Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 549  —  182. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um heilbrigðisstarfsmenn.


     1.      Hver hefur verið árangur þess að ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum var heimilað að ávísa hormónalyfjum til getnaðarvarna? Hefur það dregið úr álagi á lækna eða dreift því?
    Að mati ráðuneytisins er árangurinn góður og rétt skref í átt að því að heilbrigðisstarfsmenn fullnýti þekkingu sína og þjálfun í starfi. Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að sú breyting sem gerð var þegar ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum, með sérstakt leyfi landlæknis, var veitt heimild til að ávísa hormónalyfjum til getnaðarvarna hafi haft annað en jákvæðar afleiðingar í för með sér. Með breytingunni var aðgengi að heilbrigðisþjónustu bætt, það dreifir álagi þar sem það léttir undir með læknum og eykur samfellu í þjónustu þegar um er að ræða sjúklinga sem ljósmæður og hjúkrunarfræðingar eru þegar að sinna í tengslum við barneignarþjónustu og ung- og smábarnavernd.

     2.      Telur ráðherra að hægt verði að útvíkka þessa heimild, t.d. þannig að fleiri heilbrigðisstarfsmenn geti gefið út vottorð fyrir barnshafandi konur?
    Samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, er gert ráð fyrir að almennt sé öllum heilbrigðisstéttum heimilt að gefa út vottorð. Meginreglan er sú að heilbrigðisstarfsmanni er aðeins heimilt að votta það sem hann getur fært sönnur á. Varðandi ljósmóður í þjónustu við barnshafandi konu þá gefur augaleið að sá heilbrigðisstarfsmaður getur vottað ýmislegt varðandi meðgöngu konunnar sem sérfræðingur á því sviði.

     3.      Telur ráðherra þörf á því að virkja fleiri heilbrigðisstarfsmenn, t.d. sjúkraþjálfara, til fyrsta stigs þjónustu á heilsugæslustöðvum?
    Heilsugæslan gegnir lykilhlutverki sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu og þar þarf að vera aðgengi að viðeigandi fagaðilum, því meginmarkmið heilsugæslunnar er að veita heildræna þjónustu. Markvisst hefur verið unnið að því að auka þverfaglega teymisvinnu innan heilsugæslunnar og hefur það gefist vel. Þannig geta stöðvarnar betur sinnt fjölbreyttum þörfum notenda, stuðlað að samfelldri þjónustu og veitt viðeigandi meðferð frá upphafi. Þá hefur Ríkisendurskoðun jafnframt bent á að yfirfærsla verkefna frá læknum til annarra stétta sem eru jafnvel betur til þess fallnar að leysa verkefnin af hendi sé jákvæð þróun. Þörf fyrir þverfaglega teymisvinnu á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustu hefur farið vaxandi þar sem þjónustuþarfirnar verða sífellt fjölbreyttari. Hver meðlimur í þverfaglegu teymi gegnir ólíku hlutverki út frá fagþekkingu og reynslu. Þannig er hægt að auka hagkvæmni og gæði þeirrar þjónustu sem veitt er á heilsugæslunni og fullnýta fagþekkingu mismunandi heilbrigðisstarfsmanna, auk þess sem það dreifir álagi af þjónustunni.

     4.      Telur ráðherra að ástæða sé til þess að fjölga sjúkraþjálfurum í hlutastarfi á heilsugæslustöðvum? Ef svo er, kemur til greina að ráða sjúkraþjálfara í fullt starf á heilsugæslustöðvum?
    Sjúkraþjálfarar starfa á flestum heilsugæslustöðvum sem hreyfistjórar í 10–15% starfshlutfalli. Hlutverk hreyfistjóra er meðal annars að halda utan um hreyfiseðla sem miða að því að nota aukna hreyfingu sem meðferð við tilteknum sjúkdómum, t.d. stoðkerfisvanda, eða sem stuðning við lyfjameðferð. Á nokkrum stöðvum hafa verið starfræktar sérstakar stoðkerfismóttökur þar sem sjúklingum gefst tækifæri til að hitta sjúkraþjálfara á heilsugæslu vegna stoðkerfistengdra einkenna, án þess að þurfa að panta tíma hjá heimilislækni. Ef þörf er á lengri meðferð er viðkomandi vísað áfram í viðeigandi úrræði. Slíkar móttökur hafa verið til í einhverri mynd um nokkurt skeið, en þá hafa sjúkraþjálfarar sinnt þeim samhliða hreyfistjórastöðu, í litlu starfshlutfalli.
    Tilraunaverkefni er nú í undirbúningi innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um sérstaka stoðkerfismóttöku þar sem sjúkraþjálfari starfar í hærra starfshlutfalli á heilsugæslustöð en nú tíðkast og sinnir samtímis hlutverki hreyfistjóra og ráðgjafa í stoðkerfismóttöku. Samtal er þegar hafið við heilsugæsluna um verkefnið og er unnið að útfærslu þess. Verkefnið er mikilvægt, því um 40% af öllum komum á heilsugæslu eru vegna stoðkerfiseinkenna sem hafa áhrif á virkni einstaklingsins. Rannsóknir hafa sýnt að stoðkerfismóttökur eru áhrifarík og hagkvæm þjónustuleið sem leiðir auk þess til færri lyfjaávísana (þar á meðal ópíóíða), lægri rannsóknarkostnaðar og hraðari bata skjólstæðinganna, ásamt því að minnka álag á heimilislækna.
    Þjónustukönnun heilsugæslunnar hefur sýnt að ánægja er með þjónustu stoðkerfismóttöku þar sem hún hefur verið aðgengileg, sem gefur jákvæð merki um að efla þurfi verkefnið og störf sjúkraþjálfara innan heilsugæslunnar enn frekar.