Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 512 — 191. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Isaksen um endurgreiðslu ferðakostnaðar sjúklinga og aðstandenda þeirra.
1. Hvaða meginsjónarmið, áherslur og verklag gilda við framkvæmd endurgreiðslu ferðakostnaðar sjúklinga og aðstandenda þeirra innan lands og erlendis, sbr. reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands, nr. 1140/2019, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um ferðir innan lands eða erlendis ræðir.
Ferðir innan lands: Eins og kemur fram í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 112/2008 taka Sjúkratryggingar þátt í óhjákvæmilegum ferðakostnaði sjúkratryggðra sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða á sjúkrahúsi, með eða án innlagnar, eftir ákvæðum reglugerðar heilbrigðisráðherra. Sjónarmiðin að baki felast einkum í því að jafna aðgengi sjúkratryggðra að þjónustunni óháð því hvort þeir þurfa að ferðast til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eða ekki. Þar sem kostnaður við að sækja sér þjónustu getur verið hindrun fyrir því að sækja nauðsynlega þjónustu hafa Sjúkratryggingar um árabil endurgreitt ferðakostnað samkvæmt gildandi reglugerðum hverju sinni, nú nr. 1140/2019. Skilyrði fyrir greiðslu ferðakostnaðar er að meðferð sé ekki aðgengileg í heimabyggð viðkomandi.
Ef um er að ræða fjórar ferðir eða færri á almanaksári nægir umsækjanda að snúa sér til umboðs Sjúkratrygginga hjá sýslumönnum um landið og sækja um endurgreiðslu. Endurgreiddur er kostnaður, að frádregnum 1.500 kr. fyrir flug og áætlunarferðir, en ef farið er á eigin bíl er endurgreitt kílómetragjald samkvæmt reglugerð, nú 40,16 kr. fyrir hvern kílómetra. Ef sjúklingur er barn eða ófær um að ferðast einn má greiða ferðakostnað fylgdarmanns. Heimilt er að greiða fyrir fleiri ferðir en fjórar á ári ef um er að ræða alvarlega sjúkdóma eins og tilgreint er í reglugerð. Læknir þarf að sækja um heimild til ítrekaðra ferða á kostnað Sjúkratrygginga, vegna alvarlegra sjúkdóma.
Ferðir erlendis: Um endurgreiðslu ferða vegna viðurkenndrar læknismeðferðar sem er brýn fyrir hlutaðeigandi og ekki unnt að veita hér á landi fer samkvæmt. 23. gr. laga um sjúkratryggingar. Sjúkratryggingar greiða þá meðferðina auk kostnaðar við ferðina, þ.e. fargjald og dagpeninga, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga um sjúkratryggingar og 6.–8. gr. reglugerðar nr. 712/2010. Greitt er fyrir fylgdarmann ef sjúklingur er barn, hann er ósjálfbjarga eða ef mjög mikil hætta fylgir meðferð og/eða ferðalagi.
Ferðakostnaður er einnig greiddur ef meðferð fæst ekki hér á landi innan tímamarka sem eru læknisfræðilega réttlætanleg, sbr. 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sbr. innlenda reglugerð nr. 442/2012.
Ef Sjúkratryggingar samþykkja umsókn um meðferð á EES-svæðinu á þessum grundvelli, þ.e. þegar meðferð hér á landi er ekki veitt innan tímamarka sem réttlæta má læknisfræðilega miðað við ástand sjúklings og líklega framvindu sjúkdóms, greiða Sjúkratryggingar einnig allan kostnað við meðferðina erlendis, auk fargjalds og dagpeninga.
2. Hvaða reglur gilda um æskilegan frest uns sjúklingar og aðstandendur þeirra hljóta endurgreiðslu vegna útlagðs kostnaðar? Hversu langur tími líður að meðaltali uns slík endurgreiðsla er innt af hendi?
