Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 485  —  198. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Ingvari Þóroddssyni um kostnað við gerð og þróun upplýsingatæknilausna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver hefur kostnaður ráðuneytisins og stofnana sem heyra undir það verið frá árinu 2018 við gerð og þróun upplýsingatæknilausna, þ.e. upplýsingakerfa, gagnagrunna, staðlaðs skrifstofuhugbúnaðar og annarra stafrænna innviða sem nýtast í almennum rekstri ríkisaðila? Svar óskast sundurliðað eftir ráðuneyti, stofnunum og árum.

    Forsætisráðuneytið hefur ekki keypt þjónustu við gerð og þróun hugbúnaðar eða upplýsingakerfa, heldur nýtir ráðuneytið staðlaðan búnað sem Umbra – þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins miðlar og einnig Fjársýsla ríkisins eftir því sem við á.
    Hagstofa Íslands hefur ekki keypt utanaðkomandi þjónustu við gerð og þróun hugbúnaðar. Hjá Hagstofu Íslands er starfandi upplýsingatæknideild sem leggur upp með að nota staðlaðar lausnir. Það sama á við hjá þjóðgarðinum á Þingvöllum.
    Hjá umboðsmanni barna er ekki um að ræða kostnað vegna upplýsingatæknilausna og heldur ekki hjá óbyggðanefnd né heldur hjá embætti ríkislögmanns.
    Upplýsingatæknikostnað Seðlabanka Íslands má greina í ársreikningi bankans undir skýringunni „annar rekstrarkostnaður – upplýsingatækni“ og flokkast eftir árum samkvæmt eftirfarandi töflu (fjárhæðir í þús. kr.):

Ár Kostnaður
2018 196.298
2019 124.331
2020 286.414
2021 424.051
2022 632.617
2023 466.206