki til staðar skuli Samtök ferðaþjónustunnar ávallt tilnefna áheyrnarfulltrúa af starfssvæði þjóðgarðs í svæðisstjórn. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis.
Reglugerð nr. 324/2025, um gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu.
Reglugerð nr. 324/2025, um gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu, var sett í mars sl., með stoð í 21. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Í umsögn sinni bendir Náttúruverndarstofnun á að gæta þurfi að því að gildandi reglugerð um gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu tapi ekki gildi sínu áður en ráðherra hefur staðfest og sett gjaldskrá á grundvelli frumvarpsins þar sem lagðar eru til breytingar á 21. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Áríðandi sé að gæta þess að ekki myndist tímabil, verði lögin samþykkt og áður en ný gjaldskrá tekur gildi, þar sem ekki er til staðar heimild fyrir innheimtu gjaldanna.
Meiri hlutinn bendir á að sú almenna regla gildir að íslenskum rétti að reglugerðir halda gildi sínu þótt lögum hafi verið breytt á meðan reglugerðin getur sótt sér stoð í hin nýju lög. Til þess að taka af tvímæli, einkum þar sem um er að ræða gjaldtökuheimildir, leggur meiri hlutinn til að við bætist bráðabirgðaákvæði þess efnis að reglugerðin haldi gildi sínu þar til gjaldskrá og eftir atvikum reglugerð hefur verið sett á grundvelli breytts ákvæðis 21. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð.
Aðrar breytingar.
Lög um Náttúruverndarstofnun tóku sem fyrr segir gildi 1. janúar 2025, sbr. 5. gr. þeirra. Í 3. málsl. ákvæðisins segir að við gildistöku laganna verði Vatnajökulsþjóðgarður ekki lengur sjálfstæð ríkisstofnun og embætti framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs lagt niður. Hins vegar er enn kveðið á um hlutverk framkvæmdastjóra í 8. gr. c í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Meiri hlutinn leggur því til að ákvæðið falli brott.
Þá leggur meiri hlutinn til aðrar orðalagsbreytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif á málið.
Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
1. Við 1. gr.
a. Í stað orðsins „stjórnar“ í 5. málsl. komi: svæðisstjórnar.
b. Á eftir 5. málsl. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Séu ekki starfandi ferðamálasamtök á starfssvæði þjóðgarðsins skulu Samtök ferðaþjónustunnar tilnefna staðbundinn áheyrnarfulltrúa á því svæði.
2. Við 3. gr.
a. Í stað orðanna „hefur gefið leyfi eða undanþágu fyrir“ í a-lið komi: hefur veitt leyfi eða undanþágu til.
b. Á eftir orðinu „Náttúruverndarstofnun“ í 1. málsl. 1. mgr. b-liðar komi: eða þeim aðila sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis.
c. Í stað orðanna „á vegum náttúruverndarsvæðis í ákveðinn tíma“ í 2. málsl. 1. mgr. b-liðar komi: á náttúruverndarsvæði í afmarkaðan tíma.
d. Í stað orðanna „ákvæði þessu“ tvívegis í 3. mgr. b-liðar komi: grein þessari.
3. Á eftir 4. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
a. (5. gr.)
8. gr. c laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.
b. (6. gr.)
Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 4. og 5. mgr. 12. gr. laganna kemur: Náttúruverndarstofnun.
4. Við 7. gr.
a. Í stað orðanna „þjónustu á vegum þjóðgarðsins í ákveðinn tíma“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: þjónustu þjóðgarðsins í afmarkaðan tíma.
b. 3. mgr. falli brott.
5. Á eftir 8. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Reglugerð nr. 324/2025 um gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu heldur gildi sínu þar til gjaldskrá og eftir atvikum reglugerð hefur verið sett á grundvelli breytts ákvæðis 21. gr.
Halla Hrund Logadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
Alþingi, 5. júní 2025.
Guðbrandur Einarsson, form. |
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, frsm. |
Dagur B. Eggertsson. | |
Jónína Björk Óskarsdóttir. | Sigurður Helgi Pálmason. |