Um málshraða gilda ákvæði stjórnsýslulaga, þ.e. að ákvörðun skuli tekin svo fljótt sem verða má. Ferðakostnaður er alla jafna endurgreiddur innan 4–5 vikna frá því að fullnægjandi gögn berast Sjúkratryggingum. Algengt er að sótt sé um ferðakostnað innan lands eftir að ferð er farin og sjúkratryggður hefur greitt fyrir ferðina. Vegna ferða erlendis er sótt um fyrir fram en þegar samþykki Sjúkratrygginga liggur fyrir gefur stofnunin út greiðsluábyrgð til þess flugfélags sem sjúkratryggður hyggst fljúga með.
3. Hvaða reglur gilda um þátttöku ríkisins í ferðakostnaði sjúklinga sem njóta heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar og í ferðakostnaði aðstandenda barna sem njóta heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar?
Um endurgreiðslu ferðakostnaðar sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands gildir reglugerð nr. 1140/2019. Eins og áður segir er endurgreiðsla bundin við að sjúkratryggður eigi ekki kost á þjónustunni í sinni heimabyggð og að hún falli undir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Í reglugerðinni er annars vegar kveðið á um endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna langra ferða (a.m.k. 20 km á milli staða) og ítrekaðra stuttra ferða (skemmra en 20 km milli staða). Þegar um langar ferðir er að ræða samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar taka Sjúkratryggingar þátt í kostnaði við fjórar ferðir sjúkratryggðs á almanaksári, til að sækja óhjákvæmilega sjúkdómsmeðferð hjá þeim aðilum sem tilgreindir eru í 3. gr. til greiningar, meðferðar, eftirlits eða endurhæfingar. Að jafnaði gildir ákvæðið um ferðir sem taka styttri tíma en eina viku, nema um sé að ræða innlögn á sjúkrahús eða lengri sjúkdómsmeðferð. Þá segir í 2. og 3. mgr. 3. gr., um ferðir umfram fjórar ferðir og um ferðakostnað barna:
„Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í ferðakostnaði vegna ítrekaðra ferða, samkvæmt sömu skilyrðum og tilgreind eru í 1. mgr. ef um er að ræða alvarlega sjúkdóma, svo sem illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega hjartasjúkdóma, alvarlega sjúkdóma barna, alvarlega geðsjúkdóma, alvarleg vandamál í meðgöngu, tæknifrjóvgunarmeðferðir og tannlækningar, skv. IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar. Sjúkratryggingar Íslands taka einnig þátt í ferðakostnaði vegna ítrekaðra ferða, samkvæmt sömu skilyrðum og tilgreind eru í 1. mgr., þegar um er að ræða fyrirbyggjandi meðferð sem ætlað er að koma í veg fyrir illkynja sjúkdóma, hjá einstaklingum sem hafa verulegar auknar líkur á slíkum sjúkdómum vegna erfðaþátta. Sjúkratryggðir skulu leitast við að draga úr tíðni ferða m.a. með notkun sjúkrahótels í meðferðarbyggð. Endurgreiðsla flugferða takmarkast því við hámark tvær flugferðir á hverjum sjö dögum. Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða 2/ 3 hluta kostnaðar af fargjaldi með áætlunarferð eða sé eigin bifreið notuð 2/ 3 hluta kostnaðar sem miðast við kr. 31,61 á ekinn kílómetra. Greiðsluhluti sjúkratryggðs skal þó aldrei verða hærri en kr. 1.500 í hverri ferð. Ef hluti sjúkratryggðs fer yfir kr. 10.000 á almanaksári skal greiðsluhluti hans aldrei verða hærri en kr. 500 í hverri ferð það sem eftir er tímabilsins.
Sé um að ræða áætlunarferðir endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands fargjald fylgdarmanns samkvæmt ákvæðum þessarar greinar ef sjúkratryggður er yngri en 18 ára eða ef hann er ekki fær um að ferðast á eigin vegum. Ávallt er greitt fargjald fylgdarmanns með konu sem ferðast til þess að fæða barn, samkvæmt ákvæði 1. mgr. 3. gr., nema 2. mgr. eigi við. Greiðsluhluti skal miðast við samanlagðan kostnað sjúkratryggðs og fylgdarmanns.“
Eins og fram kemur að ofan greiðir sjúkratryggður að hámarki 1.500 kr. vegna ferðar til að sækja sér þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir reglugerðina og telst vera lengri ferð. Sjúkratryggður skal leggja fram kvittanir fyrir ferðakostnaði vegna komu til sjálfstætt starfandi sérfræðings og ef um komu á sjúkrahús eða aðrar heilbrigðisstofnanir er að ræða þarf að auki að leggja fram staðfestingu á komu, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.
