Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 215  —  194. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2024.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd tveggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 27.–28. ágúst 2024, annars vegar um að styrkja samstarf Færeyja, Grænlands og Íslands hvað varðar málstefnu og máltækni (nr. 1/2024) og hins vegar um samstarf vestnorrænu landanna um notkun gervigreindar og varðveislu og eflingu vestnorrænna tungumála (nr. 2/2024).

Greinargerð.

    Á ársfundi Vestnorræna ráðsins 2024, sem haldinn var í Þórshöfn dagana 27.–28. ágúst, voru samþykktar tvær ályktanir.
    Í þeirri fyrri (nr. 1/2024) er lagt til að samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands hvað varðar málstefnu og máltækni verði styrkt. Tryggja þurfi lífsþrótt vestnorrænu málanna og auka áherslu á fjárfestingu í mál- og máltækniþróun. Í greinargerð fyrir ályktuninni eru settir fram fimm punktar sem vinna á að:
     1.      Móta stefnu fyrir frekari þróun máltækni í færeysku og á grænlensku.
     2.      Styrkja samstarf í rannsóknum og þróun máltækni og samnýta tækifæri og sérfræðiþekkingu í löndunum.
     3.      Hefja samvinnu um námskeið og fræðslu til að byggja upp og viðhalda hæfni og sérfræðiþekkingu í löndunum.
     4.      Koma á samstarfi varðandi löggjöf um efnisöflun og gagnasöfn.
     5.      Hefja samstarf á pólitískum vettvangi til að stuðla að aðgengi málanna á stafrænum vettvangi.
    Í seinni ályktuninni (nr. 2/2024) er lagt til að menntamálaráðherrar vestnorrænu landanna fundi um stefnu landanna í málefnum tungumála og gervigreindar og kanni hvort grundvöllur sé fyrir auknu samstarfi. Þá eru ráðherrarnir hvattir til að kortleggja þá þróun og uppbyggingu sem á sér stað í hverju landi, hvetja til aukinnar samvinnu meðal aðila á þessu sviði og greiða götu þeirra í slíku samstarfi.
    Vestnorrænu tungumálin þrjú, íslenska, færeyska og grænlenska, eru töluð á litlum málsvæðum og það er mjög mikilvægt að þau haldi í við öra þróun í stafvæðingu og máltækni. Dýrt getur reynst að fjárfesta í þeirri tækni og hún er mjög fljót að úreldast. Samstarf vestnorrænu landanna þar sem þau miðla reynslu sinni og tækni og hugsanlegt samstarf í samningaviðræðum við stór og alþjóðleg tæknifyrirtæki getur því reynst afar dýrmætt og mikilvægt.