Þegar um er að ræða stuttar og ítrekaðar ferðir vegna meðferðar á þeim sjúkdómum sem 3. gr. tekur til endurgreiða Sjúkratryggingar ¾ hluta ferðakostnaðar með leigubifreið milli aðseturs sjúkratryggðs og meðferðarstaðar samkvæmt framlögðum kvittunum, að því gefnu að sjúkratryggður sé ekki fær um að ferðast með áætlunarbifreið eða almenningsvagni af heilsufarslegum ástæðum. Sé einkabifreið notuð í slíkum tilvikum endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 2/ 3 hluta kostnaðar sem miðast við 40,16 kr. á ekinn kílómetra.
4. Telur ráðherra að tilefni sé til þess að endurskoða eða rýmka skilyrði um endurgreiðslu ferðakostnaðar sjúklinga og aðstandenda þeirra eða fyrirkomulag endurgreiðslu í ljósi aukins kostnaðar vegna samgangna?
Eins og rakið er að framan greiða sjúkratryggðir lágt gjald vegna ferða sem falla undir reglugerð nr. 1140/2019, eða að hámarki 1.500 kr. fyrir hverja ferð. Fari greiðsluhluti sjúkratryggðs yfir 10.000 kr. á almanaksári greiðir hann aldrei meira en 500 kr. fyrir hverja ferð það sem eftir er tímabilsins. Er þannig rík greiðsluþátttaka vegna ferða en takmarkanir á því hversu margar ferðir eru greiddar. Árið 2024 var almennur réttur fólks til endurgreiðslu kostnaðar vegna langra ferða aukinn með reglugerðarbreytingum þar sem ferðum var fjölgað úr tveimur í fjórar. Samhliða var umsóknarferli vegna endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna þessara ferða einfaldað með því að fella niður skyldu til að framvísa læknisvottorði fyrir endurgreiðslunni. Þá er mikilvægt að Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði vegna ítrekaðra langra ferða, þ.e. fleiri en fjögurra ferða, þegar um er að ræða þá sjúkdóma sem tilgreindir eru í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Þegar um ítrekaðar langar ferðir er að ræða vegna alvarlegra sjúkdóma þarf læknir að sækja um heimild til endurgreiðslu Sjúkratrygginga á sérstöku eyðublaði.
Heilbrigðisráðherra telur að reglugerð nr. 1140/2019 tryggi með góðum hætti aðgengi sjúkratryggðra að heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar. Komi fram upplýsingar um að ákvæði reglugerðar nr. 1140/2019 standi í vegi fyrir því að sjúkratryggðir sæki sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar, og takmarki þannig aðgengi að þjónustunni, er sjálfsagt að taka það til skoðunar og meta hvort tilefni sé til að gera frekari breytingar á reglugerðinni. Þá verður unnið að því í heilbrigðisráðuneytinu að efla aðgengi að heilbrigðisþjónustu og með því móti fækka slíkum ferðum.
Reglulega koma á borð ráðherra erindi sem varða ferðakostnað sjúkratryggðra og geta kallað á breytingar á reglugerð nr. 1140/2019. Samþykkti ráðherra til að mynda nýlega breytingu á reglugerðinni sem rýmkar skilyrði fyrir endurgreiðslu vegna ferða með leigubifreið í blóðskilunarmeðferð. Var vegalengd sem Sjúkratryggingar taka þátt í að greiða fyrir aukin úr 60 km í 100 km, til hagsbóta fyrir þá einstaklinga sem búa á landsbyggðinni og þurfa að nýta sér leigubifreið til að sækja umrædda meðferð.